Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Pálmi Einarsson, iðnhönnuður og bóndi í Gautavík í Berufirði.
Pálmi Einarsson, iðnhönnuður og bóndi í Gautavík í Berufirði.
Fréttir 7. maí 2020

Hugmyndin að setja hampte á markað í haust

Höfundur: Vilmundur Hansen

Bændurnir í Gautavík í Berufirði stefna að því að rækta iðnaðar­hamp á um hektara í sumar. Auk þess sem áfram verður unnið að því að finna yrki sem dafna vel hér á landi og þróa aðferðir við að fullnýta afurðirnar. Hugmyndin er að setja hampte á markað í haust.

Pálmi Einarsson, iðnhönnuður og bóndi í Gautavík í Berufirði, segir að hann sé búinn að moka út úr fjárhúsunum, bera sauðfjáráburð á akrana og tæta þá niður. Hann stefni að því að sá í fyrstu viku í maí ef tíð leyfir.

Tilraunaframleiðsla á hamptei til einkanota. 

„Reglugerðarbreyting heil­brigðis­ráðherra gerir það að verkum að nú geta allir, bæði bændur og aðrir, farið að rækta iðnaðarhamp löglega. Hvað okkur í Gautavík varðar þá ætlum við að auka ræktunina lítillega og vera með iðnaðarhamp á rúmum hektara í sumar.

Við munum nota sömu yrki og í fyrra, 'Finola', 'Felina' og 'Futura', og eigum nóg af fræi síðan í fyrra, en munum einnig gera tilraunir með aðrar tegundir.“

Áframhaldandi vinnsla

„Næsta skref hjá okkur er að þróa aðferðir við að fullnýta uppskeruna og við stefnum að því að setja einhverjar vörur á markað í haust, til dæmis hampte. Við erum búin að koma upp 75 fermetra innisvæði til tilraunaræktunar og jafnstóru úrvinnslusvæði. En til þess þarf tæki og tól og í ferli er meðal annars að fjárfesta í afhýðingarvél sem aðskilur trefjarnar frá kjötinu.

Það á við um iðnaðarhamp eins og annað sem fólk ákveður að framleiða, mikilvægt er að vera búinn að ákveða hvað geri eigi við uppskeruna svo það sitji ekki uppi með hana og komi henni ekki í verð.

Úr uppskeru síðasta árs bjó ég til steypukubba og trefjaplötur sem heppnaðist vel. Úr plötunum skar ég út nokkrar gjafavörur og gerði tilraunir með eldþol steypukubbsins, en hampsteypa er eldþolin, létt, andar og myglar því ekki.“

Húsdýraáburður borinn á hampakurinn.

Hampte og hampsalt

Pálmi segist einnig hafa gert te úr blómum og laufum plöntunnar sem hann þurrkaði og jafnframt búið til hampsalt úr sjávarsalti frá Hafsalti á Djúpavogi. „Teið drekkum við okkur til heilsubótar og notum hampsaltið í matreiðslu heimilisins, enda hampur skilgreindur sem heilsuvara.“

Óendanlegir möguleikar

Þetta er þó bara brotabrot af því sem hægt er að gera því möguleikarnir á nýtingu plöntunnar eru nánast óendanlegir.

„Hampur var í gegnum aldirnar algengt skepnufóður og notaður í undirburð og fengu okkar kindur að gæða sér á smá hampi síðastliðið haust og líkaði vel.

Næst ætla ég að prófa sameldi á bleikju og hampi en þá er hampurinn látinn nærast á úrgangi frá fiskum. Fyrir rúmum áratug var búinn til lífdísill úr hampi í Háskólanum á Akureyri sem var ræktaður af Sveini á Kálfskinni í Eyjafirði árið 2008. Það er eitt af því sem okkur langar að prófa.“

Meiri tími til að sinna ræktuninni

„Ég er að vona að ég geti haft betri yfirsýn og stjórnað ræktuninni betur í ár en á síðasta ári þar sem framleiðsla Geisla á gjafavörum og öðru hefur dregist verulega saman vegna COVID-19.

Bæði hef ég meiri reynslu og ekki síst tíma núna og þarf ekki að vera að sinna ræktuninni seint á kvöldin og fram á nótt eins og í fyrra.“

Þverskurður af hampstöngli sem sýnir vel trefjarnar og kjötið.

