Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Guðmundur Kr. Kristjánsson.
Guðmundur Kr. Kristjánsson.
Lesendarýni 27. apríl 2016

Kindin Löpp og heimsins besti læknir

Höfundur: Guðmundur Kr. Kristjánsson
Guðmundur Kr. Kristjánsson frá Flateyri sendi Bændablaðinu þessa skemmtilegu sögu um kind sem faðir hans og móðir áttu á árunum 1958–1959 þegar þau bjuggu á Flateyri. 
 
Mínar fyrstu minningar í æsku eru um dýr. Þá er ég að leik við ketti og kettlinga, því af þeim var nóg á mínu heimili í þá daga. Þrjár fullorðnar læður og einn steggur (högni) og fullt af kettlingum þegar mest var. Það voru líka um 20 kindur, ein kýr og 19–20 hænsni þegar mest var. Þetta var bústofn sem foreldrar mínir áttu, svo það var í nógu að snúast í þá daga. 
 
Þegar ég var orðinn sæmilega kröftugur, sennilega um 10–11 ára, var mér trúað fyrir hænsnum foreldra minna. Amma mín hafði þann starfa að hugsa um hæsnin en hún lést þegar ég var 10 ára og fljótlega upp úr því var mér trúað fyrir hænsnunum. 
 
Ég fékk mikla reynslu við hirðingu á hænunum meðan amma mín var á lífi, og þess vegna var mér trúað fyrir þessum hænum og að hananum ógleymdum. Eftir að hennar naut ekki lengur við varð ég að sýna hvað í mig var spunnið. Ég var sennilega erfiður krakki til að byrja með í mínum uppvexti, eða kannski ekki erfiður, en svolítið uppátektarsamur, líklega á nútímamáli „ofvirkur“.
 
Hirt um bústofninn
 
En nú skal farið yfir nokkur ár, allt fram til ársins 1958, þá er ég orðinn 14 ára og þetta sem greint er frá gerðist um vetur eða um haust. Ég hafði þann starfa að hugsa um hænsnin eingöngu og sinna kindunum meðan foreldrar mínir unnu í frystihúsinu yfir daginn, þau tóku svo við eftir vinnu með kindurnar. Fyrir utan hirðingu á hænsnunum, sá ég um að hleypa kindunum út í fjörubeit un tíu leytið ef veður leyfði og þrífa kindahúsin yfir daginn. 
 
Á þessum tíma var ég í unglingaskóla og um morguninn í mínum frímínútum hleypti ég kindunum út í fjörubeitina. Skólinn var mjög nálægt mínu heimili og þar sem kindahúsin voru í nokkurra skrefa fjarlægð frá heimilinu mínu var mjög auðvelt fyrir mig að sinna þessum verkum. En nú skal greina frá atviki sem kom upp á og mér fannst erfitt að fást við.
 
Ein kindin fótbrotin
 
Er ég var að hlúa að kindunum inn í kindahúsi seint um kvöld og foreldrar mínir ennþá að vinna, tók ég eftir að ein kindin var illa fótbrotin á hægri framlöpp. 
 
Ég flýtti mér niður í frystihús staðarins og sagði föður mínum hvað hefði skeð. Við fórum síðan heim og reyndum að gera okkur grein fyrir hvað væri hægt að gera við þessu fótbroti. 
 
Faðir minn var fljótur að ákveða sig og sagði mér að ná í Jónsa kunningja okkar og biðja hann að koma með byssu, því það væri ekkert annað að gera í þessari stöðu en að skjóta kindina. Ég var ekki sáttur við þessa ákvörðun föður míns og mótmælti honum. 
 
En svo var háttað í þessu sjávarplássi að þar var enginn dýralæknir eða í næsta sveitarfélagi og í svona tilfellum voru dýrin bara aflífuð. Ég hafði fyrir tæpu ári handleggsbrotið mig í einhverjum „ryskingum‘‘ við félaga mína, sem var óhapp og handleggurinn verið síðan settur í gips af lækni staðarins. Nú var kominn ungur læknir á staðinn, sá gamli farinn og sá nýi sennilega nýútskrifaður og hafði faðir minn ekki mikla trú á honum í fyrstu.
 
