Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Ísland – Grænland
Fréttaskýring 20. mars 2019

Ísland – Grænland

Höfundur: Guðjón Einarsson

Þótt Grænland sé næsti nágranni Íslands í vestri og höfuðatvinnuvegur beggja  landanna hafi verið hinn sami um langt skeið var lengst af lítið samband milli ríkjanna á sjávarútvegssviðinu. Á því hefur orðið breyting á síðustu árum, bæði með þátttöku Íslendinga í grænlenskum sjávarútvegi og eins auknu samráði og samvinnu ríkjanna vegna nýtingar sameiginlegra fiskistofna.

Íslendingar eru reyndar engir nýgræðingar á Grænlandsmiðum. Um miðja síðustu öld sóttu íslenskir togarar stíft í bæði þorsk og karfa undan ströndum Grænlands enda var sókn á þessi mið öllum frjáls á þeim tíma og eftir miklu að slægjast. Síðan dró úr fiskgengd á þessum miðum og seinna kom að því að strandríki fóru að færa fiskveiðilögsögu sína út og reka útlensk fiskiskip af höndum sér.

Hér á eftir verður leitast við að gefa nasasjón af snertiflötum grænlensks og íslensks sjávarútvegs og við það sótti höfundur þessa pistils upplýsingar til Hilmars Ögmundssonar, sem starfað hefur síðustu árin sem sérfræðingur um fiskveiðimál í grænlenska fjármálaráðuneytinu.

Eigendur Brims hasla sér völl

Færeyingar hafa lengi komið töluvert við sögu í fiskveiðum og fiskvinnslu á Grænlandi, en það var ekki fyrr en árið 2014 að Íslendingar fóru að láta til sín taka þar í verulegum mæli þegar eigendur Brims hf. keyptu grænlenska fyrirtækið Arctic Prime Productions af færeyskum útgerðarmanni. Fyrirtækið rekur fiskvinnslur á þremur stöðum á Grænlandi, í Quaqortoq (flökun á þorski), í Nanortaliq (saltfiskvinnsla) og í Kummiut á Austur-Grænlandi en á síðastnefnda staðnum er lítil vinnsla þar sem staðurinn frýs inni mestan hluta ársins. Enn fremur keyptu eigendur Brims þriðjungs hlut í útgerðarfyrirtækinu Arctic Prime Fisheries sem sér um hráefnisöflun fyrir vinnslurnar auk þess sem keyptur er fiskur af heimamönnum.  Um tíma átti fyrirtækið stóran og fullkominn frystitogara, Ilivileq (áður Skálaberg), sem nú hefur verið seldur.

Fleiri þátttakendur frá Íslandi

Fleiri íslenskir aðilar hafa komið við sögu um lengri eða skemmri tíma í grænlenskum sjávarútvegi á undanförnum árum. Þannig  á Ísfélag Vestmannaeyja til dæmis hlut í útgerðinni Pelagic Greenland á móti stórfyrirtækinu Royal Greenland. Þetta félag gerir út tvö uppsjávarskip, Tuneq og Tasilaq, sem áður voru íslensk.

Síðast en ekki síst er svo að nefna útgerðina Polar Pelagic sem Síldarvinnslan í Neskaupstað á að þriðjungi á móti Grænlendingum. Félagið gerir út Polar Amaroq, sem er eina grænlenska uppsjávarskipið sem er að veiðum að heita má allt árið undir venjulegum kringumstæðum. Skipið landar á  Íslandi eins og önnur grænlensk uppsjávarskip, enda engin aðstaða á Grænlandi til þess að taka á móti uppsjávarfiski til bræðslu.

Makríllinn birtist

Mikið líf hljóp í grænlands­veið­ar Íslend­inga fyrir nokkrum árum þegar makríll fór að ganga á miðin milli Íslands og Grænlands. Græn­lendingar áttu sjálfir fá skip til þess að sinna þessum veiðum og því var gripið til þess ráðs að fá erlend skip til veiðanna. Þannig stunduðu til að byrja með á annan tug íslenskra leiguskipa þessar veiðar auk skipa frá öðrum þjóðum. Makríllinn hefur verið Grænlendingum kærkomin búbót rétt eins og Íslendingum þótt aflinn hafi verið sveiflukenndur frá ári til árs. Á síðasta ári veiddu skip á þeirra vegum 53.000 tonn af makríl í grænlenskri lögsögu og 10.000 tonn að auki á alþjóðlega hafsvæðinu austan Íslands.

