Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Við ána Rín er hver fermetri nýttur fyrir vínvið enda með gjöfulli svæðum til slíkrar framleiðslu.
Við ána Rín er hver fermetri nýttur fyrir vínvið enda með gjöfulli svæðum til slíkrar framleiðslu.
Mynd / SS
Fréttir 16. september 2015

Hús tekið á evrópskum bændum - fyrri hluti

Höfundur: Snorri Sigurðsson
Dagana 21.-30. júlí sl. fór hópur ungra bænda í fagferð til Evrópu en tilgangur ferðarinnar var að halda upp á útskrift hópsins frá Hvanneyri. 
 
Líkt og oft er með ferðir sem þessar var um blandaða ferð að ræða, þ.e. bæði var áhersla lögð á faglegar heimsóknir á sviði landbúnaðar en einnig hugað að því að næra sálina með annars konar afþreyingu en helstu viðkomustaðir ferðarinnar voru stórborgirnar Hannover, Köln, Koblenz, Lúxemborg og Brüssel. Alls voru 8 bú heimsótt í ferðalaginu ásamt því að farið var á landbúnaðarsýninguna Libramont í Belgíu, en greint var frá þeirri landbúnaðarsýningu í síðasta Bændablaði.
 
Kóki heimsóttur
 
Fyrsti dagurinn var í raun mest ferðadagur en flogið var árla morguns frá Íslandi og lent í Hamborg. Þaðan var svo ekið til Hannover, þar sem gist var í tvær nætur. Fyrsta faglega heimsóknin var svo farin til hins heimsfræga hestamanns Kóka en þrátt fyrir að hann og allir starfsmenn hans væru á haus í undirbúningi fyrir aðkomu TopReiter að heimsmeistaramóti íslenskra hesta í Danmörku, þá gaf hann sér góðan tíma til þess að sýna hópnum búgarðinn og hina umsvifamiklu starfsemi sem þar fer fram.
 
Farið í Claas-verksmiðju
 
Frá Kóka var haldið á ný til Hamborgar og nýttu margir sér tækifærið í Hannover að gera góð innkaup í mörgum af helstu verslunarkeðjum heimsins sem þar eru, en aðrir fóru í hinn þekkta dýragarð Erlebnis sem er 150 ára í ár eða tóku bara lífinu með ró. Þriðja daginn var haldið til bæjarins Koblenz en á leiðinni þangað var komið við í verksmiðju Claas í Harsewinkel þar sem hópurinn fékk afar greinargóða kynningu á starfsemi Claas. Frá Harsewinkel var áð í stórborginni Köln þar sem ein mikilfenglegasta dómkirkja heims er, en hún er m.a. á heimsminjaskrá UNESCO. Gist var í Koblenz í tvær nætur en borgin iðar af mannlífi og ferðafólki enda einkar áhugaverður staður fyrir ferðafólk, borgin stendur við ármótin þar sem Mósel og Rín renna saman.
 
„Víndalurinn“
 
Þriðja faglega heimsókn ferðarinnar var á vínbúgarð Adolf Störzel við bæinn Rüdesheim, sem stendur við ána Rín. Bú þetta er eitt af ótal mörgum meðfram ánni, en dalverpið sem Rín hefur grafið má víst hæglega kalla „Víndal“ enda er magn af vínframleiðendum slíkt á svæðinu. Hópurinn fór í afar áhugaverða gönguferð um landsvæði búsins og var byrjað á því að fara með vírkláfi efst upp í hæðina ofan við Rüdesheim og svo gengið niður að bænum á ný og í leiðinni var vínviður skoðaður og ólíkar víngerðir smakkaðar. Bú Adolfs framleiðir árlega um 8.000 vínflöskur af hektaranum og er heildarframleiðsla búsins um 60–80 þúsund flöskur af léttvíni, stærsti hluti framleiðslunnar Riesling-vín, eða um 80%. Nánar má fræðast bæði um starfsemi Kóka, framleiðslu Claas-verksmiðjunnar og um vínbú Adolf Störzel með því að glugga í 19. tölublað Bændablaðsins árið 2013.
 
