Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Hverjar verða áherslur framboðanna við endurskoðun búvörusamninga?
Mynd / BBL
Fréttir 27. október 2017

Hverjar verða áherslur framboðanna við endurskoðun búvörusamninga?

Höfundur: Tjörvi Bjarnason

Fyrsta endurskoðun búvörusamninga er áætluð árið 2019. Bændablaðið spurði fulltrúa stjórnmálaflokkanna um landbúnaðarstefnu framboðanna og hverju þeir vildu breyta við endurskoðun samninganna og í hvaða tilgangi. 

Bændablaðið sendi spurningar um landbúnaðarmál til allra þeirra framboða sem bjóða fram lista í komandi alþingiskosningum. Öll framboðin sendu svör.

Spurt var: Hverjar eru áherslur framboðsins við endurskoðun búvörusamninga sem áætluð er árið 2019? Hverju vill framboðið breyta við þá endurskoðun og í hvaða tilgangi?  

 

Píratar

„Píratar vilja nýja landbúnaðarstefnu sem gengur út á að virkir bændur sem viðhafa viðurkenndar starfsaðferðir fái grunnstuðning og viðbótarstuðning fyrir sérstök verk­efni. 

Grunnstuðningi er ætlað að tryggja afkomuöryggi bænda. Greiðslurnar eru óháðar vörusölu á mörkuðum, sem getur verið sveiflukennd. Þessum greiðslum er einnig ætlað að stuðla að stöðugu framboði helstu matvara og matvælaöryggi.
 
Framleiðendur hafa frelsi til að bæta afkomu sína með því að aðlaga framleiðsluna að eftirspurn og þörfum neytenda á markaði.  
 
Viðbótargreiðslur eru fyrir sérstök viðurkennd verkefni t.d. endurheimt votlendis, fegrun lands, lífræna ræktun og endurbætur í þágu dýravelferðar og framleiðnibata.“

 

Vinstri græn

„Sem svar við þessu vill Vinstrihreyfingin grænt framboð vísa í ítarlega landbúnaðarstefnu sem hreyfingin samþykkti á landsfundi fyrir tveimur árum og enn er í fullu gildi. Formaður flokksins, Katrín Jakobsdóttir, gerði grein fyrir hinni nýsamþykktu landbúnaðarstefnu í Bændablaðinu skömmu eftir landsfund VG á árinu 2015. 

VG vill öflugan, sjálfbæran landbúnað á Íslandi á félagslegum, byggðalegum og umhverfislegum forsendum.“

 

Framsóknarflokkurinn

„Framsókn vill landbúnaðarstefnu sem tryggir stöðugleika. Gildandi búvörusamningar eiga að tryggja stöðugleika til lengri tíma til að greinin geti fjárfest í samræmi við markmið þeirra um að efla innlenda framleiðslu, tryggja neytendum gæðaafurðir á sanngjörnu verði, fæðuöryggi landsmanna og byggðafestu í landinu.  Áherslur varðandi endurskoðunina 2019 snúa fyrst og fremst að því að festa þessi markmið í sessi og þróa samningana áfram í takt við þau. Tryggja þarf nýsköpun og vöruþróun í landbúnaði til að styðja við bakið á fjölskyldurekstri í greininni. Framsókn vill skapa aðstæður fyrir frekari framþróun á þessu sviði við endurskoðun búvörusamninganna 2019.“

 

Flokkur fólksins

„Flokkur fólksins vill beina fjármagni enn frekar í búvörusamningnum að nýsköpun í landbúnaði, frekari möguleikum á að bændur geti selt afurðir sínar „beint frá bónda“, beingreiðslu til fleiri búgreina og möguleikum á yfirfærslu beingreiðslna frá einni búgrein til annarrar.“ 


 

Viðreisn

„Viðreisn leggur áherslu á aukið vægi umhverfis- og neytendasjónarmiða. Stjórnvöldum ber skylda til þess að gæta hagsmuna neytenda og skattgreiðenda jafnt sem framleiðenda. Viðreisn telur að breyta megi stuðningskerfi landbúnaðarins til hagsbóta fyrir bændur og fyrir almannahag. Viðreisn vill auka frjálsræði framleiðenda í landbúnaði. Viðreisn vill að dregið verði úr framleiðsludrifnum stuðningi en leggur þess í stað áherslu á að stuðningskerfi landbúnaðarins hvetji til fjölbreytni og nýsköpunar í matvælaframleiðslu með landvörslumiðuðum stuðningi. Sérstaða Íslands býður upp á margvísleg tækifæri í vöruþróun og markaðssetningu landbúnaðarafurða. Búvörusamningar eiga að endurspegla vilja til þess að styðja við frumkvöðlaanda og verðmætasköpun sem byggir á hugviti og gæðum.“

 

Dögun

„Draga til baka hugmyndir um að breyta styrkjakerfinu í þá átt sem fyrirhugað er. Það mun aðeins verða til þess að þeir sem mestir eru skussarnir munu fjölga fé og skeyta lítt um afurðir eftir að styrkir verða á hvern haus. Hætta er á að ræktun holdmikils fjár fari forgörðum.“

 

Samfylkingin

„Samfylkingin er ekki sátt við gildandi búvörusamninga og sat hjá við afgreiðslu búvörulaga. Við teljum að samningstíminn eigi að vera styttri og að Alþingi eigi að setja ráðherra samningsmarkið með þingsályktun. Þá telur flokkurinn að samkeppnislög ættu að gilda um mjólkuriðnaðinn og flutti tillögu um það. Markmið við endurskoðun eru að bæta kjör og aðstæður bænda og tryggja neytendum sanngjarnt verð og gæði. Stærri hluti stuðnings þarf að fara til bænda með byggðastyrkjum, grænum styrkjum og nýsköpunargreiðslum – í samræmi við framtíðarsýn í málefnum landbúnaðarins sem nú vantar átakanlega. Þá þarf að leggja sérstaka áherslu á lífræna framleiðslu og átak til að minnka losun.“

