Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Heyrt fyrir norðan
Lesendarýni 4. mars 2016

Heyrt fyrir norðan

Höfundur: Kristján Gunnarsson
Er komin meiri blíða og blóm í haga í íslenskum kúabúskap? Eða er það eintómur njóli sem skyggir á raunverulegt ástand í framtíðarsýn mjólkurframleiðslunnar?
 
Ekki ætla ég að daga úr bjartsýni um betra gengi mjólkurframleiðslunnar eða segja, „Þetta minnir um of á upphaf hrunsins“ þ.e.a.s. ný fjós, breytt fjós, snaraukin framleiðsla mjólkur og þá allra mest umfram kvóta eða s.k. umframmjólk.
 
Ja, því ekki? 
 
Gott mál, fáir á höttunum eftir kvóta og mjólka allt hvað þeir geta, þ.e. tilkostnaður við aukinni framleiðslu getur ekki verið lægri, engin kvótakaup, bara hey og kjarnfóður, og svo auðvitað fleiri kýr, og það hefur auðvitað haft áhrif á verð kúa til mjalta svo ekki sé nú talað um fyrsta kálfs kvíga komnum að burði, líklega nú í lok ársins 2015, 250–270 þúsund + vsk.
 
Undirritaður sem starfað hefur með mjólkurframleiðendum í tugi ára getur vitnað um það að sala og áhugi mjólkurframleiðenda fyrir uppbyggingu og eflingu mjólkurframleiðslunnar er með eindæmum og hef ég þó starfað með mjólkurbændum í 35 ár.
 
Sala á mjaltaþjónum tekur stökk
 
Sala á mjaltaþjónum hefur tekið margfalt stökk upp á við og hafa mjaltaþjónar hreinlega flætt inn í landið, bygging nýrra fjósa í sögulegu hámarki og víða stórfelldar breytingar eldri fjósa og aflagðra hlaðna.
Sem dæmi hefur sala Delaval mjaltaþjóna og fylgibúnaðar slegið allar áætlanir á hliðina og verið margfalt meiri en gert var ráð fyrir. 
 
Eitthvað eru þó bankarnir misáhugasamir að lána mjólkurframleiðendum fyrir uppbyggingarkostnaði en sem dæmi má reikna með að bygging nýs fjóss með öllum búnaði, þ.m.t. mjaltaþjóni, kosti um 120–140 milljónir.
 
Fer auðvitað einnig eftir því hvort heimamenn séu laghentir eða a.m.k. duglegir við að bjarga sér og geti því allt að því byggt fjósið sjálfir með smá aðstoð fagmanna, þá er þetta hægt fyrir innan við 100 millj. kr.
Auk hefðbundinnar mjólkurframleiðslu með sölu mjólkur í samlag hefur áhugi á „með sölu“ þ.e. beint frá býli stóraukist og eru vörur merktar „Beint frá býli“ orðnar afar vinsælar, jafnvel þótt þær séu oft dýrari en markaðurinn almennt.
 
„Færanlegt mjólkursamlag“
 
Og nú fyrir stuttu sá ég fjallað um hugmynd Halldórs Karlssonar mjólkurfræðings um „Færanlegt mjólkursamlag“ þ.e.a.s. Halldór ætlar að byggja stóra kerru eða aftanívagn sem dreginn yrði milli bæja sem hefðu áhuga á að framleiða mjólkurafurð úr hluta eða allri tilfallandi mjólk á viðkomandi bæ tímabundið, skyr, jógúrt, margar tegundir osta o.s.frv. og yrði síðan markaðssett sem „Beint frá býli“.
 
Þessi hugmynd varð ofarlega í samkeppni um nýsköpunarverkefni en fékk ekki alveg nægilega margar tilnefningar til að hljóta fjárframlag sem er að mínu viti synd, en stórhuginn Halldór er ekki af baki dottinn og hyggst halda áfram með hugmyndina og að mínu viti væri meira vit í að setja peninga í þessa hugmynd en margar aðrar sem hafa hlotið náð fyrir augum „vitringa“, sem sé, gangi þér vel, Halldór minn, þú ert sannarlega ferskur og framsýnn.
 
Lífrænar landbúnaðarafurðir
 
Nokkuð hefur gustað um framleiðslu á lífrænum landbúnaðarafurðum og sú tegund búskapar sem ég þekki best til, þ.e.a.s. mjólkurframleiðslan, hefur ekki haft erindi sem erfiði á þessari skilgreiningu framleiðslunnar þrátt fyrir að borgað er eða a.m.k. var, 25% hærra verð fyrir lífræna mjólk.
 
Raunar hef ég eftir langt starf sem mjólkureftirlitsmaður ákveðna skoðun á lífrænni framleiðslu mjólkur og þótt áhugi margra kaupenda sé umtalsverður tel ég að ofmat og röng vitneskja um tilurð, mat og kröfur fyrir lífrænni vottun sé mjög algeng.
 