Rúmlega tvö þúsund bú
 
Þó svo að Lúxemborg sé ekki þekkt landbúnaðarland, þá er þar umsvifameiri landbúnaður en margur heldur. Í Lúxemborg býr rúmlega hálf milljón manna og þar af starfa í kringum 50 þúsund manns við landbúnað og afleidd störf. 
 
Landið er afar lítið, 2.586 ferkílómetrar að stærð, og er í 130–560 metra hæð yfir sjávarmáli. Á þessum örfáu ferkílómetrum eru rúmlega tvö þúsund bú og er búrekstur aðalstarf á um 1.400 búum, en á hinum er búskapur rekinn samhliða annarri vinnu. Þessi rúmlega tvö þúsund bú eru með 131 þúsund hektara lands og er meðalbúið því með rúmlega 60 hektara lands en um helmingur landsins er nýttur til grasframleiðslu, fjórðungur til framleiðslu á maísvotheyi, en kornframleiðsla, skógrækt og garðyrkjuframleiðsla er svo stunduð á síðasta fjórðungnum að jafnaði. Þrátt fyrir smæð og hæð landsins er sem sagt töluverður landbúnaður í Lúxemborg og var tekið hús á þremur bændum þar.
 
Hollenskir bændur í Lúxemborg
 
Fyrsta heimsókn hópsins var til hollensku bændanna Pascal og Birkele Vaessen, en þau eru með kúabú við þorpið Vianden, rétt við landamærin á milli Lúxemborgar og Þýskalands. 
 
Bú þeirra er eitt af um 600 kúabúum í Lúxemborg, en meðalfjöldi kúa á búum í Lúxemborg er um 45 kýr. Þau Pascal og Birkele eru af hollenskum uppruna en faðir Pascal keypti landið og hóf búskap þarna 1965 með nokkrar mjólkurkýr í básafjósi en í dag eru þau með 90 kýr í lausagöngu og notast svo við hefðbundinn mjaltabás. Þau eru einnig vel sett með land en alls tilheyra búinu 120 hektarar og er um helmingur landsins nýttur fyrir maísframleiðslu, fjórðungur fyrir grasrækt og afgangurinn í kornrækt.
 
Fá 39 krónur fyrir mjólkurlítrann
 
Bú þeirra hjóna leggur inn mjólk hjá Arla en þau sögðu að afurðastöðva­verðið væri nú allt of lágt og að þau væru nálægt því að borga með hverjum lítra en alls fengu þau 27 evrusent fyrir lítrann, eða sem svarar um 39 krónum. Skýringin á því af hverju ekki er tap á búinu felst í útsjónarsemi þeirra en þau framleiða einkar góða kynbótagripi og selja til lífs, nokkuð sem skilar sér vel og búinu miklum aukatekjum enda fá þau um 1.500 evrur (215 þúsund krónur) fyrir 14–15 mánaða gömul kynbótanaut og sama verð fyrir nýbornar kvígur. Þess utan fá þau styrki frá Evrópusambandinu, alls um 300 evrur á hektarann (um 43 þúsund krónur), en aðrir styrkir eru óverulegir til þeirra bús.
 
Langlífar kýr
 
Í ræktun þeirra á hinum svartskjöldóttu kúm notast þau við erfðaefni frá öllum mögulegum löndum en oftast segjast þau kaupa sæði frá Hollandi, Kanada, Bandaríkjunum og Skandinavíu. 
Meðalnytin er reyndar ekki sérlega há eða um 10 þúsund lítrar eftir 305 daga mjaltaskeið og með prótein upp á 3,4% og fitu upp á 4,0%. Fyrst það er ekki afurðasemin sem þau rækta eftir lék hópnum forvitni á að vita hvað annað réði för og ekki stóð á svörum.
 
