Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Hitabeltisrótin Kassava
Á faglegum nótum 15. maí 2015

Hitabeltisrótin Kassava

Höfundur: Vilmundur Hansen

Kassavarót er líklega sú af helstu nytjaplöntum heims sem Íslendingar þekkja minnst nema helst sem tapíókamjöl sem meðal annars var vinsælt í búðingum á sjöunda áratug síðustu aldar. Engu að síður er kassava í fimmta sæti yfir mest nýttu plöntu í heimi.

Árið 2013 nam heimsframleiðsla á kassava tæpum 277 milljónum tonna og hafði aukist um 21 milljón tonn frá árinu áður samkvæmt því sem segir á heimasíðu Alþjóðamatvælastofnunarinnar (FAO). Spár gera ráð fyrir að framleiðslan eigi eftir að aukast enn meira í framtíðinni. Ekki síst vegna aukins framboðs á erfðabreyttu kassava en til skamms tíma hafa rannsóknir og framræktun á plöntunni verið takmarkaðar.

Mest ræktað í Afríku sunnan Sahara

Þrátt fyrir að mikið sé ræktað af rótinni í Asíu og Suður-Ameríku er mest ræktað af kassava í Afríku sunnan Sahara. Framleiðsla í Nígeríu nam 53 milljónum tonna árið 2013, sama ár voru rúm 30 milljón tonn ræktuð í Taílandi, 24 milljón í Indónesíu og 21,5 í Brasilíu. Næst á eftir fylgja Afríkuríki eins og Kongó, Angóla, Gana og Mósambík með framleiðslu sem er milli 10 og 16 milljón tonn hvert.

Mikilvægi kassava í ríkjum sunnan Afríku er slíkt að í Gana er plantan stærstur hluti af allri landbúnaðarframleiðslunni og yfir 30% af fæðu sem neytt er í landinu. Gana er jafnframt stærsti útflytjandi kassava í Afríku. Nafn plöntunnar á máli innfæddra þar er agbeli og þýðir það er líf.

Meðaluppskera af kassava á hektara er nálægt 13 tonnum en á Indlandi hefur hún farið í 35 tonn.

Taíland, Víetnam og Indónesía flytja mest út af kassava og afurðum sem unnar eru úr plöntunni en í Afríkulöndunum er mest af henni neytt heimafyrir enda gríðarlega mikilvæg matjurt og uppspretta næringarefna þar.

Fátækrafæða

Nafnið kassava er spænskt að uppruna en víða um heim gengur plantan undir heitunum manihot eða tapioka en á latínu kallast hún Manihot esculenta. Innan Manihot ættkvíslarinnar teljast tæplega hundrað tegundir sem eru smáplöntur, runnar og klifurjurtir og eiga allar það sameiginlegt að vaxa upp af stórum rótarhnúð. Staðbrigði kassavarótarinnar skipta þúsundum.

Stór hluti ræktunar á rótinni fer fram á smábýlum og oftar en ekki sjá konur um ræktunina með frumstæðum verkfærum. Talið er að kassava sé undirstöðufæða tæplega eins milljarðs fólks á fátækustu hitabeltissvæðum heims.

Plantan dafnar vel við margs konar skilyrði og gerir litlar kröfur til jarðvegs. Hún þrífst bæði í röku og þurru loftslagi en þolir ekki að hitinn fari niður fyrir frostmark. Kjöraðstæður fyrir plöntuna liggja yfir miðbaug milli 30. breiddargráðu suður og norður þar sem ársúrkoma er um 50 millimetrar. Við slíkar aðstæður vex kassava vel allt frá fjöruborði og upp í 2000 metra hæð yfir sjávarmáli.

Lengst af hefur verið litið á rótina sem fátækrafæðu en þar sem hún er harðgerð og þurrkþolin hefur hún oft komið í veg fyrir hungurdauða milljóna manna á þurrkatímabilum þar sem enga aðra fæðu hefur verið að fá.

