Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Íslenskur sveitakór orðinn eftirsóttur á innlendum og erlendum listahátíðum
Viðtal 22. maí 2014

Íslenskur sveitakór orðinn eftirsóttur á innlendum og erlendum listahátíðum

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Félagar í Kammerkór Suðurlands og stjórnandinn Hilmar Örn Agnarsson gera víðreist um þessar mundir. Fram undan eru tónleikar á Listahátíð í Reykjavík 24. maí. Síðan er stefnan tekin á minningartónleika um Sir John Tavener á Salisbury International Arts Festival í Bretlandi í byrjun júní. Þá tekur við ferð á alþjóðlegt kóramót í Umeå í Svíþjóð. Lokapunkturinn á þessari tónleikarispu kórsins verður á Sumartónleikum í Skálholtskirkju. Í haust sendir kórinn svo frá sér geisladisk með nýjum kórverkum eftir ung íslensk tónskáld.

Mikill metnaður

Kammerkór Suðurlands var stofnaður árið 1997 og er skipaður tónlistarfólki, tónskáldum og áhugamönnum víðs vegar af Suðurlandi. Stofnandi og stjórnandi kórsins frá upphafi er Hilmar Örn Agnarsson, sem jafnframt er organisti í Grafarvogskirkju. Kórinn er þekktur fyrir fjölbreytt efnistök og syngur allt frá djassi og dægurtónlist til tónverka sem endurspegla nýjustu strauma í samtímatónlist.

Tíðindamaður Bændablaðsins leit inn á æfingu hjá kórnum í Listasafni Árnesinga í síðustu viku. Ljóst er að þarna er ekki á ferð neinn venjulegur kór, né eru æfingarnar hefðbundnar sem stjórnandinn Hilmar Örn Agnarsson lætur kórinn framkvæma. Með þeim var líka Bára Grímsdóttir, tónskáld og kvæðakona.

Sterk tengsl við Suðurland

Kórfélagar gátu flestir rakið uppruna, ættir eða tengsl til Suðurlands en áberandi var þó fólk úr Biskupstungunum. Má þar nefna Geirþrúði Sighvatsdóttur, bónda og apótekara í Miðhúsum, Láru Jónsdóttur frá Helgastöðum og stöllurnar Svanhvíti Ingólfsdóttur, sem er uppvaxin meðal kryddjurta á Engi, og Henríettu Ósk Gunnarsdóttur frá Hrosshaga. Tvær síðastnefndu hlutu sína fyrstu tónlistarmenntun í Barnakór Biskupstungna hjá Hilmari Erni þegar hann stjórnaði tónlistarlífi í Skálholti. Þá má líka nefna son stjórnandans, Georg Kára Hilmarsson, sem bjó 17 ár í Skálholti og er líka tónskáld. Eflaust kannast margir betur við hann sem bassaleikara og söngvara í hljómsveitinni Sprengjuhöllinni. Hann segist raunar rekja uppruna feril síns í tónlistinni til þess er hann hóf fjögurra ára gamall að syngja í drengjakór í Hamborg. „Síðan var ég í kórunum í Menntaskólanum í Hamrahlíð og í framhaldinu í Kammerkór Suðurlands.“

Henríetta Ósk Gunnarsdóttir segist hafa verið í kórnum síðan 2008. „Félagarnir eru að mestu héðan af Suðurlandi eða á einhvern hátt tengdir Suðurlandi. Þá er kjarninn úr Tungunum.“ Henríetta segir að vissulega megi segja að kórinn hafi náð ótrúlega langt.

„Það byrjaði eiginlega af krafti með þessu stóra verkefni okkar í London í haust, þar sem við vorum með tónleika og fluttum verk eftir John Tavener. Í framhaldi af því hefur boltinn farið heilmikið að rúlla og við förum aftur til Bretlands núna í júní.“

Athyglisverð tenging við eina skærustu stjörnu Breta

Georg segir forsöguna að þessu þó talsvert lengri. Á tónleikunum á Listahátíð Reykjavík 24. maí flytur kórinn Þrjár Shakespeare-sonnettur eftir breska tónskáldið Sir John Tavener. Verkið samdi Jack White fyrir Kammerkór Suðurlands árið 2013 en hann var valinn til þess af bresku tónlistarsamtökunum Sound and Music sem ein skærasta unga stjarna Breta á sviði tónsmíða um þær mundir.

Tavener á uppruna að rekja til Wales og lagði hann í verkinu áherslu á að tengja saman Ísland og Wales í gegnum hljóðblæbrigði vatns. Sungið er á ýmsum tungumálum; fornvelsku, ensku og íslensku, en hluta íslenska hluta verksins samdi verðlaunaljóðskáldið og rithöfundurinn Sjón.

