Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Dagbjartur Ingvar Arilíusson við bruggtækin í Steðja í Borgarfirði. Auk bruggverksmiðju er hann að byggja upp ferðaþjónustu á staðnum ásamt konu sinni, Svanhildi Valdimarsdóttur. Auk sérstöðunnar eins og með hinum fræga bjór Hval 2, segir Dagbjartur að mi
Dagbjartur Ingvar Arilíusson við bruggtækin í Steðja í Borgarfirði. Auk bruggverksmiðju er hann að byggja upp ferðaþjónustu á staðnum ásamt konu sinni, Svanhildi Valdimarsdóttur. Auk sérstöðunnar eins og með hinum fræga bjór Hval 2, segir Dagbjartur að mi
Mynd / HKr.
Líf&Starf 25. janúar 2017

Hefur fengið viðurkenningu fyrir sérstæðasta bjórinn á jörðinni

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Á bænum Steðja í Borgarfirði er enginn hefðbundinn búskapur lengur. Þess í stað er þar rekið brugghús af Dagbjarti Ingvari Arilíussyni og Svanhildi Valdimarsdóttur. Brugghús Steðja ehf. tók til starfa 2012 og hefur framleitt allt að 16 tegundir af bjór og selur um 15% framleiðslunnar víða um heim. 
 
Dagbjartur og Svanhildur reka sannarlega óhefðbundinn búskap á Steðja. Þar er hvorki sauðfjárrækt, nautgriparækt né annar hefðbundinn búskapur lengur, heldur rekstur bjórverksmiðju auk þjónustu við ferðamenn. 
 
Hjónin keyptu í ársbyrjun 2012 tæki og búnað til bruggunar og stofnuðu svo Steðja í framhaldið sama sumar. Fyrstu afurðirnar komu svo á markað um haustið, þ.e. lagerbjór og jólabjór með lakkrís, sem haldið var áfram að framleiða og nú heitir Norðurljósabjór.
 
Sveitabrugghús steinsnar frá höfuðborginni
 
Brugghús Steðja er sannkallað sveitabrugghús í um 90 km fjarlægð frá Reykjavík. Það er staðsett um 27 km frá Borgarnesi og er ekið þangað inn Borgarfjarðarbraut í átt að Reykholti. Bærinn er um 5 km sunnan við Kleppjárnsreyki. Margir athyglisverðir staðir eru nálægt Steðja, eins og Deildartunguhver, Reykholt, Kleppjárnsreykir, Hraun­fossar, Húsafell, hellirinn Víðgelmir, Surtshellir, Ísgöngin í Langjökli, Fossatún, Hvanneyri og margt fleira.
 
Bruggað samkvæmt þýskum hreinleikalögum og enginn sykur
 
Öll framleiðslan þykir eins heilsusamleg og hægt er að segja um bjór. Enginn sykur eða rotvarnarefni eru t.d. notuð við bruggunina sem byggir á rótgróinni vistvænni bjórhefð frá Bæjaralandi í Þýskalandi – og íslensku vatni.  
 
„Við notum engan sykur og bruggum eftir þýskum hreinleikalögum, en leikum okkur þá aðeins í kringum það eins og með jarðarberjabjórinn. Þá bætum við hreinum íslenskum jarðarberjum í lögunina frá nágrönnum okkar í Sólbyrgi. Við erum þannig að reyna að tengja okkur Íslandi eins mikið og við getum og höfum því líka verið með þarabjór,“ segir Dagbjartur. 
 
Samið var við menntaðan þýskan bruggara, Philipp Ewers. Hann hefur starfað við bruggun í Þýskalandi í mörg ár. Markmið hans og eigendanna er að vera frumlegir í hugsun og að auka flóru íslenskra bjóra. Það virðist sannarlega hafa tekist og hafa sumar tegundir Steðja komist í fréttir erlendra fjölmiðla svo eftir er tekið.
 
