Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Hráakjötsmálið: Bændur vilja að stjórnmálamenn fari til Brussel
Mynd / BBL.
Fréttir 26. febrúar 2018

Hráakjötsmálið: Bændur vilja að stjórnmálamenn fari til Brussel

Formaður Bændasamtakanna, Sindri Sigurgeirsson, telur eðlilegast að stjórnvöld óski eftir viðræðum við Evrópusambandið um stöðuna sem upp er komin eftir dóm EFTA-dómstólsins. „Staða okkar gerir einfaldlega kröfu um að látið verði reyna á hvort við getum haldið núgildandi löggjöf áfram í gildi með samningum þess efnis. Full rök standa til þess þó að EFTA-dómstólinn hafi því miður ekki tekið tillit til þeirra,“ segir Sindri í bréfi sem hann sendi til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir hönd BÍ í síðustu viku.

Í bréfinu er farið fram á tvennt; að farið verði í aðgerðir til þess að mæta áhrifum aukinna tollfrjálsra kvóta á búvörum frá ESB-löndum og nýlegs dóms EFTA-dómstólsins þar sem kveður á um skyldur Íslands þess að leyfa innflutning á hráu kjöti, ferskum eggjum og ógerilsneyddri mjólk. Bréfið fjallar um þessi tvö stóru mál sem snerta allan íslenskan landbúnað að meira eða minna leyti.

Með bréfinu velta Bændasamtök Íslands upp nokkrum hugmyndum sem snerta framangreind atriði og óska eftir að stjórnvöld taki þau til umfjöllunar. Samtökin undirstrika að ákvarðanir í málunum þoli ekki bið í ljósi þess að tollasamningurinn tekur gildi þann 1. maí nk. og á þingmálaskrá núverandi ríkisstjórnar er boðað frumvarp á vorþingi til að bregðast við dómi EFTA-dómstólsins.

Afrit af bréfinu var jafnframt sent til oddvita ríkisstjórnarflokkanna þriggja, þ.e. forsætis-, fjármála- og samgönguráðherra. Afrit var einnig sent til utanríkisráðherra sem hefur verulega aðkomu að málinu.

Í bréfinu segir að áhrif tollasamningsins við ESB og hráakjötsdómsins verði mikil og alvarleg.  „Fyrir liggur að bæði þessi atriði geta haft mjög veruleg neikvæð áhrif á innlendan landbúnað og það hefur verið tekið upp við stjórnvöld með ýmsum hætti á síðustu misserum. Aðstaða íslensks landbúnaðar til að keppa við erlenda framleiðslu getur ekki talist jöfn og greinin býr yfir ýmiskonar sérstöðu sem auðvelt er að glata.“ Þá kemur fram að fjöldi manns starfi við landbúnað eða úrvinnslu afurða hans og sú starfsemi sé oft grunnstoð í samfélögum dreifbýlisins. „Breytingar til verri vegar geta því haft mjög veruleg neikvæð samfélagsleg og byggðaleg áhrif, einkum í þeim byggðum sem hafa ekki að mörgu öðru að hverfa.“

Tollverndina þarf að uppfæra

Bændasamtökin telja nauðsynlegt að farið verði yfir tollvernd í landbúnaði í heild.  „Nú er staðan með þeim hætti að stjórnvöld hafa einhliða fellt niður tolla á öllum vörum nema matvörum. Um ekkert annað er því að semja ef til stendur að gera fríverslunarsamninga við aðrar þjóðir … Á sama tíma verður að gera kröfu til þess að tollverndin skili árangri þar sem henni er beitt. Tollar eru að hluta til föst krónutala. Fjárhæðir hafa í mörgum tilvikum ekki breyst í meira en 20 ár og hafa þar af leiðandi rýrnað verulega að verðgildi, vegna verðlagsþróunar á tímabilinu. Hátt gengi krónunnar undanfarin misseri kemur síðan þar til viðbótar og rýrir verndina enn frekar,“ segir í bréfinu.

