Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Hagsmunum landbúnaðarins er fórnað fyrir heildsala
Mynd / TB
Fréttir 20. febrúar 2019

Hagsmunum landbúnaðarins er fórnað fyrir heildsala

Höfundur: Ritstjórn

Bændasamtökin sendu frá sér yfirlýsingu undir kvöld þar sem þau bregðast við fregnum að nýju frumvarpi Kristjáns Þórs Júlíussonar landbúnaðarráðherra sem kynnt var seinni partinn í dag. Frumvarpið gerir innflutningsfyrirtækjum kleift að flytja inn hrátt ófrosið kjöt, fersk egg og ógerilsneyddar mjólkurvörur frá og með 1. september á þessu ári. Við sama tækifæri kynnti ráðherra aðgerðaáætlun í tólf liðum sem ætlað er að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu.

Ábyrgð ráðherra er mikil

Bændasamtökin segja það mikil vonbrigði að landbúnaðarráðherra skuli gefast upp í baráttunni við að halda uppi rétti okkar Íslendinga til að verja lýðheilsu og íslenska búfjárstofna. „Fyrirætlun ráðherra er kynnt þrátt fyrir varnaðarorð fjölda fólks í gegnum tíðina, s.s. lækna, vísindamanna, bænda og stjórnmálamanna. Bent hefur verið á að aukinn innflutningur muni fjölga sýkingum í mönnum, ógna viðkvæmum búfjárstofnum og auka líkurnar á því að nær alónæmar bakteríur nái hér fótfestu,“ segir í yfirlýsingunni.

Samtökin segja að ábyrgð ráðherra sé mikil og furðulegt að ríkisstjórn, sem hefur talað um á tyllidögum að efla íslenska matvælaframleiðslu, skuli fara fram með þessum hætti. Bændasamtökin lýsa fullri ábyrgð á hendur stjórnvöldum í málinu.

Viðskiptahagsmunir teknir fram yfir heilbrigðisrök

„Að mati BÍ er hagsmunum landbúnaðarins fórnað fyrir heildsala sem vilja flytja inn erlendan mat í stórum stíl. Viðskiptahagsmunir eru teknir fram yfir heilbrigðisrök. Búfjárheilsa er látin lönd leið og bitlausar varnir í aðgerðaáætlun landbúnaðarráðherra duga skammt. Það er þverstæða að kynna til sögunnar aðgerðaáætlun til að auka matvælaöryggi á sama tíma og innflutningur á hráu ófrosnu kjöti, eggjum og ógerilsneyddum mjólkurafurðum er heimilaður. Við eigum hreina og heilbrigða búfjárstofna og erum heppin að því leyti að matvælasýkingar eru fátíðar hérlendis. Það er beinlínis skylda okkar að viðhalda þeirri góðu stöðu.“

Hver mun bæta tjón?

Samtökin telja hafið yfir vafa að innflutningur á hráu kjöti, eggjum og ógerilsneyddum mjólkurvörum muni valda íslenskum landbúnaði miklu tjóni. Þau benda á að Ísland sé ekki aðili að evrópskum tryggingarsjóðum sem bæta tjón ef upp koma alvarlegar sýkingar í landbúnaði og þyrfti ríkisvaldið ásamt bændum að bera slíkar byrðar.

Formaður BÍ treystir á að Alþingi grípi í taumana

Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, segir í lok yfirlýsingarinnar að stjórnvöld virðist ekki hafa raunverulegan áhuga á að efla innlenda matvælaframleiðslu.

„Frumvarp landbúnaðarráðherra veldur okkur miklum vonbrigðum en bændur munu halda áfram að fjalla um mikilvægi innlendrar matvælaframleiðslu og vara við innflutningi á ófrosnu kjöti, eggjum og ógerilsneyddum mjólkurvörum. Aðgerðaáætlunin, sem fylgir frumvarpinu, er rýr í roðinu. Þar er mikil vinna fram undan og flest á byrjunarreit. Við munum á næstu dögum skoða aðkomu okkar að þeim samstarfsverkefnum sem stjórnvöld hafa sett á laggirnar á síðustu vikum. Þessi ákvörðun ráðherra segir raunverulega að stjórnvöld hafi ekki vilja til þess að efla innlenda matvælaframleiðslu. Það er það sorglegasta í málinu.

Það er óraunhæft að ætla að 1. september næstkomandi verði öll mál komin í höfn sem talin eru upp í aðgerðaáætlun stjórnvalda. Nú kemur málið til kasta Alþingis og við getum ekki annað en treyst því að kjörnir fulltrúar þjóðarinnar standi með almannahagsmunum og komi í veg fyrir að frumvarpið fari í gegn óbreytt,“ segir Sindri Sigurgeirsson, formaður BÍ.

Rekstrarfélag um lífgas- og áburðarver
Fréttir 26. mars 2025

Rekstrarfélag um lífgas- og áburðarver

Í byrjun mars var rekstrarfélag stofnað utan um starfsemi á lífgas- og áburðarve...

Ætlunin að jafna leikinn
Fréttir 25. mars 2025

Ætlunin að jafna leikinn

Markmið nýs jarðhitaátaks er að jafna leikinn á milli þeirra 90% landsmanna sem ...

Heimafólk lítt hrifið af áformum Zephyr
Fréttir 25. mars 2025

Heimafólk lítt hrifið af áformum Zephyr

Matsáætlun um vindorkuver á Þorvaldsstöðum í Borgarbyggð er nú í skipulagsgátt. ...

Jóhannes nýr bústjóri
Fréttir 24. mars 2025

Jóhannes nýr bústjóri

Jóhannes Kristjánsson hefur verið ráðinn bústjóri Hvanneyrarbúsins.

Umfang útiræktunar dregst saman
Fréttir 21. mars 2025

Umfang útiræktunar dregst saman

Matvælaráðuneytið hefur afgreitt jarðræktarstyrki til garðyrkjubænda vegna útiræ...

Fleiri svínum slátrað
Fréttir 21. mars 2025

Fleiri svínum slátrað

Mikil aukning var í svínaslátrun hjá Sláturfélagi Suðurlands árið 2024 en mismik...

Bændablað úr frjóum jarðvegi
Fréttir 21. mars 2025

Bændablað úr frjóum jarðvegi

Áskell Þórisson, blaðamaður og ljósmyndari, varð fyrsti ritstjóri Bændablaðsins ...

Eignast allt Lífland
Fréttir 21. mars 2025

Eignast allt Lífland

Þórir Haraldsson hefur skrifað undir kaup á 50 prósenta hlut í Líflandi ehf. af ...