Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Sauðfjárbóndi á Hjaltlandseyjum að gefa kindunum sínum eitthvert góðgæti.
Sauðfjárbóndi á Hjaltlandseyjum að gefa kindunum sínum eitthvert góðgæti.
Mynd / Páll Imsland
Fólk 8. desember 2017

Í víking til Hjaltlandseyja

Höfundur: Katrín Andrésdóttir og Margrét Jónsdóttir
Dr. Carol Christiansen, einn af skipuleggjendum Shetland Wool Week, bauð Þingborgarkonum að koma á Ullarvikuna og halda námskeið, þá helst tengt lopa og íslensku lopapeysunni. Sömuleiðis vorum við beðnar um að halda fyrirlestur um tilurð Þingborgar og starfið í dag. 
 
Tólf Þingborgarkonur lögðu því af stað frá Keflavík þann 22. september sl. og lentu í Aberdeen. Þar gistum við í eina nótt og sigldum svo daginn eftir með ferjunni „Hjaltland“ til Leirvíkur á Hjaltlandi, með viðkomu í Kirkwall á Orkneyjum og lagt að bryggju í Leirvík kl. 7 um morguninn. Dagurinn fór svo í að kanna bæinn og hitta forsvarsmenn Ullarvikunnar, en fyrsta námskeiðið af þrem var strax morguninn eftir.
 
Mesta athygli okkar vakti hins vegar Uradalebandið. Ullin er frá þrem lífrænt vottuðum sauðfjárbýlum sem búa með hjaltneskt sauðfé, margir tónar af sauðalitum og sömuleiðis band litað með lífrænt vottuðum aðferðum. Þetta band er ætlunin að flytja inn og selja í Þingborg.
 
Þrjú námskeið
 
Við héldum þrjú námskeið, þau seldust upp um leið og þau voru auglýst í vor. Þátttakendur á þeim voru flestir  frá Bretlandseyjum en einnig frá t.d. Noregi, Sviss, Ástralíu, Kanada, Portúgal og Þýskalandi. 
Tvö fyrri námskeiðin voru um lopaprjón og uppbyggingu íslensku lopapeysunnar, þátttakendur fengu lopa og gögn með uppskrift að peysu og þar var einnig hægt að teikna eigið mynstur. Margrét Jónsdóttir og Katrín Andrésdóttir önnuðust undirbúning þessa námskeiðs, mikil ánægja var með það og nægur tími gafst til kennslunnar. Einnig buðum við upp á pakkningu með kraga í lopapeysustíl, ágætt verkefni til að æfa sig í lopaprjóni. Lopaprjón er svolítið séríslenskt og það er öðruvísi að prjóna úr lopa en spunnu bandi. Okkur kom á óvart hve margar reyndar prjónakonur höfðu veigrað sér við að prjóna úr plötulopa, þarna getum við gert betur með kynningu og kennslu.
 
Þriðja námskeiðið var um Hafsjalið sem Katrín hannaði. Á því námskeiði gafst fólki kostur á að kaupa tilbúna pakkningu, uppskrift og Þingborgarband (Dóruband) sem Halldóra Óskarsdóttir litar. Allir keyptu sér pakka og sumir fleiri en einn. 
 
Þessar pakkningar fást núna í Þingborg, einnig er auðvitað hægt að kaupa uppskriftina og liti að eigin vali.
 
 
Húsfyllir var á fyrirlestrinum og komust færri að en vildu, okkur var sagt að þetta væri stærsti viðburður á Shetland Wool Week frá upphafi.
 
Fyrirlesturinn
 
Fyrst sagði Hildur Hákonardóttir frá tilurð og  hugmyndafræði Þingborgar. Það kemur enginn að tómum kofunum þar sem Hildur er annars vegar og var erindi hennar mjög fróðlegt og skemmtilegt. Katrín talaði svo um sameiginlegan arf okkar Hjaltlendinga, norræna stuttrófuféð, íslenska fjárstofninn og litaflóru fjárins, um íslensku ullina, vinnslu hennar og sérstaklega þá hvernig hún er nýtt í Þingborg.  Margrét greindi síðan frá starfinu í Þingborg og hvernig starfsemin hefði þróast. Verslunin í Þingborg gengur mjög vel og viðskiptavinirnir kunna vel að meta þá gæðavöru sem þar er á boðstólum.
Húsfyllir var á fyrirlestrinum og komust færri að en vildu, okkur var sagt að þetta væri stærsti viðburður á Shetland Wool Week frá upphafi!
 
Á öðrum kvöldfyrirlestri kynnti Hildur Hákonardóttir bók sína um kljásteinavefstaðinn. Meðhöfundar Hildar og með henni á myndinni eru þær Elizabeth Johnston og Marta Kløve Juuhl.
 
Spunasystur
 
Rangæska hópnum „Spunasystur“ var einnig boðið á Ullarvikuna.
 
Spunasysturnar flugu um Glasgow til Leirvíkur. Fyrir hópnum fór Maja Siska, hún kom með sýninguna sína „Óður til kindarinnar“ sem vakti mikla athygli og aðdáun. Maja var einnig með námskeið í lokkaspuna og Ingibjörg Sveinsdóttir kenndi um opnun og lista á lopapeysum.
 