 

Miðflokkurinn

„Mikilvægt er að við endurskoðun samninganna sé fyrst og fremst horft til þess hvort umhverfi greinarinnar hafi breyst frá undirritun og þá brugðist við því með viðeigandi hætti. Miðflokkurinn telur mikilvægt að greininni sé gert kleift að vinna meira saman með það að markmiði að skjóta styrkari stoðum undir landbúnaðinn. Flokkurinn hafnar frumvarpi ríkisstjórnar undir forustu Sjálfstæðisflokksins sem gerði ráð fyrir að undanþága mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum yrði felld niður.“

 

Sjálfstæðisflokkurinn

„Sjálfstæðisflokkurinn telur að „ný kynslóð“ að landbúnaðarsamningum eigi að taka við af búvörusamningagerð. Þar verði um samfélagsfjárfestingu í þeim gæðum sem felast í íslenskum landbúnaði. Ný kynslóð samninga verði með fleiri stoðum undir búskap og rekstur á bújörðum. Með hagsmuni þeirra sem í sveitum búa að leiðarljósi. Samninga sem fela í sér meiri sveigjanleika og frelsi til að takast á við breytingar.  Sjálfstæðisflokkurinn vill þannig leggja áherslu á gæði, hreinleika og ábyrga meðferð á landi. Sjálfstæðisflokkurinn vill beita breytingum á skattkerfinu til að auðvelda kynslóðaskipti og styrkja þannig um leið afkomu eldri kynslóðarinnar. “

 

Alþýðufylkingin

„Alþýðufylkingin treystir bændum og samtökum þeirra til að vísa veginn við þá endurskoðun sem innbyggð er í þegar samþykkta búvörusamninga og mun enga kröfu gera um að flýta því ferli sem slíku. Flokkurinn leggur áherslu á sjálfbærni í landbúnaði en helstu markmið sjálfbærni eru fæðuöryggi, matvælaöryggi (hollusta), atvinna, fjölskyldubúskapur, viðhald byggðar í sveitum með tengslum við ferðaþjónustu, skynsamleg landnýting, velferð dýra og náttúru og aðgerðir gegn samþjöppun.“


 

Björt framtíð

„Björt framtíð vill halda áfram að styðja duglega við landbúnaðinn okkar en telur að við þurfum að fá meiri samfélagslegan ábata fyrir fjármagnið sem ríkið leggur til geirans. Björt framtíð vill aflæsa styrkjakerfinu. Við viljum afnema framleiðslutengingu styrkjanna en styðja þess í stað við fjölbreytta nýsköpun til sveita. Það mun toga unga fólkið aftur út í sveitirnar og styðja við fjölbreytt atvinnulíf í bland við ferðaþjónustuna og hefðbundna landbúnaðinn.

Björt framtíð vill að ábúendur á lögbýlum geti sótt um stuðning til ríkisins eftir a.m.k.  þremur leiðum: í gegnum fasta árlega búsetu­styrki; í gegnum styrki til fjölbreyttrar landnýtingar /landbóta  (s.s. túnrækt, kornrækt, nytjaskógrækt, berjarunnar, grænmetisrækt, skjólbelti, náttúruskógar, beitarskógar, gróin beitilönd, landgræðsla, endurheimt votlendis, náttúruvernd, vernd menningarminja, uppbyggingu/ viðhalds ferðamannaleiða, viðhald menningarlandslags o.s.frv.) og í gegnum styrki til fjölbreyttrar nýsköpunar. Bændur geta á þann hátt framleitt eins mikið og þeir vilja af hefðbundnum afurðum (kjöt og mjólk) – í takt við ástand lands og eftirspurn hverju sinni. Við viljum einnig greiða hærri landgreiðslur til þeirra sem nýta landið til framleiðslu á lífrænum afurðum.“

Sláturhús brann til grunna
Fréttir 12. apríl 2024

Sláturhús brann til grunna

Sláturhúsið í Seglbúðum í Landbroti brann til grunna þann 1. apríl.

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa
Fréttir 12. apríl 2024

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa

Matvælastofnun lagði stjórnvaldssektir á þrjú kúabú á Vesturlandi á dögunum vegn...

Dregur úr kaupvilja
Fréttir 12. apríl 2024

Dregur úr kaupvilja

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun apríl sýna að ja...

Staða framkvæmdastjóra BÍ auglýst innan tíðar
Fréttir 11. apríl 2024

Staða framkvæmdastjóra BÍ auglýst innan tíðar

Vigdís Häsler hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands. ...

Erfiðara verður að fá sphagnum og innfluttur jarðvegur CE-vottaður
Fréttir 11. apríl 2024

Erfiðara verður að fá sphagnum og innfluttur jarðvegur CE-vottaður

Búast má við að innflutningur á mómosamold (sphagnumríkri mold) fari minnkandi á...

Bjarkey ætlar að skerpa línurnar
Fréttir 11. apríl 2024

Bjarkey ætlar að skerpa línurnar

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir er nýr ráðherra matvælaráðuneytis en Svandís Svavars...

Greiðslumark færist til Norðvesturlands
Fréttir 11. apríl 2024

Greiðslumark færist til Norðvesturlands

Um sjötíu prósent mjólkurkvóta sem skipti um eigendur á síðasta tilboðsmarkaði f...

Nemendur vilja betri hádegismat
Fréttir 10. apríl 2024

Nemendur vilja betri hádegismat

Fulltrúar ungmennaráðs Mýrdalshrepps vöktu máls á skólamáltíðum á sveitarstjórna...