Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Inni í þyrnóttu aldinhýði kastaníuhnetunnar eru tvö til þrjú fræ með fræblöðum. Aldinið er brúnt að utan en með hvítum kjarna.
Inni í þyrnóttu aldinhýði kastaníuhnetunnar eru tvö til þrjú fræ með fræblöðum. Aldinið er brúnt að utan en með hvítum kjarna.
Á faglegum nótum 15. febrúar 2019

Kastaníuhnetur – heiður þeim sem heiður á skilinn

Höfundur: Vilmundur Hansen

Kastaníuhnetur sjást einstaka sinnum á boðstólum í stór­mörkuð­um hér á landi. Ólíkt öðrum hnetum innihalda þær talsvert af kolvetnum. Upphafsmenn Jesúhreyfingarinnar og frum­kristnir litu á þyrna aldinhýðisins og mjúka kastaníu­hnetuna sem tákn um skírlífi.

Samkvæmt Matvæla- og landbúnaðarstofnum Sameinuðu þjóðanna var framleiðsla á kastaníuhnetum í heiminum árið 2016 rúmlega 2,2 milljón tonn. Framleiðsla undanfarinna ára hefur aukist jafnt og þétt því árið 2009 var hún tæp 1,9 milljón tonn og tveimur árum síðar rétt rúm tvö milljón tonn.

Kína er stærsti ræktandi kastaníu­hneta í heiminum.

Kína er langstærsti  ­fram- leiðandinn og hefur leitt framleiðsluna til fjölda ára. Árið 2009 framleiddu Kínverjar rúm 1,5 milljón tonn og framleiðsla þar var kominn í tæp 1,9 milljón tonn 2016. Tyrkland, sem er í öðru sæti yfir stærstu framleiðendur kastaníuhneta, er eins og baun í bjarnarrassgati þegar kemur að magni og framleiddi árið 2016 tæp 65 tonn. Framleiðsla í Suður-Kóreu sama ár var rúm 56 tonn og tæp 51 tonn á Ítalíu. Grikkir framleiddu rúm 31 tonn, Portúgalar tæp 27 og Spánverjar um 16 tonn árið 2016.

Á vef Hagstofu Íslands segir að innflutningur á kastaníuhnetum í hýði árið 2018 hafi verið tæp 1,8 tonn og rúm fjögur tonn af afhýddum kastaníuhnetum eða alls 5,8 tonn. Mestur var innflutningurinn af kastaníuhnetum í hýði frá Kína rúm 1,4 tonn en frá Frakklandi og Íran af afhýddum kastaníuhnetum rúm tvö og 1,5 tonn árið 2018.

 

Ættkvíslin Castanea

Tegundir innan ættkvíslarinnar Castanea eru níu og tilheyrir ættkvíslin beykiættinni eins og eikur- og beykitré. Allar eru kastaníur sumargræn tré eða runnar sem upprunin eru 40 til 65 gráðu norðlægrar breiddar.

Útbreiðsla ólíkra tegunda innan ættkvíslarinnar er um allt norðurhvel.

Kastaníutré sem var gróðursett árið 1370 og er því tæplega 650 ára gamalt. Tréð er að finna í Bushy Park í London. 

Ólíkar tegundir eru frá því að vera lágvaxnir runnar yfir í ríflega 60 metra einstofna tré með trefjarót og stóra krónu. Börkurinn sléttur á ungum trjám en verður hrjúfari viðkomu eftir því sem trén eldast.

Blöðin fagurgræn, milli tíu og þrjátíu sentímetra löng og fjórir til tíu á breidd, ílöng eða egglaga, sagtennt og oddmjó. Blómin í sætilmandi reklum sem annaðhvort eru karl- eða kvenkyns. Aldinið, sem er brúnt að utan en hvítt innan, kallast hneta og er fimm til ellefu sentímetra að þvermáli er umlukið þyrnóttri kápu. Í hverju aldini eru ein til sjö ætar hnetur eftir tegundum.

Breiðasti trjábolur sem mælst hefur er á kastaníutré við rót eld-fjallsins Etnu á Sikiley. Ummál bolsins er 51 metri, þrátt fyrir að hann hafi orðið fyrir miklum skemmdum í gegnum tíðina af völdum eldinga og annarra náttúruhamfara.

