Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Hvað vilt þú fyrir íslenskan landbúnað?
Skoðun 20. október 2016

Hvað vilt þú fyrir íslenskan landbúnað?

Höfundur: Erna Bjarnadóttir
Undanfarnar vikur hafa verið snarpar umræður um stöðu og framtíð landbúnaðar og ekki síður þá umgjörð sem honum er sköpuð, aðkomu hins opinbera og löggjöf þar að lútandi. Fulltrúar verslunarinnar sækja það hart að tollar á innfluttar búvörur verði lækkaðir enn frekar og margir stjórnmálamenn og flokkar virðast ætla að taka þessi sjónarmið og gera að stefnu sinni. Hins vegar gætir ósamræmis í málflutningi margra sem segjast á sama tíma vilja hag innlends landbúnaðar sem mestan. Auka verði nýsköpun og útflutning en „kerfinu“ sé um að kenna hve hægt gangi. 
 
Mikil einföldun er að halda því fram að það geti farið saman að lækka eða afnema einhliða tolla á innfluttum búvörum og auka útflutning íslenskra búvara. Almennt eru lagðir tollar á búfjárafurðir sem eru helsta afurð íslensks landbúnaðar í milliríkjaviðskiptum. Forsenda aukins útflutnings á markaði sem gefa gott verð er því að jafnaði að ná fram tollalækkunum eða tollfrjálsum kvótum í gagnkvæmum viðskiptasamningum. Einhliða tollalækkanir slá slík samningatæki úr höndum okkar. 
 
Mikilvægi norðurslóða í matvælaframleiðslu
 
Löggjöf sem tryggir tollvernd og stuðning við landbúnað á sér sér langa sögu hér á landi. Á árunum eftir seinni heimsstyrjöldina var matarskortur víða í Evrópu og þar líkt og hér var margvíslegum aðgerðum beitt til að auka framleiðslu. Nú, 70 árum síðar, er öldin önnur og stuðningur við landbúnað og byggðir er ekki tengdur framleiðslu með sama hætti og áður. Fæðuöryggi er engu að síður mál sem brennur á heimsbyggðinni. Á ráðstefnu um landbúnað á norðurslóðum, sem nýlega var haldin í Reykjavík, kom fram að 94% matar í heiminum er framleiddur á landi en aðeins 3% af yfirborði jarðar er ræktanlegt. Hins vegar eru 73% af ræktarlandi notuð til fóðurframleiðslu fyrir dýr. Mikilvægi norðurslóða sem matvælauppsprettu mun aukast á næstu árum og því þarf að koma á dagskrá stjórnmálanna. Við verðum að horfa á þessi mál  til langs tíma. Annað er óverjandi og ávísun á vanda þegar fram líða stundir. 
 
Búvörusamningar skjóta fleiri stoðum undir landbúnaðinn
 
Um 3.600 manns hafa landbúnað að aðalstarfi hér á landi og aðrir 300 í viðbót starfa í hlutastarfi við landbúnað samkvæmt tölum Hagstofunnar. Landbúnaður er stundaður frá fjöru til fjalls um allt land. Það heyrist oft að „kerfið“ haldi bændum í fjötrum. Sannleikurinn er samt sá að mjólkurframleiðsla, ein búgreina, býr við framleiðslustýringu. Í nýjum búvörusamningi er opnað á hugmyndir til að breyta þessu. Í öðrum búgreinum taka bændur sjálfir ákvarðanir um framleiðsluna. Í nýjum búvörusamningi er hins vegar að finna aðgerðir til að beina stuðningi að fleirum, t.d. að bændum sem eru í útiræktun grænmetis. 
Algengt er að heyra því haldið fram að í lífrænni ræktun felist ómæld tækifæri. Sannleikurinn er sá að allt frá árinu 2010 hafa framlög til stuðnings við aðlögun að lífrænni ræktun verið óbreytt að krónutölu, 3,5 milljónir króna. Í nýjum búnaðarlagasamningi eru þau hins vegar tífölduð. Með þessu er verið að skjóta fleiri stoðum undir landbúnaðinn.
 
Landbúnaður án sýklalyfja og eiturefna
 
Íslenskar landbúnaðarafurðir eru framleiddar í köldu loftslagi og í dreifbýlu landi. Áburðar- og eiturefnanotkun er með því minnsta sem þekkist í landbúnaði í Evrópu og þó víðar væri leitað. Notkun sýklalyfja er einnig með því minnsta sem þekkist á vestrænum löndum. Svo er að heyra að talsmönnum aukins innflutnings, eða í það minnsta afnáms innflutningstakmarkana, láti sér þetta í léttu rúmi liggja. Þeir segja það val neytenda að beina innkaupum að innlendum afurðum. En er þetta alveg svo einfalt? Skiptir ekki máli að við sem þjóð stöndum með heilbrigðum framleiðsluháttum og viðhöldum þekkingu á þeim og stundum rannsóknastarf sem tryggir sérstöðuna? Við eigum að standa vörð um landbúnað sem við þekkjum og treystum. Það er á okkar ábyrgð að standa með slíkum framleiðsluháttum en ekki þeim sem treysta á óhóflega lyfjanotkun með ófyrirséðum afleiðingum.
 
