Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Yvonne og Jaap Groven segja að umönnun og góð eftirfylgni á efnilegum stóðhesti byggi helst á góðri samvinnu milli þeirra og Þórarins Eymundssonar, þjálfara og knapa hans.
Yvonne og Jaap Groven segja að umönnun og góð eftirfylgni á efnilegum stóðhesti byggi helst á góðri samvinnu milli þeirra og Þórarins Eymundssonar, þjálfara og knapa hans.
Mynd / ghp
Fréttir 23. ágúst 2018

Hestalán hollenskra hjóna

Höfundur: ghp
Þráinn frá Flagbjarnarholti, 6 vetra gamall stóðhestur, hlaut hæstu aðaleinkunn kynbótahrossa á Landsmóti hestamanna 2018. Fyrr í vor hlaut hann hæstu einkunn sem gefin hefur verið á kynbótasýningu. Þessi brúnskjótti ljúflingur er í eigu hjónanna Yvonne og Jaap Groven sem hafa stundað íslenska hestamennsku í Hollandi í tugi ára.
 
„Við fengum það strax á tilfinninguna að það væri eitthvað einstakt við Þráin. Sú tilfinning hefur aldrei horfið. Hann var mjög stoltur sem folald, hreyfingarnar voru fallegar og karakterinn sérstakur. Hann var alltaf ráðandi í hjörðinni en um leið afar ljúfur,“ segir Yvonne Groven, sem ræktaði og á Þráin frá Flagbjarnarholti ásamt eiginmanni sínum, Jaap.
 
Hér er Þráinn 2 vetra gamall.
 
Hjónin eru nokkuð afkastamiklir ræktendur og eiga um 60 hross í Hollandi, en hluti ræktunarstarfsins fer þó fram hérlendis. 
 
„Fyrir um 15 árum fengum við gullið tækifæri til að kaupa helmingshluti í tveimur mætum ræktunarmerum, Þyrlu og Drottningu frá Ragnheiðarstöðum. Við höfum því fengið eitt folald á ári á Íslandi,“ segir Jaap. 
 
Báðar eru hryssurnar undan Krás frá Laugarvatni, og eru því sammæðra fyrrum töltmeistaranum Rás frá Ragnheiðarstöðum. Drottning var alsystir Rásar, undan Orra frá Þúfu, en Þyrla undan Svart frá Unalæk. Þyrla er móðir Þráins. Faðir hans er Álfur frá Selfossi.
 
Þráinn hlaut hæstu aðaleinkunn kynbótahrossa á Landsmótinu, 8,92, sem er aðeins skör frá metdómi hans fyrr um vorið, þegar hann hlaut hæsta kynbótadóm sem kveðinn hefur verið upp, 8,95.
 
Þráinn er með 8,70 fyrir sköpulag og hlaut 9,06 fyrir kosti á Landsmótinu, þ.á m. 9,5 fyrir skeið og vilja og geðslag en einkunnina 9 fyrir tölt, fegurð í reið, fet og hægt tölt.
 
Með fyrirvara um flutning
 
Þórarinn Eymundsson á veg og vanda að tamningu Þráins. Hjónin segja að umönnun og góð eftirfylgni á svo efnilegum stóðhesti byggi helst á góðri samvinnu milli þeirra og Þórarins.
 
„Við höfðum t.d. þann fyrirvara þegar hann tók við Þráni, að hann myndi keyra suður og sækja hestinn sjálfur. Við höfum séð svo margt rangt gerast við flutning á hestum. Við vildum að Tóti vissi nákvæmlega hvað hesturinn hefði gengið í gegnum frá fyrsta degi.“
 
Haggaðist ekki í hávaðaroki
 
Þórarinn tók fyrirvaranum, sótti folann og sá fljótlega að þarna var kominn fram spennandi foli. 
„Hann tamdist auðveldlega. Einhvern tímann í febrúar var búið að frumtemja hann og ég farinn að sækja meira gangtegundirnar, þá var ég sannfærður um að ef hann fengi ekki einkunnina 9 fyrir tölt 4 vetra þá fengi hann 9,5. Þá var hann þannig á tölti að mig óraði ekki fyrir því að skeiðið yrði svona opið. Ég vissi þó að þetta væri alhliðahestur. Þegar kom undir vorið fór ég aðeins að fikta meira við rýmið og prófa að hleypa honum og sjá hvað gerist. Þá dettur hann strax í skeið og eftir 2–3 skipti var hann farinn að brunskeiða. 
 
