Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Ekkert á að vera því til fyrirstöðu að afurðastöðvar geti skilað sauðfjárbændum verulegri leiðréttingu á afurðaverði framleiðslu haustsins 2019, segir Guðfinna Harpa Árnadóttir.
Ekkert á að vera því til fyrirstöðu að afurðastöðvar geti skilað sauðfjárbændum verulegri leiðréttingu á afurðaverði framleiðslu haustsins 2019, segir Guðfinna Harpa Árnadóttir.
Skoðun 16. júlí 2019

Jákvæð teikn en það vantar töluvert upp á

Höfundur: Guðfinna Harpa Árnadóttir

Nú þegar fyrstu verðskrár fyrir sauðfjárafurðir haustsins 2019 hafa verið kynntar fyrir sauðfjárbændum er gagnlegt að fara yfir forsendur í innra og ytra umhverfi greinarinnar til að átta sig betur á stöðunni og horfum.

Framleiðslukostnaður lambakjöts

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins hefur undanfarin ár staðið fyrir átaksverkefni í öflun og hagnýtingu rekstrargagna frá sauðfjárbúum. Þetta verkefni hefur á undanförnum árum veitt okkur bændum aðgang að lykiltölum til að meta stöðu greinarinnar og þróun í rekstri sauðfjárbúa. Búin sem tóku þátt í verkefninu framleiddu um 7,5% af landsframleiðslu dilkakjöts og gefa því nokkuð góða vísbendingu um hvar raunverulegt meðaltal rekstrarþátta liggur. Úr niðurstöðum verkefnisins má lesa ýmsar áhugaverðar niðurstöður. Þar má til dæmis nefna að nánast allir breytilegir kostnaðarliðir búanna hafa lækkað á árabilinu sem verkefnið tekur til, samhliða lægri tekjum, enda aðstæður þannig í rekstri að það þarf að nýta alla hagræðingarmöguleika. Sömuleiðis lækka liðir eins og viðhald fasteigna og afskriftir en fjármagnsliðir hækka og má af því draga þá ályktun að gengið sé á eignir búanna, viðhald og endurnýjun eigi sér ekki stað en fjármagna þurfi rekstur að einhverju leyti með lánsfé til skamms tíma. Þetta er alvarleg staða. Í verkefninu er lagt mat á framleiðslukostnað á hvert kíló innlagðs lambakjöts og er framleiðslukostnaður búanna í verkefninu milli 1030-1050 kr./kg á árunum 2016 og 2017 en lokauppgjör verkefnisins fyrir 2018 liggur ekki fyrir. Opinberar greiðslur vegna sauðfjársamnings dekka hluta framleiðslukostnaðar en afurðaverð þarf að vera að lágmarki 55-65% af framleiðslukostnaði til þess að meðal sauðfjárbú sé ekki rekið með tapi. Þangað þarf að stefna. 

Framleiðsla minnkar

Hrun afurðaverðs hefur óhjákvæmilega haft það í för með sér að einhverjir bændur hafa brugðið búi og aðrir hafa dregið verulega saman. Sauðfé hefur nú fækkað um 44 þúsund fjár frá árinu 2016 eða tæplega 9%. Fyrst fækkaði um rúm 3% haustið 2017 og um tæp 6% haustið 2018. Á meðan á fækkun stendur koma fleiri gripir til innleggs en áhrifa fækkunarinnar gætir svo í minna framleiðslumagni haustið á eftir. Heildarframleiðsla dróst þannig ekki saman milli áranna 2016 og 2018 vegna aukinnar slátrunar á fullorðnu fé. Dilkakjötsframleiðsla hins vegar dróst saman um 300 tonn (3,2%) milli áranna 2016-2018.  Á þessu ári má ætla að framleiðslumagn verði um 8.300 tonn dilkakjöts miðað við ásetning síðastliðið haust og minnkar því þörf fyrir útflutning um tæp 1.300 tonn frá því sem hún var á árinu 2017. Ein helsta ástæðan fyrir verðhruni ársins 2017 var tengd erfiðleikum á erlendum mörkuðum. 