Útlit og ræktun

Plantan er fjölær runni með trékenndum stöngli og nær fimm metra hæð. Blöðin heilrennd og fimm til níu fingruð og standa á löngum rauðum blaðstilk. Rótin stór og með margar hliðarrætur, Yfirleitt uppskorin þegar hún er um fimm kíló að þyngd en getur náð 35 kílóa þyngd. Brún að utan en hvít eða gul að innan, ílöng og hæglega 15 sentímetra breið og 30 sentímetra löng. Blómin lítil, grængul eða hvít með rauðblæ. Einkynja en bæði kyn vaxa á sömu plöntu, opnast yfirleitt með nokkurra daga millibili og sjá skordýr um frjóvgun þeirra. Fræin þroskast í belgjum sem opnast skyndilega og eitt fullþroskað fræ þeytist talsverða vegalengd úr hverjum belg frá móðurplöntunni.

Í ræktun er plöntunni fjölgað með um það bil 15 sentímetra stöngulgræðlingum eða misstórum rótabútum sem settir eru niður um það leiti sem regntímabilið hefst. Þar sem rótin getur orðið mjög stór er erfitt að segja hvað telst heppilegir vaxtartími. Að öllu jöfnu er hægt að nýta rótina eftir sex mánuði frá útplöntun en því lengur sem hún er í jörðu trénar hún meira.

Rótin er að miklu leyti sterkja og innheldur mikið af kalki, fosfór og vítamínum. Blöð plöntunnar eru rík af C-vítamíni, kalsíum og járni. Hýði rótarinnar er eitrað enda inniheldur það talsvert magn af blásýru og getur neysla þess valdið alvarlegum veikindum og dauða. Flysja þarf rótina vel fyrir neyslu og leggja í bleyti. Eiturefnin verða óvirk við suðu.

Hýði plöntunnar hefur verið notað sem eitur, bæði fyrir menn og skepnur.

Nytjar

Rótin er oftast þurrkuð, marin eða ristuð fyrir neyslu og úr henni unnið mjöl sem kallast tapioka. Sterkjan í rótinni gerir hana góða til pappírsgerðar auk þess sem hún er notuð í ýmiss konar snyrtivörur og sem bindiefni fyrir töflur í lyfjaiðnaði. Úr henni er unnið stífingarefni fyrir kraga á skyrtum og annað tau sem þarf að stífa. Lím á umslögum sem eru sleikt til að loka þeim er unnið úr kassavasterkju.

Ung blöð má sjóða á svipaðan hátt og spínat. Plantan er þekkt lækningajurt þar sem hún vex villt og meðal annars unnið úr henni smyrsl fyrir þurra húð, auma liði og frjósemislyf. Efni úr plöntunni hefur verið markaðssett sem vörn gegn krabbameini í blöðruhálskirtli en engar vísindalegar rannsóknir styðja þá fullyrðingu þannig að mark sé á takandi að mati bandarísku krabbameinssamtakanna.

Í náttúrunni finnst fjöldi ólíkra gerða af kassava en almennt er þeim skipt í sætar og beiskar rætur. Sætar rætur eru meira ræktaðar en beiskar og notaðar til framleiðslu á mjöli í brauð, tortilla, flögur og franska kartöflur.

Á ákveðnum svæðum í Suður-Ameríku er unninn áfengur drykkur sem kallast chicha úr rótinni með þeim hætti að konur tyggja rótina og spýta síðan munnvatni í stóran bala þar sem það er látið gerjast í nokkra daga. Útkoman er drykkur sem neytt er við hátíðleg tækifæri og þegar gesti ber að garði. Litið er á það sem argasta dónaskap að afþakka drykkinn sé hann í boði. Áfengir drykkir eru víðast unnir úr kassava þar sem plantan er ræktuð en ekki með sama hætti og chicha.

Algengasta afurðin unnin úr kassava utan hitabeltisins er tapíókamjöl sem meðal annars er notað í búðinga, hlaup, barnamat, sem sósujafnari og við sælgætisgerð. Í einni heimild segir að sterkja úr kassava sé eitt af undirstöðuefnum í Monosodium glutamate  eða MSG sem talsvert hefur verið í umræðunni og þykir ekki gott íblöndunarefni í matvæli.

Ræktun og neysla á kassava hefur aukist talsvert í Kína undanfarna áratugi og á hitabeltissvæðum landsins er rótin í fimmta sæti hvað framleiðslu varðar. Kínverjar flytja inn mikið af afurðum unnum úr plöntunni frá Víetnam og Taílandi.

