Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Hagtölusöfnun í landbúnaði gefur ekki alveg rétta mynd af stöðunni
Fréttir 24. september 2014

Hagtölusöfnun í landbúnaði gefur ekki alveg rétta mynd af stöðunni

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Búfé á Íslandi samkvæmt tölum Matvælastofnunar (MAST) var samtals 881.034 á árinu 2013 samanborið við 991.258 á árinu 2012. Vekur athygli að þetta er fækkun milli ára sem nemur um 110 þúsund dýrum sem hlýtur að teljast afar sérstök niðurstaða. Þá virðist vanta ríflega 24 þúsund hross inn í  tölur síðasta árs.

Sveitarfélögin í landinu önnuðust um langt árabil búfjáreftirlit og forðagæslu fyrir hönd ríkisins samkvæmt lögum og ítarlegri reglugerð og í náinni samvinnu og yfirumsjón Bændasamtaka Íslands. Heimsóttu eftirlitsmenn þá bændur til að fá staðfestingu á tölum þeirra um búfjárfjölda og fóðurbirgðir. Bændasamtökin héldu síðan utan um nákvæma söfnun tölulegra upplýsinga um fjölda búfjár í landinu fyrir hönd ríkisins fram til 2010 þegar það verkefni var flutt til MAST. Hefur þetta eftirlit og öflun hagtalna sem þar hefur verið safnað á hverju ári, bæði vor og haust, verið afar mikilvæg, m.a. við framkvæmd stuðningskerfis landbúnaðarins og talnasöfnun Hagstofu Íslands. Þetta eru líka nauðsynleg gögn varðandi fjallaskil og alla áætlanagerð. 

 

 

Samkvæmt nýjum lögum um dýravelferð og búfjárhald var þetta eftirlitshlutverk flutt yfir til MAST og framkvæmdinni breytt. Var þetta talið nauðsynlegt til að skilja á milli starfsemi hagsmunasamtaka bænda og eftirlits. Var hugmyndin einnig að gera málsmeðferð einfaldari og skýrari, ekki hvað síst er varðaði dýravelferðarmál. Lauk þeirri yfirfærslu verkefna um síðustu áramót og búfjáreftirlit sveitarfélaganna færðist til MAST.

Eftirfylgni með uppgefnum tölum bænda er þó greinilega ekki eins mikil og áður var. Þá er ljóst að þetta breytta fyrirkomulag er að skekkja tölulegar upplýsingar um búfjárstofn landsmanna verulega. Nú stendur fyrir dyrum að MAST taki yfir fleiri þætti er varða landbúnaðinn og þar með greiðslukerfið sem áður var í höndum Bændasamtaka Íslands fyrir hönd ríkisins.

Tölur eru nú birtar  mun seinna en áður tíðkaðist. Þá verður því miður að taka nýjustu tölum MAST með talsverðum fyrirvara þar sem þar kemur fram fækkun  upp á hundrað og tíu þúsund dýr án þess að hægt sé að útskýra hvað orðið hafi um þann fjölda.

Samkvæmt lögunum fer ráðherra með yfirstjórn mála en Matvælastofnun annast öflun hagtalna og eftirlit með merkingum búfjár. Með búfé er í lögum þessum átt við alifugla, geitfé, hross, kanínur, loðdýr, nautgripi, sauðfé og svín. Rísi ágreiningur um hvað skuli falla undir hugtakið búfé sker Matvælastofnun úr.

MAST ber við manneklu og fjárskorti

Samkvæmt upplýsingum frá MAST byggjast hagtölur land­búnaðarins fyrir árið 2013 á haustskýrslum síðasta vetrar en vorskoðanir eru þar ekki inni eins og áður tíðkaðist. Þetta var gert í framhaldi þeirra breytinga sem gerðar voru á fyrirkomulagi búfjáreftirlits um síðustu ára­mót. Við þá breytingu færðist búfjáreftirlit frá sveitarfélögunum til Matvælastofnunar en áætlað hafði verið að þeim verkum væri sinnt með 10 til 12 ársverkum í búfjáreftirliti hjá sveitarfélögum. Þeirra í stað hafa komið sex eftirlitsmenn hjá Matvælastofnun, sem starfa við dýraeftirlit, einn í hverju umdæmi stofnunarinnar, en hjá MAST starfa nú samtals um 80 manns.