 
 
Í staðinn fyrir að fara í 9–9,5 fyrir tölt þá fór hann í 8,5 fyrir tölt og 8,5 fyrir skeið í kynbótadómi 4 vetra gamall sem er mjög gott,“ segir Þórarinn og rifjar upp heimsókn mætra Skagfirðinga í hesthúsið þennan fyrsta vetur þeirra saman. 
 
„Það var leiðindaveður þennan dag, mjög hvasst, en ég var í stuði til að sýna þeim einhvern góðan hest. Ég lagði á hann í rokinu og hallaði mér upp í vindinn og fór af stað. Þeir fóru inn í bíl og keyrðu niður á völl. Ég reið þar á tölti. Þessir menn voru einmitt að rifja það upp hvað hann hefði verið góður á tölti og haggaðist ekki á töltinu. Hann lét vindinn ekkert á sig fá, þó aðeins 4 vetra.“
 
Hann segir söguna lýsandi dæmi um Þráin, sem sé í öllu falli draumareiðhestur. „Hann er fallegur, hreyfingagóður og geðgóður. Stundum eru vel dæmdir hestar ekkert endilega eftirlætis reiðhesturinn manns þó þeir skili gangtegundum vel. En það er gaman þegar þetta fer saman.“
 
Ekki á leið til Hollands
 
Þórarinn hlakkar til að vinna meira með þessum mæta stóðhesti. 
 
„Það skiptir mestu máli með svona hesta að hugsa vel um þá, þjálfa þá rétt og vel. Við eigum eflaust eftir að fara meira í brautina, í keppnir og sýningar og slíkt. En fyrst um sinn verður stærsta hlutverk hans að sinna íslenskri hrossarækt.“
 
Hjónin taka undir orð Þórarins og segja hestinn ekki á leið til Hollands að sinni.
Nýr formaður kjörinn
Fréttir 23. febrúar 2024

Nýr formaður kjörinn

Hjörtur Bergmann Jónsson var kjörinn formaður deildar skógarbænda á fundi deilda...

Sex minkabú eftir á landinu
Fréttir 23. febrúar 2024

Sex minkabú eftir á landinu

Björn Harðarson, bóndi í Holti í Flóa, hefur tekið við sem formaður deildar loðd...

Eðlilegur blóðhagur þrátt fyrir blóðtöku
Fréttir 23. febrúar 2024

Eðlilegur blóðhagur þrátt fyrir blóðtöku

Íslenskar blóðmerar áttu auðvelt með að halda uppi eðlilegum blóðhag þrátt fyrir...

Áhersla á greiðslumarkið
Fréttir 22. febrúar 2024

Áhersla á greiðslumarkið

Á deildarfundi sauðfjárbænda hjá Bændasamtökum Íslands var samþykkt nær samhljóð...

Nú þarf að láta verkin tala
Fréttir 22. febrúar 2024

Nú þarf að láta verkin tala

Halldóra Hauksdóttir verður áfram formaður búgreinadeildar eggjabænda. Meðstjórn...

Misræmi milli framleiðslu og greiðslumarkseignar
Fréttir 22. febrúar 2024

Misræmi milli framleiðslu og greiðslumarkseignar

Tveir mjólkurframleiðendur uppfylltu ekki yfir 200.000 lítra af greiðslumarki í ...

Formannsslagur í vændum
Fréttir 22. febrúar 2024

Formannsslagur í vændum

Gunnar Þorgeirsson og Trausti Hjálmarsson hafa gefið kost á sér í embætti forman...

Betri afkoma í garðyrkju
Fréttir 22. febrúar 2024

Betri afkoma í garðyrkju

Afkoma ylræktenda fer batnandi en útiræktenda versnandi.