Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Stærsta kúabú Kína í dag er með 40 þúsund mjólkurkýr og er það jafnframt stærsta kúabú í heimi.
Stærsta kúabú Kína í dag er með 40 þúsund mjólkurkýr og er það jafnframt stærsta kúabú í heimi.
Fréttir 5. febrúar 2016

Kínversk mjólkurframleiðsla í vexti

Höfundur: Snorri Sigurðsson, Ráðgjafi hjá SEGES P/S
Undanfarin ár hafa borist ótal fréttir hingað til lands um mikla vaxtarmöguleika í Kína í tengslum við sölu mjólkurvara og hinn ört stækkandi markað þar í landi fyrir mjólkurvörur. 
 
Flest stærstu afurðafélög í heimi hafa af þessum sökum sett mikinn kraft í markaðsstarf í Kína og náð sterkri fótfestu þar fyrir margvíslegar mjólkurvörur. Á sama tíma hafa kínversk yfirvöld hlúð að innri uppbyggingu og lagt áherslu á aukna mjólkurframleiðslu í landinu sjálfu, m.a. með styrkjum bæði við frumframleiðendur mjólkur og einnig við uppbyggingu afurðavinnslugeirans. Ástæða stuðnings kínverskra stjórnvalda við uppbyggingu afurðavinnslunnar er bæði sú stefna Kínverja að verða sem mest óháðir innflutningi, og jafnframt að aðstoða kínverskar afurðastöðvar að endurvekja traust neytenda á kínverskum mjólkurvörum en sem kunnugt er hrundi heimamarkaðurinn þegar í ljós kom fyrir nokkrum árum að melanin hafði verið blandað í nokkrar mjólkurvörur. Kínverskir kúabændur og raunar mörg fyrirtæki hafa svarað kalli yfirvalda eftir mjólk sem framleidd er í landinu sjálfu og er nú mikil uppbygging í gangi í landinu.
 
Enn meiri neysluaukningu spáð
 
Nýverið var samþykkt í Kína að foreldrum þar í landi væri heimilt að eignast tvö börn en árið 1979 voru sett sérstök lög í Kína sem kváðu á um að flest pör mættu einungis eignast eitt barn. Nú stefnir í að það vanti ungt fólk til þess að sjá fyrir þeim sem eldri eru í framtíðinni og því hefur fyrrnefndum lögum verið breytt. Þessari breytingu hefur verið vel tekið bæði heima fyrir en ekki síður erlendis enda aukið bjartsýni margra kúabænda víða um heim þar sem stór hluti innflutnings mjólkurvara til Kína er mjólkurduft sem notað er í mjólk fyrir ungbörn. Margir spá því að árið 2017 og næstu árin á eftir muni verða aukin eftirspurn og að það muni toga heimsmarkaðsverð mjólkur upp enn á ný.
 
Þriðji stærsta framleiðsluland heims
 
Í dag er Kína eitt af mestu framleiðslulöndum heims á mjólk og það þrátt fyrir að stór hluti íbúa landsins sé með mjólkursykuróþol. Eins og sést af meðfylgjandi mynd þá er mjólkurframleiðsla landsins um 37 milljarðar kílóa og meiri framleiðsla er einungis í Indlandi og Bandaríkjunum. Eins og fram kemur hér að ofan er árlegur vöxtur neyslu mjólkurvara mikill og þarf Kína því á innflutningi að halda enn um sinn að minnsta kosti en um 20–25% vöntun er á markaði umfram innanlandsframleiðsluna. Neysla mjólkurvara í Kína er þó enn langt innan við það sem gengur og gerist í öðrum löndum og er meðalneysla á mjólkurvörum, umreiknað í lítra mjólkur, rétt í kringum 25 lítrar sem er margfalt minna en t.d. meðal Íslendingur neytir.
 