Algengasta kastaníutegundin í ræktun er Castanea sativa.

 

Evrópsk kastanía

Á íslensku kallast C. sativa kastanía eða kastaníutré. Sumargrænt tréð er upprunnið í Mið-Asíu við Kaspíahaf en hefur breiðst út um alla Mið- og Suður-Evrópu. Einstaka tré geta orðið ríflega 35 metrar að hæð og margir metrar í ummál og yfir 700 ára gömul í náttúrunni og yfir aldargömul í ræktun. Með trefjarót og yfirleitt einstofna og með stóra og víða krónu. Börkurinn djúphrjúfur og ljósbrúnn. Blöðin aflöng og snarptennt. Blómin sem frjóvgast með skordýrum eru hvít með rauðu, einkynja en bæði kyn vaxa á löngum og stórum kólfum. Aldinmyndun hefst þegar trén hafa náð um 25 ára aldri.
Inni í þyrnóttu aldinhýðinu eru tvö til þrjú fræ með fræblöðum. Aldinið er brúnt að utan en með hvítum kjarna.

Fræin sem eru mjúk spíra um leið og þau falla af trjánum og hafa því engan dvalartíma og geymast illa.

Kastaníutré í allri sinni dýrð.

 

Saga kastaníuhnetunnar

Talið er að kastaníutré hafi borist til Evrópu rúmlega fimmtán hundruð árum fyrir upphaf okkar tímatals frá borginni Sardis í Tyrklandi. Kallast aldinið Sardis-hneta víða í Suðaustur-Evrópu þar sem plantan þrífst vel til fjalla og hefur verið hluti af fæðu fólks í ómuna tíð.

Fornminjar benda til að ræktun trjánna hafi verið stunduð í nokkur þúsund ár og að Alexander mikli og Rómverjar hafi plantað kastaníutrjám í Evrópu og víðar í landvinningabrölti sínu. Sagt er að tíu þúsund manna her Grikkja hafi lifað á birgðum af kastaníuhnetum þegar hann hörfaði undan Persum með skottið á milli fótanna eftir orrustuna um Cunaxa skammt fá Babýlon árið 401 fyrir Krist.

Grikkirnir Dioskorides og Galen sem uppi voru á fyrstu og annarri öld eftir Krist fjölluðu báðir um kastaníutré og hnetur í ritum um læknisfræði. Báðir sögðu að mikil neysla á kastaníuhnetum yllu töluverðum loftgangi. Pliny gamli ráðlagði kastaníuhnetur við uppgangi og niðurkomu. Grikkir eignuðu Seifi kastaníutré og hnetur.

Þar til með tilkomu og útbreiðslu kartöflunnar í Evrópu á sextándu og sautjándu öld voru kastaníuhnetur helsta uppspretta kolvetna margra skógarbúa í Evrópu sem höfðu takmarkaðan aðgang að korni. Í dag er kastaníuhnetumjöl notað í staðinn fyrir kartöflumjöl. Líffærafræðingurinn Charles Estienne, sem starfaði lengst af í Frakklandi, og franski læknirinn Jean Liébault, sem uppi voru um miðja sextándu öld, segja báðir í ritum frá 1583 að ótölulegur fjöldi af fólki í landinu lifi eingöngu á kastaníuhnetum. Sagnir frá Ítalíu 1802 segja að kastaníuhnetur séu helsta fæða hálandabúa þar í landi og í ítölskum annálum frá 1879 segir að þjóðin hafi lifað á kastaníuhnetum í sex mánuði vegna uppskerubrests á korni.

Til er skrá sem segir frá mælingu á kastaníutré í Cloucter-skíri á Englandi árið 1720. Þar segir að stofninn sé 15 metrar að ummáli 1,5 metra frá jörð.

Vinsældir kastaníuhneta drógust verulega saman á nítjándu og tuttugustu öld þar sem þær höfðu orð á sér að vera fátækrafæða og var sagt að kastaníuhnetubrauð hefaði sig illa.