Á tónleikunum á Listahátíð í Reykjavík flytur kórinn einnig nokkur af eldri verkum Taveners og nýleg verk eftir ung íslensk tónskáld, þau Georg Kára Hilmarsson, Völu Gestsdóttur og Margréti Kristínu Blöndal. Öll eru þessi verk samin sérstaklega fyrir kórinn.

Þá flytur kórinn einnig verkið Islands (Ynysoedd) eftir annað breskt tónskáld, Jack White, og Heilsa þér Kjarval eftir Pál Guðmundsson frá Húsafelli í útsetningu Snorra Sigfúsar Birgissonar. Um frumflutning er að ræða á verki Páls frá Húsafelli, en það samdi hann við ljóð nafna síns og afa, Páls Guðmundssonar frá Hjálmsstöðum.

Frumflutningstónleikar urðu óvænt að minningartónleikum

Þegar kórinn fór til Lundúna í nóvember síðastliðnum til að frumflytja verk Taveners í Southwark-dómkirkjunni varð atburðarásin talsvert öðruvísi en fyrirhugað var. Tónleikarnir urðu óvænt að minningartónleikum um Sir John Tavener, sem lést skyndilega þremur dögum fyrir tónleikana. Tónleikarnir vöktu heimsathygli og hlutu afburðadóma í bresku pressunni. Þessi verk verða nú sem fyrr segir frumflutt á Íslandi á tónleikunum á Listahátíð.

Öflugir einsöngvarar og mikil sveit meðflytjenda

Einsöngvarar með kórnum á Listahátíð í Reykjavík verða sópransöngkonurnar Björg Þórhallsdóttir, Elísabet Einarsdóttir, Tui Hirv og Margrét Kristín Blöndal, ásamt Hrólfi Sæmundssyni baríton.

Sérstakur heiðursgestur og velunnari Kammerkórs Suðurlands verður hin heimsþekkta sópransöngkona Patricia Rozario, en hún hefur frumflutt fjölda verka eftir Tavener og heillaðist af flutningi Kammerkórs Suðurlands á tónleikunum í Southwark-dómkirkjunni síðastliðið haust.

Þá syngur með kórnum djúp-bassasöngvarinn Adrian Peacock, sem hefur starfað með kórnum um árabil.
Tólf manna barokksveit leikur enn fremur á tónleikunum, skipuð félögum úr Bachsveitinni í Skálholti og Barokk Reykjavík.

Þá eru ótaldir tveir kórar sem hlaupa undir bagga í verkinu Song for Athene eftir John Tavener; ungmeyjakórinn sem söng með Megasi á Passíusálmatónleikum í Grafarvogskirkju á nýliðinni föstu og karlakórinn Vox Humana, sem var settur saman sérstaklega af þessu tilefni.

Í lok verksins hljómar sterkt orgel, sem hafði valdið kórstjóranum nokkrum heilabrotum, þar sem ekki er orgel í Hörpu. Loks hugkvæmdist honum að hóa saman 40 manna karlakór sem mun taka að sér hlutverk orgelsins.
Myndlistarkonan Hildur Hákonardóttir sér um listræna umgjörð tónleikanna og fléttar inn í umgjörðina myndverkum ýmissa listamanna, á borð við Pál frá Húsafelli og Kristínu Gunnlaugsdóttur. 

7 myndir:

Sláturhús brann til grunna
Fréttir 12. apríl 2024

Sláturhús brann til grunna

Sláturhúsið í Seglbúðum í Landbroti brann til grunna þann 1. apríl.

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa
Fréttir 12. apríl 2024

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa

Matvælastofnun lagði stjórnvaldssektir á þrjú kúabú á Vesturlandi á dögunum vegn...

Dregur úr kaupvilja
Fréttir 12. apríl 2024

Dregur úr kaupvilja

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun apríl sýna að ja...

Staða framkvæmdastjóra BÍ auglýst innan tíðar
Fréttir 11. apríl 2024

Staða framkvæmdastjóra BÍ auglýst innan tíðar

Vigdís Häsler hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands. ...

Erfiðara verður að fá sphagnum og innfluttur jarðvegur CE-vottaður
Fréttir 11. apríl 2024

Erfiðara verður að fá sphagnum og innfluttur jarðvegur CE-vottaður

Búast má við að innflutningur á mómosamold (sphagnumríkri mold) fari minnkandi á...

Bjarkey ætlar að skerpa línurnar
Fréttir 11. apríl 2024

Bjarkey ætlar að skerpa línurnar

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir er nýr ráðherra matvælaráðuneytis en Svandís Svavars...

Greiðslumark færist til Norðvesturlands
Fréttir 11. apríl 2024

Greiðslumark færist til Norðvesturlands

Um sjötíu prósent mjólkurkvóta sem skipti um eigendur á síðasta tilboðsmarkaði f...

Nemendur vilja betri hádegismat
Fréttir 10. apríl 2024

Nemendur vilja betri hádegismat

Fulltrúar ungmennaráðs Mýrdalshrepps vöktu máls á skólamáltíðum á sveitarstjórna...