Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
IKEA á Íslandi.
IKEA á Íslandi.
Mynd / HKr.
Fréttir 12. janúar 2018

Hyggst kolefnisjafna IKEA innan tíu ára

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Þórarinn Ævarsson, framkvæmda­stjóri IKEA á Íslandi, segir að fyrirtækið reyni að vera sér sjálfbjarga með flesta hluti, meira að segja með snjómoksturinn á bílastæðunum. Stefnir hann m.a. á sjálfbærni í raforkumálum og kolefnisjöfnun á næstu árum.
 
„Það hefur allavega gefist vel fyrir okkur. Við vorum að upplifa það fyrir nokkrum árum að eftir að snjóa leysti á vorin, þá var bílastæðið hálfónýtt eftir snjómoksturstæki og verktaka sem fengnir höfðu verið til að moka. Það var búið að brjóta alla kantsteina, blóm og tré. Það kostaði okkur því margar milljónir á ári að laga eftir moksturinn. Ástæðan var að verktakarnir voru með allt of stór tæki í þessu og á þeim voru menn svo að vinna í akkorði. Það gat bara ekki endað vel. Ég skil það hins vegar vel að þegar menn eru búnir að gera samning við tíu eða 15 aðila um að hreinsa frá þeim snjóinn fyrir klukkan átta á morgnana þá þurfi menn að flýta sér. Svo heldur kannski áfram að snjóa en verktakinn horfinn á braut. Oft er það líka þannig að það þarf að koma snjónum í burtu þótt síðustu ár hafi varla snjóað neitt að ráði. 
 
Á þessu svæði hér við IKEA er hvert einasta stæði feikilega mikilvægt, sérstaklega eftir að Costco opnaði í nágrenninu. Við megum því ekkert við því að hér séu öll stæði full af snjó. Svo þarf líka að koma honum í burtu. 
 
Ég er hér með starfsfólk á nóttunni sem vaktar húsið og hér er gæsla allan sólarhringinn. Ef það fer að snjóa þá eru þjófar yfirleitt ekki á ferðinni, þannig að við getum nýt mannskapinn í snjómokstur. Við erum með tvær stórar dráttarvélar og á þær eru til snjótennur, blásarar og saltarar. Við erum líka með fleiri tæki sem eru geymd inni. Afkastagetan er því mikil og við erum því bæði að moka okkar svæði og þjónustum öll önnur fyrirtæki í kringum okkur líka, eins og Toyota og fleiri. Þegar svo hættir að snjóa eru menn að dunda sér við að moka snjónum hér út í hraunið. Þetta kemur því ágætlega út. 
 
Búið er að koma upp 60 hleðslustöðv­um fyrir viðskiptavini og starfsfólk IKEA. Verður þeim fjölgað eftir þörf­um að sögn framkvæmdastjóra.
 
Hleðslutæki fyrir rafbíla starfsfólks og viðskiptavina
 
Það er líka annað sem er tengt bílastæðunum og þjónustunni við viðskiptavini IKEA, en það er fjöldi hleðslutækja sem búið er að setja upp fyrir rafbíla. Hvaða hugsun er þar í gangi?
 
„Við erum sannfærð um að þetta sé framtíðin, allavega upp að einhverju marki. Það er mjög gaman að sjá hvað bændur á Íslandi eru að gera í þeim efnum. Ég veit að þeir hafa leitað til þess fyrirtækis sem seldi okkur hleðslustöðvar og ég hef verið að forvitnast um hvernig þetta hefur gengið hjá þeim. Mér finnst algjör snilld að setja hleðslutæki heim á bæina. Það mun loka hringnum miklu betur varðandi aukna notkun rafbíla heldur en fimm eða sex stöðvar á leiðinni til Akureyrar.“
 
Telur uppsetningu bænda á hleðslustöðvum algjöra snilld
 
Þórarinn telur líka borðleggjandi að ávinningurinn af uppsetningu rafhleðslustöðvanna sé mikill fyrir alla aðila. Það hafi t.d. mikið auglýsingagildi fyrir bændur sem eru með ferðaþjónustu.
 