Loðnan mikilvægasta sameignin

Loðnan hefur fram til þessa verið mikilvægasti sameiginlegi fiskistofn Íslendinga og Grænlendinga. Loðnustofninn heldur sig í grænlenskri lögsögu stóran hluta ársins. Lengi vel var veiðum úr loðnustofninum skipt þannig að í hlut Íslendinga komu 80% leyfilegs afla, Grænlend­ing­ar fengu 11% í sinn  hlut og Norð­menn 8%. Eftir að sjórinn fór að hlýna á norðurslóðum fyrir síðustu aldamót hefur loðnan, sem er kaldsjávartegund, hopað meira inn í grænlenska lögsögu og stofninn jafnframt skroppið saman, auk þess sem áratugir eru liðnir síðan loðna hætti að ganga inn í norska lögsögu við Jan Mayen.

Af þessum sökum gerðu Grænlendingar kröfu um að hlutfalli ríkjanna þriggja í loðnuaflanum yrði breytt. Niðurstaðan varð sú að hlutur Grænlendinga var aukinn úr 11% í 15%. Hlutur Noregs var minnkaður úr 8% í 5% og hlutur Íslendinga minnkaði úr 81% í 80%.

Samvinna báðum í hag

Segja má að Íslendingar hafi mátt vel við una að þurfa aðeins að sjá af einu prósentustigi í þessum samningum í ljósi þess að Grænlendingar gerðu kröfu um 50–60% hlut á þeirri forsendu að allt upp í 70% af stofninum hefði mælst í þeirra lögsögu tímabundið. Samningsstaða Grænlendinga var hins vegar fremur veik því þegar loðnan heldur sig í lögsögu Grænlands er hún of feit til þess að hægt sé að frysta hana til manneldis um borð í frystiskipum og engar loðnuverksmiðjur eru á Grænlands til þess að vinna úr henni mjöl og lýsi. Að auki hafa Grænlendingar heimild til þess að veiða allan sinn loðnukvóta í íslenskri lögsögu og mega landa loðnu, makríl og síld á Íslandi. Samvinna landanna á þessu sviði er því báðum í hag.

Fleiri sameiginlegir stofnar

Íslendingar og Grænlendingar eiga fleiri fiskistofna sameiginlega. Þannig er talið að grálúðan sem heldur sig við Austur-Grænland, Ísland og Færeyjar sé einn og sami stofninn. Heildarkvóti hefur verið um 24.000 tonn síðustu árin. Samkvæmt samningi koma 56% í hlut Íslands, 38% í hlut Grænlendinga og afgangurinn er ætlaður Færeyingum. 

Karfinn flakkar einnig á milli lögsagna ríkjanna. Af 44.000 tonna kvóta í gullkarfa koma 90% í hlut Íslands en 10% í hlut Grænlands. Bæði löndin eiga svo hlutdeild í úthafskarfanum ásamt fleiri þjóðum en úthlutaður kvóti í honum hefur verið hverfandi lítill á liðnum árum vegna dapurs ástands stofnsins. Loks er að nefna að hafrannsóknastofnun Grænlands hefur unnið að þorskmerkingum til að kanna ferðir þorsks yfir lögsögumörkin milli Íslands og Grænlands og komast þannig að raun um hvort stofninn sé að einhverju leyti sameiginlegur, en litlar sem engar rannsóknir hafa verið gerðar á þessu af Íslands hálfu enn sem komið er.

Ólíkir meginþættir í sjávarútvegi

Sjávarútvegur á Grænlandi er að því leyti frábrugðinn íslenskum sjávarútvegi að rækja er mikilvægasta fisktegundin þar í landi. Á síðasta ári nam rækjuaflinn 89.000 tonnum sem að megninu til veiddist við Vestur-Grænland en að litlu leyti við austurströndina. Til samanburðar má nefna að rækjuaflinn við Ísland á árinu 2018 var aðeins 4.500 tonn.

Grálúða er næstverðmætasta fisktegundin og nam aflinn í fyrra 41.000 tonnum sem að mestu veiddist við Vestur-Grænland. Þorskur er svo þriðja mikilvægasta fisktegundin en af honum veiddust hátt í 50.000 tonn við Grænland, sem reyndar var langt umfram veiðiráðgjöf vísindamanna.