Pálmi segir að í fyrra hafi afföll af sáningunni verið mikil og að upp hafi komið 1/10 af því sem var sáð og stafaði það meðal annars af miklum þurrkum í maí og júní, stórum hvellum í byrjun júní og um miðjan ágúst og afar lágum meðalhita. „Í ár er ég betur undirbúinn og með reynslu síðasta árs í fararteskinu.“

Tilraunir með forræktun og yrki

„Ég er einnig að gera tilraunir með að forrækta plöntur inni og gróðursetja þær á mismunandi vaxtarstigi. Í dag eru þrjú sett í gangi, þar af eru tíu plöntur í tjaldi sem hafa náð tveggja metra hæð og eru í fullum blóma. Annars staðar eru 25 plöntur sem eru um 80 sentímetra að hæð. Svo er ég með slatta af græðlingum og á eftir að fjölga þeim fljótlega. Græðlingana ætla ég að setja í tvö beð og skýla þeim sérstaklega og sjá hvernig þeir koma út í samanburði við sáningu.“

Að sögn Pálma er meginástæðan fyrir inniræktunarsvæðinu að kynbæta plöntur og finna yrki sem henta hér á landi, en til standsetningar þess og ræktunarinnar fengu þau styrk frá Uppbyggingarsjóði Austurlands í vor.

„Yrkin sem við notum í dag þurfa 140 daga til að plönturnar nái fullum þroska og nái að mynda fræ, en við þurfum að finna yrki sem eru 120 daga. Ég fann eitt slíkt fyrir skömmu sem gæti lofað góðu. Það yrki verður ekki nema 150 til 180 sentímetrar að hæð sem er kostur fyrir okkur og er á sáðvörulista ESB.“

Engin mörk fyrir CBD eða aðra kannabinóíða

Reglugerðarbreytingin sem heimilar ræktun iðnaðarhamps ef THC er undir 0,2% setur ekki skilyrði varðandi magn annarra kannabinóíða eins og CBD, en hún er byggð á regluverki ESB. Pálmi segir að yrkin sem þau notuðu í fyrra eigi samkvæmt framleiðanda að innihalda 3 til 6% CBD.

Gjafavara skorin úr hamptrefjaplötu.

Illgresinu sagt stríð á hendur með umhverfisvænum leiðum
Fréttir 3. október 2023

Illgresinu sagt stríð á hendur með umhverfisvænum leiðum

Öflun nýrrar þekkingar á baráttunni við illgresi í ræktun er meginmarkmið nýs sa...

Framleiðsla á náttúrulegum plöntuvarnarefnum
Fréttir 28. september 2023

Framleiðsla á náttúrulegum plöntuvarnarefnum

Algalíf, íslenska líftæknifyrirtækið, stefnir á að hasla sér völl í framleiðslu ...

Innviðauppbygging til 2025
Fréttir 28. september 2023

Innviðauppbygging til 2025

Fara á í 127 verkefni fram til ársins 2025 við uppbyggingu innviða til að mæta á...

Samfélagsleg ábyrgð í forgrunni
Fréttir 28. september 2023

Samfélagsleg ábyrgð í forgrunni

Sjávarútvegsráðstefnan 2023 verður haldin 2.–3. nóvember í Hörpu. Áhersluatriði ...

Heilt sumar eyðilagt hjá geitabóndanum Höllu
Fréttir 27. september 2023

Heilt sumar eyðilagt hjá geitabóndanum Höllu

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins greindum við frá því að Halla Sigríður Steinól...

Vex fiskur um hrygg í rannsóknum, tilraunum og erlendu samstarfi
Fréttir 26. september 2023

Vex fiskur um hrygg í rannsóknum, tilraunum og erlendu samstarfi

Nemendur Landbúnaðarháskóla Íslands vinna fjölbreyttar rannsóknir og tilraunaver...

2.500 tonna kornþurrkstöð borgi sig frekar
Fréttir 26. september 2023

2.500 tonna kornþurrkstöð borgi sig frekar

25 af 33 eyfirskum bændum sem spurðir voru, sögðu að þeir myndu myndu nýta sér k...

Lífræni dagurinn haldinn hátíðlegur í Kaffi Flóru
Fréttir 25. september 2023

Lífræni dagurinn haldinn hátíðlegur í Kaffi Flóru

Lífræni dagurinn var haldinn hátíðlegur víðs vegar um landið laugardaginn 16. se...