Matarsýkingum mun fjölga ef ekkert verður að gert

Samtökin benda á að megináhættan sé sú, hvað varðar heilsu manna, að matarsýkingum fjölgi og hingað berist sýklalyfjaónæmar bakteríur með auknum innflutningi á hráu kjöti. „Hvað varðar matarsýkingar þá er það staðreynd að eftirlit hérlendis með kampýlóbakter og salmonellu er umfangsmeira en annars staðar á EES-svæðinu og skilyrði fyrir markaðssetningu afurða strangari. Engin önnur Evrópuþjóð skimar jafn vel fyrir kampýlóbakter eins og Ísland enda er okkar árangur í baráttu við þær sýkingar talinn öfundsverður. Regluverk ESB gerir ráð fyrir að hægt sé að fá sérstakar viðbótartryggingar vegna salmonellu og þær hafa Svíþjóð, Finnland og Danmörk fengið. Sjálfsagt er að óska eftir þeim líka, en ekkert slíkt er í boði vegna kampýlóbakter. Það er einfaldlega ekki í regluverki ESB, en sýkingar af völdum kampýlóbakter eru algengustu matarsýkingar í Evrópu.“

Bent er á að aukinn innflutningur á hráu kjöti muni auka líkur á því að hingað berist sýkingar sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum sem er talið eitt alvarlegasta heilbrigðisvandamál í heiminum í dag. Mikil tengsl eru á milli þessa og sýklalyfjanotkunar í landbúnaði. Samkvæmt gögnum frá Lyfjastofnun Evrópu fyrir árið 2015 er sýklalyfjanotkun í landbúnaði í Evrópu allt upp í 88 sinnum meiri en hér á landi, þar sem hún er mest.

Ekki er ágreiningur um að innlendir búfjárstofnar hafa búið við langa einangrun og hafa aldrei komist í snertingu við smitefni margra búfjársjúkdóma sem eru landlægir í Evrópu og víðar. Berist smit hingað er því líklegt að það geti valdið miklu tjóni með ófyrirséðum afleiðingum.

Í lok bréfsins fara Bændasamtökin fram á að innihald þess verði tekið til efnislegrar meðferðar af stjórnvöldum og eru tilbúin að funda um efni þess eða fara nánar yfir einstök atriði.

Bréf frá BÍ til landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, dagsett 23. febrúar 2018

Rökstuddur grunur um blóðþorra
Fréttir 3. desember 2021

Rökstuddur grunur um blóðþorra

Veira sem getur valdið sjúkdómnum blóðþorra í laxi, Infectious salmon anaemia, h...

Nýsköpunar- og þróunarsetur verði byggt upp á Vesturlandi
Fréttir 3. desember 2021

Nýsköpunar- og þróunarsetur verði byggt upp á Vesturlandi

Landbúnaðarháskóli Íslands og Háskólinn á Bifröst hafa tekið höndum saman um að ...

Ísland er enn í sérflokki þegar kemur að lítilli notkun sýklalyfja í landbúnaði
Fréttir 3. desember 2021

Ísland er enn í sérflokki þegar kemur að lítilli notkun sýklalyfja í landbúnaði

Samkvæmt skýrslu European Medicine Agency, sem kom út í síðustu viku, er sýklaly...

Landselastofninn við sögulegt lágmark
Fréttir 3. desember 2021

Landselastofninn við sögulegt lágmark

Hafrannsóknastofnun leggur til að beinar veiðar á landsel verði áfram takmarkaða...

Innflutningur á dönskum jólatrjám dregst saman en sala íslenskra eykst
Fréttir 2. desember 2021

Innflutningur á dönskum jólatrjám dregst saman en sala íslenskra eykst

Fyrsta helgin í sölu íslenskra jólatrjáa er nú fram undan í íslenskum jólaskógum...

Fjármálaráðherra vill skoða kaup á Hótel Sögu
Fréttir 2. desember 2021

Fjármálaráðherra vill skoða kaup á Hótel Sögu

Í frumvarpi fjármálaráðherra til fjárlaga fyrir árið 2020 er lagt til að skoða m...

Sauðfjárbændum hefur fækkað um ríflega þriðjung á 40 árum
Fréttir 2. desember 2021

Sauðfjárbændum hefur fækkað um ríflega þriðjung á 40 árum

Á síðasta ári voru sauðfjárbændur í landinu 2.078 samkvæmt haustskýrslum og höfð...

Sóknarmöguleikar sem verðskulda athygli og uppbyggingu
Fréttir 2. desember 2021

Sóknarmöguleikar sem verðskulda athygli og uppbyggingu

„Mér finnst ég standa inni í málaflokki sem er bæði tengdur sterkt inn í fortíð ...