Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Kýrin Snúra í Berjanesi.
Kýrin Snúra í Berjanesi.
Mynd / HKr.
Á faglegum nótum 4. febrúar 2016

Hjálpartæki við beiðslisgreiningu mjólkurkúa

Höfundur: Þorsteinn Ólafsson, dýralæknir Nautastöðvar B.Í.
Til eru margvísleg hjálpartæki til að fylgjast með beiðslum kúa.
 
Blað eða minnisbók og ritfæri eru hjálpartæki af einföldustu gerð og þau ber ekki að vanmeta.
 
Gangmáladagatal er ennþá notadrýgra.
  • Áminningar í dagatölum símanna geta einnig nýst.
  • Skýrsluhaldskerfið Huppa er handhægt og einnig forrit sem fylgja mörgum mjaltakerfum.
  • Hjálpartæki sem tengjast atferli kúnna hafa lengi verið notuð.
  • Merkjakerfi sem sýna hvort kýrnar hafa staðið undir öðrum kúm hafa lengi verið notuð erlendis.
  • Hreyfiskynjarar sem sýna aukna óró eru orðnir fullkomnari.
  • Mælingar á eðlislægum þáttum eru þekktar.
  • Viðnám í skeiðaslími.
  • Mælingar á hormónum.
  • Stjórnun á beiðslum.
  • Samstilling og gangsetning með prógesterón hormóni og framköllun á beiðsli með prostaglandin hormónum.
Notkun á hjálpartækjum
 
Baldur Örn Samúelsson skrifaði BS-ritgerð í Landbúnaðarháskóla Íslands í maí 2015, „Ávinningur af notkun hjálpartækja við beiðslisgreiningu“. Ritgerðin byggist á skoðanakönnun með svörum frá 171 bónda. 
 
Þar kom í ljós að það var marktækur munur á hvað FS talan var hærri þar sem notuð voru hjálpartæki, hvað bil milli burða var styttra og hvað liðu færri dagar frá burði til fyrstu sæðingar.
 
Það hjálpartæki sem virtist gera mest gagn var gangmáladagatalið eitt og sér. Ekki virtist vera til bóta að nota tölvukerfi með gangmáladagatalinu. Hreyfiskynjarar virtust ekki bæta frjósemina fram yfir önnur hjálpartæki eins og tölvur.
 
Skráningar eru grundvallaratriði varðandi beiðlisgreiningu og frjósemi mjólkurkúa. Einföldustu tækin, gangmáladagatal, skriffæri og minnisbók eru greinilega notadrýgst fyrir flesta. Hins vegar er líklegt að hægt sé að nota tölvukerfi og hafa mikið gagn af þeim. Skýrsluhaldskerfi Bændasamtakanna, Huppa, getur verið mjög gagnlegt. Þar er hægt að sjá hvernig staðan er í fjósinu á einfaldan hátt með því að fara inn í Skýrslur og Frjósemisskýrsla búsins. Með því að fara inn í Skýrslur og Væntanleg beiðsli er hægt að sjá hve langt er síðan kýrnar voru sæddar, þannig sést hvaða kýr voru sæddar fyrir u.þ.b. þremur vikum 17–24 dögum og eru líklegar til að vera að beiða upp, á mörgum búum eru meira en helmingslíkur á að kýr beiði upp eftir sæðingu. Þar er líka hægt að sjá hvaða kýr er tímabært að fangskoða, dýralæknir með sónar getur fangskoðað eftir 30–35 daga og þjálfaður dýralæknir eða frjótæknir eftir 36–56 daga.
 Listi yfir ósæddar kýr sýnir hve margir dagar eru frá burði og þá er hægt að meta hvaða kýr er tímabært að sæða. Til að halda góðum tíma á hjörðinni er ráðlagt að sæða á fyrsta beiðsli sem sést eftir að liðnir eru 42 dagar frá burði. Listi yfir ósæddar kvígur sýnir aldur á kvígunum sem er tímabært að sæða þegar þær eru 15 mánaða.
 
Hjálpartæki sem tengjast atferli kúnna
 
Eitt öruggasta einkenni þess að kýr sé yxna er að hún stendur kyrr þegar aðrar kýr riðla á henni. Til þess að sjá þetta þarf að fylgjast mjög vel og stöðugt með kúnum. Það hefur verið sýnt fram á það í mörgum rannsóknum að eftir því sem ferðirnar til þess að fylgjast með beiðslum kúnna eru tíðari uppgötvast fleiri beiðsli. Lengi hafa verið til litir til þess að smyrja á halarótina, en þeir hafa lítið verið markaðssettir hér á landi. Liturinn nuddast af ef kýrin stendur undir annarri kú. Til eru aðrar svipaðar útfærslur, sérstakar pjötlur sem límdar eru á halarótina og nuddast eða litahylki sem springa þegar kýrin stendur undir. Athuga þarf tvisvar á dag hvort breyting hefur orðið á halarótinni. Gallinn við þessar aðferðir er helstur að merkin geta breyst við það að aðrar kýr nuddi hausnum upp á halarótina svo skilaboðin verða fölsk. Til eru sendar sem eru límdir upp á halarótina og senda boð í tölvu ef kýrin stendur undir. Galli við þá aðferð er að fylgjast þarf með að kýrnar týni ekki sendunum og gæta þess að þeir séu á kúnum þangað til fang hefur verið staðfest. Þá er nokkur kostnaður í sendum og móttökustöð sem sendir boð áfram í tölvuna.
 
