Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir á og rekur tvær garðyrkjustöðvar hjá Flúðum, Hverabakka og Mela. Þar er framleitt mikið magn af grænmeti; tómatar, gúrkur, paprikur, blómkál, spergilkál, sellerí og kúrbítur svo eitthvað sé nefnt.
Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir á og rekur tvær garðyrkjustöðvar hjá Flúðum, Hverabakka og Mela. Þar er framleitt mikið magn af grænmeti; tómatar, gúrkur, paprikur, blómkál, spergilkál, sellerí og kúrbítur svo eitthvað sé nefnt.
Mynd / Aðsend
Fréttir 19. júní 2024

Halla færir út kvíarnar

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjuframleiðandi og eigandi garðyrkjustöðvanna á Hverabakka og Melum hjá Flúðum, sagði nýlega skilið við Sölufélag garðyrkjumanna.

Vörum hennar er nú dreift og þær seldar undir merkjum nýs vörumerkis, Sólskins grænmetis.

Þrjú ár eru síðan Halla Sif tók við rekstri Gróðurs á Hverabakka, þar sem undirstaða reksturs er framleiðsla sólskinstómata og útiræktun grænmetis. Fyrir tæpu ári síðan festi Halla Sif, ásamt viðskiptafélaga sínum Torfa G. Yngvasyni, kaup á garðyrkjustöðinni Melum, þar steinsnar frá, en henni fylgdi m.a. Litla bændabúðin á Flúðum. Á stöðvunum tveimur er framleitt mikið magn af grænmeti; tómatar, gúrkur, paprikur, blómkál, spergilkál, sellerí og kúrbítur svo eitthvað sé nefnt en Halla giskar á að hlutfall smátómataframleiðslu fyrirtækisins sé rúmlega þrjátíu prósent af íslenska markaðnum.

Sá ekki framtíð í Sölufélaginu

Eins og margir garðyrkjubændur nýtti Halla sér þjónustu Sölufélags garðyrkjumanna sem tekur að sér pökkun, dreifingu og kynningarstarf á íslensku grænmeti. Eigendur garðyrkjustöðvanna tveggja, sem Halla keypti, eiga enn hver sinn tíu prósenta eignarhlut í Sölufélaginu sem fylgdu ekki kaupunum. Halla átti því aðeins lágmarkshlut en var tiltölulega stór innleggjandi.

Eftir að hafa legið yfir rekstrargreiningum varð hún sannfærð um að breytt dreifingarkerfi væri rétt leið til að byggja fyrirtæki sitt upp á réttan hátt á næstu árum.

„Þegar þú ert með mjög skuldsettan rekstur þarftu að rýna í hverja einustu krónu. Við vorum að greiða Sölufélaginu fyrir flutning, alla þjónustu auk söluþóknunar. Eftir yfirlegu sáum við að það yrði hagkvæmara fyrir okkur að gera þetta sjálf, að reyna frekar að mynda sem mest eigið fé inni í rekstrinum með þessum hætti. Ég sá því miður ekki fram á að ég myndi á næstu árum geta lagt út peninga til að kaupa hlut í sölufélaginu sem væri í réttu hlutfalli við það sem ég er að leggja inn.“

Skrefið var tekið nú í vor þegar vörumerkið Sólskins fór að birtast í grænmetishillum matvöruverslana.

Kostnaðarsamt í upphafi

Þessari breytingu fylgdi þó mikill kostnaður. Fjárfesta þurfti í flutningabíl, tækjabúnaði og fjölnota kössum ásamt þeirri vinnu sem felst í þróun, hönnun og markaðssetningu á nýju vörumerki. En þrátt fyrir þungan róður til að byrja með er skrefið tekið með langtímamarkmið í huga.

