Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Jurtir Karlamagnúsar – sar
Á faglegum nótum 17. nóvember 2016

Jurtir Karlamagnúsar – sar

Höfundur: Hafsteinn Hafliðason

Einn af elstu guðum íbúanna á Ítalíuskaga var Satúrnus. Kona hans hét Ops og mun jafnframt hafa verið systir hans, ef marka má heimildir. Þau voru upp á sitt besta í þeim heimi þegar auðsæld og friður ríktu og engar værur voru milli manna og lömbin gengu óstyggð meðal ljónanna. Satúrnus og Ops héldu til á Satúrnusarhæð, sem síðar kallaðist Kapítólhæð og er ein af sjö hæðum Rómar.

Frumburður þeirra var Júpíter, sem eins og hreppstjórasynirnir í sögum Guðrúnar frá Lundi eða Jane Austen fór að skipta sér af öllu og eigna sér allt, nær og fjær, þegar hann hafði aldur til. Að lokum varð hann aðalguðinn á svæðinu. Önnur börn í systkinahópnum voru Neptúnus, Plútó, Júnó, Ceres og Vesta. Þau koma öll við sögu í rómversku goðafræðinni.

Guð gnægtanna

Satúrnus mun hafa verið fremur flókin fígúra sem hafði tengingar af mörgu tagi fram og aftur í tíma og rúmi. Allar myndir af honum sýna hann sem roskinn eða vel miðaldra karl með mikið grátt skegg og þunnhærðan koll. Nokkuð lotinn oftast og með sigð í höndum eða fullmundað orf sem Magnús sálarháski hefið getað öfundað hann af.

Opinberlega var hann guð gnægtanna, víngarðanna, hins frjóa akurs og framgangs kynslóðanna. Síðar bættist á hann að verða umsjónarmaður tímatalsins og var þar með að kollega gríska guðsins Kronosar. Og þeim var jafnvel ruglað saman í umræðunni og Satúrnusi eignað ýmislegt misjafnt sem Kronos hafði haft fyrir stafni. Eins og til dæmis það að hann æti börnin sín. Slíkt gerði Satúrnus ekki.

Eitt hliðarnafna hans var Sterkúlíus. Það nafn var eiginlega einskonar skítagalli sem hann brá sér í þegar hann sinnti því að vera guð áburðarins, seyru, mykju og taðs sem þá, eins og nú, skiptu máli fyrir frjósemi akra og garðlanda. Þessi efni hafa alltaf þótt óvirðuleg, einhverra hluta vegna, og því kynnti Satúrnus sig með öðru nafni í námunda við þau til að fá síður flekk á mannorð sitt sem guðaveru.

Satúrnus hélt utan um hlutina og hafði allt í föstum skorðum efnahagslega. Það var ekki auðhlaupið að því að villa um fyrir honum eða að plata hann í vafasamar fjárfestingar. Og hann hefði aldrei látið glepjast af skattaskjólum á fjarlægum eyjum. Aðhald og regla var hans leiðarljós.

Satúrnusarhofið – fjárhirsla Rómaveldis

Því reistu Rómverjar honum hof við Forum Romanum þar sem fjármunir Rómarveldis voru vistaðir. Þaðan var nú ekki verið að moka út peningum í einhverja vitleysu. Líklega hefur garðyrkjumaðurinn Gunnar Sträng sem var efnahagsráðherra Svía á árunum 1947 til 1976 komist næst því að vera Satúrnus endurborinn, sé líking tekin úr nærtímanum. Þau ár sem hann gætti sænsku þjóðarbuddunnar var gullöld sænsku velferðarinnar. Enda var hann Þorláksmessubarn, fæddur í upphafi steingeitarmerkis undir áhrifum Satúrnusar og plánetunnar með sama heiti.

Öll veldi eru fallvölt. Þegar Júpiter Satúrnusarson, með sinn útrásarvilja og heimsafskiptahvöt, var vaxinn úr grasi tók hann smátt og smátt við búinu af föður sínum. Satúrnus og Ops drógu sig í hlé og eru núna einhvers staðar að sinna sínu án þess að mikið beri á né að nokkur viti hvar. Þegar Júpiter var kominn til sögunnar varð minna um friðsæld og velmegun en verið hafði í búi foreldra hans. Nú voru nýir tímar og samskipti við hinn gríska guðaheim ollu samkrulli og uppstokkun í rómversku goðafræðinni þannig að oft er erfitt að sjá hver er hvað þegar við nútímamenn erum að reyna að fá botn í allan þann frændgarð.