Ræktun þeirra hefur haldist við í Mugello-dal í Tuskanýhéraði á Ítalíu og hefur ræktunin notið verndar Evrópusambandsins frá 1996. Sagt er að Mugello-kastaníuhnetur flysjist auðveldlega, séu sætar á bragðið, með vanillukeim og lausar við fnyk af myglu og mold og góðar í bakstur.

Í Japan standa kastaníuhnetur, C. mollissima, fyrir sigur, harðindi og styrk. Ræktun þeirra í landinu er eldri en ræktun á hrísgrjónum og talið að hún nái allt að sex þúsund ár aftur í tímann.

Bretar hófu ræktun á kasta­níu­hnetum á Indlandi á nýlendu­tímabilinu og evrópska kastanían algeng þar í

landi. Í Kína þar sem ræktun á kastaníuhnetum er mest í heiminum er talið að yrki í ræktun séu um 300.

Evrópumenn voru afkastamiklir í plöntun kastaníutrjáa á Nýja-Sjálandi í gullæðinu þar í landi 1850 til 1860. Algengasta tegundin þar er C. sativa auk þess sem C. crenata dafnar vel á heitari og rakari svæðum. Sum af fyrstu trjánum sem plantað var út standa enn 170 ára gömul og yfir sextíu metra há.

Indíánar Norður-Ameríku nýttu kastaníuhnetur, C. dentata og fleiri tegundir til átu löngu fyrir komu evrópskra landnema til álfunnar. Eftir komu Evrópumanna nýttu landnemarnir sér há og bolmikil kastaníutré til viðar og húsbygginga.

Á fyrsta áratug tuttugustu aldarinnar barst sveppasýking í kastaníutré í Norður-Ameríku með innfluttum trjám frá Asíu. Sveppanna varð fyrst vart í New York árið 1904 og fjórum áratugum síðar höfðu tæp fjórir milljarða kastsníutrjáa orðið sýkingunni að bráð og hún nánast útrýmt þeim í Norður-Ameríku. Átak til bjargar norður-amerískum kastaníutrjám er enn í gangi.

Stæðileg kastaníutré í Norður-Ameríku áður en sveppasýking sem barst frá Asíu nánast útrýmdi tegundinni í vesturheimi.

 

Nafnaspeki

Latneska ættkvíslarheitið Castanea er dregið af gríska heiti hnetunnar, κ?στανον, sem hugsanlega er dregið af heiti gríska þorpsins Kastanea. Hins vegar og til að flækja málið er ekki ósennilegt að þorpið kallist eftir kastaníutrjám sem vaxið hafa við það. Tegundaheitið sativa þýðir að plantan er ræktuð.

Á ensku kallast trén og hnetur þess chestnut en var áður chesten nut sem komið er úr gömlu frönsku máli chastain en er châtaigne í dag. Franska heitið er komið úr latínu. Á búlgörsku kallast þær kecteh, ou zhou li á kínversku, aito kastanja á finnsku, castagno á ítölsku og yooroppa guri á japönsku.

Á dönsku kallast tréð kastanje eða kastanjetræ og þaðan mun heitið kastanía á íslensku vera komið.

Ræktun

Evrópsk kastaníutré dafna best í djúpum og hallandi jarðvegi með nægum raka og pH 5,5 til 6,0. Tré kjósa mikla sól og um 800 millimetra af regni á ári. Trjám í ræktun er yfirleitt fjölgað með ágræðslu.

Hnetur ríkar af kolvetnum

Ólíkt öðrum hnetum innihalda kastaníuhnetur lítið af próteinum og fitu en meira af kolvetnum. Þær innihalda talsvert minna af hitaeiningum en aðrar hnetur og eru einu hneturnar sem innihalda C-vítamín. Allir hlutar kastaníutrjáa nema blómin og frækjarninn innhalda talsvert tannín.

Nytjar

Hægt er að borða kastaníuhnetur hráar eftir að skelin hefur verið flysjuð af þeim. Þær eru einnig góðar ristaðar og með skelinni. Auk þess sem þær eru pæklaðar. Ristaðar eða bakaðar kastaníuhnetur eru ekki ólíkar bökuðum kartöflum með sætum hnetukeim. Frakkar og Tyrkir rista þær í sykri. Í Ungverjalandi er einnig þekkt að rista kastaníuhnetur með sykri og slettu af rommi.

