Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Hvað trompar?
Skoðun 30. nóvember 2017

Hvað trompar?

Höfundur: Sigurður Eyþórsson
Flestir sem þetta lesa kannast líklega við að það er oft deilt um hluti tengda landbúnaðinum. Það er erfitt að hafa tölu á því hve oft hefur verið rifist um hluti eins og matvælaverð hérlendis og erlendis, opinberan stuðning við landbúnað eða tollvernd. Svo mun örugglega verða áfram enda erum við ekki og verðum ekki sammála um alla hluti í íslensku samfélagi, frekar en í nokkru öðru.
 
Stundum hættir þeim sem starfa í landbúnaðinum til að einblína um of á gagnrýni á greinina. Það er vissulega skiljanlegt, en við megum samt aldrei gleyma því að íslenskur landbúnaður nýtur gríðarlega mikils velvilja almennings. Öll eigum við rætur í sveitinni þótt þær séu misjafnlega djúpar. Flestir kjósa að kaupa íslenskar afurðir þar sem þess er kostur og hafa ánægju af því að ferðast um lifandi sveitir landsins.
 
Hvað viljum við gera fyrir lægra verð?
 
Eðlilegt hlýtur þó að vera að reyna að tala út frá sama grunni þegar rætt er um landbúnað og spyrja hvað skiptir raunverulega máli. Tollvernd er eitt þeirra atriða sem mikið hefur verið deilt um. Þó er það staðreynd að aðeins um 10% tollnúmera í tollskrá bera einhvern toll yfirleitt. Hlutfallið í Evrópusambandinu er til samanburðar 74%.  Því til viðbótar höfum við gert viðskiptasamninga við ESB þar sem felldir eru niður tollar af verulegum fjölda númera í viðbót svo að það eru ekki orðnar margar vörur sem fluttar eru inn frá Evrópu sem lagður er á tollur. Það sem eftir stendur eru bara lítt unnar landbúnaðarvörur. Þessi tollur er lagður á til að jafna samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu, sem er ekki sanngjörn með öðrum hætti.
 
Við höfum valið það hér að framleiða landbúnaðarafurðir á smærri búum sem yfirleitt eru rekin af fjölskyldum. Það er ekki leitað allra leiða til að pressa verðið niður, til dæmis með því að ráða erlent verkafólk á lágmarkslaunum, stækka einingarnar upp úr öllu valdi, flytja inn afurðahæstu búfjárstofna í heimi, eða nota lyf til að auka vöxt og afurðir. Væri öllum þessum aðferðum beitt mætti örugglega ná verðinu meira niður. En við höfum valið að gera það ekki því okkur er ekki sama hvernig þetta er gert. 
 
Stöndum vörð um verðmæti okkar
 
Það er til eitt kúabú í Kína sem er 60% stærra en allur íslenski mjólkurkúastofninn. Við höfum staðið vörð um að varðveita, vernda og rækta innlendu búfjárkynin og byggja á þeim og við höfum valið að banna notkun vaxtarhormóna og notum ekki sýklalyf sem vaxtarhvetjandi efni. Hér eru færri búfjársjúkdómar en í flestum öðrum löndum. Það hefur auðvitað kosti að vera eyja, en af 119 alvarlegum dýrasjúkdómum sem Alþjóðastofnun um dýraheilbrigði fylgist með eru aðeins fjórir taldir landlægir hér og tveir af þeim eru fisksjúkdómar. 101 alvarlegur dýrasjúkdómur hefur aldrei komið upp hér. Við skimum meira en allar aðrar þjóðir eftir kampýlóbakter í kjúklingum og skyldum innlenda framleiðendur til að frysta afurðirnar ef hann finnst. Það er ekki gert erlendis. Og við krefjum kjúklingaframleiðendur um að henda öllum afurðum ef upp kemur salmonella. Það er ekki gert erlendis. Þetta eru hlutir sem skipta máli þegar verið er að bera hlutina saman. Við þurfum að hafa það í huga þegar við tölum um landbúnaðinn því að hann hefur raunverulega og verðmæta sérstöðu sem ekki verður hæglega náð til baka ef henni verður fórnað.
 
