Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Halla Steinólfsdóttir
Halla Steinólfsdóttir
Mynd / smh
Fréttir 11. júlí 2017

Hertar reglur um lífrænt vottaða framleiðslu

Höfundur: Sigurður Már Harðarson
Þann 30. maí síðastliðinn var löggjöf Evrópusambandsins (ESB) um lífræna framleiðslu innleidd í íslenskt regluverk. Með innleiðingunni missa íslenskir framleiðendur undanþáguákvæði sem voru til staðar í aðlögunarferlinu. Undanþágurnar – eða aðlögunarkröfurnar eins þær voru kallaðar – sneru til að mynda að ákveðnum rýmiskröfum í gripahúsum, banni við notkun á grindargólfum og banni við notkun á fiskimjöli í fóðri jórturdýra.
 
Í tilkynningu frá Matvælastofnun þann 15. júní síðastliðinn segir að með innleiðingunni séu gerðar ítarlegri kröfur til lífrænnar framleiðslu í gegnum allt framleiðsluferlið, allt frá öflun aðfanga til markaðssetningar lokaafurða. Lífræn vottun og eftirlit verður áfram hjá sjálfstætt starfandi vottunarstofum sem starfa undir eftirliti Einkaleyfastofunnar. Fram til þessa hefur vottunarstofan Tún verið eini aðilinn sem hefur faggildingu til að votta lífræna framleiðslu á Íslandi.
 
Meira rýmis krafist
 
Gunnar Gunnarsson, fram­kvæmda­stjóri Vottunarstofunnar Túns, segir að framleiðendur hafi tækifæri til að ljúka framleiðslu sem hafin var fyrir tíma innleiðingar og markaðssetja hana sem lífræna, þannig að bændur hafa þokkalega rúman tíma til að gera breytingar, að því leyti sem þeirra er þörf, áður en næsta framleiðslu- og/eða ræktunartímabil rennur upp. „Úttektir sem gerðar eru frá og með júnímánuði veita bændum og öðrum framleiðendum kost á að kortleggja hvaða breytingar gera þarf til þess að kröfur samkvæmt hinni nýju löggjöf verði uppfylltar þegar næsta úttekt fer fram,“ segir hann.
 
Helstu breytingar gagnvart landbúnaðinum eru að sögn Gunnars að  nú sé krafist meira rýmis fyrir hvern grip í búpeningshúsum. „Til dæmis er lágmarksrými á hverja kind 1,5 fermetri í stað 1,0 fermetra áður. Þá verður allt búfé að hafa aðgang að heilum gólfum í legurými, þar með talið sauðfé, en þó má allt að 50 prósent legurýmis í fjárhúsum vera grindur ef þær eru í góðu ásigkomulagi. Þá þurfa bændur sem nota kjarnfóður að finna hentugan lífrænan próteingjafa í stað fiskimjöls sem ekki er lengur leyft til fóðrunar jórturdýra. Ýmsar aðrar breytingar koma til framkvæmda, þótt þær hafi að líkindum minni áhrif, og má meðal annars nefna að framvegis þurfa eftirlitsaðilar að taka sýni afurða til efnagreiningar hjá hluta vottaðra framleiðenda.“ 
 
Reynir á ráðunauta og stuðningskerfið
 
Gunnari er ekki kunnugt um að framleiðendur hafi hætt eða muni hætta vegna innleiðingar hinna nýju reglugerða. „Ég tel ástæðu til að ætla að flestir eða allir núverandi bændur muni halda áfram í lífrænum búskap, en það mun hins vegar ekki að fullu koma í ljós fyrr en líður á árið og nýtt framleiðslutímabil nálgast. Þau ákvæði sem mest áhrif kunna að hafa á framkvæmd eldis og ræktunar eru ekki þess eðlis að þau séu óyfirstíganleg. Þar reynir annars vegar á ráðunauta leiðbeiningaþjónustunnar um að setja fram hagnýtar leiðir til að leysa málin, og hins vegar á stuðning til aðlögunar og breytinga samkvæmt reglugerð um fjárstyrki til lífrænnar framleiðslu. Hvort tveggja á að veita bændum þann tilstyrk sem til þarf.“
 
Erfiðar kröfur fyrir sauðfjárbændur
 
Hér í blaðinu 9. mars síðastliðinn var rætt við Höllu Steinólfsdóttur, sem stundar lífrænt vottaðan sauðfjárbúskap í Ytri-Fagradal á Skarðsströnd, og Ólaf Dýrmundsson, fulltrúa Íslands í Evrópusambandshópi lífrænna landbúnaðarhreyfinga og fyrrverandi ráðunaut í lífrænum búskap, um fyrirhugaðar breytingar. Bæði lýstu þau áhyggjum sínum af þeim og töldu hættu á því að einhverjir sauðfjárbændur myndu hætta með lífræna vottun, gengi innleiðingin í gegn með þessum hætti.
„Ég hef verið að ræða þetta við félaga mína sem líst alls kostar illa á þessi áform. Ef það á að fara að taka hart á þessum skilyrðum sem snúa að fjárbúskapnum – varðandi grindargólfin og rýmisþörfina – þá er ég ekki viss um að við lifum það af í lífrænum búskap. Það myndi hreinlega vera of kostnaðarsamt að fara út í svo miklar breytingar. Við byggðum stórt hús árið 2005 með grindargólfi til þess að hagkvæmara sé að hirða búfjáráburðinn. Lömbin fæðast þar en eru mestan sinn líftíma frjáls um fjöll og dali og koma inn að hausti til að fara á sláturbíl. Aðgengi að hálmi til undirburðar hér á landi er ekki sambærilegt því sem er í Evrópu,“ sagði Halla.
 
