Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Hvert fer ágóðinn af kynbótastarfinu?
Á faglegum nótum 21. janúar 2015

Hvert fer ágóðinn af kynbótastarfinu?

Höfundur: Jón Viðar Jónmundsson
Eitt af verkfærum bænda til aukinnar hagræðingar í landbúnaði í tæpa öld hefur verið kynbótastarf. Rökin fyrir stuðningi ríkisins við þetta starf hjá flestum þjóðum hefur öðru fremur verið sá að hagnaðurinn skili sér að stærstum hluta til neytenda í lægra vöruverði og/eða meiri gæðum framleiðslunnar. Augljóst er samt að þetta getur verið mjög breytilegt eftir því hver framleiðslan er og nægir þar að benda á annars vegar mjólkurframleiðslu og hins vegar hrossarækt hér á landi. 
 
Beinar mælingar á því hvert ágóðinn skilar sér í mjög löngum framleiðslu- og söluferli getur verið mjög flókið að mæla en það á við mest af framleiðslu búfjárafurða. Þess vegna er ekki um gróskuríkan garð rannsókna sem hægt er að vitna til í þessu sambandi.
 
Hver er ágóðinn?
 
Nýverið barst mér í hendur erindi sem Ástralíumaðurinn R. G. Banks hélt á heimsráðstefnunni um búfjárrækt sem haldin var í Kanada síðsumars á síðasta ári. Titill erindisins var sá sami og fyrirsögn greinarinnar. Höfundurinn mun um árabil hafa starfað að skipulagningu í sauðfjár- og holdanautarækt í sínu heimalandi. Margt í hans málflutningi finnst mér styðja hugmyndirnar sem hið félagslega ræktunarstarf í búfjárrækt hér á landi hefur byggt á síðustu áratugi. Hér á eftir vil ég reyna að koma á framfæri nokkrum atriðum úr erindinu og skoða eitthvað með hliðsjón af starfi hér á landi.
Hann byrjar á að segja að ágætt sé að velta fyrir sér þrem viðbótarspurningum: Hvað eru kynbótaframfarir?, Græðir einhver á þeim og getum við verðlagt ágóðann? Skiptir máli hver hagnast?
 
Kynbótaframfarir
 
Það er löngu þekkt að mögulegt er að ná kynbótaframförum fyrir fjölda eiginleika og við getum mælt þær af mikilli nákvæmni. Við verðum að vita hvað við viljum bæta (skilgreina ræktunarmarkmið), mæla eiginleika, velja fyrir þeim og uppskera árangurinn. Framleiðsluferillinn er hins vegar langur og hann er síbreytilegur vegna þess að við vinnum með lifandi gripi. Þarna ber hann þetta saman við bílaiðnaðinn þar sem eru árgangar sem breytast með vissu millibili.
 
Framleiðsluferillinn er langur og mjög breytilegur. Hann tekur sem dæmi holdanautaframleiðslu í Bandaríkjunum og Ástralíu. Byrjunin eru kynbótabúin sem eru um 12.000 samtals í báðum löndum. Þvínæst koma holdanautahjarðir sem telja verulega á níunda hundruð þúsunda búa, þá koma venjuleg framleiðslubú sem eru yfir 100 þúsund og eldisstöðvar (feedlots) sem eru um 2.300, sláturhúsakeðjur eru hins vegar aðeins átta og smásöluaðilar skipta þúsundum. Hér og þar er sá meginmunur að kynbætur eru aðeins unnar á tiltölulega fáum ræktunarbúum en framleiðslan fer fram í holdanautahjörðunum þaðan sem kálfarnir fara á framleiðslubú eða í eldisstöðvar fram til slátrunar. Í búfjárrækt hér á landi er allur þessi hluti ferilsins hins vegar nær ætíð allur í einni og sömu einingunni. 
 