Satúrnalía – undanfari jólanna

En nafn Satúrnusar var og mun verða órjúfanlega tengt við vetrarsólstöðuhátíð Rómverja, Satúrnalíuna. Hún var haldin dagana 17. til 23. desember ár hvert, Satúrnusi til heiðurs. Satúrnalían var eins konar uppskeruhátíð. Öllum haustverkum lokið og kyrrð komin á eftir annir ársins. Og svo varð auðvitað að gleðja guðina og gera sér dagamun þessa skemmstu daga ársins. Hver dagur hafði sína hátíðarsiði.

Börnum voru gefnar gjafir, sem yfirleitt voru skræpóttar glansmyndir af guðum og kynjaverum við allskyns athafnir. Oftast dálítið beinskeyttar og groddafengnar og stæðust varla mat á birtingarhæfi á okkar tímum, allra síst fyrir börn.

Í raun var öllu snúið á haus á Satúrnalíunum. Einn daginn áttu húsbændur að þjóna þrælum sínum til borðs og bera fram alla þá dýrindis rétti sem þeir sjálfir nutu allajafna. Að sjálfsögðu voru þrælarnir klæddir uppá í föt húsbændanna en húsbændur skrýddust þrælaskrúðanum. Til að allt væri nú rétt samt, höfðu þrælarnir sjálfir séð um matseldina. Hana réði hefðarfólkið ekki við. Allt fór þetta með friði fram og þótti skemmtileg tilbreyting.

Samkvæmisleikir – bannað börnum!

Fleiri samkvæmisleikir voru iðkaðir á Satúrnalíunum. Eiginlega var öllu gefin laus taumurinn og mikil og almenn þátttaka var í svallveislum þar sem siðgæðið fékk að víkja fyrir lauslætinu og lostanum. Þar var allt leyfilegt, án eftirmála, og mest skemmtunin í fjölbreytninni. Nokkrar frásagnir eru til í rituðum heimildum. En þær hafa sjaldan verið þýddar úr frummálinu yfir á aðrar þjóðtungur, velsæmisins vegna. Bókin Satyricon eftir Petronius hefur þó birst á mörgum tungumálum sem klassískt bókmenntaverk. Þar er nokkuð krassandi lýsing á slíku samkvæmi. Kannski þekkja einhverjir verkið í kvikmyndaformi Fellinis frá 1969.

Í Satyricon er drykkurinn „satyrion“ nefndur. Sá mjöður var nokkuð magnaður og líklega af svipuðu tagi og drykkurinn „kykeon“ hjá Grikkjum. Þar í var margt misjafnt sett með það að markmiði að örva öll skilningarvit til hins ítrasta. Meðal jurta sem fór í satyrion-drykkinn var sar, Satureja, af einhverju tagi.

Brímajurt satýranna

Guðinn Satúrnus var ekki einhamur. Hann hafði tengsl inn í aðra veröld þar sem málum var háttað á nokkuð annan veg en hann umbar heimavið. Í kjörrum og skógum umhverfis akurlendi hans höfðust við kynjaverur sem kölluðust satýrar. Þeir voru allir karlkyns og í mannslíki en með sterku ívafi af skapnaði geithafra. Frammynntir voru þeir og skáeygir. Kollur þeirra var hrokkinhærður utan um hársnauðan skalla og út úr hárlubbanum löfðu uppvafin geitaeyru og úr enninu stóðu hnýflar.

Neðantil höfðu þeir loðinn þjó sem á geithafri. Dindil eða hala þar aftur úr og fætur enduðu í klaufum. Framantil höfðu þeir allt sem tilheyrir körlum og þar var oftast næsta vel í lagt. Satýrarnir voru baldnir og ófriðsamir, vægast sagt. Þeir æddu um skógana emjandi af losta og eirðu engu. Einkum voru þeir aðgangsharðir og blygðunarlausir gagnvart kvenfólki sem þeir rákust á, svo vissara var fyrir konur að vera ekkert að ráfa um óbyggðirnar einar og sér. Við satýrana er sar-ættkvíslin, Satureja, kennd og hefur orð á sér fyrir að vera aflvaki þess bríma sem þarf til að tímgunarleikir gangi vel fyrir sig.

Karlamagnús kunni að meta!

Og sar var að sjálfsögðu á óskalista Karlamagnúsar i Capitulare de Villis. Þær tegundir sars sem við ræktum hér á Norðurlöndum eru sumarsar, Satureja hortensis, og vetrarsar, Satureja montana. Nokkrar fleiri tegundir hafa verið reyndar en spretta ekki vel undir norrænum sumarhimni. Nafnið „sar“ á þessum kryddjurtum er gamalt í dönsku, norsku og íslensku. Á sænsku og finnsku kallast þær „kyndlar“. Til er skemmtileg skýring á dansk-norsk-íslenska nafninu. Hún er sú að einhvern tíma rétt fyrir árið 1500 barst dönsku benediktínaklaustri fræsending frá frönsku bræðraklaustri. Þar á meðal var bréf sem bara bar áletrunina „SAR“. sem er líkleg skammstöfun á franska heitinu „sariette“.

