Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Syngjandi snjótittlingskarlfugl. Snjótittlingurinn er einkennisspörfugl á auðnum og í fjalllendi. Er fremur lítill. Karlfugl í sumarbúningi, sólskríkjan, er snjóhvítur, nema svartur á baki, axlarfjöðrum og vængbroddum, á veturna líkist hann kvenfugli. Á sumrin er kvenfuglinn ljósbrúnn, ljósari að neðan, með dökkt bak og yfirvængi með ljósum vængbeltum, svipuð en dauflitari á veturna. Er með rauðbrúnar kámur á höfði og bringuhliðum. Hvítir vængreitir áberandi árið um kring á fljúgandi fuglum. (fuglavefur.is).
Syngjandi snjótittlingskarlfugl. Snjótittlingurinn er einkennisspörfugl á auðnum og í fjalllendi. Er fremur lítill. Karlfugl í sumarbúningi, sólskríkjan, er snjóhvítur, nema svartur á baki, axlarfjöðrum og vængbroddum, á veturna líkist hann kvenfugli. Á sumrin er kvenfuglinn ljósbrúnn, ljósari að neðan, með dökkt bak og yfirvængi með ljósum vængbeltum, svipuð en dauflitari á veturna. Er með rauðbrúnar kámur á höfði og bringuhliðum. Hvítir vængreitir áberandi árið um kring á fljúgandi fuglum. (fuglavefur.is).
Mynd / Tómas G. Gunnarsson
Fréttir 31. október 2025

Harðasti nagli norðursins í vanda

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Snjótittlingi hefur fækkað á bilinu tvö til fimm prósent árlega á sunnanverðu hálendi Íslands frá árinu 2002.

Fuglum er að fækka á norðurslóðum meðal annars vegna taps á búsvæðum og vegna loftslagsbreytinga. Snjótittlingur (Plectrophenax nivalis) er dæmi um tegund sem verpur allt í kringum norðurheimskautið og finnst hann aðallega í varpi í hraun- og mosavistum þótt hann geti einnig orpið í mannvirki eins og stíflur, kofa o.s.frv.

Böðvar Þórisson, líffræðingur og verkefnastjóri á rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurlandi, hefur rannsakað varpstofn snjótittlinga á suðurhálendinu frá árinu 2020. „Snjótittlingi hefur fækkað mjög víða, t.d. um allt að 64% í NorðurAmeríku á 40 árum (1996–2006). Hér á landi hafði snjótittlingurinn lítið verið rannsakaður, og því ekki vitað hver staða hans var, en bæði fuglaáhugafólk og fuglafræðingar töldu þó að honum væri að fækka hér á landi. Það var því löngu kominn tími til að kanna hver staða snjótittlings væri,“ segir Böðvar.

Hann útskýrir að Náttúrufræðistofnun (NÍ) hafi gert viðamiklar talningar á fuglum á hálendinu í kringum síðustu aldamót og voru því til talningar sem hægt var að bera saman við. Sumrin 2021–2025 voru talningar NÍ á suðurhálendi landsins endurteknar en jafnframt var talið í stíflum uppi á hálendinu á vatnasviði Þjórsár á árunum 2020–2024 en til voru eldri talningar frá 1996 og 2002.

Snjótittlingskarlfugl með æti fyrir unga, við Þjórsárstíflu. Flug snjótittlings er hratt og bylgjótt. Hann tyllir sér á steina, þök og víðar, þó sjaldan í tré. Er afar félagslyndur á veturna en á sumrin eru pör eða fjölskyldur saman. (fuglavefur.is). Myndir / BÞ

Bendir til fækkunar á landsvísu

„Niðurstöður sýna að snjótittlingi hefur fækkað um 5% árlega við Kvíslaveitur frá 2002–2024 og í stíflum á vatnasviði Þjórsár um 2% árlega. Nýleg stofnvísitala fyrir snjótittling út frá vetrartalningum sýnir svipaða fækkun,“ segir Böðvar.

Á Íslandi verpi um 136.000 pör og um 83% af varpstofninum er á hálendinu. „Það lítur því ekki allt of vel út fyrir þennan nagla en taka verður fram að sumarathuganir voru gerðar á suðurhálendinu og vitum við því ekki hvernig stofninn er að hegða sér annars staðar þó að niðurstöður vetrarfuglatalninga bendi á að þetta eigi við allt landið,“ segir hann.

Þrátt fyrir viðamiklar rannsóknir erlendis sé ekki ljóst hvað það er sem valdi fækkuninni. „Það er þó vitað að snjótittlingur á erfitt með að kæla sig í góðu veðri, en hans eina leið er þá að draga úr sínum daglegu athöfnum og hvíla sig. Þetta gæti komið niður á öflun fæðu fyrir unga, og þá lifun unga. Mögulega eru því loftslagsbreytingar (lofthiti) að hafa áhrif en eins og er þá vantar gögn til að sannreyna þessa tilgátu,“ segir Böðvar jafnframt.

Hann segir því ekki bjartar horfur fyrir snjótittling á hálendi landsins, bæði hvað varðar loftslagsbreytingar og röskun á búsvæðum. „Klettur eða urð getur þýtt rúmmetrar í efnisvinnslu fyrir manninn en eru mögulega híbýli snjótittlings og unga hans. Við stoppum ekki loftslagsbreytingar á einni nóttu en gætum verndað búsvæði fuglanna okkar,“ segir hann enn fremur.

