Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Aðalsteinn Sigurðsson á hlaðinu á Vaðbrekku. Sauðfjárbú með um 300 fjár er á bænum en til stendur á næstu árum að fjölga upp í allt að 600. Fjárhúsin eru góð og þar er nægt húspláss.
Aðalsteinn Sigurðsson á hlaðinu á Vaðbrekku. Sauðfjárbú með um 300 fjár er á bænum en til stendur á næstu árum að fjölga upp í allt að 600. Fjárhúsin eru góð og þar er nægt húspláss.
Mynd / MÞÞ
Viðtal 11. mars 2015

Kann þessum umskiptum ákaflega vel

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Ég ólst hér upp og ætlaði mér að feta í fótspor pabba míns og afa, að fara á Hvanneyri, verða búfræðingur og gerast bóndi. Það má kannski orða það svo að ég hafi aðeins villst af þeirri leið, fetaði ekki alveg sömu slóðina, en hingað er ég kominn og hlakka til að takast á við að byggja upp á æskuslóðum á ný,“ segir Aðalsteinn Sigurðarson, sem í fyrravor flutti af höfuðborgarsvæðinu austur í Vaðbrekku í Efra-Jökuldal ásamt kærustu sinni, Siggu Lund.  
 
Aðalsteinn, gjarnan kallaður Alli, ólst upp á Vaðbrekku til 16 ára aldurs, hleypti þá heimdraganum og var við nám og störf bæði austanlands og sunnan. Nú er hann aftur kominn heim með áform um uppbyggingu í farteskinu.
 
„Þetta voru vissulega mikil umskipti í lífinu, það er öllu rólegra yfirbragðið í Jökuldal en á suðvesturhorni landsins. Hér er ekki stressinu fyrir að fara, menn taka lífinu með stóískri ró. Ég kann því vel,“ segir Aðalsteinn. 
 
Alltaf nóg að gera
 
Þau Sigga keyptu bústofninn og leigðu jörðina þar síðasta vetur og hélt hann austur síðastliðið vor. Tók til hendinni við sauðburð og önnur vorverk. Sigga kom örlítið síðar, eða í byrjun sumars, og saman sáu þau um heyskapinn á liðnu sumri ásamt því að hefjast handa við endurbætur á íbúðarhúsnæði. 
„Búið var að klæða allt húsið utan, gera við þak en ekkert hafði verið gert innandyra, svo við réðumst í það verkefni. Það er alltaf nóg að gera, en það þarf ekki að gera allt í einu, við gefum okkur góðan tíma í þetta,“ segir hann. „Ég hef mjög gaman af því að fást við verkefni af þessu tagi.“
 
Kennsla í erótísku nuddi
 
Alli og Sigga kynntust árið 2009 á skemmtun sem útvarpsstöðin FM 95,7 efndi til á Egilsstöðum, en á þeirri stöð starfaði hún í alls níu ár.
 
„Á þessum tíma stóð útvarpsstöðin fyrir skemmtikvöldum víða á landsbyggðinni, ég bjó fyrir austan þá og við fórum nokkrir félagar saman á þessa skemmtun,“ segir Alli. 
 
„Eitt atriðið á skemmtikvöldunum var kennsla í erótísku nuddi og til að sem best tækist til við kennsluna var beðið um sjálfboðaliða úr sal. Félagar Alla mönuðu hann til að bjóða sig fram og lét hann tilleiðast. Sigga sá um kennsluna. „Þannig byrjaði þetta nú hjá okkur,“ segir Alli. 
 
Þau skötuhjúin bjuggu á höfuðborgarsvæðinu þar sem Alli starfaði á verkstæði sem gerði breytingar á jeppum. Áður hafði hann starfað hjá vélavinnuverktaka fyrir austan og m.a. verið ófáar stundirnar í beltagröfu.
 