Sérstæðasti bjór í heimi
 
„Hvalur 2 er talinn sérstæðasti bjór á jörðinni og um hann hafa meira að segja verið skrifaðar bækur.  Þá hafa verið viðtöl við okkur um þennan bjór víða, m.a. í BBC, Guardian, Washington Post og víðar og það hefur verið umfjöllun um bjórinn úti um allan heim. Er hann nú efstur á lista yfir athyglisverðustu bjóra í heimi. Við erum einmitt að vinna þann bjór nú í ársbyrjun og fer hann á markað 19. janúar.“
 
Hvalur 2 hefur skemmtilega útlistun á ensku sem: Sheep shit smoked Whale Testicle Beer. Þessi lýsing á bjórnum hefur vakið heimsathygli. 
 
Hótað af hvalfriðunarsinnum
 
„Hvalfriðunarsinnar Sea Shepheard hafa hótað að brenna allt ofan af okkur og Greenpeace hafa líka haft uppi hótanir gegn fyrirtækinu út af þessum bjór. Þá hefur verið haldið úti vefsíðum gegn þessum bjór og ýmislegt annað.“
 
Sennilega hefur þessi neikvæða athygli þó orðið til þess að vekja aðra og mun öflugri jákvæða athygli á fyrirtækinu. 
 
Hinn „eini sanni þorrabjór“ með taðreyktum eistum
 
„Við notum hvalaeistu sem eru taðreykt og sjóðum þau í bjórinn. Þannig fáum við gríðarlega skemmtilegan þorrabjór. Það má því sannarlega segja að þetta sé „þorrabjórinn“ hinn eini sanni. Enda var það hugmyndin að grípa þorrann svolítið með þessari framleiðslu.“ Sjá má myndband um gerð bjórsins á heimasíðu Steðja.
 
Þótt Hvalur 2 hafi borið hróður brugghúss Steðja út um allan heim, þá hefur þessi tegund ekki verið flutt út. Aðrar tegundir hafa hlotið þann heiður og segir Dagbjartur að um 15% framleiðslunnar sé nú seldur úr landi og fari það hlutfall ört vaxandi. 
 
Steðja-bjór er ódýrari á bar í Bretlandi en á Íslandi
 
„Við erum komin með fínan markað úti í Bretlandi og erum að byggja okkur upp í Skandinavíu og Austurríki. Þá er verið að skoða markaðssetningu í Bandaríkjunum og í Kanada. Eins höfum við selt bjór frá okkur til Eistlands og Ástralíu þótt þar séu ekki orðnir fastir markaðir fyrir okkur. Bjórinn okkar hefur víða vakið áhuga.“
 
− Er ekki kostnaðarsamt að komast inn á markað erlendis varðandi flutning og annað?
„Jú, flutningur er mjög dýr. En samt sem áður þá er bjór sem við erum að senda á bari í Bretlandi seldur þar jafnvel á lægra verði en á börum á Íslandi. Þar er lægra áfengisgjald og miklu minni álagning á veitingastöðunum úti. Steðja-bjór á bar úti í Brighton er t.d. ódýrari en á veitingastöðum hér á landi. 
Við höfum líka verið með okkar bjór í sérstakri bjórbúð í Austurríki sem selur bjór framleiddan víða um heim. Þar var okkar Steðja-bjór seldur á sama verði og í ÁTVR á Íslandi. Samt er flutningurinn þangað afar dýr.“
   
Keyrt á hreinleika íslenska vatnsins
 
Auk sérstöðunnar eins og með Hval 2 segir Dagbjartur að mikið sé keyrt á hreinleika íslenska vatnsins í kynningum á þeirra framleiðslu. Oft hefur verið sagt að bjórframleiðslan í Evrópu hafi bjargað íbúum í borgunum þar hreinlega frá því að deyja vegna mengaðs drykkjarvatns. Í dag er þar mikið notast við endurunnið vatn frá hreinsistöðvum við bruggun á bjór. 
„Íslenska vatnið er mjög vel markaðssett sökum hreinleika. Við teljum okkur afar heppin með grunninn í bjórinn sem er okkar hreina íslenska vatn.“
 
− Hvað segir þá þýski bruggarinn ykkar  með íslenska vatnið í samanburði við það þýska?
„Fyrir einhverjum árum síðan var íslenskt vatn ekki talið hæft til bruggunar, það væri hreinlega of hreint. Við höfðum sent vatnssýni frá okkur til Þýskalands til að reyna að finna út hvaða bjórstíla við ættum helst að veðja á og hvaða malt hentaði best með okkar vatni. Þeir sendu okkur línu til baka og óskuðu eftir að við sendum þeim ómeðhöndlað vatn til að nota sem sýni. Þeir héldu að við hefðum gerilsneytt vatnið sem við sendum þeim.
 