Hreyfiskynjarar
 
Á níunda áratugnum var farið að nota skrefateljara sem festir voru á afturfót kúnna til að greina aukna hreyfingu sem fylgir beiðslum. Lesið er af mælunum þegar kýrnar eru mjólkaðar. Í ljós kom að þessi aukna hreyfing var nánast eingöngu tengd því að kýrnar voru yxna.
 
Á fyrsta áratug þessarar aldar var farið að nota hreyfiskynjara sem festir eru í hálsband kúnna. Nú eru til nokkrar gerðir af slíkum skynjurum sem m.a. fást sem aukahlutir með mjaltaþjónum og mjaltakerfum, en eru einnig seldir sem sjálfstæðar einingar. Til að auka ennþá meira notagildi þessara tækja er hægt að fá þau með nema fyrir jórtur, þannig nýtast þau bæði til að skynja  gangmál kúnna og hvort þær eru að fá súrdoða, júgurbólgu eða einhvern kvilla sem dregur úr jórtri. Þar sem burðurinn er sæmilega dreifður má gera ráð fyrir að nóg sé að eiga skynjara á hálsbönd þriðjungs af kúnum. Þá er skynjarinn settur á hálsband kýrinnar fljótlega eftir burð og tekinn af og fluttur á næstu kú þegar staðfest hefur verið að kýrin sé komin með fang. Norsk athugun sýnir að hreyfiskynjarar geta einnig nýst í fjósum, þar sem kýrnar eru bundnar á bása.
 
Mælingar á viðnámi í skeiðarslími
 
Til eru nokkrar gerðir slíkra mæla, en ekki er að sjá að mælt sé með notkun þeirra.
 
Hormónamælingar í mjólk
 
Til eru einfaldar aðferðir til þess að mæla prógesterónhormón í mjólk. Kýr sem eru með óvirka eggjastokka og kýr sem eru að beiða eru með mjög lítið eða ómælanlegt próg­esterón í mjólkinni og kýr sem eru með mikið eða mælanlegt prógesteón í mjólkinni eru ekki að beiða og gætu verið með fangi. Þessar mælingar geta komið að gagni við beiðslisgreiningu og fangprófun, en það getur verið erfitt að hitta á réttan sæðingatíma nema með endurteknum mælingum, hins vegar geta slíkar mælingar komið að gagni ef einnig er fylgst með hegðunarbreytingum hjá kúnum. Hver mæling kostar eitthvað og endingartími efnanna er skammur. Ekki er ólíklegt að framleiðendur mjaltatækja vinni að því að gera prógesterónmælingar aðgengilegri í beinum tenglsum við mjaltir á hagkvæman, einfaldan hátt. Það getur verið framtíðarsýn.
 
Beiðsli framkallað með lyfjum, samstilling
 
Dýralæknar hafa lyf til þess að framkalla beiðsli. Þar er fyrst og fremst um tvær aðferðir að ræða. Ef vitað er að kýrnar séu farnar að ganga eftir burðinn er hægt að nota svokallað prostaglandin hormón. Þá er gert ráð fyrir því að kýrnar séu sprautaðar tvisvar sinnum með 11 daga millibili og sæddar 72 og 96 klst. ( 3 og 4 dögum) eftir seinni sprautuna.  
 
Önnur aðferð er að setja gorm sem skilur út prógesterón hormón í skeiðina á kúnni og hafa hann í kúnni í nokkra daga. Gormurinn er fyrst og fremst notaður ef vafi er á um hvort kýrin er farin að beiða eftir burðinn og ætti ekki að nota hann fyrr en liðnir eru tveir mánuðir frá burði og fóður og nyt er farið að nálgast jafnvægi. Sætt er 48 og 72 klst. (2 og 3 dögum) eftir að gormurinn er tekinn úr kúnni.
 
Það borgar sig að gefa sér tíma til að greina beiðslin
 
Það er athyglisvert að það kom í ljós í rannsókn Baldurs Arnar að gangmáladagatalið reyndist vera notadrýgsta hjálpartæki og fleiri ferðir en tvær í fjósið til að líta eftir beiðslum skiptu verulegu máli. Það má því líta svo á að þetta hvorutveggja séu grundvallaratriði sem allir verða að hafa í huga.
 