„Ég tel það algera markaðssnilld hjá bændum sem eru í ferðaþjónustu að vera með rafhleðslustöðvar heima við. Bæði er það þannig að bændur gætu verið með lítils háttar veitingarekstur og boðið vegfarendum upp á hleðslu í 60–90 míútur meðan menn snæða hjá þeim og eins náttúrlega yfir nóttina, fyrir þá sem eru að fara að gista. 
 
Þetta steinliggur hjá bændum, sérílagi þeim sem eru með heimavirkjun og fyrir þá sem hafa áhuga á að nýta sér stór hlöðu- eða fjárhúsþök fyrir sólarsellur.
 
Krafan verður innan skamms sú að fólk ætlast til að geta hlaðið bíla þar sem það stoppar og þeir sem ekki fylgja með sitja eftir.“
 
 
Ókeypis rafmagn enn um sinn og stöðvum fjölgað eftir þörfum
 
Hér við IKEA erum við með 60 stöðvar. Þar af 50 fyrir viðskiptavini og tíu fyrir starfsmenn. Fyrir okkur er þetta margþætt tilraun. Í fyrsta lagi erum við með þessu að gefa ákveðna yfirlýsingu um að við stuðlum að notkun vistvænna orkugjafa,“ segir Þórarinn.
 
Hann segir að uppsetning þessara stöðva sé í takt við þeirra stefnu að hjálpa til við rafbílavæðingu landsins. Aðspurður um hvort raforkan verði áfram ókeypis á bíla hjá IKEA segir hann:
„Þetta verður svona um fyrirséða framtíð, en á einhverjum tímapunkti, þegar greiðslumiðlunin verður orðin algerlega sjálfvirk, bíllinn talar við hleðslustöðina og greiðsla fer fram án posa eða starfsmanna, þá má skoða að rukka eitthvert lítilræði fyrir rafmagnið. 
 
Við munum fjölga hjá okkur stæðum fyrir rafhleðslu eftir því sem þörfin eykst og ætlum að passa upp á að vera ávallt með nóg af þessum stæðum.“
 
Hefja tilraunir með vorinu á virkjun sólarorku
 
„Við erum að fara af stað með tilraun á vormánuðum með að setja sólarsellur á þak tæknibyggingar hér við hliðina. Það er um 200 fermetra flötur. Rafmagnið sem þær sellur framleiða ætlum við að nota til að knýja rafbílaflota starfsmanna og afsanna í leiðinni að það gangi ekki upp á norðurslóðum að nota sólarsellur. 
 
Það hafa orði feikilegar tækniframfarir í hönnun sólarsella. Sérfræðingar tala nú um að hægt sé að ná um 80% nýtingu hérna miðað við miðbaug á sömu breiddargráðu í Noregi. Við ætlum því að prófa þetta hér. Ef þetta gengur almennilega ætlum við að setja þetta líka hér upp á þakið á IKEA.
 
Það er 25 ára ábyrgð á þessum sellum og þetta á að borga sig upp á fimm til sjö árum miðað við raforkuverð á Íslandi.“
 
Sólarsellur gætu hjálpað til á erfiðum stöðum
 
„Víða eru menn mjög ragir við þessa rafbílavæðingu vegna þess að það eru ekki nógu sterkir flutningsstofnar á rafmagni. Menn tala um vesturbæ Reykjavíkur sem dæmi. Þar er ekki hægt að setja upp hleðslustöðvar. Sólarsellur gætu mögulega hjálpað þar til. Maður sér það fyrir sér líka varðandi sumarbústaði úti á landi sem og sveitabæi. Það er að eiga sér stað sú þróun að menn ættu að geta sett upp sólarsellur og hlaðið inn rafhlöður heima hjá sér. Þannig geta menn geymt orku þar til þörf er á að nota hana. 
 
Hér á Íslandi höfum við lítið þurft að hugsa um þessa hluti vegna þess að rafmagnið er ódýrt.  Bretar og fleiri þjóðir eru komin mun lengra á þessari braut. 
 