„Ég var settur í gips
− en ekki skotinn
 
Ég sagði föður mínum að nýi læknirinn gæti bara sett brotinn fótinn í gips. Faðir minn sagði að það væri ekki vanalegt að setja fótbrotnar kindur í gips, þær væru bara skotnar, og ekki meir um það, sagði hann. En þá sagði ég við karl föður minn að ég hefði handleggsbrotið mig í fyrra og verið settur í gips en ekki skotinn.
 
Við þessi orð mín horfði faðir minn á mig í töluverða stund en sagði svo: „Þú talar þá við nýja lækninn sjálfur.“ Ég játti þessu og dreif mig heim til „doksa“.
 
Svo háttaði til að læknirinn þurfti að sinna öllum firðinum og vitjaði hann oft inn í fjörð sína sveitunga og var sú vitjun oft erfið sökum slæmrar ófærðar er komið var fram á þennan tíma að hausti. 
 
Komið var fram yfir kvöldmat er ég hraðaði för minni heim til læknisins. Er þangað kom bankaði ég á útidyrahurðina og fljótlega kom kona læknisins niður stigann til dyra og ég spurði um lækninn, hún sagði að hann hefði lagt sig eftir erfiðan dag inni í firði og hún spurði hvort þetta væri áríðandi. Ég sagði að þetta væri fótbrot. Hún greip fyrir munninn og flýtti sér upp til að vekja lækninn. Læknirinn kom svo í hendingskasti niður stigann með sína læknistösku í hendinni og spurði mig; - „hver er brotinn?“ Ég svaraði að það væri ein af rollunum hans pabba. Hann varð alveg eitt spurningarmerki og spurði mig svo:
 
„Sendi faðir þinn þig til mín?“ 
 
Nei, sagði ég. Þá sagði hann:
 
„Hvað heldur þú að ég sé, einhver dýralæknir, ég sem hef ekki einu sinni séð rollur, nema tilsýndar. Ég er mannalæknir, drengur minn, og mér finnst þetta ekkert gamanmál, og þú skalt athuga þinn gang, drengur minn.“
 
„Já,“ sagði ég, „en pabbi ætlar að skjóta kindina.“ - „Og hvað með það drengur minn,“ spurði læknirinn. 
Ég spurði á móti; „getur þú ekki sett fótinn í gips?“ Hann horfði á mig með uppgjafarsvip, og sagði svo: 
„Þetta er rollukjáta og ég gríp ekki fram fyrir hendurnar á föður þínum.“ Nú var mér nóg boðið og ég sagði í reiðilegum tón: 
 
„Læknir, ég handleggsbraut hægri handlegginn á mér í fyrra og gamli læknirinn setti handlegginn á mér í gips og ég var ekki skotinn. Þú getur víst sett kindarfótinn í gips.“
 
Læknirinn horfði á mig í töluverðan tíma og sagði svo með uppgjafarsvip. - „Komdu með mér, strákur, við skulum líta á rolluna.“
 
Við röltum heim í fjárhúsið og þar var faðir minn inni og horfði á lækninn með spurningarsvip og „doksi“ sagði: 
 
„Við erum komnir til að setja rolluna í gips og hún verður ekki skotin.“
 
Fékk nafnið Löpp
 
Læknirinn kom kindarfætinum í gips og sárið og beinin gréru á rúmum þremur vikum. Kindin fékk nýtt nafn og var uppfrá þessu kölluð Löpp. Og oft er ég hitti lækninn á götu úti spurði hann; „hvernig hefur Löpp það?“ – „Fínt,“ sagði ég, „heimsins besta kind og alltaf tvílembd.“ 
 
Faðir minn hafði tröllatrú á þessum lækni upp frá þessu, „heimsins besti læknir“ sagði hann. 
 
Í sumarhúsinu 4. apríl 2015.
Guðmundur Kr. Kristjánsson.

4 myndir:

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...