Í erlendum rannsóknum kemur í ljós að yfirleitt eru bændur ánægðir með hreyfiskynjarana sem þeir hafa fjárfest í en stundum gengur illa að sýna fram á gagnsemi þeirra og eru rannsóknir misvísandi þar um. Þegar niðurstöður Baldurs eru skoðaðar kemur í ljós lítill ávinningur af notkun hreyfiskynjara en þó má sjá vísbendingar um að í þeim fjósum þar sem notaðir eru hreyfiskynjarar er ávinningurinn fólginn í því að það líða færri dagar á milli sæðinga, það virðist vera að beiðslin fari síður framhjá án þess að uppgötvast. 
 
Það er ekki vafamál að hreyfiskynjarar eru það hjálpartæki sem getur gagnast best ef þeir eru notaðir á réttan hátt. Þeir eru á vakt allan sólarhringinn, en þeir nýtast ekki nema allar skráningar séu í lagi. Hreyfing kúnna er mest að meðaltali 20–30 klst. áður en egglosið verður. Það er mikilvægt að næmi hreyfiskynjarans sé rétt stillt, til að nema boð frá þeim kúm sem eru að beiða. Í kringum kýr sem eru að beiða í lausagöngu er viss ókyrrð. Þess vegna er mikilvægt að fara og athuga hvaða kýr er raunverulega að beiða, að það séu ekki fölsk boð sem berast. Það getur einnig verið að það sé ekki kýrin sem sýnir mesta útslagið sem er að beiða, þar er mikilvægt að athuga kúna sem beiddi fyrir þremur vikum, þó að hún hafi verið sædd þá.
 
PAG-mæling til að staðfesta fang
 
Erlendis er farið að bjóða upp á mælingu á svokölluðu PAG (Pregnancy Associated Glycoprotein) í mjólk. Fósturhimnurnar framleiða það svo það nýtist til að staðfesta hvort kýrnar séu með fangi með vissum fyrirvörum. Mælingin er ekki nothæf fyrr en liðnir eru meira en 60 dagar frá burði vegna þess að efnið þarf þann tíma til að hverfa úr blóðrásinni frá síðustu meðgöngu. Efnið er komið í mælanlegt magn 35 dögum eftir að kýrin festi fang. Kýr sem festir fang 42 dögum (6 vikum) eftir burð er komin með mælanlegt magn eftir 35 daga þ.e. 77 dögum eftir burð. Mælt er með að fangið sé staðfest með hefðbundinni fangskoðun seinna vegna þess að fósturlát verður helst snemma á meðgöngunni. 
Reikna má með að það styttist í að boðið verði upp á slíka mælingu hér á landi.
 
Þorsteinn Ólafsson,
dýralæknir Nautastöðvar B.Í.

3 myndir:

Aspir og wasabi ræktuð samhliða
Fréttir 24. maí 2024

Aspir og wasabi ræktuð samhliða

Nordic Wasabi er um þessar mundir að setja á innanlandsmarkað frostþurrkað wasab...

„Bjart fram undan og afurðaverð á uppleið“
Fréttir 24. maí 2024

„Bjart fram undan og afurðaverð á uppleið“

Jóhannes Geir Gunnarsson, bóndi á Efri-Fitjum í Vestur-Húnavatnssýslu, er bjarts...

Fóðra mjölorma til fóður- og matvælaframleiðslu
Fréttir 24. maí 2024

Fóðra mjölorma til fóður- og matvælaframleiðslu

Í samstarfsverkefni Matís og Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) er unnið að því a...

Samdráttur samfélags
Fréttir 23. maí 2024

Samdráttur samfélags

Póstþjónusta landsmanna hefur verið hitamál svo lengi sem menn muna og ekki síst...

Fleiri kostir, meiri sveigjanleiki og bætt nýtni það sem koma skal
Fréttir 22. maí 2024

Fleiri kostir, meiri sveigjanleiki og bætt nýtni það sem koma skal

Út er komin skýrslan Bætt orkunýtni og ný tækifæri til orkuöflunar. Hún hefur að...

Bændur ársins í Norður-Þingeyjarsýslu
Fréttir 22. maí 2024

Bændur ársins í Norður-Þingeyjarsýslu

Ábúendurnir í Hafrafellstungu í Öxarfirði fengu nafnbótina Bændur ársins 2023 í ...

Mikilvægt að bæta merkingar fyrir neytendur
Fréttir 22. maí 2024

Mikilvægt að bæta merkingar fyrir neytendur

Herdís Magna Gunnarsdóttir, nautgripabóndi á Egilsstöðum og stjórnarmaður í Bænd...

Verður milliliður milli ræktenda og kornstöðva
Fréttir 22. maí 2024

Verður milliliður milli ræktenda og kornstöðva

Starfsemi Kornræktarfélags Suðurlands var endurvakin á fundi kornbænda í Gunnars...