„Við erum að hugsa þetta til næstu tíu ára og við sjáum fram á að reksturinn verði í mjög góðum málum og hagkvæmari að hluta út af þessari breytingu.“

Halla segir einnig gott að geta borið ábyrgð á sinni eigin vöru frá upphafi til enda. „Sumir hafa engan áhuga á þessum hluta ferilsins en við höfum reynslu af markaðs- og sölumálum og því var þetta verkefni sem við veigruðum okkur ekki við að taka til okkar sjálf þó allt ferlið síðustu mánuði sé búið að taka rækilega á.“

Hagkvæmni og sjálfbærni

Einnig fylgja breytingunni ákveðin samlegðaráhrif, bæði í framleiðslu beggja garðyrkjustöðva og í mannauði. Ráðnir voru bæði dreifingar- og rekstrarstjóri sem einnig sinna störfum sem áður var aðkeypt.

„Við bárum náttúrlega sjálf litla ábyrgð á því hvað gerðist þegar vörurnar fóru út úr pökkunarhúsinu. En nú hefur opnast nýr heimur með alls konar nýjum áskorunum,“ segir Halla. Vörumerki fyrirtækisins hefur fengið nafnið Sólskins grænmeti og vísar það í hina rótgrónu sólskinstómata sem Hverabakki er þekktur fyrir. „Upprunalega yrki þeirra smátómata er ́sunstream ́og þaðan kemur íslenska nafnið til að byrja með. Okkur hefur alltaf þótt vænt um þetta nafn og það kom eiginlega ekkert annað til greina en að fylgja því eftir.“

Því má finna í búðum Sólskins gúrkur og í sumar munu svo bætast við Sólskins sellerí, blómkál, spergilkál og ýmislegt fleira. „Við erum að prófa okkur áfram með tegundir í tómötum og smágúrkum ásamt eggaldinum og paprikum.“

Halla segir það skipta sig máli að hafa sem fæsta milliliði milli frumframleiðslunnar og neytandans. „Framleiðslan er dýr og því er mikilvægt að reyna að gera þetta á eins hagkvæmasta hátt og mögulegt er. Það er einnig ákveðin sjálfbærni fólgin í því að fylgja vörunni eftir allt frá framleiðslu til neytanda.“

Langtímamarkmið Höllu er að koma upp stærri vinnsluaðstöðu þar sem hægt væri að vinna uppskeruna og geyma lengur til að lengja sölutímabil afurðanna og bjóða upp á breiðara vöruúrval.

Bændur byggja rétt
Fréttir 22. október 2024

Bændur byggja rétt

Bændur í Steinadal á Ströndum stóðu að byggingu nýrrar réttar í Kollafirði og va...

Stofnverndarsjóður lagður niður
Fréttir 22. október 2024

Stofnverndarsjóður lagður niður

Stofnverndarsjóður íslenska hestakynsins verður lagður niður í lok árs. Sjóðurin...

Fyrirhuguð risaframkvæmd
Fréttir 21. október 2024

Fyrirhuguð risaframkvæmd

Um 220 herbergja hótel, baðlón og 165 smáhýsi er fyrirhugað að rísi í Ásahreppi.

DeLaval til Bústólpa
Fréttir 21. október 2024

DeLaval til Bústólpa

Umboðið á DeLaval-mjaltabúnaði færðist þann 1. október til Bústólpa á Akureyri.

Rýr uppskera af melgresi
Fréttir 18. október 2024

Rýr uppskera af melgresi

Fræskurður hefur staðið yfir í haust á vegum landgræðsluhluta Lands og skógar.

Fuglainflúensa víða
Fréttir 18. október 2024

Fuglainflúensa víða

Rökstuddur grunur er um fuglainflúensu í hröfnum og öðrum villtum fuglum.

Aukið fjármagn til Brothættra byggða
Fréttir 17. október 2024

Aukið fjármagn til Brothættra byggða

Verkefnið Brothættar byggðir hlýtur 135 milljóna króna aukafjárframlag frá Byggð...

Enn reynt að fá leyfi til veiða á ágangsfuglum
Fréttir 17. október 2024

Enn reynt að fá leyfi til veiða á ágangsfuglum

Fimm þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafa lagt fram þingsályktuna...