 Margir kaupendur halda að þetta sé jafngildi gæðavottunar, hreinleikastimpils, lágrar líftölu (gerlamagn) snyrtilegheit, góða umgengni o.s.frv. Að lífræn mjólk sé miklu betri og hollari en hefðbundin mjólk.
Málið er hins vegar það að lífræn vottun tekur ekki til neins þessara þátta, heldur einvörðungu kröfur um að heyfengur viðkomandi sé tilkominn án tibúins áburðar og ákveðin efni bönnuð við heyskap, lyfjanotkun fyrir skepnurnar er háð takmörkunum og útskolunartími lyfja er lengri, gjöf kjarnfóðurs er háð ákveðnu efnainnihaldi o.s.frv. og e.t.v. hef ég gleymt einhverju.
 
En eins og einn vottunaraðili sagði við mig, við erum ekki að votta gæði mjólkur, umgengni eða hrein mjólkurhús og fjós, okkur kemur það ekkert við. Sem sé vottunin að mestu leyti hvað kýrnar mega éta.
En í stuttu máli, lífræn mjólk er hvorki betri né verri en „venjuleg“ mjólk. Óska þeim sem reyna að standa áfram að lífrænum búskap alls hins besta.
 
Eins og mörgum kúabændum er ljóst verður framleisðlukvóti skertur um 4 millj. lítra 2016 og víst að búvörusamningurinn, sem ekki er tilbúinn til umræðu, en stefnir í að apa eftir ES allt bæði gáfulegt og heimskulegt, þ.e.a.s. að fella niður kvótann og láta frumskógarlögmálið gilda.
 
Eins hefur ákvörðun MS um fulla greiðslu fyrir alla mjólk, þ.e. sk. umframmjólk komið sérlega einkennilega á sama tíma og framleiðsluréttur er skorinn niður.
 
Ég ætlaði að lesa mér til um málið í grein Jóhanns í Hildisey hér á síðum naut.is en, Jóhann minn, þessi grein hefði þurft að vera þrískipt svo menn sofnuðu síður yfir henni og skreyta pínulítið með myndum svo þetta verði ekki eins og greinin er, grá af letri og allt of löng, en engu að síður er greinin upplýsingalega góð, full af visku og upplýsingum og mundi gagnast flestum væri hún ekki svona svakalega langdregin og menn stelast til að hlaupa yfir helling, áfram? Auðvitað!
 
 Led-lýsing í fjósum
 
Á seinna hundraðinu sá ég áhugaverða umfjöllun, grein um Led-lýsingu í fjósum og líðan gripa vegna lýsingar, hafa bændur hugað um lýsingu sem eitt af stóru málunum? Held almennt ekki, þarna hvet ég bændur til að fylgjast nú vel með Led-væðingunni því af Led stafar lítil rafsegulsviðsmengun vegna miklu minni orkuþarfar, hún gengur köld og eyðir eins mörgum sinnum minni orku en hefðbundin halogen- eða glóperu-lýsing og er auk þess vanalega mun bjartari, þ.e.a.s. meiri birta fyrir margfalt minna verð, þ.e. þegar búið er að vinna upp muninn á verði stofnkostnaðar sem er nokkuð hærri í Led, en ekki gleyma borgun til baka í betra heilbrigði gripa og þegar það er metið með er Led-lýsing betri og ódýrari til lengri tíma litið.
 
Takið hiklaust stefnuna á LED í ný fjós.
 
Með von um bjartan kúabúskap og góð mjólkurár,
Kristján Gunnarsson 
Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki
Fréttir 1. mars 2024

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki

Samkvæmt niðurstöðum verkefnis sem nýlega var unnið hjá Matís, um nýtingu og nær...

Vaxtalækkun lána
Fréttir 1. mars 2024

Vaxtalækkun lána

Fram kom í frétt Bændablaðsins, 2. nóvember 2023, að stjórn Byggðastofnunar hefð...

Endurvinnslan er mest innanlands
Fréttir 29. febrúar 2024

Endurvinnslan er mest innanlands

Guðlaugur Gylfi Sverrisson, rekstrarstjóri Úrvinnslusjóðs, segir stjórn sjóðsins...

Háskóladagurinn á fjórum stöðum
Fréttir 29. febrúar 2024

Háskóladagurinn á fjórum stöðum

Háskóladagurinn verður haldinn í Reykjavík laugardaginn 2. mars.Þá gefst fólki k...

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða
Fréttir 29. febrúar 2024

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða

Forsætisráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að skoða lagaumgjörð hvalve...

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu
Fréttir 28. febrúar 2024

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu

Vistkjöt var boðið til smökkunar í Kópavoginum um miðjan mánuð, í fyrsta sinn í ...

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“
Fréttir 28. febrúar 2024

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, og Hafberg Þórisson, eigan...

Samræmt söfnunarkerfi
Fréttir 27. febrúar 2024

Samræmt söfnunarkerfi

Vinna á tillögu um útfærslu fyrir samræmt söfnunarkerfi dýraleifa á landsvísu se...