Kolefnisbinding og bændur
 
Loftslagsmálin skipta líka verulegu máli. Það er ítarlega um þau fjallað hér í blaðinu. Landbúnaðurinn þarf og vill taka þátt í að uppfylla skuldbindingar okkar Íslendinga sem þjóðar á því sviði. Fram hefur komið að heilmikil losun á sér stað vegna landnotkunar og í framræstu landi. Verulegir möguleikar eru á því að auka bindingu kolefnis með aukinni landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis. Slíkt verður trauðla gert nema í samvinnu við bændur. Á sama tíma er unnið að því að útfæra leiðir fyrir landbúnaðinn til að draga úr losun í sinni almennu starfsemi, t.d. með bættri orkunýtingu, fóðrun og fleiri aðferðum sem nýst geta á því sviði. Þetta er eitt af þeim atriðum sem skipta líka miklu þegar við erum að bera saman hluti, en þar skortir okkur enn gögn. Sauðfjárræktin og garðyrkjan hafa nú látið greina kolefnisfótspor sitt en það þurfa fleiri greinar að gera til að við vitum betur hvar við stöndum.
EFTA-dómurinn og verðmætamat
 
Hér í síðasta blaði var fjallað um niðurstöðu EFTA-dómstólsins 14. nóvember þar sem dæmt var að ekki mætti beita þeim aðgerðum sem við höfum beitt undanfarin ár í því skyni að vernda heilsu manna og dýra. Þrátt fyrir að EES-samningurinn kveði á um að slíkar aðgerðir séu heimilar gaf dómstóllinn lítið fyrir það í sinni niðurstöðu en horfði bara til markaðslegra þátta.
 
Það er kannski einmitt það sem menn mættu gjarnan hugsa um í umræðum um þessi mál. Á lágt verð að trompa allt annað eða skiptir annað meira máli? Ef okkur er ekki sama hvernig hlutirnir eru gerðir, þá hlýtur það að vega þyngra.
Torfæra til styrktar björgunarsveitinni
Fréttir 7. maí 2024

Torfæra til styrktar björgunarsveitinni

Laugardaginn 11. maí fer hin árlega Sindratorfæra fram við Gunnarsholtsveg rétt ...

Nýtt erfðapróf fyrir bógkreppu í sjónmáli
Fréttir 6. maí 2024

Nýtt erfðapróf fyrir bógkreppu í sjónmáli

Í sjónmáli er nýtt erfðapróf til greiningar á arfberum erfðagallans sem veldur b...

Jarðgerð á lagernum
Fréttir 3. maí 2024

Jarðgerð á lagernum

Krambúðin í Mývatnssveit er nú með jarðgerðarvél fyrir lífrænan úrgang í verslun...

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins
Fréttir 2. maí 2024

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins

Opnuð hefur verið íslensk raforkukauphöll, sú fyrsta á Íslandi og með það að mar...

Vöktun íslenskra skóga viðamest
Fréttir 2. maí 2024

Vöktun íslenskra skóga viðamest

Á sviði rannsókna og þróunar hjá Landi og skógi eru fjölmörg verkefni og þeirra ...

Samstarf háskóla skapar tækifæri
Fréttir 2. maí 2024

Samstarf háskóla skapar tækifæri

Jarðræktarmiðstöð LbhÍ er fjármögnuð með skilyrðum um samvinnu við aðrar menntas...

Sjónarmiðin samrýmast ekki
Fréttir 2. maí 2024

Sjónarmiðin samrýmast ekki

Ísteka telur að Samkeppniseftirlitið hefði átt að óska eftir uppfærðum upplýsing...

Norðlenskir bændur verðlaunaðir
Fréttir 1. maí 2024

Norðlenskir bændur verðlaunaðir

Bændur á þremur bæjum voru verðlaunaðir á aðalfundi Búnaðarsambands Eyjafjarðar ...