Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Horfum til bjartari tíðar með sumri og sól
Skoðun 26. maí 2016

Horfum til bjartari tíðar með sumri og sól

Höfundur: Guðný Helga Björnsdóttir
„Hvað ætlið þið að gera í sumar?“ er spurning sem vinir og félagar á mölinni spyrja hver annan þessa dagana. Bændur verða margir hverjir hálf hvumsa við þessari spurningu. Nú, við ætlum að heyja, planta trjám, fara á Landsmót, girða, temja, þrífa og mála, reka á afrétt, sinna daglegum bústörfum og ef veður og mannskapur leyfir kannski skreppa eitthvað af bæ. 
 
Búskapurinn er nefnilega ekki 9–5 vinna eins og svo margir af okkar vinum og ættingjum stunda, en í raun þarf hann að vera það til að bændur njóti sömu lífskjara og aðrir þegnar þjóðfélagsins. 
 
Guðný Helga Björnsdóttir.
Þó svo að gaman sé að vera bóndi í góðu veðri á sumrin þá getur það tekið á og bændur þurfa að geta litið upp með fjölskyldum sínum og skroppið í frí án þess að hafa áhyggjur af búinu. Þess vegna þurfa búin að vera nógu stór til að þau beri það að vera með vinnufólk eða tvær fjölskyldur geti rekið þau, svo hægt sé að dreifa vinnuálaginu. Eða að tryggir afleysingamenn séu til staðar til að leysa bændur af.
 
En áður en farið er að huga að sumrinu þarf að klára vorverkin, sem eru t.d. uppskera  vetrartamninganna, tilhleypinganna á aðventunni eða pörunar gæðinganna síðastliðið sumar. Vorverkin geta líka verið undirbúningur uppskeru þar sem endurvinna þarf tún, sá korni, grænfóðri og matjurtum, svo fátt eitt sé tínt til.
 
Búvörulögin
 
Eitt af verkum þessa vors er að koma breytingum á búvörulögum í gegnum Alþingi. Um er að ræða heilmikinn bandorm sem fæddist í kjölfar búvörusamningagerðarinnar í vetur. Þó svo að bændur hafi samþykkt samningana og ráðherrar skrifað undir, þá þarf að breyta lögum til að þeir öðlist gildi. Við fyrstu umræðu um samningana á þingi komu eðlilega fram misjöfn sjónarmið um gæði þeirra, enda þingflokkarnir með misjafnar áherslur í landbúnaðarmálum og sumir þingflokkarnir því miður ekki með nógu sterka þekkingu á málefninu. Vonandi verða umsagnirnar sem atvinnuveganefndinni berast nógu greinargóðar til að skerpa á skilningi manna á málefninu og þeim ágreiningi sem um samningana er þannig að þingmenn verði tilbúnir til þess að samþykkja lögin svo samningarnir hljóti gildi í óbreyttu formi.
 
Tollamálin
 
Samhliða búvörulögunum eru ræddir tollar á landbúnaðarafurðir og breytingar á þeim. Þar sýnist sitt hverjum, en menn verða að átta sig á því að aðrar þjóðir reiða sig líka á stuðning við landbúnað og tollvernd. Margir neytendur velta fyrir sér hvaðan varan sem þeir neyta kemur, hvernig aðbúnaður dýranna var og fóðrið sem þau voru alin á. Íslenskir bændur, sem og kollegar þeirra í nágrannalöndunum kappkosta að búa til góðar landbúnaðarafurðir, en hvers vegna eigum við að flytja meira inn en við þurfum, hvers vegna eigum við ekki að nýta landið til góðs? Það er sjálfsagt mál að flytja inn þær vörur sem við ekki getum framleitt sjálf, en við eigum að nýta landið sem við búum til að framleiða af því góðar afurðir og gera það sterkara fyrir vikið. Ónýtt land sem veðst upp í sinu er engum til yndis, ekki frekar en ofnýtt land, hvoru tveggja þurfum við að huga að. 
 
Hvað er fengið með lægra verði?
 
Þegar þeir sem berjast fyrir tollalækkunum og innflutningi á landbúnaðarvörum tjá sig þá eru helstu rökin lægra verð. En hvað er fengið með lægra verði?
 
Í forsíðugrein The Economist þessarar viku er rætt um sýklalyfjaónæmi, þar kemur fram að það deyi árlega um 700 þúsund manns vegna sýklalyfjaónæmra sýkinga. Íslenskur landbúnaður hefur þá sérstöðu að hér er bannað að setja sýklalyf í fóður dýra, ólíkt því sem gerist víða erlendis. Einn tilgangur með sýklalyfjum í fóðri er að búa til ódýrari landbúnaðarvöru, en slíkar vörur eru hreint ekki heilnæmari fyrir neytandann, eins og við vitum þá fara verð og gæði sjaldnast saman. Með auknum innflutningi hafa neytendur minna val um að sniðganga kjöt af dýrum sem fóðruð eru á þann hátt. Þó svo að fólk geti oftast valið úti í búð, þá ræður fólk ekki hvað það kaupir í gegnum veitingahús og mötuneyti, sem mörg hver þurfa að kappkosta að lágmarka kostnað í hráefnum og vilja þá stundum gæðin víkja fyrir verði. Einnig eru nautgripir og sauðfé hérlendis í meira mæli fóðruð á grasi og heyi og minna mæli á kjarnfóðri. Þessu er víða öfugt farið erlendis.
 
„En þetta fer nú aldrei öðruvísi en illa“ eins og einn góður vinnumaður sagði, en átti þá reyndar við að það færi aldrei verr en illa. Sem er reyndar ekki nógu gott, við skulum frekar horfa á hálffullt glasið og til bjartari tíða með sumri og sól og regni inn á milli þannig að við uppskerum vel eftir sumarið á öllum vígstöðvum.
Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum
Fréttir 26. apríl 2024

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum

Gýgjarhólskot í Biskupstungum var útnefnt ræktunarbú síðasta árs á fagfundi sauð...

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...