„Langt undir þeim starfsmannafjölda sem þarf“

„Þetta er langt undir þeim starfsmannafjölda sem þarf til að sinna hefðbundnum vorskoðunum ásamt öðrum störfum,“ segir Sverrir Þ. Sverrisson, sérfræðingur á stjórnsýslu- og lögfræðisviði MAST.
„Hugmynd okkar var að ráða til viðbótar verktaka til að sinna vorskoðunum á árinu 2014 en ekki var fjármagni veitt til þess af hálfu Alþingis. Til viðbótar kemur að Alþingi breytti nýjum lögum um dýravelferð á þann veg að eftirlitið skuli byggt á áhættumati og því er ekki lengur gert ráð fyrir eftirliti eins og því sem átt hefur við í vorskoðunum.“

Samkvæmt þessu gera lögin bara ráð fyrir að teknar séu stikkprufur og að mun færri bændur séu þá heimsóttir en áður.

Hvað varð um rúmlega 24 þúsund hross?

Nýjar tölur um hrossaeign landsmanna vekja sérstaka athygli. Varðandi það segir Sverrir að á liðnum árum hafa búfjáreftirlitsmenn safnað tölum um hrossaeign eftir að hross hafa verið tekin á hús, þ.e.a.s á tímabilinu janúar-mars. Fjöldatölur hrossa hafa því komið fram með vorgögnum. Nú eiga menn hins vegar að skila inn gögnum að hausti, en vortalning fór ekki fram til að sannreyna uppgefnar tölur. Í það minnsta er óútskýrt hvað hefur orðið um þau 24.359 hross sem vantar inn í tölurnar miðað við árið 2012. Samkvæmt upplýsingum Bændablaðsins hefur ekki tekist að útskýra þetta með því að óvenju mörgum hrossum hafi verið slátrað á síðastliðnum vetri. Allavega bendir hrossakjötsframboð á markaði ekki til þess. Reyndar mun hrossaeigendum aldrei hafa verið sendur spurningarlisti í fyrrahaust samkvæmt heimildum blaðsins. Ef það er rétt er því eðlilega lítið hald í tölunum um hrossaeign landsmanna að þessu sinni.

Er hestamennska að leggjast af á höfuðborgarsvæðinu?

Í gögnum MAST sem birt eru á vefsíðu DataMarket kemur fram að hrossum á Reykjanessvæðinu hafi fækkað úr 8.978 árið 2012 í 1.145 árið 2013, eða um 7.833 hross. Á sama tíma berast fréttir um stöðuga aukningu í hestamennsku á svæðinu með stórkostlegri uppbyggingu mannvirkja því samfara. 

Svipaða sögu er að segja um tölur af Vesturlandi. Þar voru hross talin vera 9.954 hross árið 2012 en voru 6.395 árið 2013 samkvæmt nýjustu tölum MAST.

  • Á Vestfjörðum hefur hrossum fækkað samkvæmt fyrirliggjandi gögnum úr 928 í 624.
  • Á Norðurlandi vestra er hrossum sagt hafa fækkað úr 18,497 í 15.226.
  • Á Norðurlandi eystra hefur hrossum fækkað milli ára úr 7.470 í 4.385.
  • Á Austurlandi hefur hrossum fækkað úr 3.240 í 2.458.
  • Í því mikla hrossaræktarhéraði, Suðurlandi, er sagt að hrossum hafi fækkað úr 28.313 í 22.788.
Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...