Samsett mynd: Uppi til vinstri er klettur við Þúfuversstíflu og ör bendir á hreiðurstað. Niðri til vinstri er sýnt inn í sprunguna en þar eru göng að hreiðrinu. Hreiðrið sést þó ekki því það er of langt inni. Böðvar Þórisson er svo að reyna að taka mynd af þessu með gopro-myndavél án þess að detta fram af hamrinum.

Frekari rannsókna þörf

Spurður um framhaldsrannsóknir segir Böðvar að gott væri að halda áfram með talningar á snjótittlingi á hálendinu og telja þá mun víðar, en það krefjist meiri mannafla. „Einnig væri áhugavert að skoða hvaða fæðuval hans, og hvernig mismunandi hitastig og fjarlægð í fæðu, hefur áhrif á getu hans til að afla fæðu fyrir ungana. En þetta eru tímafrekar athuganir og krefst sérstaks verkefnis og fjármagns. Það dugar ekki að bjóða fjölskyldumeðlim að vakna eldsnemma og fara í sunnudagsrúnt upp á hálendi 12–18 tíma til að athuga hvað snjótittlingur er að éta!“ bætir Böðvar sposkur við.

Um verkefnin fram undan segir hann haustið og veturinn fara í að skipuleggja næsta sumar eins og t.d. hvort tími og fjármagn sé til fyrir meiri rannsóknir á hálendinu. „En aðallega fer minn tími núna í að klára gagnaskráningu eftir sumarið og vinna úr þeim gögnum. Ég held utan um gagnagrunna um vaðfugla sem hafa verið merktir með litmerkjum. Þeir hafa sést í tugþúsundir skipta í útlöndum svo það er talsverð vinna að halda utan um ævisögur þeirra og svara athugendum. Þessi gögn eru notuð til að skoða fjölmarga þætti í vistfræði þessara fugla en því miður þá eru blikur á lofti með suma af þessum stofnum,“ segir Böðvar að endingu. 

Laxness um snjótittlinginn:

„... Séra Jón: ... Nema guð hefur þann kost að það má fá honum sæti hvar sem
er; í hverju sem er.
Umbi: Til að mynda í nagla?
Séra Jón, orðrétt: Í skólakappræðum var stundum lögð fram sú spurníng
hvort guði sé ekki ómáttugt að skapa svo þúngan stein að hann geti ekki
tekið hann upp. Oft finst mér almættið vera einsog snjótitlíngur sem öll veður
hafa snúist í gegn. Svona fugl er á þýngd við frímerki. Samt fýkur hann ekki
þó hann standi útá berángri í fárviðri. Hafið þér nokkurntíma séð hauskúpu af
snjótitlíngi? Hann beitir þessu veikbygða höfði mót veðrinu, með gogginn við
jörð, leggur vængina fast uppað síðunum, en stélið vísar upp; og veðrið nær
ekki taki á honum heldur klofnar. Jafnvel í verstu hrinunum bifast fuglinn ekki.
Hann er staddur í logni. Það hreyfist ekki einusinni á honum fjöður.
Umbi: Hvernig vitið þér að fuglinn sé almættið en ekki vindurinn?
Séra Jón: Af því frostbylur er sterkasta afl á Íslandi en snjótitlíngur vesalastur
af öllum hugdettum guðs.
... Um snjótitlíng hef ég aungvu að bæta við það sem ég sagði um daginn
við úngan mann sem var að leita að sannleikanum: ef til er almætti í
himingeimnum, þá er það í snjótitlíngum. Hvað sem á dynur, snjótitlíngurinn
lifir af; stórhríðarnar eru ekki fyr um götur geingnar en hann er orðinn
sólskríkja.“

Kristnihald undir Jökli, Halldór Kiljan Laxness, Helgafell, 1968.

Skylt efni: Snjótittlingur

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu
Fréttir 11. desember 2025

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu

Ný rannsókn Matís sýnir að kolefnisspor helstu íslenskra matvæla – mjólkur, kjöt...

Þörungakjarni með mörg hlutverk
Fréttir 11. desember 2025

Þörungakjarni með mörg hlutverk

Undirrituð hefur verið formleg viljayfirlýsing um stofnun Þörungakjarna á Akrane...

Húsaeiningar frá Noregi
Fréttir 9. desember 2025

Húsaeiningar frá Noregi

Nýlega komu um tvö þúsund fermetrar af svonefndum „Modulum“, sem eru forsmíðaðar...

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni

Alþingi hefur samþykkt framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár til ársins 2029. Um tí...

Gervigreind í Grímsnesi
Fréttir 9. desember 2025

Gervigreind í Grímsnesi

Grímsnes- og Grafningshreppur tekur nú þátt í þróunarverkefni í samstarfi við up...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti
Fréttir 8. desember 2025

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti

Niðurstöðu COP30 sem fram fór í Brasilíu í nóvember hefur verið lýst sem lægsta ...

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum
Fréttir 8. desember 2025

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum

Nýsköpunarfyrirtækið Gefn sérhæfir sig í framleiðslu á umhverfisvænum bílahreins...