Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Skógasafn: Smjördallur, smíðaður af Kristófer Jónssyni,  bónda á Vindási í Landsveit, og notaður af honum í ferðum á Eyrarbakka og í Veiðivötn. Tekur um þrjú pund.
Skógasafn: Smjördallur, smíðaður af Kristófer Jónssyni, bónda á Vindási í Landsveit, og notaður af honum í ferðum á Eyrarbakka og í Veiðivötn. Tekur um þrjú pund.
Mynd / Brooks Walker
Fólk 15. nóvember 2016

Hátt „smjörfjall“ á Hólum

Fræðimaðurinn og safnvörðurinn Þórður Tómasson í Skógum sendir á þessu hausti frá sér bókina Mjólk í mat. Það er bókaútgáfan Sæmundur á Selfossi sem gefur út. Hér er á ferðinni alhliða fræðirit um mjólkurvinnslu gamla bændasamfélagsins, verkmenningu, þjóðtrú og sögu. 
 
Bændablaðið grípur ofan í bók Þórðar þar sem segir frá smjörfjöllum fyrri tíðar. Neðanmálsgreinum er sleppt og millifyrirsagnir eru blaðsins. 
 
40 tonn af smjöri
 
„Smjörsafn eða aðeins safn var notað um það smjör sem eitt heimili gat saman dregið til sjálfsþurftar á sumri. Að hausti gat vel átt sér stað að húsfreyja væri spurð: „Hvernig safnaðist hjá þér í sumar?“ Þetta var mál sem allir skildu.
 
Hinsvegar var svo það smjörsafn sem saman dróst á stórstöðum, biskupsstólum, klaustrum og hjá jarðareigendum í leikmannatölu. Um þetta efni eru margvíslegar heimildir, t.d. í máldögum kirkna og eignaskrám margskonar og úr því moðar víst enginn til fulls. Smjör var mikil uppspretta viðskipta, auðsældar og afkomu. Viðmiðun í viðskiptum og greiðslum er orðið fjórðungur sem er að þyngd 10 pund. 
 
Leiguskilmálar hjá landsdrottnum voru bundnir landskuld sem greidd var í smjöri, sauðfé og ýmsu öðru.
Smjörgjald var svo og svo margir fjórðungar miðaðir við hundraðatal jarðar og það gjald gat raunar á stundum hækkað við ábúendaskipti. Hér verður drepið niður í smjöreign nokkurra stórstaða á fyrri öldum.
Eignaskrá biskupsstólsins á Hólum skráð eftir aftöku Jóns Arasonar biskups í árslok 1550 er heimild um geysimikið smjörsafn, nær 40 tonn að nútíðar teikningi.
 
Í slotskemmu var nær hundrað vætta smjör og mun miðað við stórt hundrað, þ.e. 120. Vættin var 80 pund. Í langabúri var mikill smjörkostur, 30 álnir á lengd, 2 stikur á hæð og ein stika á breidd. Magnið var 620 vættir (þ.e. 720). Í langabúri var og smjörkálfur, „hálf önnur alin á breidd, á hæð, 2 álnir minnur en kvartel“.
 
Smjörjárn er þarna tilgreint meðal muna. Augljóst er að smjörið hefur verið sett upp á trépalli. Ekki er þarna allt upp talið: Staðurinn átti samandregið eignasmjör á nokkrum stólsjörðrum á Skagafirði, alls 111 vættir (þ.e. 131 vætt).
 
„Vestur á Nesi og hjá séra Birni á Kvennabrekku 18 vættir smjörs . . . Item von að smjöri fyrir sunnan áður verkostar eru af teknir 68 vættir.“
 
Margir Norðlendingar sóttu vertíð til Suðurnesja á þessum tíma eins og mannhefnd eftir Jón biskup vitnar glöggt um og vermata þeirra hefur verið sótt í þessar smjörbyrgðir. Ein smjörtunna var í skyrbúri á Hólum.
 
Umsjá og vernd smjörkastar og smjörkálfs vekur spurn. Í langabúri voru varðveittar 15 uxahúðir. Þær kynnu að hafa komið þar við sögu. Hvað varð svo um alla þessa smjöreign? Hún var mikils virði í verslun og viðskiptum og eitthvað kann að hafa farið til viðskipta utan lands.
 
Í eignaskrá Munkaþverárklausturs árið 1525 segir: „Í borðhúsi smjör hálf þriðja alin á lengd, hálf önnur alin á breidd og stikuhátt. Lausasmjör 2 vættir.“ Hér er og smjörjárn. Allt ber þetta sama svip og á Hólum nema hvað magnið er minna.
 
Snauðara í Skálholti
 
Snauðara var um smjör í Skálholti en á Hólum um 1550. Gissur Einarsson biskup féll frá 1548. Eignarskrá stólsins var þá gerð í áföngum. Í skrá sem gerð er 26. mars segir: „Item í gullskemmu tíu tunnur smjörs.“ Skráð er og smjörkista.
 
Í skrá 4. apríl greinir: „So mikið smjör í smjörklefa, 100 vættir og 60 vættir betur.“ Þetta er allvænn forði, um 14400 pund. Vænta má að frágangur smjörs í smjörklefa hafi verið svipaður og í langabúri á Hólum.
Í dánarbúi Lofts Guttormssonar 1432 voru 570 vættir smjörs.
 
