Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Skjaldfönn í Skjaldfannardal.
Skjaldfönn í Skjaldfannardal.
Fréttir 25. janúar 2016

Indriði Aðalsteinsson hættur vetursetu á Skjaldfönn

Veik staða byggðar í innanverðu Ísafjarðardjúpi hefur verið nokkuð í umræðunni eftir að fjölskylda Sigmundar H. Sigmundssonar á Látrum flutti þaðan með allar sínar kýr undir lok síðasta árs. Indriði Aðalsteinsson, bóndi á Skjaldfönn, segir að þrátt fyrir þetta þá sé ekki öll von úti enn fyrir byggðina á svæðinu. 
 
Indriði flutti til Hveragerðis í haust ásamt konu sinni sem hefur undanfarin ár haft vetursetu syðra. Í stað þess að skera niður allt sitt fé og hætta alfarið búskap kom hann þó um 200 kindum í fóstur á nokkrum bæjum á Ströndum.
 
Féð flutt aftur að Skjaldfönn með vorinu
 
„Það er svo meiningin að flytja féð aftur heim um miðjan apríl, eða allavega áður en lambsþungi er farinn að há fénu í flutningum. Síðan mun ég annast sauðburðinn með hefðbundnum hætti á Skjaldfönn og reka féð síðan á fjall.  
 
Það er því engan veginn þannig að ég sé alfarinn frá Djúpi. Þetta er þó bara tilraun og síðan mun ég sjá til hvernig málin skipast í framhaldinu þegar reynsla verður komin á þetta fyrirkomulag,“ segir Indriði.
Annars segir Indriði veruna í Hveragerði ansi notalega. Þarna sé skínandi gott samfélag þar sem fjöldi Vestfirðinga sé búsettur. Lítið mál sé t.d. að komast inn í hópa til að spila bridge ef menn hafi áhuga á og gott bókasafn innan seilingar og önnur þjónusta. Fyrir mann sem vanur er mikilli vinnu sé þó leiðigjarnt til lengdar að hafa ekki alvöru vinnu fyrir stafni. 
 
„Það eru gríðarleg viðbrigði að vera ekki í daglegri vinnu. Leti hefur nú ekki verið mín sterka hlið um ævina og þetta fer því að verða svolítið leiðigjarnt að hafa ekkert til að takast á við. Skrokkurinn á mér má ekki við mikið lengra verkefnaleysi. Ef maður fær ekkert að gera verð ég bara að fara að reima á mig gönguskó og þenja mig um fjöll og firnindi til að halda mér við,“ segir Indriði. 
 
Alveg til í afleysingar
 
„Maður gæti því rétt mönnum hjálparhönd til dæmis við afleysingar á sveitabæjum hér á Suðurlandi. Það gæti hugsanlega hentað mönnum sem þurfa að skreppa í sólarlandafrí eða þurfa að bregða sér frá vegna veikinda eða annað. Þá er ég alveg til í að leggja mönnum lið ef svo stendur á. Ég held að menn ættu alveg að geta treyst mér til þess,“ segir Indriði. Ef menn hafa áhuga á hans starfskröftum þá er hægt að ná í hann í síma  588-4803.
 
Byggðin í Djúpinu á undir högg að sækja
 
Þótt byggðin í Djúpinu hafi átt undir högg að sækja og sé orðin býsna völt, þá er hún ekki alveg brostin. Nokkur myndarbýli eru þar enn í rekstri.  Samkvæmt orðum Indriða verður Skjaldfönn í ábúð allavega hluta úr ári. Á Laugalandi í Skjaldfannardal, eða öllu heldur á Laugarholti, er enn fjárbúskapur hjá Þórði Halldórssyni og konu hans, Dagrúnu Magnúsdóttur, ásamt tveim börnum. Skólaganga barnanna mun þó vera farin að hafa veruleg áhrif á þann búskap. 
 
Næsta  fjárbú er hjá Jóhönnu R. Kristjánsdóttur í Svansvík í Ísafirði. Salvar Hákonarson hefur svo búsetu í Reykjafirði á samnefndum bæ án þess að vera með búfé. 
 