Okkur langar til að prófa þetta og, ef það gengur vel, að leyfa öllum að fylgjast með og veita almenningi aðgang að þeim upplýsingum. Við ætlum ekki að sitja að þessu ein. Við erum tilbúin til að taka áhættuna og borga kostnaðinn við þetta.“
 
Væntir þess að stofnkostnaðurinn skili sér á átta árum
 
Þórarinn segir að búnaðurinn sem hann ætlar að setja upp hér kosti allt í allt um fjórar milljónir króna. 
„Raforkusparnaðurinn miðað við verð á kílóvattstund í dag er um 500 þúsund krónur á ári. Þetta er raforka sem ég myndi annars kaupa af veitukerfinu. Það þýðir að stofnkostnaðurinn ætti að skila sér á átta árum. Þetta miðast við að ég geti verið með 8 bíla í hleðslu á 16 amperum sem er ansi mikið. Við erum nú með 11 ampera hleðslustöðvar og reyndar líka 16 ampera stöðvar og eina öfluga 60 ampera stöð. 
 
Ég sé fyrir mér mikla möguleika sem í þessu felast. Fólk sem á mögulega bústað úti á landi, þar sem raforka er mjög takmörkuð, getur t.d. verið með sólarsellur uppi á þaki í bústaðnum til að fullhlaða rafhlöðu sem bæði nýtist til upphitunar og fyrir rafbíl. Svo ekur það í bæinn og tengist stöð hjá okkur og endurhleður til að komast til baka. Svo er fólk oft að fara í helgarferðir upp í sumarbústað þar sem bíllinn stendur megnið af tímanum óhreyfður. Þann tíma má hæglega nota til að hlaða rafbíl. Ég vona að með því sem við erum að fara að gera, þá getum við sýnt fólki fram á það að hindranirnar við notkun rafbíla eru minni en við höldum. Þess vegna er ég svo hrifinn af því sem bændur eru að gera, að vera með hleðslustöðvar úti um allt land. Menn þurfa því ekkert að óttast það að vera stopp úti í sveit.“
 
Hyggst kolefnisjafna IKEA á Íslandi innan tíu ára
 
„Við ætlum að kolefnisjafna fyrirtækið innan tíu ára, það er okkar stefna og við ætlum að vera leiðandi á því sviði. Það verður gert á ýmsa vegu. Við ætlum að vera leiðandi í að framleiða okkar eigið rafmagn. Við ætlum að nota allan þann lífræna úrgang sem fellur til hér á veitingastaðnum til að framleiða metangas og moltu. 
 
Við erum með garðyrkjumarkað hér fyrir framan húsið og draumurinn er sá að við seljum þar okkar eigin mold sem er í raun leifarnar af kjötbollunum sem viðskiptavinir matsölustaðarins skildu eftir á disknum sínum. Þannig búum við til vistvæna hringrás.“
 
Þórarinn vonast til að í framtíðinni geti IKEA á Íslandi framleitt sittt eigið rafmagn með sólarorkurafhlöðum sem staðsettar yrðu á þaki byggingarinnar. Þá verði allir matarafgangar sem til falla frá veitingastaðnum, sem og afgangsolía, nýtt til gas- og moltugerðar. 
 
Vill tankvæðingu fyrir lífrænan úrgang
 
„Við erum ásamt nokkrum öðrum stórum fyrirtækjum í veitingarekstri að reyna að koma því í gegn að í stað þess að setja ruslið í poka, þaðan út í tunnu og síðan í ferli hjá Sorpu, þá séu veitingastaðir með tanka fyrir lífrænan úrgang. Það er ekkert ósvipað og í gripahúsum í landbúnaðinum. Síðan komi tankbílar og dæli þessu upp og flytji það í metangasverksmiðju.   
 
Sem dæmi þá fer öll sú úrgangs matarolía sem fellur til hér á veitingastaðnum til að knýja að hluta fiskiskipaflota Akureyringa. Þannig eru skip Samherja að keyra á steikingarolíunni frá IKEA. Þetta er töluvert magn sem til fellur. 
 
Fyrir utan þetta erum við líka að spá í skógrækt og munum stíga þessi skref eins langt og við þurfum.“ 
Þórarinn segir að þetta sé stefna sem bæði er að hans frumkvæði og einnig sé verið að nýta stefnu IKEA hvað varðar framleiðsluhliðina, þar sem t.d. eingöngu er notað timbur í framleiðsluna sem er umhverfisvottað. Þeir noti líka eingöngu bómull sem er vottuð. Pálmaolía sem notuð er við matvælaframleiðslu er mjög umdeild af umhverfisástæðum, en þar segir Þórarinn að IKEA noti eingöngu umhverfisvottaða olíu. Þeir passa líka upp á að ýmis önnur óheppileg efni séu ekki notuð við framleiðsluna. 
 