Daði Guðmundsson í Snóksdal var stóreigna­maður. Eignaskrá hans, gerð að honum látnum 1562–63, prentuð í 14. bindi Fornbréfasafns, ber auði hans ótrúlegt vitni, uppspretta mikils og merkilegs fróðleiks. Vel var búið að smjöri í Snóksdal. „Voru svo mikil smjör í smjörhúsi in primis: Eitt smjör þriggja álna á lengd og svo breidd og hálf önnur alin að hæð. Item annað smjör að lengd 2 álnir og 3 kvartel betur og hálf önnur alin á breidd og kvartel miður enn 2 álnir að hæð. Voru svo mikil smjör í nýju skemmunni in primis: Item smjör 3 álnir á breidd enn kvartel miður enn 5 álnir á lengd, brestur kvartel uppá 2 áln­ir að hæð. Item 17 vættir smjörs þar til.“
 
Daði átti fjölda jarða og hér hefur leignasmjör hans verið saman borið. Reikningsglöggur maður gæti reiknað þyngd smjörforðans.
 
Oddasmjörið dró Matthías að staðnum
 
Nokkrar kirkjur áttu jarðeignir miklar og góðar. Þar bar hæst á Suðurlandi Oddakirkju á Rangárvöllum og Breiðabólstaðarkirkju í Fljótshlíð. Holtskirkja undir Eyjafjöllum gekk þeim næst, með nær 30 landseta er best lét.
 
Smjörleigur Oddakirkju námu um 280 fjórðungum á 17. öld ár hvert. Margra manna mál var að það hefði ekki hvað síst verið Oddasmjörið sem dró séra Matthías Jochumsson til að sækja um Oddaprestakall 1880. Smjörið var auðseljanleg vara.
 
Í raun og sannleika er það með ólíkindum hvernig leiguliðar gátu risið undir smjörleigum og landskuldum og ískyldum af ýmsum toga. Máldagi Þykkvabæjarklausturs í Álftaveri árið 1340 er glöggt vitni um þetta. Klaustrið átti nokkrar jarðir í Mýrdal. Af vesturhúsum á Dyrhólum, Ketilsstöðum, Giljum (Geilum), Götum og Vík var smjörgjaldið tvær vættir, eða 160 pund af hverri jörð. Sumarhagar á þeim jörðum hafa á miðöldum sennilega verið að einhverjum mun betri en síðar varð en eigi að síður hafa þarna verið álögur býsna þungar.
 
Leiguliðarnir átu þurrt!
 
Verkefnið það að safna í leigurnar sat í fyrirrúmi hjá öllum leiguliðum fyrri tíma. Smjörgjaldið var hjá mörgum það hátt að fólk varð að spara við sig feitmeti, jafnvel borða þurrt, eins og sagt var uns allt var saman dregið. Þorsteinn Erlingsson skáld hefur skráð skrýtlu um maddömu Sigríði Pálsdóttur á Stórólfshvoli og smjörgjald af Moshvoli í Hvolhreppi: „Sigríður kona sr. Sigurðar Thorarensen á Hvoli átti að taka á móti leigunum af Moshvoli og sagði maðurinn að hann hefði orðið að svelta börnin sín fyrir þær. Sr. Sigurður spurði hana hvernig leigurnar af Moshvol hefðu verið úti látnar. „Ég vona þær vegist,“ svaraði hún, en hún hafði gefið manninum þær.“
 
Þorsteinn hefur meira til mála að leggja um leigu og landskuldir: Páll bróðir hans var leiguliði á Sámsstöðum í Fljótshlíð, landseti Breiðabólstaðarkirkju. Eftirfarandi vísu segir Þorsteinn að Páll hafi ort við slátt í Sámsstaðaengjum.
 
Hart er að vera í haustrigningu
hungraður og ber
en kaupa fúla fordæmingu
fyrir ær og smér.
 
Framar þessu segir Þorsteinn: „Það er þó klínt á uggann hjá Hrunaprestinum,“ sagði Páll, þegar Guðrún mín sagði honum að Hrunaprestur fengi 70 fjórðunga í gjöld af sméri, „það hefur ekki verið skyrpt á hann eins og sumum þótti fullgott handa hundunum í sveitinni.“

4 myndir:

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður
Fréttir 7. júlí 2022

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður

Staðfest er að samtals 128 gripir bera annaðhvort ARR-arfgerð, sem er alþjóðlega...

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021
Fréttir 7. júlí 2022

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021

Afurðatekjur af nautaeldi mæta ekki framleiðslukostnaði og hafa ekki gert síðast...

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir
Fréttir 27. júní 2022

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar umtalsverðar hækkanir á afurðaverði til sauðfjárb...

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“
Fréttir 14. júní 2022

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“

Stjórn Bændasamtakana telur skýrslu og tillögur Spretthóps, sem lagaðar voru fyr...

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning
Fréttir 14. júní 2022

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning

Spretthópur, sem matvælaráðherra skipaði vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframle...

Mjólkurvörur frá Örnu til Bandaríkjanna
Fréttir 13. júní 2022

Mjólkurvörur frá Örnu til Bandaríkjanna

Nýlega skrifuðu forsvarsmenn Örnu í Bolungarvík og forsvars- menn Reykjavík...

Samdráttur í sölu á fræi
Fréttir 8. júní 2022

Samdráttur í sölu á fræi

Samkvæmt lauslegri könnun Bændablaðsins er búið að flytja inn rúm tvö tonn a...

Aðstaða bænda og fyrirtækja í landbúnaði á Íslandi er lakari en í öðrum ríkjum Evrópu
Fréttir 8. júní 2022

Aðstaða bænda og fyrirtækja í landbúnaði á Íslandi er lakari en í öðrum ríkjum Evrópu

Rúmlega tuttugu íslensk fyrirtæki sem tengjast landbúnaði og matvælaframleiðslu ...