Ólafur sagði að breytingarnar gætu orðið til þess að lífrænt vottuð sauðfjárrækt leggist niður hér á landi. „Ekki verður tekið tillit til sérstakra aðstæðna hér norður frá og svo standast rök ekki fyrir hertum kröfum. Það eru til dæmis engin vísindaleg rök fyrir því að banna fiskimjöl í fóðri jórturdýra. Rýmiskrafan í fjárhúsum verður líka sérkennileg í því ljósi að með henni eru gerðar kröfur um meira en tvöfalt það rými sem gildir í aðbúnaðarreglugerð fyrir hefðbundin fjárbú. Þarna er auðvitað verið að miða við evrópsk kyn – sem eru flest stórvaxnari og þyngri,“ sagði Ólafur.
 
Útflutningshagsmunir vegna þörungaafurða
 
Í umfjöllun blaðsins 9. mars var enn fremur leitað svara í ráðuneytinu varðandi þá ákvörðun að hverfa frá aðlögunarkröfunum. Guðmundur Kristján Jónsson, aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, svaraði því þannig að það væri vegna útflutningshagsmuna – að ef Ísland héldi kröfum sínum til streitu væri hætta á að lífræn vottun á íslenskum afurðum fengist hvort eð er ekki viðurkennd á innri markaðnum þar sem eldri reglur væru í gildi.
 
„Stærstur hluti útflutnings lífrænna afurða er með þörungaafurðir sem hefur farið vaxandi. Þar að auki er mikilvægt fyrir neytendur að reglur ESB taki gildi. Íslenskar reglur um lífræna landbúnaðarframleiðslu hafa ekki verið uppfærðar í sex ár. Listar yfir ríki utan EES og framleiðendur þaðan, sem framleiða lífrænar vörur sem standast kröfur ESB, eru ekki í notkun hér. Eftirlit með innflutningi á lífrænt ræktuðum vörum mun því batna með þessum reglum,“ sagði í svarinu. 
 
Löggjöfin samanstendur af 41 svokallaðri gerð sem innleiddar eru með tveimur innleiðingarreglugerðum; annars vegar um lífræna framleiðslu og merkingu lífrænna vara og hins vegar um fyrirkomulag á innflutningi lífrænna afurða frá löndum utan Evrópu. 
Skógarfura í Varmahlíð föngulegust
Fréttir 4. október 2024

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust

Skógræktarfélag Íslands hefur valið skógarfuru í Varmahlíð tré ársins 2024.

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir
Fréttir 4. október 2024

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir

Nýlega voru skipaði þrír forstjórar fyrir nýjar ríkisstofnanir sem urðu til með ...

Eftirlíking af hálfri kú
Fréttir 4. október 2024

Eftirlíking af hálfri kú

Nautastöð Bændasamtaka Íslands tók á dögunum í notkun eftirlíkingu af kú sem er ...

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti
Fréttir 3. október 2024

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti

Heilbrigðisnefndir kringum landið hafa gagnrýnt skort á kynningu á nýrri regluge...

Aðgerðaáætlun gefin út
Fréttir 3. október 2024

Aðgerðaáætlun gefin út

Matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, hefur gefið út aðgerðaáætlun fyrir...

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun
Fréttir 3. október 2024

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun

Verkefnið Vatnaskil á Austurlandi miðar að því að efla nýsköpun og stuðla að fjö...

Áburðarverkefni í uppnámi
Fréttir 3. október 2024

Áburðarverkefni í uppnámi

Áburðarverkefni í Syðra-Holti í Svarfaðardal, sem gengur út á moltugerð úr nærsa...

Aukinn innflutningur á lægri tollum
Fréttir 2. október 2024

Aukinn innflutningur á lægri tollum

Ekki er hægt að fá uppgefna þá aðila sem standa að baki innflutningi á landbúnað...

Heilsteikt nautalund
10. nóvember 2022

Heilsteikt nautalund

Tími haustlaukanna
29. ágúst 2014

Tími haustlaukanna

Siggi Dan gegn Sævari
4. október 2024

Siggi Dan gegn Sævari

Metinnflutningur á nautakjöti í júlí
12. september 2024

Metinnflutningur á nautakjöti í júlí

Fjár- og stóðréttir 2023
24. ágúst 2023

Fjár- og stóðréttir 2023