Ostar lykillinn að enn aukinni neyslu
 
Síðustu tvö árin hefur orðið nokkur breyting á markaðsstarfi innflutningsaðilanna í Kína en stóraukin áhersla er nú lögð á neyslu á ostum, en í Kína er hún enn sem komið er frekar óalgeng enda ekki hefð fyrir neyslu osta, auk þess sem ostar hafa verið munaðarvara. Með bættum efnahag og auknum tekjum Kínverja hefur kaupgetan aukist og sala á ostum stigið jafnt og þétt. Þá hafa margir innflutningsaðilar staðið bæði fyrir rekstri kennslueldhúsa og kostað matreiðsluþætti þar sem sýnd og kennd er notkun á ostum við matargerð. Þetta hefur svo sannarlega skilað sér og sem dæmi um það má nefna að árið 2014 nærri tvöfaldaðist innflutningur á ostum til Kína. Þá hefur almennur áhugi Kínverja á ostum almennt aukist, en rannsókn á leitarhegðun fólks á veraldarvefnum sýndi 60% aukningu í leit Kínverja að orðinu „cheese“ (ostur) síðustu 3 ár! Uppskriftir að margs konar réttum með osti eru þar ofarlega á blaði s.s. að flatbökum, grænmetisréttum með rifnum osti og fleira slíku góðgæti. Helstu innflutningslönd osta til Kína hafa til þessa verið Nýja-Sjáland, Ástralía og Bandaríkin. Lönd Evrópu eru hins vegar allnokkuð á eftir enda byggja þar flestir útflytjendur á ostum á framleiðslu hágæðaosta, en stærsti hluti innflutts osts til Kína er vinnsluostur.
 
Mikill breytileiki í bústærð
 
Kínverska mjólkin er framleidd á búum allt frá því að vera einungis með 1–2 kýr og upp í það að vera með þúsundir kúa en mest fjölgun búa hefur einmitt verið í síðastnefnda flokknum undanfarin ár. Fleiri og fleiri kaupahéðnar og fyrirtæki hafa horft til þeirra tækifæra sem blasa við í kínverskri mjólkurframleiðslu og töluverð uppbygging því átt sér stað. Sem dæmi um þetta má nefna að fyrirtækin DeLaval og SAC settu upp fleiri mjaltahringekjur í Kína einu og sér á síðasta ári en samtals í öllum öðrum löndum heimsins. En það eru ekki einungis bændur og fyrirtæki sem byggja upp hina kínversku mjólkurframleiðslu því afurðafélögin eiga einnig ótal kúabú sjálf. Þetta á m.a. við um kínverska afurðafélagið Mengniu, sem er eitt af stærstu afurðafélögum í heimi með um 8–9 milljarða lítra innvigtun mjólkur árlega. Mengniu áætlar að innvigtun til fyrirtækisins muni aukast um 50% nú á komandi örfáum árum með tilkomu 25–30 nýrra kúabúa í eigu afurðafélagsins, en á hverju þeirra verða 10 þúsund mjólkurkýr.
 
Kúabú með 100 þúsund kýr
 
Stærsta kúabú Kína í dag er með 40 þúsund mjólkurkýr og er það jafnframt stærsta kúabú í heimi en brátt tekur enn stærra bú til starfa er fyrirtækið Modern Dairy Company lýkur framkvæmdum við nýtt kúabú sitt í norðausturhluta Kína. Það er einmitt sama fyrirtæki sem á fyrir áðurnefnt kúabú sem hefur 40 þúsund mjólkurkýr svo forsvarsmenn fyrirtækisins þekkja það vel hvernig á að stjórna stórum kúabúum. Áætlaður kostnaður við þetta risabú hljóðar upp á um 25 milljarða íslenskra króna sem er reyndar ekki há upphæð á hverja mjólkurkú þrátt fyrir allt eða um 250 þúsund krónur sem hlýtur að teljast afar hagstætt, enda oft miðað við að básinn með öllu kosti um 800 þúsund eða jafnvel meira en það. Til þess að afla fóðurs í þessar kýr þarf allnokkurt land eða um 200 þúsund hektara. Slíkt land er ekki tækt í dag í Kína og því hefur verið gerður leigusamningur við Rússland um aðgengi að landi á meðan unnar verða upp 200 þúsund hektarar af nýræktun í Kína. Til fróðleiks má geta þess að stærsta kúabúið í Bandaríkjunum er með 30 þúsund mjólkurkýr, það stærsta í Bretlandi með um 2 þúsund mjólkurkýr og það stærsta í Danmörku um 1.800 mjólkurkýr.
 
Hár framleiðslukostnaður í Kína
 
Þrátt fyrir meðal bústærð sína og umfang mjólkurframleiðslunnar, þá er framleiðslukostnaður mjólkur í Kína langtum meiri en mörgum öðrum löndum. Skýringin á þessu felst fyrst og fremst í því að stór hluti bænda þarf að kaupa að stærstan hluta fóðursins fyrir kýrnar sínar þar af einnig mest allt gróffóður, og það hefur auðvitað veruleg áhrif á kostnaðinn. Mest er flutt inn til landsins af refasmára- og maísvotheyi en bæði bændur í Kanada og Bandaríkjunum hafa verið stórtækir framleiðendur á þessu fóðri fyrir kínverska kúabændur. Alls nam innflutningur Kína á þessu votheyi um 680 þúsund tonnum árið 2014 en innlend framleiðsla Kína á samskonar fóðri fer fram á einungis 200 þúsund hekturum sem telst lítið ef litið er til stærðar landsins.
 
