Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Innrás andskotans garðálfanna
Á faglegum nótum 4. apríl 2019

Innrás andskotans garðálfanna

Höfundur: Vilmundur Hansen

Garðálfar verða algengari sjón með hverju árinu þar sem þeir skjóta upp kollinum inni á milli burknanna, í trjábeðinu, á milli sumarblómanna og á steinhleðslunni.

Garðeigendur eru ófeimnir við að skreyta garðinn með alls kyns fígúrum, gervifuglum, plastblómum og síðast en ekki síst garðálfum, sem eru fáanlegir í margs konar útgáfum.

Erlendis er það sem við köllum garðálfa í daglegu máli flokkað sem dvergar, enda fyrirbærið mun líkara klunnalegum dvergum en fínlegum álfum. Lítið er um dverga í íslenskri þjóðtrú og því eðlilegt að álfaheitið sé okkur tamt í munni. Tilfinning fólks til garðálfa er tvískipt, annaðhvort elskar fólk þá eða hatar. Sumum finnst þeir lífga upp á garðinn og þykir vinalegt að sjá þá á milli blómanna, en öðrum þykja þeir argasta smekkleysi, ódýr alþýðumenning og „kitsch“ í sinni verstu mynd.

Í Evrópu hafa álfar þekkst í görðum í rúmar þrjár aldir og er uppruni þeirra rakinn til upphafs 18. aldar þegar þýskir og tékkneskir bændur settu litlar styttur af álfum út á akrana til að örva vöxt.

Vinsældir garðálfa hafa verið mismiklar á ólíkum tímum og þeim hefur stundum verið ýtt út í horn þegar tískustraumar hafa verið þeim óhliðhollir. Úrval garðálfa hefur þó aldrei verið meira en nú og seljast þeir eins og heitar lummur. Um aldamótin 2000 var borgin Ústí nad Labem í Tékklandi opinberlega gerð að borg garðálfanna, enda borgin fræg fyrir framleiðslu á afar haglega smíðuðum garðálfum. Garðálfar geta vakið skrítnar kenndir hjá fólki og til eru hópar sem hafa það að markmiði að frelsa álfana úr görðum og koma þeim út í náttúruna.

Í Devonskíri í Englandi er rekið munaðarleysingjahæli fyrir garðálfa sem hefur verið stolið úr görðum og yfirgefnir á víðavangi.

Áður fyrr voru álfarnir brenndir úr leir og handmálaðir og eru margir þeirra orðnir safngripir. Núna eru flestir garðálfar steyptir úr plasti eða trefjum og eiga að þola hvaða veður sem er án þess að missa lit.
Framboðið af garðálfum er ótrúlegt og hægt er að fá þá í mörgum stærðum og gerðum, til dæmis álfa sem klifra í trjám, liggja í leti, keyra um á mótorhjóli, álfa sem sitja í stólum, standa með veiðistöng, raka gras, moka snjó og fljúga. Virðulegur fyrrverandi grunnskólaskólastjóri utan af landi færði mér meira að segja að gjöf garðálf sem líkist flassara með fráhnepptan frakkann. Úrvalið er ótakmarkað.

Veljið álfunum fallegan stað inni á milli blóma og trjáa í garðinum eða á sumarhúsalóðinni. Verið óhrædd við að tala við álfana. Sýnið þeim trúnað, þeir segja engum frá. Ef gefa á álfunum nafn er gott að hafa Snorra-Eddu við höndina, en það má líka notast við símaskrána. Leitið til heimilislæknisins ef þið farið að halda að garðálfarnir séu lifandi.

Takið álfana inn ef farið er burt í langan tíma. Þeim gæti leiðst einveran og geta farið á flakk. Látið þá fá nokkra matlauka til að passa á meðan, þeir elska að hugsa um laukana og tala við þá og gleyma um leið einverunni.

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...