„Ég var fyrir sunnan hér áður fyrr, fór í Iðnskólann í Reykjavík og lærði ljósmyndun og hafði áhuga fyrir því starfi, en einhvern veginn varð það úr að ég kom aftur austur í uppsveiflunni þegar framkvæmdir hófust við Kárahnjúkavirkjun,“ segir hann.
 
Lá ekki annað fyrir en búskap yrði hætt
 
Á árunum eftir hrun bjuggu þau Sigga syðra, leigðu húsnæði og sinntu sínum störfum. Tvívegis lentu þau í að íbúðir sem þau leigðu voru seldar með skömmum fyrirvara.
 
„Okkur var gert að rýma með mjög skömmum fyrirvara, það er óskaplega leiðinlegt að lenda í slíkum leiðindum tvisvar og þurfa að leita að fokdýru leiguhúsnæði í kapphlaupi við tímann. Við fengum alveg nóg og kannski má segja að þessar aðstæður hafi valdið því að ég fór að horfa á ný austur. Staðan hér heima í Vaðbrekku var sú að föst búseta hafði ekki verið á jörðinni um alllangt skeið, 14 ár, og þeir nafnar, afi og Alli í Klausturseli, sem höfðu haldið þessu gangandi hugðust hætta og fátt annað lá fyrir en að bústofn yrði skorinn niður og kvóti seldur, þeir ætluðu að láta gott heita,“ segir Alli.
 
Gat ekki hugsað mér að jörðin færi í eyði
 
„Ég gat ekki hugsað mér að jörðin færi í eyði, hún er mér kær og ég hafði lengi hugleitt að gaman væri að taka við, en fannst bitinn alltaf of stór. Við fórum yfir stöðuna, reiknuðum dæmið fram og til baka, hvað það kostaði okkur að búa í leiguhúsnæði í Reykjavík og allt annað sem tilheyrir búsetu á höfuðborgarsvæðinu samanborið við að kaupa hér fyrir austan. 
 
Við lágum yfir þessu heillengi og sáum að niðurstaðan var sú að við værum engu betur sett syðra, dæmið gekk upp þannig að við slógum til og keyptum bústofn og leigðum jörðina. Við höfum svo bara verið á fullu þessa mánuði síðan við fluttum búferlum við að koma okkur vel fyrir, sinna endurbótum og hugsa um búskapinn.“
 
Vinirnir undrandi
 
Alli segir að vinir og kunningjar syðra hafi verið undrandi á þessum ráðahag og þótt það óðs manns æði að taka sig upp úr borginni og flytja á afskekktan stað austur á landi. 
 
„Við vorum gjarnan spurð hvað við ætluðum eiginlega að gera þarna fyrir austan. Ég svaraði yfirleitt á þann veg, að við ætluðum að borða þegar við værum svöng og sofa þegar við værum þreytt. Menn hættu fljótlega að spyrja þessarar spurningar. Sjálfur er ég ánægður með umskiptin og þykir mjög gott að losna úr þessu streituvaldandi umhverfi sem einkennir borgarlífið,“ segir hann.
 
Áform um að stækka fjárbúið
 
Á Vaðbrekku er sauðfjárbú, um 300 fjár á húsi í vetur og til stendur á næstu tveimur til fjórum árum að auka við.
 
„Við stefnum að því að stækka við okkur á næstu misserum og búa með á bilinu 500 til 600 kindur. Fjárhúsin eru góð, tekin í notkun ný árið 1983 og þar er nægt húspláss eða fyrir allt að 800 fjár að meðtöldum beitarhúsum hér skammt hjá,“ segir Alli.
 
Tún við Vaðbrekku eru alls 42 hektarar og hvað þau varðar eru sömu áform uppi, til stendur að stækka tún heima við.
 
„Ég tel að það sé betra að stækka tún hér í námunda við okkur fremur en að þurfa að sækja heyskap niður á Hérað, en algengt er að bændur á Jökuldal sæki heyskap á þær slóðir. Það er fyrirhöfn og kostar líka sitt að sækja hey um langan veg,“ segir hann.
 