Þá hefur launakostnaður á þarlendum kúabúum hækkað verulega á undanförnum árum, auk þess sem gengið hefur styrkst með tilheyrandi hækkuðum kostnaði á innfluttum vörum. Samkvæmt nýlegu uppgjöri IFCN (International Farm Comparison Network) nam meðal framleiðslukostnaður mjólkurlítrans í Kína 0,6 dollurum árið 2014 eða um 78 krónum miðað við núverandi gengi. Til samanburðar gefur IFCN upp að meðal framleiðslukostnaður mjólkur í heiminum árið 2014 var talinn vera um 60 krónur á lítrann.
 
Lág meðalnyt
 
Það er talið að það séu í Kína u.þ.b. 12 milljónir mjólkurkúa og miðað við árlega innvigtun mjólkur þá er meðalnytin ekki nema rétt um 3 þúsund lítrar á kúna. Þetta eru auðvitað allt of lágar afurðir miðað við vinnuframlag og annan kostnað við hverja kú og því er unnið að því hörðum höndum að ná meðalnytinni upp. Eitt er að koma í þær betra fóðri en hitt er að bæta erfðaefnið. Kínverjar hafa undanfarin ár farið þá leið að flytja inn kynbótagripi til landsins svo hraða megi framförunum og þegar Kínverjar taka sig til þá er það gert af miklum krafti. Þannig voru árið 2014 fluttar inn 100 þúsund mjólkurkýr til landsins í þessum tilgangi auk þess sem árlegur innflutningur á óbornum kvígum hefur verið frá 50–100 þúsund gripir. Væntingar standa því til þess að meðalframleiðslan aukist allverulega á komandi árum enda um svartskjöldóttar Holstein-kvígur og kýr að ræða sem hæglega geta mjólkað 11–13 þúsund lítra hver á venjulegu mjaltaskeiði fái þær gott gróffóður og sé vel hlúð að þeim.
 
Mikil þörf fyrir ráðgjöf og endurmenntun
 
Eins og hér að framan má lesa um þá er kínverska mjólkurframleiðslan allóvenjuleg að uppbyggingu og byggir mikið til á aðkeyptu fóðri með tilheyrandi kostnaði auk þess sem meðalafurðir eru lágar og launakostnaður á hvern lítra hár. Í öllum alþjóðlegum samanburði hefur kínversk mjólkurframleiðsla komið illa út en athygli hefur þó vakið að best reknu bú landsins standa sig einkar vel. Það bendir til þess að bæta þurfi þekkingu bæði bændanna sjálfra en ekki síður þekkingar í stoðkerfinu s.s. meðal dýralækna og ráðunauta. Af þeim sökum hafa bæði kínversku afurðafélögin og ýmis fyrirtæki hleypt af stokkunum röð námskeiða til þess að endurmennta fagfólk í stoðkerfinu sem og flutt inn ráðgjafa sem hafa unnið beint með kúabændunum, sér í lagi stærri framleiðendunum. Hefur reynslan af þessu verið góð og nú þegar sjást merki um bættar afurðir og bættan rekstur á kúabúum landsins.
 
Þó svo að stjórnvöld í Kína vilji gjarnan sjá þarlendan markað sjálfbæran þegar kemur að mjólkurvörum þá er dagljóst að allnokkuð er í land þar eð þrátt fyrir mikinn vöxt í þarlendri mjólkurframleiðslu þá vex neyslumarkaðurinn einfaldlega einnig. Þetta skapar mikil tækifæri fyrir bæði kúabændur, afurðastöðvar og margs konar stoðfyrirtæki víða um heim s.s. á sviði framleiðslu og ráðgjafar og verður því afar áhugavert að fylgjast með þróuninni á komandi árum.
 
Fyrir áhugasama má benda á aðra grein um kínverska mjólkurvörumarkaðinn sem birtist í 4. tölublaði Bændablaðsins árið 2013 á blaðsíðum 34–35.
 
Snorri Sigurðsson
sns@seges.dk
Ráðgjafi hjá SEGES P/S
Danmörku
Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...