Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Hver er skoðun frambjóðenda á rekstrarumhverfi mjólkurframleiðslunnar?
Mynd / BBL
Fréttir 26. október 2017

Hver er skoðun frambjóðenda á rekstrarumhverfi mjólkurframleiðslunnar?

Höfundur: Tjörvi Bjarnason

„Rekstrarumhverfi mjólkurframleiðslunnar er mjög miðstýrt og verður að vera það“, segja frambjóðendur Alþýðufylkingarinnar en Samfylkingin telur að „það sé kominn tími til að samkeppnislög nái til mjólkuriðnaðar, framleiðendum og neytendum til hagsbóta.“ Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að framleiðslustýring og heimild til samstarfs um ákveðna þætti úrvinnslu í mjólkuriðnaðinum séu hornsteinar þess árangurs sem neytendur hafa notið eftir hagræðingu undanfarinna ára. Vinstri græn vilja stíga varlega til jarðar í breytingum á rekstrarumhverfi mjólkurframleiðslunnar og Framsókn telur að ekki hafi verið sýnt fram á að núverandi fyrirkomulag sé skaðlegt bændum eða neytendum.

Bændablaðið sendi spurningar um landbúnaðarmál til allra þeirra framboða sem bjóða fram lista í komandi alþingiskosningum. Öll framboðin sendu svör en hér á eftir er mjólkurframleiðslan til umræðu. 

Spurt var: Hver er skoðun framboðsins á rekstrarumhverfi mjólkurframleiðslunnar? Sér það fyrir sér breytingar á því og þá hverjar og á hvaða forsendum? 

 

Píratar

„Landbúnaðarstefna Pírata miðar við að heilbrigð samkeppni komist á í greininni að öðru leyti en því að bændur fái grunnstuðning og viðbótarstuðning fyrir viðurkennd verkefni. Samkeppni í vinnslu mjólkurafurða fellur undir þetta. Til langs tíma litið má vænta þess að það komi öllum vel eins og samkeppni í atvinnulífinu almennt.“

 

Vinstri græn

„VG vill stíga varlega til jarðar gagnvart því að kollvarpa þeirri endurskipulagningu, verkaskiptingu og hagræðingu sem orðið hefur í mjólkuriðnaði og sannanlega hefur skilað neytendum miklu í formi lægra vöruverðs og bændum meiri sölu og bættum kjörum. Vel má þó hugsa sér breytingar sem snúa að því að opna á meiri fjölbreytni í úrvinnslu, þjálla umhverfi fyrir heimaúrvinnslu (beint frá býli) o.fl.“

 

Framsóknarflokkurinn

„Að mati Framsóknar hefur ekki verið sýnt fram á að núverandi fyrirkomulag sé skaðlegt bændum eða neytendum. Hagfræðistofnun Háskólans og fleiri aðilar hafa sýnt fram á þriggja milljarða hagræðingu í greininni sem hefur runnið að einum þriðja til bænda og að tveimur þriðju til neytenda. Þar til færð hafa verið sannfærandi rök fyrir því að annað fyrirkomulag skili betri árangri mun Framsókn ekki beita sér fyrir breytingum á því.“

 

Flokkur fólksins

„Nei, engar breytingar.“ 


 

Viðreisn

„Stefna Viðreisnar er að efla heilbrigða samkeppni á öllum sviðum, þar á meðal í mjólkurframleiðslu og dreifingu mjólkurvara, en á þeim markaði ríkir fákeppni. Óumdeilt er að virk samkeppni er almennt samfélagslega hagkvæm og til hagsbóta fyrir almenning. Hún stuðlar að nýsköpun, fjölbreytni og lægra vöruverði. Grundvallarforsendan er sú að sönnunarbyrðin hvílir á þeim sem mæla gegn samkeppni og þurfa þung rök að liggja til grundvallar undantekninga á almennum samkeppnisreglum.“

 

Dögun

„Jöfn framsækin þróun  í vinnslu og framleiðslu á hinum ýmsu vörum úr mjólk er æskileg. Dögun er ekki hlynnt einokun. Einokun lamar nýsköpun og hamlar vöruþróun.“

 

 

Samfylkingin

„Kominn er tími til að samkeppnislög nái til mjólkuriðnaðar, framleiðendum og neytendum til hagsbóta.“

 

Miðflokkurinn

„Flokkurinn er fylgjandi því umhverfi sem mjólkurframleiðslan býr við í dag. Kerfið tryggir hagkvæmni sem skilar neytendum hollri og góðri vöru á sanngjörnu verði. Mikilvægt er að öllum framleiðendum sé tryggt stöðugt rekstrarumhverfi og því kann að vera nauðsynlegt að kveða skýrar á um undanþágur frá samkeppnislögum sem og ábyrgð markaðsráðandi framleiðenda. “

 

Sjálfstæðisflokkurinn

„Bændur hafa sjálfir ákveðið að taka ákvörðun um framtíð framleiðslustýringar í endurskoðun samninga 2019. Framleiðslustýring og heimild til samstarfs um ákveðna þætti úrvinnslu eru hornsteinar þess árangurs sem neytendur njóta nú af hagræðingu undanfarinna ára. Við endurskoðun búvörulaga í tengslum við endurskoðun samninga við bændur ætti hins vegar að horfa til mun fleiri atriða sem í öðrum löndum eru notuð til eflingar á landbúnaði og til að gæta hagsmuna neytenda. Í lagaumhverfi annarra landa eru ekki árekstrar á milli samkeppnislaga og laga um búvöruframleiðslu. Með endurskoðun laga og stefnumörkun samkeppnismála á að horfa til heilbrigðari samkeppni, hagsmuna minni fyrirtækja og einyrkja. Skýrum ákvæði gegn skortsölu og skaðlegri framgöngu á markaði. “

 

Alþýðufylkingin

„Rekstrarumhverfi mjólkurframleiðslunnar er mjög miðstýrt og verður að vera það. Við slíkar aðstæður þarf að gefa góðan gaum að eignarhaldi á hinu ráðandi fyrirtæki þannig að einkaaðilum gefist ekki færi á að soga til sín verðmæti í gegnum það á kostnað bænda og neytenda. Samfélagslegar forsendur verða fyrst og fremst að vera til hliðsjónar, bæði þegar horft er til kerfisins eins og það er og hugsanlegra breytinga.“



 

Björt framtíð

„Björt framtíð telur að endurskipuleggja þurfi allt skipulag mjólkurframleiðslu, þ.m.t. verðlagningu hennar. Til nánari skýringa vísum við í frávísunartillögu þingflokks BF á frumvarp til búvörulaga frá haustinu 2016 (sjá nánar: www.bjortframtid.is) .“

Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...