Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Hross og huldufólk
Skoðun 11. febrúar 2014

Hross og huldufólk

Afi minn, Ólafur Þórarinsson frá Ríp í Hegranesi og síðar bóndi í Flugumýrarhvammi í Akrahreppi, hefur lýst því þegar hann á ofanverðum sjöunda áratug síðustu aldar varð vitni að álfareið. Var hann á leið til bæjar úr fjárhúsum þegar hann varð var við hóp ríðandi fólks koma á upp brekku við bæinn og reið fólkið áfram eftir hlaðinu og framhjá afa. Ekki gerði hann sér grein fyrir hversu margt fólkið var en það var þó nokkur fjöldi. Hestarnir sem fólkið reið voru með beygða fætur, svo sem þeir væru á harða stökki en ekki hreyfðu þeir fæturna og var sem þeir svifu áfram. Fylgdist afi með fólkinu ríða yfir hlaðið en þegar hann hljóp á eftir því til að sjá hvert förinni væri haldið var sem það hefði gufað upp. 
 
Aldrei hef ég sjálfur séð álfareið né álfa. Reyndar hef ég aldrei séð neitt yfirnáttúrulegt og hef lengst af verið afar vantrúaður á öll yfirskilvitleg fyrirbæri og reynt að skýra þau með rökhyggju. Fyrir mörgum árum felldum við til að mynda reiðhest heima í sveit, góðan félaga sem var orðinn saddur lífdaga. Þegar við tókum gröf fyrir klárinn lentum við niður á smá vætu í botninum. Í stað þess að taka nýja gröf sóttum við möl í skófluna og settum í botninn og grófum svo klárinn. Næstu nætur varð langafa mínum, Rögnvaldi Jónssyni, ekki svefnsamt því hann dreymdi hestinn linnulítið, hráblautan og skjálfandi. Varð það til þess að við grófum hann á endanum upp og fundum honum betra legupláss inn í eilífðina. Þetta gerði mig hins vegar ekki trúaðan á berdreymi heldur skýrði ég þetta með þeim hætti að langafa hefði verið illa við að hesturinn lægi þarna í bleytunni og því hefðu draumfarir hans verið með þeim hætti sem raun bar vitni.
 
Fyrir nokkrum árum var ég hins vegar í göngum heima í Skagafirði. Síðari ár hefur verið minna um hestamennsku heima hjá mér en áður var og hafa fyrrverandi sveitungar mínir, þeir Ingimar Jónsson á Flugumýri og Agnar Gunnarsson prestmaddama á Miklabæ, af góðmennsku sinni skotið undir mig hrossum um alllangt skeið þegar kemur að smalamennsku.
 
Þetta haust reið ég mósóttri meri sem Ingimar átti. Land á Silfrastaðaafrétti hentar óvíða vel til smölunar á hestum  en hins vegar er hægt að nýta hross til að létta sér upphaf smalamennsku, ríða fram í pláss eins og það er kallað. Þegar þangað er komið taka síðan einn eða tveir gangnamenn hrossin og reka þau niður í kofa. 
 
Í þetta sinn vildi hins vegar ekki betur til en svo að einhver styggð kom að mósóttu merinni, sem tók strikið til fjalla. Þrátt fyrir að lengi væri glímt við hana og margoft munaði litlu að til hennar næðist gekk það ekki þann dag. Næstu daga var hennar leitað ríðandi sem og úr lofti án árangurs. 
 
Aldrei hefur fundist tangur né tetur af merinni eða reiðtygjunum sem hún bar. Palla í Jaðri, sem er berdreyminn mjög, dreymdi hins vegar merina hjá álfkonu einni sem hafði þurft hana til reiðar. Ég er alveg tilbúinn að trúa því að álfkona hafi tekið hryssuna til handargagns og þykir mér það mun skaplegri tilhugsun en að merin hafi hrakist úti þennan vetur með reiðtygjum í hagleysu. En ef umrædd álfkona les Bændablaðið langar mig að biðla til hennar að skila mér hnakknum mínum. Ég fékk hann nefnilega í fermingargjöf og þykir vænt um hann.
Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu
Fréttir 28. febrúar 2024

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu

Vistkjöt var boðið til smökkunar í Kópavoginum um miðjan mánuð, í fyrsta sinn í ...

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“
Fréttir 28. febrúar 2024

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, og Hafberg Þórisson, eigan...

Samræmt söfnunarkerfi
Fréttir 27. febrúar 2024

Samræmt söfnunarkerfi

Vinna á tillögu um útfærslu fyrir samræmt söfnunarkerfi dýraleifa á landsvísu se...

Áhyggjur af myglu, tollum og garðyrkjunámi
Fréttir 27. febrúar 2024

Áhyggjur af myglu, tollum og garðyrkjunámi

Deildarfundur garðyrkjubænda innan Bændasamtaka Íslands var haldinn 12. febrúar ...

Fjölbreytt verkefni
Fréttir 27. febrúar 2024

Fjölbreytt verkefni

Margþættar umræður sköpuðust á deildarfundi hrossabænda. Stofnverndarsjóður, hro...

Hugað að nýrri afurðastöð
Fréttir 27. febrúar 2024

Hugað að nýrri afurðastöð

Sláturfélag Suðurlands (SS) undirbýr nú uppbyggingu á nýrri afurðastöð fyrirtæki...

Ákall um meiri stuðning
Fréttir 27. febrúar 2024

Ákall um meiri stuðning

Deildarfundur geitfjárbænda innan Bændasamtaka Íslands var haldinn 12. febrúar. ...

Óberon besta nautið
Fréttir 26. febrúar 2024

Óberon besta nautið

Óberon 17046 frá Skeiðháholti 1 á Skeiðum hlaut nafnbótina besta naut fætt árið ...