Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Innflutningur á lambahryggjum til Íslands vegna skorts?
Skoðun 26. júlí 2019

Innflutningur á lambahryggjum til Íslands vegna skorts?

Höfundur: Guðfinna Harpa Árnadóttir

„Ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara hefur lagt til við landbúnaðarráðherra að gefinn verði út tímabundinn innflutningskvóti á lækkuðum tollum til að bregðast við skorti á innlendum lambahryggjum og hryggjarsneiðum.

Tillaga nefndarinnar er að á tímabilinu 29. júlí til 30. ágúst megi flytja inn lambahryggi og sneiðar með magntolli.

Félag atvinnurekenda hefur gert athugasemdir við tímabilið sem um ræðir og telur fjórar vikur skamman tíma til að finna kjöt og koma því til landsins.“ Bændablaðið 25. júlí 2019

Það eru óneitanlega margar spurningar sem fljúga um huga okkar sauðfjárbænda við þessar fréttir. Ekki síst í ljósi þess að á undanförnum þremur árum höfum við barist erfiðri baráttu fyrir því að halda okkar búum gangandi í umhverfi afar lágs afurðaverðs sem á sínar skýringar í erfiðleikum á erlendum mörkuðum með tilheyrandi umframframleiðslu og birgðasöfnun. Við sauðfjárbændur höfum tekið sársaukafullar ákvarðanir á þessu tímabili til þess að leggja okkar af mörkum til að breyta þeirri stöðu. Þær ákvarðanir höfðu skilað okkur á þann stað að full ástæða var til bjartsýni, birgðastaða orðin eðlileg og fyrirséður samdráttur í framleiðslu.  

Kæru stjórnir og framkvæmdastjórar afurðastöðva eruð þið að leggja ykkar af mörkum?

Það er ljóst að afurðastöðvar hafa, í samvinnu við bændur, náð miklum árangri í að vinna niður birgðasöfnunarvanda áranna á undan. Þar hafa afurðastöðvar fært nokkrar fórnir í sínum rekstri. En það er líka ljóst að frá og með síðustu sláturtíð hafa verið flutt út 395 tonn af hryggjum og hryggjavöru á meðalverðinu 1.027 kr/kg. Þá eru ótaldir þeir hryggir sem fylgdu heilum skrokkum sem fluttir eru út á enn lægra verði. Ofangreint verð er nokkuð undir heildsöluverði hér innanlands. Ákvæðið um lækkun eða niðurfellingu tolla vegna skortsstöðu er ekki nýtt af nálinni. Birgðastaða liggur fyrir í lok hvers mánaðar.

Samkvæmt útflutningsskrám voru hryggir fluttir út á undir 1.000 kr./kg í mars, apríl og maí. Að einhverju leyti er um að ræða vöru sem er illseljanleg á innlendum markaði. Það er þó óhjákvæmilegt við þessar kringumstæður að upp komi spurningin um hvort skotið hafi verið yfir markið í útflutningi ársins  – ekki satt?

Kæru verslunareigendur, gerðuð þið nóg til að tryggja að þið hefðuð framboð allt árið í ykkar verslun eða voruð þið að treysta á áframhaldandi stöðu mikilla birgða með tilheyrandi afsláttarkjörum og verðhjöðnun á lambakjöti?

Það er ljóst að ef verslanakeðjur hefðu verið tilbúnar að gera samninga við afurðastöðvar strax síðastliðið haust um ákveðið magn af hryggjum og hryggjavöru hefði það magn ekki verið flutt úr landi. Miðað við verð til afurðastöðva á útfluttri vöru verður ekki annað séð en að hægt hefði verið að gera nokkuð hagstæða samninga á þeim tímapunkti. Ekki verður horft framhjá því að áhætta og kostnaður afurðastöðva af því að sitja uppi með birgðir er mikil. Erfið birgðastaða er öllum rekstraraðilum þeirra í fersku minni og á þeim grunni hefur hver og ein afurðastöð þurft að taka sínar ákvarðanir um útflutning en afurðastöðvum er óheimilt að hafa með sér samráð um viðskipti sín og samninga.