Sjávarafurðir 95% af heild

Grænlendingar eru miklu háðari sjávarútvegi en Íslendingar, sem sést m.a. af því að 95% af verðmæti vöruútflutnings þeirra árið 2017 voru sjávarafurðir samanborið við 38% á Íslandi. Alls voru á árinu 2017 fluttar út vörur frá Grænlandi fyrir 66 milljarða íslenskra króna, þar af voru 63 milljarðar fyrir sjávarafurðir. Skiptingin var þannig að rækjan gaf 44% af heildinni, grálúða 23%, þorskur 10% og afgangurinn aðrar fisktegundir. Á Íslandi nam verðmæti útfluttra sjávarafurða 197 milljörðum króna sama ár, þar af 44% fyrir þorskafurðir.

Grænlendingar eru með gagnkvæma fiskveiðisamninga við aðrar þjóðir, svo sem Færeyinga, Norðmenn og Rússa, en einnig við Evrópusambandið sem fær fiskveiðiheimildir gegn því að veita Grænlendingum tollfríðindi. Þessi samningur gefur Grænlendingum samtals jafnvirði 6,3 milljarða íslenskra króna árlega, þar af er þriðjungur eyrnamerktur sem greiðsla fyrir fiskveiðiréttindin en tveir þriðju styrkur til menntamála.

Veiðigjöld stórhækka

Loks er svo að nefna að stjórnvöld í Grænlandi innheimta veiðigjöld af fiskafla sem eru mun hærri en tíðkast á Íslandi. Hinn 1. janúar 2018 tók gildi nýtt veiðigjaldakerfi sem gerir það að verkum að tekjur ríkisins af veiðigjöldum hafa stóraukist, að sögn Hilmars Ögmundssonar. Á árinu 2017 námu veiðigjöldin á Grænlandi rétt um 4,5 milljörðum íslenskra króna en bráðabirgðatölur fyrir árið 2018 gera ráð fyrir tæpum 7,3 milljörðum ISK. Að sögn Hilmars eru nú flestar fisktegundir gjaldskyldar sem hlutfall af útflutnings- og löndunarverðmæti, nema hvað veiðigjöld fyrir uppsjávarveiðar á makríl, loðnu, síld, kolmunna og gulllaxi eru enn þá föst krónutala fyrir hvert kíló.

Hretið seinkar vorverkum
Fréttir 13. júní 2024

Hretið seinkar vorverkum

Óveðrið sem gekk yfir Norður- og Norðausturland á dögunum hafði aðallega þau áhr...

ESA spyr um óvissuatriði breytinga á búvörulögum
Fréttir 13. júní 2024

ESA spyr um óvissuatriði breytinga á búvörulögum

Í byrjun maí sendi ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, erindi til matvælaráðuneytisins þ...

Viðbragðshópur vegna kuldatíðar
Fréttir 13. júní 2024

Viðbragðshópur vegna kuldatíðar

Matvælaráðherra hefur sett á laggirnar viðbragðshóp vegna þeirra erfiðleika sem ...

Bein og langvinn áhrif á búgreinar
Fréttir 13. júní 2024

Bein og langvinn áhrif á búgreinar

Matvælaráðherra stofnaði þann 7. júní sérstakan viðbragðshóp vegna ótíðarinnar á...

Sjálfbærninám á háskólastigi
Fréttir 12. júní 2024

Sjálfbærninám á háskólastigi

Fulltrúar Háskóla Íslands (HÍ) og Hallormsstaðaskóla hafa staðfest samstarfssamn...

Ætla að virkja sólargeisla og senda til jarðarinnar
Fréttir 11. júní 2024

Ætla að virkja sólargeisla og senda til jarðarinnar

Íslenska loftslagsfyrirtækið Transition Labs er komið í samstarf við breska fyri...

Gjaldskráin einfölduð
Fréttir 11. júní 2024

Gjaldskráin einfölduð

Matvælaráðherra hefur undirritað nýja gjaldskrá fyrir eftirlit og önnur gjaldsky...

Staða sníkjuormasýkinga metin
Fréttir 10. júní 2024

Staða sníkjuormasýkinga metin

Kortleggja á stöðu sníkjuormasýkinga hjá íslenskum nautgripum á næstu misserum.