Bruggarinn okkar, Philipp Ewers, segir að vatnið okkar gefi alveg ótrúlega mikinn ferskleika. Hann var t.d. að brugga úti í Düsseldorf þýskan alt bjór (Altbier = gamall bjór) sem er mjög vinsæll þar. Hann bruggaði sama bjórinn hjá okkur en úr íslensku vatni, sem er dökki bjór Steðja. Hann segir að bjórinn sé ívið betri hér og vill meina að það sé eingöngu út af vatninu. Allt annað í bjórnum er nánast eins í Þýskalandi og hér.
 
Það má því segja að þetta sé munaðarvara sem við erum að framleiða sem er meinholl, en í hófi að sjálfsögðu.“
 
Alda límonaði með kollageni og nýr páskabjór væntanlegur
 
Dagbjartur segir að sífellt sé verið að brydda upp á nýjungum og nýr páskabjór sé ein þeirra nýjunga. 
„Það er athyglisverður bjór sem við getum ekki opinberað alveg strax. Við erum líka komin út í framleiðslu á léttöli og óáfengu límonaði sem hefur komið ákaflega vel út. Það er límonaði sem heitir Alda. Það er sykurlaust og með kollagen próteinum sem unnið er úr þorskroði í Grindavík. Þetta er einstök afurð á heimsvísu og er að slá í gegn, m.a. í Nettó-verslunum, Bláa lóninu og á veitingastöðum í Reykjavík. Þá erum við líka að hefja útflutning á þessum drykk. Framleiðslan á Öldu er að sprengja allt utan af sér hjá okkur. Sem stendur er ein bragðtegund en fleiri væntanlegar.
 
Ríkið stendur í vegi smáframleiðenda 
 
„Það sem er okkar Akkilesarhæll eru reglugerðir ÁTVR, sem veldur því að við náum ekki meiri dreifingu á Íslandi en raunin er. Það er dapurlegt að hugsa til þess að ríkið skuli þannig standa í vegi fyrir að smáframleiðendur nái að fóta sig.“
 
Dagbjartur er ekki einn um þessa skoðun því mjög erfitt hefur stundum reynst fyrir nýja söluaðila á t.d. léttvíni að komast inn í sölukerfi ÁTVR. Hann segist því hafa þá skoðun að ÁTVR þurfi að setja upp íslenska bjórrekka í öllum helstu vínbúðum landsins. Þar gæti Steðji þá verið með tvær til þrjár tegundir eins og aðrir íslenskir framleiðendur. Þeir gætu svo skipt sínum tegundum út eftir eigin þörfum. Hann segir að ÁTVR sé hins vegar ósveigjanlegt til að breyta sínum reglum. Það þýði að Steðji komist ekki inn í nema örfáar verslanir ÁTVR og þurfi þar að keppa við stóru aðilana á markaðnum sem hafi nægt fjármagn úr að spila. 
 
Kerfið er fjandsamlegt litlu brugghúsunum
 
„Ég vil meina að þetta kerfi sé fjandsamlegt litlu brugghúsunum, þó ekki séu kannski allir sammála mér í því. Þarna er ÁTVR bara eins og ríki í ríkinu með sitt dýra kerfi.“  
 
Hvaða afstöðu hefur þú þá til frumvarps sem lagt var fram á Alþingi um að heimila sölu á áfengi í verslunum utan ÁTVR?
 
