Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Dreifing á lífrænum húsdýraáburði hefur gert mikið gagn í uppgræðslu landsins.
Dreifing á lífrænum húsdýraáburði hefur gert mikið gagn í uppgræðslu landsins.
Lesendarýni 4. mars 2015

Hefjum tösku hátt á loft

Höfundur: Sigríður Jónsdóttir sauðfjárbóndi í Arnarholti.
Eigi alls fyrir löngu djöflaðist Landgræðslan í ræðu og riti gegn fáeinum bændum undir Eyjafjöllum, sem voguðu sér að fara með nokkrar kindur á afrétt sinn. Þessir menn máttu að mestu sjá um það sjálfir að svara fyrir sig. 
 
Ég skammaðist mín fyrir að verða vitni að þessari aðför, þar sem maður gekk undir manns hönd hjá Landgræðslunni og Skógræktinni að ráðast á þetta fólk, og skeyttu þar hvorki um skömm né heiður. Steininn tók úr þegar ég frétti að landgræðslustjóri hefði hellt heiftaráróðri gegn þessum Eyfellingum yfir fólkið í félagi eldri borgara í Biskupstungum. Þar sem hann var gestur. 
 
En ég tók ekki upp penna. Þó ég hafi oft skrifað blaðagreinar til að berjast gegn hinu illa. Ónei, ég hélt bara áfram að fyrirverða mig. Eins og allir sauðfjárbændur sem hafa einhverju að tapa urðu að gera gagnvart Landgræðslunni. Við vorum nauðbeygð til að halda kjafti hvað sem fram færi því við áttum allt of mikið undir miskunnsemi og velvilja þeirra sem þar ráða ríkjum. Í því samstarfi höfum við mátt fallast á það sem Landgræðslan hefur lagt til, sætta okkur við að stofnunin stæði ekki við sinn hluta af samningum og að þegja þegar talað hefur verið niður til okkar og gert lítið úr okkar verkum. Yfirleitt hafa forsvarsmenn Landgræðslunnar þó verið svo smekkvísir að tala illa um okkur á bak en skjalla okkur í fyrir. 
 
Það átti sér einmitt stað hér í Tungunum á nýliðnu misseri. 
Landgræðslufélag Biskupstungna, í samstarfi við Landgræðsluna, bauð til hátíðahalda í tilefni 20 ára afmælis félagsins þann 22. ágúst. Tvær rútur af fólki voru fluttar inn á afrétt til að dást að uppgræðslunum, tvenn landgræðsluverðlaun af þremur urðu eftir í sveitinni, við átum tertu og táruðumst af gleði. Landgræðslustjóri nefndi Eirík bróður minn mikinn landgræðsluvíking og tók í spaðann á honum. Við fórum heim að búa til nýja landbótaáætlun fyrir Biskupstungnaafrétt. Sem við teljum raunhæfa og ætluðum okkur að standa við. 
Þó að við hefðum ekki fengið gögnin sem við áttum að fá frá Landgræðslunni. Þó að ástand svæðanna sem við vildum fjalla um hefði ekki verið metið. Þó að Landgræðslumenn önsuðu því aldrei að Biskupstungnaafréttur nær yfir töluvert meira land en þeir vildu gera grein fyrir. 
Landbótaáætlun til 10 ára var útbúin með víðtæku samráði innan sveitar, allir notendur afréttarins sem stunda gæðastýrða sauðfjárframleiðslu undirrituðu þetta samkomulag og sveitarstjórn Bláskógabyggðar staðfesti herlegheitin. Sem voru send til Landgræðslunnar og var það mikill léttir að hafa lokið þessari miklu vinnu. 
 
Síðan gerist það að Landgræðslufélag Biskupstungna heldur árlegan aðalfund í Aratungu. Landgræðslustjóra var boðið á fundinn eins og venjulega og aðrir fundarmenn voru sama fólkið og vant er. Landgræðsluvíkingurinn Eiríkur í Gýgjarhólskoti ympraði á því við landgræðslustjóra að örðugt væri að uppfylla skilyrði um landbótaáætlanir varðandi markmiðssetningu þegar mat á núverandi ástandi lægi ekki fyrir. Landgræðslustjóri fullyrti að þessi ákvæði yrðu okkur engin hindrun, við værum svo miklir frumkvöðlar og uppgræðslustarf á Biskupstungnaafrétti stæði í slíkum blóma að við hefðum engu að kvíða í þessu sambandi. 
 
Bóndi minn kom heim í rúm til mín af þessum fundi hinn glaðasti og sagði mér þetta. Aðrir fundarmenn hafa sagt mér sömu sögu af orðum landgræðslustjóra og þetta er allt fólk sem er ekki vant að ljúga mjög mikið að mér. 
Við glöddumst eins og börn. Loksins væri starf okkar metið að verðleikum. Nú værum við samstiga Landgræðslunni og gætum haldið ótrauð áfram að græða landið og hlúa að uppgræðslunum okkar. 
Viku seinna fengum við umsögn Landgræðslunnar um landbótaáætlunina. Það var satt að segja reiðarslag. 
 
Í umsögninni var fundið að ÖLLU, bæði stóru og smáu. Í samkomulagi sem þrettán bændur höfðu þegar undirritað og byggðaráð og sveitarstjórn fjallað um á sitthvorum fundinum. 
 
Þarna gekk Landgræðslan einarðlega gegn þeirri hugmyndafræði sem lá að baki allri vinnu við gerð nýrrar reglugerðar um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. Og hafði auk þess í frammi tóma stæla og aðfinnslur um allt mögulegt annað. Eins og að örnefni sem getið er um í áætluninni séu ekki sérstaklega merkt á kort. Eins og að tilgreina þurfi lengd beitartíma á afréttinum þegar upphafið er skilmerkilega nefnt. Hreppamenn fengu sams konar athugasemdir varðandi beitartímann á sínum afrétti. 
 
Tungnaréttir og Hrunaréttir eru álíka árvissar og jólin. Og það er beinlínis hlægilegt af sviðsstjóra landverndarsviðs hjá Landgræðslunni að láta annan eins þvætting frá sér fara í nafni opinberrar stofnunar.
Ólafur Jóhannesson, bóndi á Hóli í Lundarreykjadal, tjáði mér að þeir Lunddælir hefðu meðal annars fengið athugasemdir um að efnisgreinar í þeirra áætlun væru ekki í réttri röð! 
Hvernig í ósköpunum er hægt að bregðast við svona bulli?
 
Að öllu þessu sögðu er margt að athuga
 
Samstarfinu sem við bændur höfum reynt að halda við Landgræðsluna undanfarna áratugi hefur greinilega verið sagt upp af hálfu Landgræðslunnar.  Þess vegna hef ég nú engu að tapa og get skrifað þessa grein. 
 
Það er greinilegt að Landgræðslan ætlar að beita öllum tiltækum ráðum til að landbótaáætlanir bænda verði ekki samþykktar. 
Er það hlutverk Landgræðsl­unnar?
 
Það er greinilegt að Landgræðslan hefur svo mikinn hug á að taka sauðfjárbændur kverkataki, að hún vinnur það til að setja svo til allt landgræðslustarf á Íslandi í algert uppnám.
Er það hlutverk Landgræðsl­unnar?
 
Þeir hagsmunir sem Landgræðslan ber fyrir brjósti eru greinilega einhverjir aðrir en gróðurvernd og uppgræðsla.
 
Er Landgræðslan að bregðast hlutverki sínu og skyldum við samfélagið? − Mér sýnist það.
 
Þeir sem halda um fjármagnið eru þeir sem Landgræðslan mígur utan í. Það er yfirlýst markmið Landgræðslunnar að stugga ekki við orkugeiranum, þar eru peningarnir og þar er höndin sem matar. Öllum landleysingjum þessarar þjóðar, gullgröfurum ferðaþjónustunnar, kjósendum og sveitarstjórnum er líka ætlað að styðja Landgræðsluna. Og til að ná samstöðu með stórum og ólíkum hópum er best að koma sér upp sameiginlegum og vel skilgreindum óvini. Og allir sem standa í hernaði vita að hyggilegra er að ráðast yfir lágan garð en háan. Við sauðfjárbændur höfum því orðið fyrir valinu sem þessi sameiginlegi óvinur. 
 
Þar kemur líka skýringin á því hvers vegna samborgarar okkar í hundrað og einum telja að hér á landi geisi nú bráð land- og gróðureyðing vegna ofbeitar. Þrátt fyrir að raunin sé önnur. Ofbeit sauðfjár heyrir sögunni til og gróðri hefur farið fram á landinu nær öllu undanfarna áratugi. 
 
Þessu fólki hefur einfaldlega verið sagt ósatt. Af þeim sem best eiga til að þekkja. Af þeim sem ekki á að vera ástæða til að rengja. 
 
Eins og landgræðslustjóri sagði okkur ósatt á aðalfundi landgræðslufélagsins í Aratungu um daginn. Við höfðum ekki ástæðu til annars en að trúa honum en hann var að ljúga. 
 
Oft hugsa ég til starfsfólks Landgræðslunnar sem hefur unnið með okkur sauðfjárbændum í sátt og samlyndi. Ég veit ekki hvað gengur á innan stofnunarinnar og ég veit ekki hvað verður um okkur en árásum Landgræðslunnar á gæðastýrða sauðfjárrækt verður að linna. 

7 myndir:

Skylt efni: Landgræðsla

Leyfa gas- og jarðgerð úr matarafgöngum
Fréttir 28. maí 2024

Leyfa gas- og jarðgerð úr matarafgöngum

Matvælastofnun hefur nýlega tilkynnt um að Gas- og jarðgerðarstöð Sorpu (GAJA) h...

Heimaframleiðsla lögleg
Fréttir 28. maí 2024

Heimaframleiðsla lögleg

Heimaframleiðsla nefnist umgjörð sem sköpuð var til að heimila litlum aðilum í F...

Bjórinn Naddi sló í gegn í London
Fréttir 28. maí 2024

Bjórinn Naddi sló í gegn í London

Fjórir íslenskir bjórar frá KHB brugghúsi á Borgarfirði eystra hlutu bresk bjórv...

Listeríusýkingar vaxandi vandamál
Fréttir 27. maí 2024

Listeríusýkingar vaxandi vandamál

Tíðni listeríusýkinga í Evrópu fer vaxandi og samkvæmt greiningum á fyrstu þremu...

Göngustígar hjá Geysi
Fréttir 27. maí 2024

Göngustígar hjá Geysi

Framkvæmdir við nýtt gönguleiðakerfi á Geysissvæðinu í Haukadal í Bláskógabyggð ...

Minnsta framleiðsla í ríflega sextíu ár
Fréttir 27. maí 2024

Minnsta framleiðsla í ríflega sextíu ár

Alþjóðlegu vínsamtökin International Organisation of Vine and Wine (OIV) segja í...

Aspir og wasabi ræktuð samhliða
Fréttir 24. maí 2024

Aspir og wasabi ræktuð samhliða

Nordic Wasabi er um þessar mundir að setja á innanlandsmarkað frostþurrkað wasab...

„Bjart fram undan og afurðaverð á uppleið“
Fréttir 24. maí 2024

„Bjart fram undan og afurðaverð á uppleið“

Jóhannes Geir Gunnarsson, bóndi á Efri-Fitjum í Vestur-Húnavatnssýslu, er bjarts...