Samhliða því að rækta kassava sem fæðu hafa Kínverjar og Brasilíumenn rannsakað möguleika á að framleiða lífdísil úr plöntunni og náð talsverðum árangri á því sviði.

Dýrafóður

Rætur og blöð plöntunnar eru víða nýttar sem dýrafóður og henta vel fyrir jórturdýr. Blöðin þykkja næringarmest 30 til 40 sentímetra ofan við jarðvegsyfirborðið og þurrkuð í einn til tvo daga áður en þau eru gefin. Þurrkuð blöð og rætur hafa einnig verið notuð sem íblöndunarefni í fóðurbæti.

Sjúkdómar og hungursneyð

Skordýr og sjúkdómar geta valdið miklum usla í ræktun á kassava og dæmi um að heilu akrarnir hafi skemmst í plágum. Mósaíkvírus getur einnig verið plöntunni skæður og árið 1920 olli blað- og rótardauði af hans völdum hungursneyð víða í Afríku. Sextíu árum seinna, 1980, fannst ný og mun skaðmeiri útgáfa af vírusnum í Úganda. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að halda honum í skefjum hefur hann smám saman verið að breiðast út og valda uppskerubresti.

Beiskafbrigði eru þolnari gegn skordýraplágum og beitt en sæt.

Uppruni

Erfitt er að segja fyrir víst hvenær ræktun á kassava hófst vegna þess að lítið hefur fundist af lífrænum leifum plöntunnar við fornleifarannsóknir. Talið er að ræktun plöntunnar nái allt að tíu þúsund ár aftur í tímann frá okkar tíma í Suður-Ameríku. Líklegustu upprunastaðir plöntunnar eru í Brasilíu og Paragvæ og talið er að hún hafi breiðst út þaðan. Fornleifar og fornir listmunir benda til að ræktun hennar hafi verið almenn í kringum Mexíkóflóa 6000 árum fyrir Krist. Fundist hafa leirofnar í Kólumbíu frá því 2700 árum fyrir Krist sem hafa verið notaðir til að baka brauð úr kassavamjöli.

Brasilísk goðsögn segir að eftir að kona horfði á barnið sitt deyja hungurdauða hafi hún grafið lík þess undir gólfborðunum í kofanum sínum. Nóttina eftir vitjaði hennar trjáandi sem breytti líkama barnsins í rót sem kassavaplantan óx upp af og átti eftir að vera aðalfæða milljóna manna.

Til Afríku með portúgölskum sjómönnum

Portúgalskir sjófarendur fluttu rót kassavaplöntunnar yfir hafið frá Brasilíu til Afríku í kringum 1550. Tilgangurinn var að rækta plöntuna á vesturströnd Afríku og nýta rótina sem fæðu við þrælaflutninga þaðan til Nýja heimsins.

Plantan skaut föstum rótum í nýju heimkynnunum og er útbreiðsla hennar og ræktun þar mun meiri í dag en í upprunalegu heimkynnunum. Neysla rótarinnar varð ekki almenn í Afríku fyrr en 250 árum seinna eða um árið 1800. Sagt er að landkönnuðurinn Henry Stanley hafi gengið fram á kassavaakur djúpt í Kongó árið 1877. Engin veit fyrir víst hvernig plantan barst þangað en talið líklegt að útbreiðsla hennar í Afríku sé að stærstum hluta af mannavöldum. Rannsóknir á staðbundnum nöfnum plöntunnar benda til að útbreiðsla hennar hafi verið tilviljanakennd, frá mörgum stöðum og eftir mörgum leiðum.

Plantan barst sjóleiðina frá Afríku til Srí Lanka árið 1786 og Kalkútta á Indlandi 1794 en til Filippseyja með spænskum kaupmönnum frá Mexíkó á 17. öld.

Í dag er kassava ræktað í löndum hitabeltisins hringinn í kringum jörðina og finnst á mörgum af einangruðustu eyjum Kyrrahafsins. Þrátt fyrir upprunann er framleiðsla á kassava í Suður-Ameríku ekki nema 1/5 af heimsframleiðslunni og 70% hennar er ræktuð í Brasilíu.

Þar sem magn eiturefna í rótinni er talsvert og vex á þurrkaskeiðum er að mörgu leyti merkilegt að fólk skuli hafa lært að meðhöndla rótina til neyslu. Sama má reyndar segja um verkun á hákarli.

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...