Neytendur standa oft frammi fyrir takmörkuðum upplýsingum, skrifuðum með örsmáu letri á umbúðir. Hingað til hafa reglur um upprunamerkingar ekki tryggt neytendum upplýsingar um uppruna og má nefna kjötvörur í þessu sambandi. Stóraukin vinnsla matvæla, pökkun í neytendaumbúðir og ekki síður neysla matvara í mötuneytum, á skyndibitastöðum og veitingahúsum rýfur enn frekar þessa tengingu. Fæstir spyrja hvaðan maturinn í mötuneytinu kemur. Það er kominn tími til að opinberir aðilar setji sér stefnu í innkaupum á matvörum til stofnana á þeirra vegum sem tryggja að tiltekið hlutfall matvæla í mötuneytum á þeirra vegum uppfylli sömu kröfur og gæði sem afurðir íslensks landbúnaðar búa yfir. Almenningur getur líka beitt sér. Þannig gætu foreldrar barna í leik- og grunnskólum sent skilaboð til skólanna þess efnis að börnin þeirra megi einungis borða íslenskt kjöt þar sem foreldrarnir treysti best innlendum matvörum.  
 
Á Íslandi er leyfilegt að nota fiskimjöl sem próteingjafa í fóðurblöndur fyrir búfé. Próteingjafi í fóðri búfjár í Evrópu er sojamjöl sem flutt er með skipum yfir Atlantshafið frá S-Ameríku. Hér er komið enn eitt lóð á vogarskálar þess að nýta það sem er heimafengið og spara losun kolefnis við flutninga á próteini yfir hálfan hnöttinn.
 
Hvaða stefnu tekur næsta ríkisstjórn í málefnum landbúnaðarins?
 
Samningar ríkis og bænda um stuðning og starfsumhverfi landbúnaðarins eru mikilvægir til að tryggja framtíð atvinnugreinarinnar. Landbúnaðurinn hefur sannarlega hlutverk í að tryggja fæðuöryggi og byggð á öllu landinu. Hvort tveggja er mikilvægt fyrir aðrar atvinnugreinar, ekki síst ferðaþjónustuna. Það skiptir því verulegu máli hver verður stefna nýrrar ríkisstjórnar í málefnum landbúnaðarins.
Leiðir til áburðarsparnaðar í landbúnaði
Fréttir 7. nóvember 2025

Leiðir til áburðarsparnaðar í landbúnaði

Leiðir til áburðarsparnaðar í landbúnaði, sem hluti af nýjum áherslum og forgang...

Dilkakjötsframleiðsla dróst saman um 12%
Fréttir 7. nóvember 2025

Dilkakjötsframleiðsla dróst saman um 12%

Dilkakjötsframleiðsla var 12% minni nú í september en í sama mánuði á síðasta ár...

Togstreita milli ríkja á COP30
Fréttir 7. nóvember 2025

Togstreita milli ríkja á COP30

COP30, þrítugasti aðildarfundur og ráðstefna Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðann...

Mun styrkja félögin verulega
Fréttir 6. nóvember 2025

Mun styrkja félögin verulega

Peder Tuborgh, forstjóri skandinavíska mjólkursamlagsins Arla Foods, segir að me...

Rúmlega þriðjungur skrokkanna rangt flokkaðir
Fréttir 6. nóvember 2025

Rúmlega þriðjungur skrokkanna rangt flokkaðir

Um 36% þeirra skrokka sem lagðir voru inn frá bændum í Arnarholti í Biskupstungu...

Bændasamtökin funda með bændum
Fréttir 6. nóvember 2025

Bændasamtökin funda með bændum

Fundaröð Bændasamtaka Íslands (BÍ) á landsbyggðinni, Við erum öll úr sömu sveit,...

Lagaumhverfi þarf að styrkja
Fréttir 6. nóvember 2025

Lagaumhverfi þarf að styrkja

Laxey, First Water, Samherji fiskeldi, Thor landeldi og Matorka eru fimm stærstu...

Tillaga um að framlengja gildandi búvörusamninga
Fréttir 6. nóvember 2025

Tillaga um að framlengja gildandi búvörusamninga

Á borði Bændasamtaka Íslands er nú tillaga frá stjórnvöldum um að gildandi búvör...