„Við erum eina brugghúsið sem hefur verið fylgjandi þessu frumvarpi opinberlega. Við fórum fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis út af þeim málum í fyrrahaust og töluðum þar fyrir málinu.“ 
 
Hvað með þá gagnrýni á frumvarpið að aukið frelsi í sölu myndi fækka tegundum hér á markaði?
„Það myndi klárlega fækka tegundum í stóru verslununum, það er alveg rétt. Þetta myndi hins vegar opna möguleikana fyrir sérverslanir, eins konar „gourmet“ verslanir fyrir sérvín og bjóra. Við erum íslenskt fyrirtæki, borgum okkar skatta og skyldur til þjóðfélagsins. Okkur finnst þar af leiðandi sjálfsagt að íslenskt áfengi sem framleitt er hér á landi sé í boði í öllum Vínverslunum landsins. Okkur finnst að ÁTVR ætti að styðja betur við íslenska framleiðslu. Við erum í beinni samkeppni við erlend fyrirtæki sem eru ekki með sína starfsemi hér á landi.“
 
Aukið frelsi í sölu gæti nýst „Beint frá býli“
 
Dagbjartur nefnir eitt atriði sem rök í umræðuna um frjálsari verslun á áfengi hér á landi. Það sé fyrirbærið „Beint frá býli“ þar sem bændur selja eigin framleiðslu heima hjá sér. Auknar heimildir til að selja áfengi myndi koma mjög til góða brugghúsum á landsbyggðinni sem þyrftu þá ekki að fara með allt sitt í gegnum ÁTVR.
 
Eru að fikra sig meira út í ferðaþjónustuna
 
„Við erum líka komin út í ferðaþjónustuna, enda er Borgarfjörðurinn ört vaxandi sem ferðamannastaður. 
Síðastliðið sumar opnuðum við gestastofu hér í Steðja þar sem fólk getur sest niður, bæði innan dyra og utanhúss, og fengið að smakka á framleiðslunni. Þar myndast oft gríðarlega skemmtileg stemning þegar fólk alls staðar að hittist og spjallar, á meðan smakkaðar eru ýmsar tegundir af Steðja. Í vetur geta gestir fengið að kíkja í heimsókn eftir pöntun. Við höfum mikið verið að taka á móti hópum allt árið um kring og opnum síðan gestastofuna aftur núna með vorinu. 
 
Hvalabjórinn laðar margan útlendinginn til okkar og fær Hvalur 2 mjög góða dóma.  
Það er sannarlega hægt að gera ýmislegt hér á svæðinu og stefnan okkar er að búa til lífsviðurværi fyrir fjölskylduna og að hafa gaman af því.“
 
Fáir starfsmenn og lítil yfirbygging 
 
„Annars erum við ekki mörg sem störfum hér. Það er bruggmeistarinn og síðan erum við hjónin. Það er að rætast úr rekstrinum, en þetta hefur verið erfitt. Við erum þó að sjá fram á betri tíma eftir að við opnuðum gestastofuna og fórum að taka á móti hópum. Það styður vel við framleiðsluna. Þá erum við að reisa fjögur lítil gistihús við hliðina á brugghúsinu. Þetta eru einstök hús, svona örútgáfa af brugghúsinu og 20 fermetrar að stærð.  
 
Við ákváðum að fara heldur út í þetta en að opna Steðja-bar á Laugaveginum í Reykjavík með tilheyrandi kostnaði,“ segir Dagbjartur.
 
Á eigin fótum
 
Fyrirtækið er sannarlega sjálfstætt, er ekki þrælbundið á skuldaklafa og er ekki í eigu neins fjármálafyrirtækis. Á heimasíðu fyrirtækisins er þetta áréttað, en þar segir:
„Að gefnu tilefni viljum við árétta að Brugghús Steðja ehf. er eingöngu í eigu fjölskyldunnar á Steðja.
Lífeyrissjóðirnir eiga okkur ekki, ríkið á okkur ekki, engir fjárfestar eiga neinn hlut né aðrir. Við höfum engar afskriftir fengið á kostnað almennings í landinu!“

10 myndir:

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...