Sumrin eru stutt
 
Vaðbrekka er langt inni í landi og stendur tæpa 400 metra yfir sjávarmáli. Það setur nokkurt strik í reikninginn, en Alli segir að í allra fyrsta lagi sé hægt að bera áburð á tún um miðjan júní, fyrr er gróður á þessum slóðum ekki kominn til. Þá hafa vorleysingar í ám gert bændum skráveifu þegar flæðir um og yfir tún.
 
„Það eru tafir af ýmsu tagi hér sem fólk á flatlendi þarf ekki að glíma við og margir átta sig ekki á. Hér er líka bara slegið einu sinni, um seinni slátt er ekki að ræða en á einstaka bæ ná menn einhverri há af og til. Sumrin hér eru stutt,“ segir hann. Síðastliðið sumar var þó gjöfult og gott, metuppskera var af túnum og heyfengur með allra mesta móti. „Þetta sumar verður eflaust lengi í minnum haft. Það var frábært veður hér í allt fyrrasumar.“
 
Heyskapur gekk eftir því vel og segir Alli að grastíð hafi verið einkar góð. Hiti með mesta móti,rigning inn á milli og einnig góðir þurrkakaflar þannig að spretta var góð. „Maður nánast sá grasið spretta. Það gekk vel að heyja og þegar upp var staðið má segja að heyfengur hafi verið með allra mesta móti,“ segir hann.
 
Aukin umferð um bæjarhlaðið
 
Vaðbrekka myndi seint kallast í alfaraleið og yfir vetrartímann eru ekki margir á ferðinni, en öðru máli gegnir yfir sumarið.
 
„Eftir að Kárahnjúkastífla var tekin í notkun jókst umferð hér um hlaðið til mikilla muna og það er heilmikið rennerí um bæjarhlaðið. Útlendingar virðast sérlega áhugasamir og eru mikið á ferðinni hér um slóðir og staldra gjarnan aðeins við og taka stutt spjall. Almennt hefur umferð aukist að sumarlagi og aldrei að vita nema eitthvað sé hægt að nýta sér það síðar meir. En auðvitað er staðurinn dálítið einangraður yfir veturinn, stundum ófært eins og gengur á þeim árstíma, en það tilheyrir bara.“
 
Allt búbót á stað sem þessum
 
Stutt er að fara frá Vaðbrekku á hreindýraslóðir, bærinn staðsettur mitt á milli tveggja vinsælla veiðisvæða. Sigurður, faðir Aðalsteins, er kunnur hreindýraleiðsögumaður, hefur starfað við leiðsögn og eftirlit um árabil og gerir gjarnan út frá Vaðbrekku.
 
„Hreindýraveiðar hafa síðustu misseri átt auknum vinsældum að fagna, það er meira umleikis hér á Austurlandi í kringum þær en áður var. Við höfum hug á að byggja upp starfsemi hér heima við í kringum það í nánustu framtíð,“ segir Alli.
 
Fyrir er ákjósanleg aðstaða til fláningar í hlöðu við bæinn og hugmyndir uppi um að bæta um betur og útbúa einnig aðstöðu sem hentar til úrbeiningar. Þá sér hann einnig fyrir sér að hægt verði að bjóða veiðimönnum upp á gistingu, nægt sé plássið í húsinu auk þess sem hægt sé að byggja við. Rjúpnalönd eru einnig góð í námunda við Vaðbrekku og segir Alli að á því sé einnig hægt að byggja. „Það er allt búbót á stað sem þessum og um að gera að nýta öll þau tækifæri sem bjóðast, við munum örugglega byggja upp starfsemi í kringum þá veiði sem er í boði hér í kring. Við förum hægt af stað, tökum eitt skref í einu og sjáum til hvað verður.“ 

4 myndir:

Skylt efni: Vaðbrekka

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum
Fréttir 26. apríl 2024

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum

Gýgjarhólskot í Biskupstungum var útnefnt ræktunarbú síðasta árs á fagfundi sauð...

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...