Gengisþróun hagstæðari útflutningi

Mikil framleiðsla umfram innanlandsmarkað, breytt staða á mikilvægum erlendum mörkuðum og gengi óhagstætt hvers konar útflutningi reyndist þannig erfið fyrir afurðastöðvar og bændur. Með mun minna framleiðslumagni samhliða gengisþróun eins og hún hefur verið á þessu ári er staðan gagnvart neikvæðum áhrifum útflutnings á meðalverð úr afurðastöð mikið breytt. Þannig var gengi krónunnar gagnvart Evru um 118 fyrir tveimur árum síðan en er nú 142 og gengi gagnvart sterlingspundi 134 en 158 nú. Því ætti sú staða sem nú er uppi þ.e. minni útflutningsþörf samhliða gengisbreytingum, að skapa möguleika á verulegri leiðréttingu afurðaverðs. 

Birgðir eru í lágmarki

Á undanförnum árum hefur birgðastaða breyst mikið bæði vegna áhrifa fækkunar vetrarfóðraðra áa á dilkakjötsframleiðslu en einnig vegna átaks í útflutningi haustin 2016 og 2017. Ekki hefur verið sérstakt átak í útflutningi frá þeim tíma. Útflutningur af framleiðslu haustsins 2018 var í lok maí 3.300 tonn samanborið við 3.500 tonn af framleiðslu haustsins 2017 og 2.400 tonn af framleiðslu 2016 á sama tíma. Birgðir nú í lok maí voru um 1.700 tonn samanborið við 3.100 tonn í lok maí 2017. Birgðir á þessum árstíma hafa raunar ekki verið jafn litlar síðan árið 2011 en það haust hækkaði verð til bænda um 20% milli ára.

Að ofansögðu ætti ekkert að verða því til fyrirstöðu að afurðastöðvar geti skilað sauðfjárbændum verulegri leiðréttingu á afurðaverði framleiðslu haustsins 2019, enda hafa framkomin verð verið kynnt sem „lágmarksverð“. Ef ekki næst veruleg viðspyrna frá botninum nú má reikna með að framleiðslumagn minnki áfram verulega með ófyrirséðum áhrifum á okkar mikilvægasta markað, innanlandsmarkaðinn. Það er hvorki gott fyrir bændur né neytendur.

Tilboðsmarkaður opinn
Fréttir 4. mars 2024

Tilboðsmarkaður opinn

Markaður fyrir greiðslumark mjólkur verður haldinn þann 1. apríl næstkomandi.

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki
Fréttir 1. mars 2024

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki

Samkvæmt niðurstöðum verkefnis sem nýlega var unnið hjá Matís, um nýtingu og nær...

Vaxtalækkun lána
Fréttir 1. mars 2024

Vaxtalækkun lána

Fram kom í frétt Bændablaðsins, 2. nóvember 2023, að stjórn Byggðastofnunar hefð...

Endurvinnslan er mest innanlands
Fréttir 29. febrúar 2024

Endurvinnslan er mest innanlands

Guðlaugur Gylfi Sverrisson, rekstrarstjóri Úrvinnslusjóðs, segir stjórn sjóðsins...

Háskóladagurinn á fjórum stöðum
Fréttir 29. febrúar 2024

Háskóladagurinn á fjórum stöðum

Háskóladagurinn verður haldinn í Reykjavík laugardaginn 2. mars.Þá gefst fólki k...

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða
Fréttir 29. febrúar 2024

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða

Forsætisráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að skoða lagaumgjörð hvalve...

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu
Fréttir 28. febrúar 2024

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu

Vistkjöt var boðið til smökkunar í Kópavoginum um miðjan mánuð, í fyrsta sinn í ...

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“
Fréttir 28. febrúar 2024

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, og Hafberg Þórisson, eigan...