Öll höfum við séð verð á lambakjöti í helgarbæklingum stóru verslanakeðjanna sem okkur finnst óeðlilega lágt. Lambakjötið er notað sem „togari“ – lágt verð á eftirsóttri vöru nær fólki inn í verslunina sem kaupir þá líka eitthvað fleira sem ekki er selt með jafn lágri framlegð. Erfið birgðastaða hefur ýtt undir að lambakjöt hefur verið aðgengilegt verslunum á lágu verði til nota í þessum tilgangi. Það er hundfúlt að missa slíkan spón úr sínum aski – ekki satt?

Kæra Félag atvinnurekenda – er ennþá skortur á lambahryggjum eftir að sláturtíð er hafin og ástæða til að lengja innflutningstímabilið?


Það er ljóst að lagaákvæðið um lækkaða tolla byggir á því að um skort á vöru sé að ræða. Ekki skort á „vöru á lágu verði“. Það er ljóst að fyrsta slátrun á þessari sláturtíð er áformuð 15. ágúst næstkomandi og þá koma hryggir inn á markað. Sláturtíð er komin á fullt í flestum sláturhúsum 2. september nk. Á sláturtíð er slátrað um það bil 9000 lömbum  á dag. Það þýðir að strax í fyrstu viku september verða til um það bil 150 tonn af lambahryggjum. Það þýðir að meintu skortsástandi á hryggjum og hryggjavöru er lokið í síðasta lagi að fjórum vikum liðnum – ekki satt?

Kæri landbúnaðarráðherra – ætlar þú að ganga að óbreyttri tillögu nefndarinnar?

Það er ljóst að verði af miklum innflutningi á lambakjöti til Íslands þá vinnur það gegn þeim árangri sem náðst hefur með samstilltu átaki og erfiðum fórnum. Það vinnur gegn markmiðum samnings sem stjórnvöld hafa nýverið gert við okkur sauðfjárbændur. Mest tapa sauðfjárbændur, fjölskyldur þeirra og byggðirnar hringinn í kringum landið. Tryggja þarf þess að innflutningur ef af honum verður verði hæfilegur til að mæta áætluðum skorti á lambahryggjum í fyrri hluta ágúst en ekki meiri. Tryggja þarf að glugginn til innflutnings sé ekki nema þar til framboð verður af fersku innlendu kjöti í síðasta lagi um miðjan ágúst. Þú ert til í það - ekki satt?

Spurningar mínar eru margar – nú krefst ég svara.

Náttúrulegir birkiskógar hafa mikilvægt hlutverk
Fréttir 13. febrúar 2025

Náttúrulegir birkiskógar hafa mikilvægt hlutverk

Vísbendingar eru um að náttúrulegir birkiskógar hafi mikil áhrif á uppsöfnun kol...

Sjö verkefni um aukið virði sauðfjárafurða
Fréttir 13. febrúar 2025

Sjö verkefni um aukið virði sauðfjárafurða

Kennslutól fyrir skólabörn, vöruþróun ærkjöts og sauðaosta og markaðssetning á s...

Kjötafurðastöðvar aftur undir samkeppnislög
Fréttir 12. febrúar 2025

Kjötafurðastöðvar aftur undir samkeppnislög

Þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar hefur verið kynnt fyrir vorþingið. Landbúnaðarmá...

Sýktur refur í Skagafirði
Fréttir 12. febrúar 2025

Sýktur refur í Skagafirði

Íbúi í Skagafirði varð var við veikan ref og reyndist dýrið með fuglaflensu.

Deilt um gjaldtöku vegna meðhöndlunar á dýrahræjum
Fréttir 11. febrúar 2025

Deilt um gjaldtöku vegna meðhöndlunar á dýrahræjum

Fyrir áramót bárust tvö mál inn á borð lögfræðinga Bændasamtaka Íslands þar sem ...

Tvöfaldur hagnaður kjötvinnslu í eigu KS
Fréttir 11. febrúar 2025

Tvöfaldur hagnaður kjötvinnslu í eigu KS

Kjötvinnslan Esja gæðafæði nær tvöfaldaði hagnað sinn milli áranna 2022 og 2023.

Framleiðsla og sala á hrossakjöti jókst mest
Fréttir 10. febrúar 2025

Framleiðsla og sala á hrossakjöti jókst mest

Mikil aukning var í framleiðslu og sölu á hrossakjöti og svínakjöti á síðasta ár...

Betri afkoma sauðfjárbúa
Fréttir 10. febrúar 2025

Betri afkoma sauðfjárbúa

Hagstofan greindi frá því á vef sínum fyrir skemmstu að afkoman í sauðfjárræktin...