Ekki nóg að skipunin komi að ofan
 
„Við erum svo að hugsa um hvað við getum gert fyrir umhverfið er varðar allt sem lýtur að versluninni sjálfri. Þarna þurfa allir að hjálpast að og ekki nóg að skipunin komi að ofan.“
 
Það eru peningar fólgnir í því að vera umhverfisvænn
 
„Þess utan þá eru peningar fólgnir í því að gera þetta vel. Það eru peningar fólgnir í því að framleiða metan úr sorpinu okkar í stað þess að borga fyrir förgun. Í dag er það þannig að við flokkum allt rusl og fáum greitt fyrir bylgjupappann sem við skilum til endurvinnslu og er sendur til Svíþjóðar. Við að flokka timbur sem til fellur í litað og ólitað þarf ég að borga minna í förgun en ella. Þarna spörum við okkur útgjöld og fáum hugsanlega smá tekjur líka við að sinna þessum málum.“
 
Peningalegir hagsmunir liggja í eigin raforkuframleiðslu
 
„Það eru peningalegir hagsmunir í því að framleiða eigið rafmagn. Þá má líka horfa á það að ef við framleiðum raforku inn á rafhlöður þá spennujafnar það húsið. Það er ekki nema tæpur mánuður síðan að það sló niður eldingu í spennuvirki vegna álversins í Straumsvík. Þá fór rafmagnið af Garðabæ og Hafnarfirði. Þrátt fyrir að við séum með dísilvaraaflsstöð og með ufsa til að tengja við tölvurnar svo þær hangi inni á kerfinu, þá verður alltaf tjón í slíkum tilvikum. Það verður spennupunktur sem myndast við höggið þegar rafmagn fer af og á. Hér varð því tjón upp á milljónir króna og slíkt gerist nokkuð reglulega. Þetta er tjón sem seljandi raforkunnar bætir ekki, því þú getur aldrei sannað að orsökin sé vegna spennufalls. Maður reynir ekki einu sinni að fara í slíka vegferð.  
 
Með því að vera með sólarsellur á þakinu og hlaða rafmagni inn á rafhlöður, þá virka þær eins og þéttar og taka allt högg vegna spennusveiflu í burtu. Þarna skapast því afleiddur sparnaður fyrir okkar tölvukerfi. Það er því ekki spurning að það felast fjárhagslegir hagsmunir í því að við framleiðum okkar eigið rafmagn úr sólarorku,“ segir Þórarinn Ævarsson.  

17 myndir:

Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum
Fréttir 20. júní 2024

Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum

Hvítlauksbændurnir í Neðri-Brekku í Dölum fengu nýlega tvo styrki úr Matvælasjóð...

Verðlaunuðu góðan árangur
Fréttir 20. júní 2024

Verðlaunuðu góðan árangur

Tabea Elisabeth Schneider hlaut verðlaun fyrir besta árangur á B.S. prófi þegar ...

Fuglum fækkar vegna óveðurs
Fréttir 20. júní 2024

Fuglum fækkar vegna óveðurs

Samkvæmt fuglatalningu varð algjört hrun í fjölda fugla á Norðausturlandi þegar ...

Óhrædd að takast á við áskoranir
Fréttir 19. júní 2024

Óhrædd að takast á við áskoranir

Tilkynnt var um ráðningu Margrétar Ágústu Sigurðardóttur í starf framkvæmdastjór...

Halla færir út kvíarnar
Fréttir 19. júní 2024

Halla færir út kvíarnar

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjuframleiðandi og eigandi garðyrkjustö...

Sala Búvís stöðvuð
Fréttir 19. júní 2024

Sala Búvís stöðvuð

Samkeppniseftirlitið hefur komið í veg fyrir að Skeljungur kaupi Búvís ehf. þar ...

Heitt vatn óskast
Fréttir 19. júní 2024

Heitt vatn óskast

Bláskógaveita, sem er í eigu sveitarfélagsins Bláskógabyggð, hefur óskað eftir t...

Minni innflutningur og meiri framleiðsla
Fréttir 19. júní 2024

Minni innflutningur og meiri framleiðsla

Um 300 tonn af nautakjöti voru flutt inn á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2024.