Nokkur augljós atriði þessarar skiptingar sem ástæða er að benda á:
Kynbótabúin eru lítil en mörg og ráða hvert og eitt yfir litlu fjármagni og geta ekki fjármagnað rannsóknir og skýrsluhald nema að vissu marki.
 
Eiginleikarnir birtast í framleiðslueiningum utan kynbótabúanna. Þetta á ekki við hérlendis en gæti verið umhugsunaratriði hvort gæti átt við að einhverju leyti í sauðfjárrækt hér á landi.
 
Lítið eða ekkert flæði verðskilaboða frá markaði berst til hins enda keðjunnar.
 
Ýmis andstæð viðhorf geta verið á mismunandi stöðum í ferlinum. Höfundur nefnir t.d. að sláturhúsakeðjurnar sé oft uppteknastar af magni meðan neytendur ef til vill leggi meiri áherslu á gæði.
Þetta leiði því auðveldlega til að áherslur í byrjun verða oft ekki þær sem skila ferlinum í heild mestu.
 
Hvar birtist ágóðinn?
 
Það sem best er þekkt er að kynbótaframfarir leiða til lækkunar framleiðslukostnaðar og/eða aukinna gæða framleiðslunnar og slíkt skapar ágóða einhvers staðar í framleiðslukeðjunni. Mest hjá neytendum en fleira kemur til.
 
Kynbótastarfið skapar einnig betri upplýsingar um kynbótagripina sem eru verðmæti sem ræktandinn getur fengið til sín sem auknum hluta í sölu kynbótagripa. Þarna suður frá hafa þeir lagt mat á hve miklu slík betri þekking á kynbótagripunum er í raun að skila bæði í holdanauta- og sauðfjárrækt. Sem betur fer er orðið algengt að það sé talsvert umfram aukinn kostnað við upplýsingaöflun og skýrsluhald.
Stóraukin þekking og færni þeirra sem við kynbótastarfið fást er full ástæða til að meta sem auðævi og sú aukna hæfni skilar sér víða í daglegri önn.
 
Ávallt má ræða hvort minni framfarir vegna dreifðrar ákvarðanatöku í kynbótum í þessum greinum sé yfirunnin að minni áhættu í ræktunarstarfinu. Hin dreifða ákvarðanataka í ræktun þessara tegunda skilar sér líklega í meiri erfðabreytileika í stofninum. Frávik frá hámarksframförum er auðvelt að mæla en minni áhættu og aukinn breytileika er miklu erfiðara að verðleggja. Þetta er innbyggt í uppbyggingu greinanna og spurning hvort það sé til lengdar samt ekki samkeppnishæft við slíkt starf í svínum og kjúklingum.
 
Hvert fer ábatinn?
 
Ekki er um auðugan garð að gresja í sambandi við rannsóknir á mati á ágóða ræktunarstarfsins og skiptingu hans. Fyrir um áratug birti Nýsjálendingurinn Amer, sem síðari ár hefur verið mest áberandi kenningasmiður í þessum fræðum, útreikninga sína á ágóða ræktunarstarfs í holdanauta- og sauðfjárrækt í Bretlandi og mat hann ábatann 32%. Ekki gerði hann tilraun til að meta dreifingu hans. Hann fann að við 7% vaxtakröfu þá var hlutfall ágóða á móti kostnaði 8:1. 
 
