Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Hirt í hlöðu Halldórsfjóss sumarið 1938. Þá var enn tími fjórhjóla vagna og dráttarhesta; með vindu voru heyhlössin undin upp og inn í hlöðu.
Hirt í hlöðu Halldórsfjóss sumarið 1938. Þá var enn tími fjórhjóla vagna og dráttarhesta; með vindu voru heyhlössin undin upp og inn í hlöðu.
Fréttir 7. maí 2015

Halldórsfjós - stærsti safngripurinn

Með samningi við Landbúnaðar­háskóla Íslands hefur Land­búnaðar­safn aðstöðu í Halldórsfjósi á Hvanneyri. En hver var þessi Halldór?
 
Halldór Vilhjálmsson var skólastjóri á Hvanneyri árin 1907–1936; mikill frumkvöðull, fræðimaður og kennari, auk þess að vera dugandi bóndi. Hann hafði mikil áhrif með verkum sínum og var meðal merkustu búvísindamanna 20. aldar. Halldór fæddist í Laufási við Eyjafjörð árið 1875. Eftir nám í Möðruvallaskóla hélt hann til búfræðináms í Danmörku, fyrst við mjólkurskólann í Dalum en síðan við Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólann  í Kaupmannahöfn. Halldór stundaði einnig nám við lýðháskólann í Askov.
 
Það kom í hlut Halldórs að byggja Hvanneyrarskóla upp sem ríkisstofnun á grundvelli búnaðarskóla Suðuramtsins sem stofnaður hafði verið árið 1889.  Halldór varð áhrifamikill búfræðikennari og nemendur hans urðu margir hverjir áhrifamenn við mótun íslensks landbúnaðar á 20. öld. 
Halldór skrifaði mikið um búfræði, bæði kennslubækur og annað fræðsluefni, margt á grundvelli eigin athugana og tilrauna sem hann gerði á Hvanneyri. Helsta rit hans er Fóðurfræði, út gefin 1929. 
Á árunum 1928–1929 lét Halldór byggja 80 gripa fjós með hlöðu til stórframleiðslu á mjólk en líka til kennslu og tilrauna. Guðjón Samúelsson húsameistari teiknaði bygginguna. Halldór leitaðist við að búa fjósið þeirri tækni sem þá var nýjust, t.d. hvað snerti fóðrun og mjaltir kúnna, loftræstingu og vinnuhagræðingu hvers konar, sótti m.a. hugmyndir og tækni til Norðurlanda. Í fjósi Halldórs kynntust nemendur nýjum verkháttum og með nemendum breiddist ný þekking á sviði nautgriparæktar og mjólkurframleiðslu um sveitir landsins.
 
Sakir hlutverks Halldórsfjóss sem kennslu- og rannsóknafjóss fór ekki hjá því að breytingar yrðu gerðar á ýmsu innanstokks í áranna rás. Þær breytingar eru angi af þróunarsögunni sem byggingin geymir, svo sem um aukna votheysgerð, nýja hætti við meðferð mykjunnar, breytingu frá handmjöltum til mjaltabáss o.fl. Breytingarnar vegna tilkomu safnsins eru þó ekki meiri en svo að sáralítið mál væri að breyta byggingunni aftur í hefðbundið básafjós (ef slíkt væri heimilað!).
 
Mjólkurkýr voru í fjósinu til ársins 2004. Eftir athugun var komist að því að best yrði að nýta bygginguna sem safnahús. Var síðan gerður samningur á milli safns og LbhÍ um leiguafnot safnsins. 
 
Sigríður Sigþórsdóttir arkitekt var fengin til þess að segja fyrir um endurbætur á byggingunni með þarfir safns í huga. Fyrirsögn hennar var að breyta byggingunni sem minnst – að láta fjóseinkennin halda sér sem mest.  Að öllu samanlögðu má segja að Halldórsfjós – fjósið með hlöðu og haughúsi – sé stærsti gripur safnsins. Það geymir 80 ára þróunarsögu nautgriparæktar, og margs annars er varðar sögu Hvanneyrarskóla. 
 
Á fyrstu árum Halldórsfjóss var mjólkin unnin heima undir stjórn Kristjönu Jónatansdóttur rjómabústýru. Nokkur af áhöldum rjómabús hennar má nú sjá í Landbúnaðarsafni, sem voru sömu gerðar og notuð voru í Mjólkurskólanum sem stofnað var til á Hvanneyri haustið 1900 en var síðan fluttur að Hvítárvöllum. 
Forsenda hins umfangsmikla kúabúskapar á Hvanneyri var hve auðvelt var að afla heyja á engjalöndunum þar. Þar má í dag sjá minjar um ræktunarhætti fyrri tíðar, m.a. áveitugarða og áveituhólf. Ræktun þurrlendisins var aukin, og nemendur Bændaskólans lærðu ný vinnubrögð við hana. Í næsta nágrenni safnsins má ganga fram á aldargamlar beðasléttur, þennan sérstæða ræktunarhátt frá árdögum nútíma túnræktar. Þær eru meðal ríkulegra menningarminja sem þar er að finna.
 
Í safninu eru gömlu jarðyrkju­verkfærin frá Ólafsdal og Hvanneyri meðal merkustu gripa safnsins: Hestaplógar, hestaherfi af ýmsum gerðum, moldskúffur og mælingaáhöld. Athygli margra gesta safnsins vekur að vinnubrögð verkfæranna hafa ekki breyst í áranna rás svo miklu nemi. Hins vegar hafa verkfærin margfaldast að stærð og afköstum, og vinnugæðum hefur fleygt fram, við að fá aðgang að nýrri efnistækni en þó fremur orkugjöfum sem nær óþekktir voru í upphafi íslensku búnaðarbyltingarinnar. 
Fuglavarnir til bjargar laxaseiðum
Fréttir 1. júní 2023

Fuglavarnir til bjargar laxaseiðum

Nýstárleg tilraun var gerð við ósa Haffjarðarár síðasta sumar, þegar fuglavarnar...

Fjölgun nema í kjötiðn
Fréttir 1. júní 2023

Fjölgun nema í kjötiðn

Rúnar Ingi Guðjónsson segist finna fyrir mjög miklum áhuga hjá ungu fólki að lær...

Ferðamenn sækja í skóga
Fréttir 1. júní 2023

Ferðamenn sækja í skóga

Stjórn Félags skógarbænda á Suðurlandi harmar framkomnar órökstuddar fullyrðinga...

Ártangi til sölu
Fréttir 31. maí 2023

Ártangi til sölu

Hjónin Gunnar Þorgeirsson og Sigurdís Edda Jóhannesdóttir hafa sett garðyrkjustö...

Skýr afstaða í könnun
Fréttir 31. maí 2023

Skýr afstaða í könnun

Meirihluti þjóðarinnar er sammála því að íslenska ríkið eigi að leggja aukið fjá...

Glaðbeittur starfsmaður í þjálfun
Fréttir 31. maí 2023

Glaðbeittur starfsmaður í þjálfun

Ágúst Sigurðsson á Kirkjubæ á Rangárvöllum hefur nýlega tekið við starfi fagstjó...

Erlendir sérhæfðir garðyrkjuráðunautar á Íslandi
Fréttir 31. maí 2023

Erlendir sérhæfðir garðyrkjuráðunautar á Íslandi

Matvælaráðherra úthlutaði nýlega styrkjum til þróunarverkefna búgreina, um 93 mi...

Afhending eftir sauðburð
Fréttir 30. maí 2023

Afhending eftir sauðburð

Matvælastofnun hefur náð samkomulagi við sauðfjárbændur á nokkrum bæjum í Miðfja...