Í Vatnsfirði býr Kristján Sigmundsson og kona hans. Hann er yfirvélstjóri á togaranum Júlíusi Geirmundssyni frá Ísafirði og er hann bróðir Sigmundar sem fluttur er frá Látrum. Felst búskapurinn aðallega í dúntekju í Borgarey sem er talsvert mikil. 
 
Þá er Finnbogi Jónsson í Hörgshlíð í Mjóafirði með fé og eins er Stefán, annar bróðir Sigmundar á Látrum, búinn að koma sér upp stofni með um 40 kindum á Látrum. Að auki er hann kominn í hlutverk Sigmundar bróður síns við vegaeftirlit fyrir Vegagerðina. 
 
Í Strandseljum við mynni Laugadals býr Aðalsteinn L. Valdimarsson, sem er með sauðfé og nokkra nautgripi.
 
Ragna Aðalsteinsdóttir á Laugarbóli er enn með um 150 fjár þó orðin sé níræð að aldri og hafi þurft að glíma við blóðtappa í haust. Hún sagðist í samtali við Bændablaðið ekkert vera á þeim buxunum að gefast upp þótt næsti nágranni hennar, Sigurjón Samúelsson á Hrafnabjörgum, hafi neyðst til að flytja á öldrunardeild sjúkrahússins á Ísafirði í haust. „Það er seigt í sumum,“ sagði Ragna.
 
Þess utan búa þau Kristján Kristjánsson og Sigríður Hafliða­dóttir enn á Hvítanesi í Skötufirði þótt mjög hafi verið dregið úr fjárbúskapnum þar. 
 
Eins er búskapur í eynni Vigur, þar sem þjónusta við ferðamenn er þó orðinn einn veigamesti pósturinn hjá bændunum Salvari Baldurssyni og Hugrúnu Magnúsdóttur. Síðan hefur einnig verið rekinn hlunnindabúskapur á sumrin í Æðey. Þar með er upptalinn búskapurinn í Inndjúpinu þar sem um 400 íbúar bjuggu á fjölda bæja árið 1950.  
 
Mikið hefur dregið úr búskap í utanverðu Ísafjarðardjúpi 
 
Utar í Djúpinu er svo mjólkurbúskapur í Hattardal og eins er búið á Svarthamri í Álftafirði og í Arnardal við Skutulsfjörð. Nokkrir frístundabændur eru svo með fé að Kirkjubóli í innanverðum Skutulsfirði. Þá hóf Steingrímur Jónsson aftur búskap með sauðfé í Efri-Engidal 2013 eftir niðurskurð á bæði sauðfé og kúm vegna díoxínmengunar frá sorpbrennslustöðinni Funa 2011. Hann segir þó að búskapur sinn í dag flokkist þó vart annað en frístundabúskapur, en hann er með um 100 kindur. Hann segist ekki hafa íhugað að hefja kúabúskap á ný. Stendur Steingrímur enn í málaferlum vegna þess tjóns sem hann varð fyrir við niðurskurðinn og er mál hans gegn Ísafjarðarbæ enn til meðferðar hjá Héraðsdómi Vestfjarða.
 
Á Hrauni í Hnífsdal er fjárbúskapur aflagður þótt þar sé enn búseta. Í Bolungarvík er mjólkurframleiðsla á Ósi hjá Högna Jónssyni og Sunnu Reyr Sigurjónsdóttur. Þá er enn búið með sauðfé á Hanhóli og á Geirastöðum, en stærsti fjárbóndinn í Víkinni er án efa Sigurgeir G. Jóhannsson í Minnihlíð. Eins eru líka nokkrir frístundabændur með kindur og aðstöðu m.a. á Hóli. Þá er búskapurinn við Djúp upptalinn. 

4 myndir:

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum
Fréttir 26. apríl 2024

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum

Gýgjarhólskot í Biskupstungum var útnefnt ræktunarbú síðasta árs á fagfundi sauð...

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...