Ástralir hafa lengi staðið framarlega í landbúnaðarhagfræði og velt meira en margir aðrir fyrir sér hvernig takmörkuðu framlagi til rannsókna og þróunar sé best varið. Fjármögnun rannsókna og þróunar í landbúnaði byggir mest á framleiðendagjaldi af allri kjötframleiðslu þar sem ríkisvaldið leggur einnig fé á móti. Þessi fjármögnun nemur í heildina um 2% af heildarverðmætum kjötframleiðslunnar á framleiðenda­stigi. Mesta vandamálið við mat á ábatanum er að fá upplýsingar um verð framleiðslunnar á ýmsum stigum framleiðslunnar. Þetta stafar bæði af áhugaleysi um öflun á þessum verðupplýsingum eða vissir aðilar í framleiðslukeðjunni vilja ekki veita öðrum aðgang að slíkum upplýsingum. Þetta er líklega ekki alveg óþekkt við hérlendar aðstæður. Þess vegna þarf stundum að byggja mat á þessum stærðum á eigin hyggjuviti. Þróun síðustu ára hefur verið að vissu marki frá fjármögnun beint í kynbótastarfinu á þennan hátt til fjármögnunar á markaðsátaksverkefnum. Þau hafa reynst áhættusöm, hafa skilað árangri, en hann er oft ákaflega flókið að meta. 
 
Ástralir hafa þróað flókin haglíkön til að mæla áhrif breytinga á mismunandi stöðum framleiðslukeðjunnar á hvar og hvernig ábatinn skili sér. Mat þeirra er að í grófum dráttum skilar rúmur fjórðungar ábatans af kynbótastarfi í þessum greinum sér til framleiðenda en ¾ til neytenda. Það er að vísu rétt að taka fram að á miklum útflutningsmarkaði eins og þar er þá skilar hluti ábatans sér til neytenda erlendis.  Rannsóknir þeirra sýna einnig að meira af ábatanum hjá ræktendunum skilar sér sem vaxandi markaðshlutdeild fremur en hærra lífdýraverð. Til lengdar segja þeir að ábatinn skili sér öðru fremur í hækkandi verði lands.
 
Hverjir kosta kynbætur?
 
Höfundur birtir niðurstöður útreikninga um það hverjir standi straum að kostnaði við kynbótastarfið í þessum greinum. Hér verðum við að muna skiptingu bændanna í ræktendur og framleiðendur.
 
Niðurstöðurnar eru að í holdanautarækt koma 24% frá ræktendum, 8% frá framleiðendum og 70% af skattfé. Í sauðfjárræktinni er kostnaðarskiptingin þannig að 20% koma frá ræktendum, 18% frá framleiðendum og 62% af skattfé. Kostnaður ræktenda er sagður tilkominn vegna upplýsingasöfnunar og úrvinnslu upplýsinga þ.e. að breyta söfnuðum upplýsingum í kynbótamat gripa. 
 
Hvaða áhrif hefur þetta á nýja ræktunartækni?
 
Síðasta rúman áratug hefur úrval út frá erfðamengi (genomics) verið mesta tískuorðið í kynbótastarfinu víða um heim. Staðreyndin er sú að það hefur haft byltingarkennd áhrif á framkvæmd kynbótastarfs í mjólkurkúm í stærstu ræktunareiningunum víða um heim en hjá öðru búfé eru áhrifin enn ákaflega takmörkuð. Höfundur segir að reynslan hafi samt sýnt að notagildi þessarar tækni standi og falli algerlega með þeim svipfarsupplýsingum sem séu handbærar við að byggja upp úrval í kynbótastarfinu á þessum grunni. Vangaveltur um ræktunarstarf með slíkri tækni hafi hins vegar leitt til miklu heildrænni sjónarmiða. Sjónarmið neytenda fá aukið vægi og farið er að velta fyrir sér hvernig skila megi ábata starfsins til sem flestra. Fyrir ræktendur er morgunljóst að möguleikarnir liggja umfram allt í sem mestum og fjölbreyttustum svipfarsupplýsingum um búféð.   
 
Mismunandi framkvæmd og sjónarmið
 
Þessu fylgir höfundur eftir með allöngum hugleiðingum um hvernig öryggi kynbótastarfsins verði best tryggt um langa framtíð. Ákvarðanataka verður ætíð á byrjunarpunktinum hjá ræktandanum og árangur þar ræður miklu. Það er nær sjálfgefið að heildræn ákvarðanataka sem horfir á allan framleiðsluferilinn leiðir af sér áherslu á fleiri eiginleika og jafnari áherslur á eiginleika en þröng ákvarðanataka frá sjónarhóli ræktandans eins.
 