Á Ítalíu er sagt gott að marinera kastaníuhnetur í rauðu víni og léttrista áður en þær eru bornar fram og á Madeira í Portúgal er vín bragðbætt með kastaníuhnetum.

Þurrkað kastaníuhnetumjöl má nota í bakstur og til að búa til pasta og flögur og sem sósu- og súpujafnara. Brauð og kökur úr kastaníuhnetumjöli hafa gott geymsluþol.

Muldar kastaníuhnetur eru einnig notaðar sem dýrafóður eftir að skelin hefur verið fjarlægð. Í Austurlöndum nær eru þær gefnar hestum og nautgripum en aðallega svínum í Evrópu.

Viður kastaníutrjáa er góður smíðarviður sem endist vel utandyra í húsbyggingum og sem girðinga- og uppbindistaurar fyrir vínvið og er fjöldi timburkirkja í Evrópu byggður úr kastaníuvið. Á Ítalíu eru smíðaðar vín- og viskítunnur í kastaníuvið. Munir úr kastaníuvið eru ljósbrúnir og mjúkir á að líta. Viður eldri kastaníutrjáa klofnar og vindur sig frekar en viður úr yngri trjám.

Kastaníuviður var einungis brenndur til húshitunar í lokuðum eldstæðum vegna þess að hann sendir frá sér mikið af neistum við bruna.

Þar sem viðurinn inniheldur mikið af tanníni er hann notaður til að lita leður eftir að hann hafði verið flísaður og lagður í bleyti í heitu vatni. Auk þess sem fræhvítan var notuð til að hvítta lín og laufið og fræhismið til hárþvotta.

Málverk Georg Flegel. Fuglakjöt, brauð og kastaníuhnetur.

 

Trú, hjátrú og annað skemmtilegt

Á Bretlandseyjum og líklega víða í Evrópu þótti ráð við tannpínu að setja svínstönn í börk kastaníutrjáa og tyggja síðan börkinn. Slíkt þarf þó ekki endilega að vera tóm bábilja og gæti bent til þess að í berkinum sé að finna verkjastillandi efni eins og í víðiberki.

Upphafsmenn Jesúhreyfingar­innar og frumkristnir litu á þyrna aldinhýðisins og mjúka kastaníuhnetuna sem tákn um skírlífi og mátt hugans yfir fýsnum holdsins.

Á Ítalíu var til siðs langt fram á nítjándu öld að borða kastaníuhnetur á allra heilagra messu, fyrstu tvo dagana í nóvember, og að skilja eftir nokkrar hnetur handa hinum framliðnu yfir nóttina. Auk þess sem kastaníuhnetuát þykir viðeigandi í kaþólskum sið á degi heilags Símon vandlætara, 28. október, og heilags Marteins frá Tours, 11. nóvember. Lauf og þyrnótt fræhlíf kastaníutrés eru í skjaldarmerki Urbans sjöunda páfa.

Á margræðu tungumáli blóma segir að blómkólfar kastaníutrjáa merki að heiður skuli áhlotnast þeim sem heiður á skilinn.

Í Þýskalandi og meðal þýskra innflytjenda í Norður-Ameríku þótti heillaráð að ganga með kastaníuhnetu í vasanum til að koma í veg fyrir bakeymsli og gigt. Á Englandi var svipað upp á teningnum en til að lækningamáttur hnetunnar væri virkur þurfti annaðhvort að fá hana að láni eða stela henni. Þessi siður mun vera tíðkaður í Belgíu og Hollandi enn í dag.

Allt undir þarsíðustu aldamót stóð stytta af Maríu mey við gamalt kastaníutré í borginni Bruges í Belgíu. Borgarbúar höfðu til siðs að stinga nöglum eða nálum í tréð til að forðast vörtur og frunsur.