Undir þessu sar-heiti var fræjunum sáð og síðan uppskorið fræ sem svo fór áfram til annara klaustra í Danmörku og Noregi og hélt nafninu. Einar Helgason tekur það svo upp sem íslenskt heiti í bókina Hvannir sem út kom 1926. Annað heiti er líka til, það er „baunakrydd“ eftir þýskunnar „Bohnenkraut“. En sar hefur nefnilega þann eiginleika að stemma þann leiða vindgang sem oftast fylgir eftir neyslu á baunaréttum.

Sar – kryddjurt sem vert er að þekkja

Sar hefur sterkt piparbragð og var notað í stað pipars áður en pipar fór að vera auðfenginn og ódýr í löndum Evrópu. Sumarsar er bragðsterkari en vetrarsar. Báðar eru tegundirnar sólelskar og vel ilmandi. Þær minna um margt á timían í útliti. Fræjunum er sáð gisið á björtum stað innanhúss í mars-apríl og plantað út eftir herðingu þegar frostnætur eru liðnar hjá. Þeim þarf að velja skjólgóðan og sólríkan stað í garðinum. Gjarna í nokkru regnvari og magurri sandmold.

Sumarsar er einær, nokkuð blaðstærri en vetrarsar. Honum þarf að sá árlega. Til að halda plöntunum þéttum er um að gera að klípa oft af honum. Blöð og greinar má þurrka og geyma til vetrarins. Eins má leggja sarinn í olíu eða frysta hann.

Vetrarsar er runnkend, fjölær planta, allt að 30cm há og með nállaga blöðum sem haldast að mestu græn árið um kring. Hann ilmar betur en sumarsar en er bragðdaufari. Hann kallar á svipaðan vetraraðbúnað og lávöndull eða rósmarín. Hann þrífst vel í pottum og þarf yfirvetrun undir gleri eða plasti í reit eða köldu gróðurhúsi. Líka er hægt að grafa pottana í sandbeð norðan eða vestan við húsveggi þar sem vatn og vetrarvæta leikur síður um.

Í matargerð á sar af báðum gerðunum vel við grænmeti og rótarávexti af öllu tagi. Einnig egg, pylsugerð og í flesta pottrétti með kjöti. Sumir nota hann í ábætisrétti. En til að byrja með er best að fara hægt af stað með magnið af kryddinu meðan verið er að venjast bragðinu. Sar heldur aftur af vexti gerlagróðurs og margir sem gera hrápylsur (þurrverkað feitt kjöthakk) nota sar og hrammslauk (bjarnarlauk) til að koma í veg fyrir hættuna af matareitrun. Við það fær kjötið líka fallega rauðan lit.

Tollkvótum úthlutað
Fréttir 30. maí 2024

Tollkvótum úthlutað

Verð á tollkvótum á nautakjöti frá ESB-löndum hefur hækkað aftur.

Aðeins þrjú fyrirtæki hefðu fengið undanþágu
Fréttir 30. maí 2024

Aðeins þrjú fyrirtæki hefðu fengið undanþágu

Formaður atvinnuveganefndar Alþingis segir grein forstjóra Samkeppniseftirlitsin...

Margrét Ágústa nýr framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands
Fréttir 30. maí 2024

Margrét Ágústa nýr framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands

Margrét Ágústa Sigurðardóttir hefur verið ráðin í starf framkvæmdastjóra Bændasa...

Stórtjón á túnum við Eyjafjörð
Fréttir 30. maí 2024

Stórtjón á túnum við Eyjafjörð

Miklar kalskemmdir eru í túnum nokkuð víða við Eyjafjörð. Í Svarfaðardal er ásta...

Styrkja vöruþróun út frá matarhefð
Fréttir 29. maí 2024

Styrkja vöruþróun út frá matarhefð

Tíu milljónum króna var fyrir skemmstu úthlutað af innviðaráðuneytinu til verkef...

Afhending Kuðungsins
Fréttir 28. maí 2024

Afhending Kuðungsins

Sorpa og Bambahús eru handhafar Kuðungsins árið 2024.

Leyfa gas- og jarðgerð úr matarafgöngum
Fréttir 28. maí 2024

Leyfa gas- og jarðgerð úr matarafgöngum

Matvælastofnun hefur nýlega tilkynnt um að Gas- og jarðgerðarstöð Sorpu (GAJA) h...

Heimaframleiðsla lögleg
Fréttir 28. maí 2024

Heimaframleiðsla lögleg

Heimaframleiðsla nefnist umgjörð sem sköpuð var til að heimila litlum aðilum í F...