Opinber stuðningur við ræktunarstarf beinis að byrjunar­punkti ferilsins en höfundur segir misjafn hvernig áherslur sé lagðar. Bendir á ástralska holdanauta- og sauðfjárrækt sem hafi eingöngu byggst á stuðningi við uppbyggingu verkfæra ræktunarstarfsins meðan í slíkum stuðningi við þannig ræktun í Frakklandi sé einnig beint að ákvarðanatöku um ræktunarmarkmið. Þröng ræktunarsjónarmið bjóði heim hættu á einhliða áherslum og samhliða óæskilegum breytingum í öðrum en tengdum eiginleikum. Viðbrögð við þessu séu leiðréttingar sem leiði til óskaðra breytinga. Dreifð ákvarðanataka leiði til sveigjanlegri stofns og meiri möguleika til að bregðast við snöggum breytingum í framleiðsluumhverfinu eða markaði. 
Gagnvart framtíðinni segir höfundur meginatriði að geta tryggt sem besta og víðtækasta skráningu eiginleika. Auka þurfi skráningu eiginleika sem ef til vill eru ekki þýðingarmiklir í dag en geta haft verulega þýðingu í náinni framtíð. Þetta verði ekki mögulegt að tryggja nema með sameiginlegri fjármögnum slíkra kerfa. Hann telur að einfaldast sé að gera það með samvinnu stjórnvalda og framleiðenda þannig að lagður sé frá hendi framleiðenda skattur á framleiðsluna þar í ferlinum sem gegnsæi og einfaldleiki sé mestur (eins konar búnaðargjald til skýrt afmarkaðs verkefnis). Segir hann fyrirmynda að leita t.d. í sambandi við fjármögnun kornkynbóta í mörgum löndum. Hann telur að þessi leið muni einnig best tryggja samheldni framleiðenda í mismunandi greinum. 
 
Lokaorð höfundar eru að þessi leið muni tryggja það að í framtíðinni verði lækkun framleiðslukostnaðar og aukin gæði framleiðslunnar megináherslur en um leið verði tryggt að bæði lífsgæði gripanna og þróun búskapahátta hafi sín áhrif á mótun kynbótamarkmiða. 

5 myndir:

Skylt efni: kynbætur

Mikill áhugi á íbúðum
Fréttir 7. október 2024

Mikill áhugi á íbúðum

Þrettán umsóknir um sex íbúðir á Kirkjubæjarklaustri bárust íbúðarfélagi Brákar.

Þrjár efstu frá sama bæ
Fréttir 7. október 2024

Þrjár efstu frá sama bæ

Fjórtán hryssur hljóta heiðursverðlaun fyrir afkvæmi í ár. Þrjár efstu hryssurna...

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust
Fréttir 4. október 2024

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust

Skógræktarfélag Íslands hefur valið skógarfuru í Varmahlíð tré ársins 2024.

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir
Fréttir 4. október 2024

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir

Nýlega voru skipaði þrír forstjórar fyrir nýjar ríkisstofnanir sem urðu til með ...

Eftirlíking af hálfri kú
Fréttir 4. október 2024

Eftirlíking af hálfri kú

Nautastöð Bændasamtaka Íslands tók á dögunum í notkun eftirlíkingu af kú sem er ...

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti
Fréttir 3. október 2024

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti

Heilbrigðisnefndir kringum landið hafa gagnrýnt skort á kynningu á nýrri regluge...

Aðgerðaáætlun gefin út
Fréttir 3. október 2024

Aðgerðaáætlun gefin út

Matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, hefur gefið út aðgerðaáætlun fyrir...

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun
Fréttir 3. október 2024

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun

Verkefnið Vatnaskil á Austurlandi miðar að því að efla nýsköpun og stuðla að fjö...