Einnig má minna á verk tékknesk-bandaríska tónskáldsins Jaromír Weinberger frá 1939, Under the Spreading Chestnut Tree, og að í Macbeth eftir Shakespeare hótar kona að myrða aðra konu vegna deilu sem snýst um kastaníuhnetu.

Kastaníur á Íslandi

Kastaníutré þrífast ekki á Íslandi og ekki má rugla þeim saman við Hestakastaníur, Aesculus hippocastanum, sem finnast á einstaka stað hér á landi og eru tré af annarri ætt.

Í Ársriti Húnvetninga árið 1857 er fárast yfir kostnaðarsamri kaffidrykkju landans og bent á eftirfarandi leið til úrbóta. „Fyrir vana og almenna brúkun, má svo kalla, að kaffi sé orðið að nauðsyn, þó það í raun og veru sé það ekki, og hjálpi lítið eður ekkert til lífsins viðurhalds, heldur sé í mörgu tilliti skaðlegt, allra helzt mikil brúkun þess, og þar að auki spilli fjárhag manna svo mjög, að margir komast þar fyrir í stórskuldir, og fyrir það sama megi líða skort á nauðsynlegri lífsbjörg fyrir sig og sína. Til þessa hafa margir skynsamir menn fundið og séð, að efnin samsvara ekki þeirri vaxandi kaffibrúkun, og hafa því leitast við, að finna upp á mörgu til að drýgja kaffið; hefur þar til verið brúkað af mörgum, rúgur, bankabygg , baunir, malt og kaffirót. En þó að allt þetta hafi verið brúkað, og megi vel brúka til drýginda, hefur mönnum samt ekki þótt það alls kostar gott; og þess vegna leitað eftir öðru til að brúka í staðinn fyrir kaffi. Þetta þykjast menn nú hafa fundið og álíta það fullt eins gott og bezta kaffi, en þó miklu ódýrara; eru það ræktaðar og ætilegar kastaníur. Til þessarar brúkunar á að þurrka þær vel, plokka af þeim dökku skelina, og þar undir liggjandi himnu, sem hylur kjarnann; síðan á að þurrka þær vel, og merja svo í smá stykki; þar eftir eru þær brenndar eins og kaffibaunir, malaðar og svo brúkaðar í kaffi eftir hvers velþóknan. Kaffið úr þeim hefur mjög þægilegan smekk, og má drekkast án sykurs, ef vill; þar að auki er það mjög hollt, og veikir ekki taugakerfið eins og hið vanalega kaffi.“

Innflutningur til Íslands á kastaníuhnetum í hýði árið 2018 var tæp 1,8 tonn og rúm fjögur tonn af afhýddum kastaníuhnetum eða alls 5,8 tonn.

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki
Fréttir 1. mars 2024

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki

Samkvæmt niðurstöðum verkefnis sem nýlega var unnið hjá Matís, um nýtingu og nær...

Vaxtalækkun lána
Fréttir 1. mars 2024

Vaxtalækkun lána

Fram kom í frétt Bændablaðsins, 2. nóvember 2023, að stjórn Byggðastofnunar hefð...

Endurvinnslan er mest innanlands
Fréttir 29. febrúar 2024

Endurvinnslan er mest innanlands

Guðlaugur Gylfi Sverrisson, rekstrarstjóri Úrvinnslusjóðs, segir stjórn sjóðsins...

Háskóladagurinn á fjórum stöðum
Fréttir 29. febrúar 2024

Háskóladagurinn á fjórum stöðum

Háskóladagurinn verður haldinn í Reykjavík laugardaginn 2. mars.Þá gefst fólki k...

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða
Fréttir 29. febrúar 2024

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða

Forsætisráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að skoða lagaumgjörð hvalve...

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu
Fréttir 28. febrúar 2024

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu

Vistkjöt var boðið til smökkunar í Kópavoginum um miðjan mánuð, í fyrsta sinn í ...

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“
Fréttir 28. febrúar 2024

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, og Hafberg Þórisson, eigan...

Samræmt söfnunarkerfi
Fréttir 27. febrúar 2024

Samræmt söfnunarkerfi

Vinna á tillögu um útfærslu fyrir samræmt söfnunarkerfi dýraleifa á landsvísu se...