Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Hvað segja framboðin um matvælaöryggi?
Mynd / TB
Fréttir 25. október 2017

Hvað segja framboðin um matvælaöryggi?

Höfundur: Tjörvi Bjarnason

Traust matvælaöryggi er allra hagur og upprunamerkingar og eftirlit með gæðum matvæla skiptir miklu máli. Sýklalyfjaónæmi er heilbrigðisógn sem samfélög víða um heim standa frammi fyrir og æ fleiri gera sér grein fyrir mikilvægi þess að matvæli séu laus við lyfjaleifar eða framleidd við óæskileg skilyrði. Bændablaðið spurði frambjóðendur hvernig þeirra stjórnmálaflokkar hygðust berjast fyrir sterkara eftirliti með gæðum matvæla og auknu matvælaöryggi. 

Bændablaðið sendi spurningar um landbúnaðarmál til allra þeirra framboða sem bjóða fram lista í komandi alþingiskosningum. 

Spurt var: Sýklalyfjanotkun í landbúnaði á Íslandi er með því minnsta sem þekkist í hinum vestræna heimi og sýklalyfjaónæmi er fátítt hérlendis. Hyggst þinn flokkur berjast fyrir sterkara eftirliti með gæðum matvæla og auknu matvælaöryggi?

 

Píratar

„Sýklalyfjaónæmi er alþjóðlegt vandamál og Íslendingar þurfa að gera sitt besta til að sporna við þeirri vá sem mannkyni stafar af ónæmum bakteríum. Í þessu máli er þó nauðsynlegt að fara eftir EES-samningnum, því annað teldist viðskiptahindrun.“

 

Vinstri græn

„Vinstrihreyfingin grænt framboð vill tryggja öflugt gæða- og öryggiseftirlit á þessu sviði. Við viljum auka upprunamerkingar og rekjanleika og beita þeim reglum gagnvart innfluttri vöru ekki síður en innlendri framleiðslu. Ein af ástæðum þess að VG lagðist eitt flokka gegn tollasamningi við ESB var að kerfið hér á landi er illa undir það búið að sinna þessum þáttum, komi til stóraukins innflutnings.“

 

Framsóknarflokkurinn

„Framsókn vill skýrar upprunamerkingar á öllum matvælum; neytendur eiga rétt á skýrum upplýsingum um uppruna, framleiðsluhætti, dýravelferð, lyfjanotkun og umhverfisáhrif, hvort sem um er að ræða innlend eða erlend matvæli. Framsókn vill fylgja fast eftir reglum um upprunamerkingar og tryggja að þær nái til allra matvæla þar sem þau eru seld. Sama gildir um matvælaöryggiseftirlit, svo sem með lyfjaleifum og sýklalyfjaþolnum bakteríum. Þar þarf að fylgja fastar eftir.“

 

Flokkur fólksins

„Já.“ 


 

Viðreisn

„Viðreisn mun beita sér fyrir eflingu matvælaeftirlits og auknu matvælaöryggi. Nauðsynlegt er að bæta gagnaöflun, m.a. um lyfjanotkun í landbúnaði og styrkja eftirlitsstofnanir með það að marki að eftirlit með matvælaframleiðslu og matvælum í smásölu verði skilvirkt. Bent hefur verið á að tíðir fólksflutningar, bæði erlendra ferðamanna og Íslendinga sem ferðast erlendis, séu líklegasta smitleið ónæmra baktería og því er þörf á vitundarvakningu og forvarnaátaki í þessum efnum. Sérstöðu íslenskra landbúnaðarvara á að nýta í markaðssetningu með markvissum hætti.“

 

Dögun

„Já.“

 

 

Samfylkingin

„Já. Með auknum innflutningi verður að herða slíkar kröfur, þannig að þær verði eftir því sem við verður komið þær sömu og hérlendis. Við leggjum einnig áherslu á strangt eftirlit með lífrænni vöru, innlendri og erlendri, og jafnræði framleiðenda, um leið og styrktur er rekstrargrunnur slíkra býla og fyrirtækja á Íslandi.“

 

Miðflokkurinn

„Já, auka þarf eftirlit með gæðum og öryggi. Einnig þarf að upplýsa neytendur betur um innihald lyfja í matvælum, annað hvort á umbúðum eða í versluninni sjálfri.“

 

Sjálfstæðisflokkurinn

„Einn af þeim þáttum sem Alþingi samþykkti haustið 2016, um afgreiðslu búvörusamninga, var einmitt um sérstöðu okkar búvöruframleiðslu. Fjárfesting samfélagsins í að styðja við matvöruframleiðslu sem byggist á lágmarks lyfjanotkun og öryggi framleiðslunnar er sparnaður og mótvægisaðgerð gegn auknum framtíðarkostnaði í heilbrigðisþjónustu.  Að sama skapi er nauðsynlegt að neytendur geti treyst á heilnæmi innlendrar sem erlendrar vöru. Það er því sameiginlegt hagsmunamál neytenda og bænda að traust eftirlit sé á gæðum matvæla.“

 

Alþýðufylkingin

„Já.“ 

Björt framtíð

„Já. Björt framtíð telur það mjög mikilvægt að hafa sterkt eftirlit með gæðum matvæla sem seld eru hérlendis. Hreinleiki afurðanna sem við framleiðum hérlendis  er sterkasta vörumerkið okkar innanlands og erlendis og gríðarlegir hagsmunir fólgnir í að halda sýklalyfjanotkun áfram í lágmarki.“
 

Nýir liðsmenn Bændablaðsins
Fréttir 21. júní 2024

Nýir liðsmenn Bændablaðsins

Lesendur hafa kannski tekið eftir nýjum efnisþáttum í blaðinu í vor. Hugarleikfi...

Opnað fyrir milljarða króna fjármögnun
Fréttir 21. júní 2024

Opnað fyrir milljarða króna fjármögnun

Lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi fá aðgengi að 3,2 milljarða króna fjármög...

Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum
Fréttir 20. júní 2024

Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum

Hvítlauksbændurnir í Neðri-Brekku í Dölum fengu nýlega tvo styrki úr Matvælasjóð...

Verðlaunuðu góðan árangur
Fréttir 20. júní 2024

Verðlaunuðu góðan árangur

Tabea Elisabeth Schneider hlaut verðlaun fyrir besta árangur á B.S. prófi þegar ...

Fuglum fækkar vegna óveðurs
Fréttir 20. júní 2024

Fuglum fækkar vegna óveðurs

Samkvæmt fuglatalningu varð algjört hrun í fjölda fugla á Norðausturlandi þegar ...

Óhrædd að takast á við áskoranir
Fréttir 19. júní 2024

Óhrædd að takast á við áskoranir

Tilkynnt var um ráðningu Margrétar Ágústu Sigurðardóttur í starf framkvæmdastjór...

Halla færir út kvíarnar
Fréttir 19. júní 2024

Halla færir út kvíarnar

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjuframleiðandi og eigandi garðyrkjustö...

Sala Búvís stöðvuð
Fréttir 19. júní 2024

Sala Búvís stöðvuð

Samkeppniseftirlitið hefur komið í veg fyrir að Skeljungur kaupi Búvís ehf. þar ...