Aukið samstarf sunnlenskra ullarkvenna er mjög ánægjulegt. Austan Þjórsár hefur verið meiri áhersla á spuna, það skilar sér t.d. í „Uppspuna“, spunaverksmiðju Huldu og Tyrfings, þar sem framleitt er mjög fallegt band. Einnig má þakka Spunasystrum fyrir töluverða vakningu um feldfjárrækt. 
 
Þingborgarkonur og Spunasystur fóru saman í hópferð (æfing í vinstri akstri) í veðri sem minnti helst á íslenska haustlægð. Við heimsóttum m.a. bónda sem var með hjaltneskar stuttrófukindur, flestar mislitar, ærnar kollóttar en hrútarnir sívalhyrndir. Útlitið er kunnuglegt og litanöfnin sömuleiðis, moorit og moget heyra íslensk eyru sem mórautt og mögótt.
 
Því miður verður þetta fé samt undir í samkeppninni um afurðasemi, fé af „ensku kyni“ skilar þyngri skrokkum og meiri ull.
 
Mikil virðing er borin fyrir ullinni á Hjaltlandi.
 
Við hliðina á hótelinu þar sem við gistum eru bækistöðvar Jamieson og Smith, þeir kaupa ull frá bændum og flokka, lita og spinna. Þeir flokka reyfið í fimm hluta, mjög nákvæm flokkun. Ullin er síðan send niður á meginlandið í spuna. Þarna keyptum við auðvitað töluvert af bandi.
 
Mesta athygli okkar vakti hins vegar Uradalebandið. Ullin er frá þrem lífrænt vottuðum sauðfjárbýlum sem búa með hjaltneskt sauðfé, margir tónar af sauðalitum og sömuleiðis band litað með lífrænt vottuðum aðferðum. Þetta band hyggjumst við í Þingborg flytja inn og selja í versluninni. 
 
Framtíðarsýn Þingborgar
 
Starfið í Þingborgarhópnum er mjög gefandi og skemmtilegt. Hópurinn hefur heldur verið að stækka undanfarið, ,,gamlar“ Þingborgarkonur hafa verið að koma aftur og eins hafa bæst í hópinn nýjar konur sem allar hafa eitthvað nýtt fram að færa. Gæðaeftirlitið er alltaf jafn strangt í Þingborg og það hefur skilað sér í góðu orðspori. 
 
Lopinn okkar er líka mjög sérstakur, í náttúrulegum litum og sérunninn fyrir okkur af Ístex. Forsvarsmenn Ístex hafa sýnt okkur sérstaka þolinmæði og kunnum við þeim miklar þakkir fyrir þeirra þátt í velgengni okkar. Þeir leyfa okkur að fara í gegnum ullina í Þvottastöð Ístex á Blönduósi og velja það sem við viljum fá í lopann okkar. Það er fróðlegt að skoða ullina í þvottastöðinni, margir bændur ganga mjög vel um ullina en því miður eru alltof margir pokar sem við gerum ekkert annað við en loka aftur. Skítug ull og stundum jafnvel blaut og þar af leiðandi illa lyktandi. Íslenskir bændur margir hverjir þurfa að taka sig vel á í meðferð ullar, það gengur ekki að senda ull sem er skemmd af húsvist. Í það minnsta lítum við ekki við svoleiðis ull. Það eru verðmæti fólgin í ullinni og því allra hagur að hugsa sem best um hana. 
 
Í janúar höldum ­við Þingborgarkonur á Blönduós enn eina ferðina, það er alltaf tilhlökkun þó það sé mikil vinna að velja ullina í lopann. Við vonum að við fáum mikið af fallegri ull í öllum litum, við hvetjum því alla bændur sem nú á næstu vikum rýja sitt fé að vanda sig í meðferð ullarinnar.
 
Katrín Andrésdóttir
Margrét Jónsdóttir Syðra-Velli

10 myndir:

Svínaflensa í Rússlandi
Fréttir 27. september 2022

Svínaflensa í Rússlandi

Afríska svínaflensan greindist á stóru rússnesku svínabúi í lok sumars. ...

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið
Fréttir 30. ágúst 2022

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið

Uppfærslur á verðskrám sláturleyfishafa, vegna sauðfjárslátrunar 2022, halda áfr...

Fjár- og stóðréttir 2022
Fréttir 25. ágúst 2022

Fjár- og stóðréttir 2022

Fjár- og stóðréttir verða nú með hefðbundnum brag, en tvö síðustu haust hafa ver...

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður
Fréttir 7. júlí 2022

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður

Staðfest er að samtals 128 gripir bera annaðhvort ARR-arfgerð, sem er alþjóðlega...

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021
Fréttir 7. júlí 2022

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021

Afurðatekjur af nautaeldi mæta ekki framleiðslukostnaði og hafa ekki gert síðast...

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir
Fréttir 27. júní 2022

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar umtalsverðar hækkanir á afurðaverði til sauðfjárb...

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“
Fréttir 14. júní 2022

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“

Stjórn Bændasamtakana telur skýrslu og tillögur Spretthóps, sem lagaðar voru fyr...

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning
Fréttir 14. júní 2022

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning

Spretthópur, sem matvælaráðherra skipaði vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframle...