Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Sigurdís Edda Jóhannesdóttir hér í jólastjörnuhafi, en þetta er líklega í síðasta skiptið sem hún mun rækta jólastjörnu.
Sigurdís Edda Jóhannesdóttir hér í jólastjörnuhafi, en þetta er líklega í síðasta skiptið sem hún mun rækta jólastjörnu.
Mynd / smh
Viðtalið 1. desember 2014

Hefði verið synd að nýta ekki heita vatnið

Höfundur: smh

Ferskar kryddjurtir frá Gróðrarstöðinni Ártanga eru nú orðnar mikilvægur hluti – fyrir fjölmarga sælkera – í vöruúrvali matvöruverslana hér á landi. 

Stöðin er í Grímsnesinu, rétt norðaustan við Hestvatn, og er í eigu hjónanna Sigurdísar Eddu Jóhannesdóttur og Gunnars Þorgeirssonar. 

Stöðin var stofnuð árið 1986, eftir að þau komu heim úr litlu Danmerkurævintýri. Þar náði Gunnar sér í garðyrkjumenntun og sömuleiðis starfsreynslu, en þegar þau héldu út árið áður höfðu þau einungis áhugann meðferðis – enga reynslu. Heima beið þeirra reyndar þeirra land og ónotað heitt vatn.

„Við vildum gjarnan vera í sveitinni, en ég vildi alls ekki verða kúabóndi,“ segir Edda. „Ég er alin upp við kúa- og fjárbúskap á Ormsstöðum hjá mömmu og pabba, en þau keyptu árið 1971. Í dag er rekið svínabú þar og systir mín um það bil að taka við rekstrinum, þótt foreldrar mínir búi þar enn. Ártangi liggur þétt upp að Ormsstöðum og því má segja að þetta sé nánast eins og eitt stórt fjölskyldubú. Selt er beint frá býli á báðum stöðum og auglýst í litlu staðbundnu fréttabréfi.

Við byrjuðum með pottaplöntur; til dæmis begoníur, jukkur og drekatré – og í raun mjög fjölbreyttar tegundir. Þegar við vorum með flestar plöntur hér þá vorum við með um fimm hundruð vörunúmer á ársgrundvelli; líka jólastjörnur og aðrar árstíðabundnar plöntur. Sá rekstur gekk alveg þokkalega og svo smám saman fórum við að vera líka með sumarblóm – af því þau vantaði hreinlega á markað – og svo upp úr 1990 einnig með lauka.“

Heita vatnið var uppspretta Ártanga

Fyrst í stað voru Edda og Gunnar einungis með eitt plasthús – en á þriðja ári bættu þau við sig tveimur. plasthúsum til viðbótar. „Árið 1989 byggðum við svo fyrsta stóra glerhúsið, sem er 720 fermetrar. Plasthúsin hafa síðan vikið fyrir tveimur stórum glerhúsum til viðbótar og skemmu um og eftir árið 2000; alls um 3.000 fermetra ræktunarrými. Við sjáum tæpast fyrir okkur að við þurfum að stækka meira í bráð.“

Að sögn Eddu má rekja upphafið að öllu þessu til þess að borað var eftir heitu vatni fyrir Ormsstaði í kringum árið 1980. „Upp úr þeirri holu komu upp um þrír sekúndulítrar af 90 gráðu heitu vatni. Talsvert afgangsvatn rann þá bara beinustu leið út í móa og við sáum að það væri í raun synd að nýta það ekki. Eftir því sem það byggðist upp hjá okkur varð ljóst að vatnsmagnið úr þessari einu holu myndi ekki duga fyrir báða bæina – þannig að rétt fyrir árið 2000 var boruð ný hola. Sú var um 400 metra djúp og gaf sjö og hálfan sekúndulítra – sömuleiðis af 90 gráðu heitu vatni. Fyrst um sinn rann úr þeirri holu af sjálfsdáðum yfir í hina holuna, en eftir jarðskjálftann mikla árið 2000 hætti sú sjálfvirkni og þurftum við þá að koma fyrir dælubúnaði til að ná í það aftur. Ekkert vatn var hér í sex vikur eftir skjálftann.“

Sala á pottaplöntum hrundi við efnahagshrunið

„Það kom í ljós fljótlega eftir að hér varð efnahagshrun að fólk sparaði við sig með því meðal annars að sleppa kaupum á pottablómum. Við urðum því að breyta eitthvað til í okkar starfsemi. Túlípanarnir héldu eiginlega í okkur lífinu á þessum árum, en þeir eru ekki nema hluta ársins í sölu. Það má því segja að á tímabilinu frá ágúst til desember, á þessum fyrstu árum eftir hrun, vorum við hreinlega á mörkum þess að ná að halda sjó fjárhagslega. Svo skaut upp kollinum þessi hugmynd að kannski væri ráð að fara að rækta kryddjurtir, því okkur fannst bæði að það væri einfaldlega skortur á ferskum kryddjurtum og svo að þeir sem væru nú þegar í kryddjurtaræktun væru á öðru sviði en við. Það voru nánast eingöngu lífrænt vottaðir framleiðendur og svo þetta innflutta. Við sáum líka að við gátum boðið kryddið okkar ódýrara en þeir sem voru með lífrænu vottunina, einfaldlega af því framleiðslan okkar myndi ekki vera eins kostnaðarsöm. Aðdragandinn var svo furðu skammur. Við ráðfærðum okkur við Magnús Ágústsson garðyrkjuráðunaut og hann hvatti okkur eindregið til að láta slag standa. Við fórum svo til Noregs í október í fyrra og heimsóttum þar fjórar garðyrkjustöðvar sem eru með bæði kryddjurtir og salat. Eftir þær heimsóknir vorum við sannfærð og í kjölfarið ákváðum við að drífa í þessu bara.

Kosturinn var að við þurftum engu að breyta hjá okkur. Við vorum með borð, vökvunar- og lýsingarbúnað kláran. Þess vegna var meðgangan svo stutt hjá okkur. Við vorum farin af stað í október í fyrra og seldum fyrstu plönturnar 18. desember.“

Lífrænar varnir og umhverfisvitund

Ártangi er ekki með lífræna vottun, en þó er eingöngu notast við lífrænar varnir gegn óværu sem leggst á plönturnar – og því engin eiturefnanotkun.  Tvenns konar óværa herjar einkum á plönturnar; hvítfluga og blaðlús. „Til að eiga við lúsina er notast við svokallaða lúsavespu, en hún verpir inn í lúsina þannig að lirfa vespunnar drepur að lokum lúsina með því að éta hana að innan. Svo notum við ránmaur gegn hvítflugunni, sem nærist á lirfum hennar. Við erum líka með gul límspjöld sem eru mjög gagnleg. Bæði festist hvítflugan mikið í þeim, enda sækir hún beinlínis í þau, og eins má lesa úr þeim hvaða óværa er fyrirferðarmest á hverjum tíma.

Við reynum að horfa heildrænt á rekstur gróðrarstöðvarinnar og reynum að endurnýta mold, áburð og vatn þar sem það er hægt. Við nýtum til dæmis moldina sem gengur af í krydddræktuninni sem jarðveg fyrir túlípanana.

Yfir vetrartímann sendir Ártangi frá sér á bilinu 2.000–2.500 plöntur á viku. Aðallega eru það sex tegundir sem fara reglulega í dreifingu í kjörbúðir í gegnum Sölufélag garðyrkjubænda; basilika, steinselja, kóríander, klettasalat, rósmarín og mynta. Svo eru aðrar tegundir sem ekki eru komnar í jafnmikla dreifingu enn; majoram, sléttblaða steinselja, salatsellerí og dill. Við verðum örugglega áfram með laukplönturnar, túlípana og hýasíntur og eitthvað fleira, en ég á fastlega von á því að þetta sé í síðasta skiptið sem við verðum með jólastjörnuna. Sumarblóm verðum við svo örugglega með að einhverju leyti áfram – í það minnsta næsta sumar. Okkur langar til að fara út í spínatræktun, en það er örlítið snúið því það þarf að stýra birtu mun meira þegar spínat er ræktað en hinar plönturnar í húsunum. Þetta er í grófum dráttum okkar framtíðarsýn, frá og með upp úr næstu áramótum.“

Ártangi er fjölskyldubú. Tvær dætur þeirra Gunnars og Eddu vinna við stöðina og sonur þeirra, sem er verkfræðingur, hefur einnig lagt hönd á plóg tæknimála. 

 

12 myndir:

Vinstri grænir stýra ráðuneyti matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar
Fréttir 27. nóvember 2021

Vinstri grænir stýra ráðuneyti matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar

Samkvæmt heimildum Bændablaðsins mun þingmaður Vinstri grænna vera með ráðuneyti...

Bitbein um áburðarnotkun
Fréttir 26. nóvember 2021

Bitbein um áburðarnotkun

Lífrænir bændur í Danmörku geta nýtt sér húsdýraáburð frá ólífrænum búum í meira...

Nær 36 milljónir íbúa ESB geta ekki kynt heimili sín sómasamlega
Fréttir 26. nóvember 2021

Nær 36 milljónir íbúa ESB geta ekki kynt heimili sín sómasamlega

Í síðasta Bændablaði var greint frá því að samkvæmt könnun sem kynnt var af Euro...

Kolefnissporið kortlagt
Fréttir 26. nóvember 2021

Kolefnissporið kortlagt

Skútustaðahreppur hefur samið við nýsköpunarfyrirtækið Greenfo um að kortleggja ...

Flestir bílaframleiðendur veðja á efnarafala fremur en rafhlöður í þung ökutæki
Fréttir 25. nóvember 2021

Flestir bílaframleiðendur veðja á efnarafala fremur en rafhlöður í þung ökutæki

Vetnisvæðing, sem nú er rekin áfram af mikilli ákefð hjá öllum stærstu iðnríkjum...

Rekstur vindorkugarða sagður brjóta á mannréttindum Sama
Fréttir 25. nóvember 2021

Rekstur vindorkugarða sagður brjóta á mannréttindum Sama

Norðmenn hafa upplifað spreng­ingu í uppsetningu vindorkustöðva á undanförnum ár...

Rúlluplast í plastgrindur í göngu­stígum og bílaplönum slær í gegn
Fréttir 24. nóvember 2021

Rúlluplast í plastgrindur í göngu­stígum og bílaplönum slær í gegn

Fyrirtækið Ver lausnir í Garðabæ hefur verið að vinna að athyglisverðu verkefni ...

Leiðbeiningar um hvernig hámarka megi gæði nautakjöts
Fréttir 24. nóvember 2021

Leiðbeiningar um hvernig hámarka megi gæði nautakjöts

Nýr upplýsingabæklingur hefur verið gefinn út undir merkjum Íslensks gæðanauts. ...