Þeirra aðal ræktunaráhersla er góð ending kúnna en þegar við heimsóttum fjósið voru í því fjórar kýr (af þessum 90) sem höfðu framleitt meira en 100 þúsund lítra mjólkur og alls voru 11 kýr komnar yfir 8 mjaltaskeið í fjósinu og sá ekki á kúnum þrátt fyrir aldur og reynslu.
 
Bræður og synir
 
Frá þeim Pascal og Birkele var haldið til kúabóndans Marc Vaessen en hann var með nýlegt bú með mjaltaþjónum og 250 mjólkurkúm. Þaðan var svo haldið til Van Laar-fjölskyldunnar en þar búa tveir eldri bræður ásamt þremur af sonum þeirra. Þetta var afar myndarlegt kúabú með 300 mjólkurkýr og fjóra Lely mjaltaþjóna. 
 
Bræðurnir tveir eru nú orðnir fullorðnir og að draga sig út úr rekstrinum en synir þeirra, þrír talsins, að taka við búinu en því tilheyra einnig 250 hektarar lands. Fjósið með mjaltaþjónunum var nýbyggt og glæsileg bygging sem var um 100 metra löng og 38 metra breið. Eftir því var tekið hve kýrnar voru hreinar í lausagöngunni. Sögðu bændurnir að það sæist einnig í mjólkur­tankinum enda væri einungis ein kýr í lyfjameðferð af þessum 300 og engin önnur í frátöku á mjólk. Meðalnyt búsins var um 10 þúsund lítrar, frumutalan um 170 þúsund og líftalan 4–6 þúsund. Ekki beint hægt að kvarta yfir svona fínum tölum.
 
Ungir bændur fá hærri styrki
 
En ný og glæsileg bygging kostar sitt og þegar afurðastöðvaverðið er lágt er von að spurt sé út í rekstur búsins. Þeir sögðu hann nokkuð góðan enda hefði fjárfestingakostnaðurinn verið lægri en margir halda. 
Almennir byggingastyrkir til bænda í Lúxemborg séu 30% en sé bóndinn skilgreindur sem „ungur bóndi“ þá fær hann 35% byggingastyrk, þ.e. 35% byggingakostnaðarins endurgreiddan frá hinu opinbera í Lúxemborg. Skilgreiningin á því að flokkast sem ungur bóndi í Lúxemborg er að vera á aldrinum 20–40 ára og að hafa ekki staðið fyrir búrekstri í meira en fimm ár.
 
Framleiða umhverfisvæna orku
 
Allt þak hins stóra fjóss var klætt með sólarrafhlöðum en í Lúxemborg eru veittir sérstakir styrkir til þeirra sem taka að sér raforkuframleiðslu með þeim hætti. Spurðir um rekstrarforsendurnar voru þær sagðar allgóðar enda væru sólarsellurnar með 15 ára tryggt raforkuverð og uppgreiðslutími fjárfestingarinnar væru 10 ár. Ef ekkert bilaði ættu því síðustu fimm árin að skila góðum tekjum til búsins.
 
Eftir tvo áhugaverða daga á landbúnaðarsýningunni Libramont var haldið frá Lúxemborg til Brüssel í Belgíu, þar sem áð var í einn dag áður en haldið var í lokahluta ferðarinnar. Síðasti heili ferðadagurinn var svo nýttur afar vel með fjórum faglegum heimsóknum: á kúabú með SAC mjaltaþjón, í hollenska fyrirtækið H.A. De Bruijn en það framleiðir m.a. innréttingar fyrir búfjárhús, á geitabú með 950 mjólkandi geitur og að síðustu á holdakúabú með hina heimsfrægu Belgian Blue nautgripi. Frá þessum heimsóknum verður greint frá síðar.
 
Snorri Sigurðsson
Ráðgjafi hjá Seges P/S
sns@seges.dk

3 myndir:

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...