Hættir með jurtamjólk
Norræna mjólkursamlagið Arla hefur ákveðið að hætta sölu á jurtamjólk í matvöruverslunum í Norður-Evrópu.
Framleiðsla jurtadrykkjanna, sem eru markaðssettir undir vörumerkinu Jörð, hefur skilað tapi undanfarin misseri. Framkvæmdastjóri Arla í Danmörku segir söluna ekki hafa tekið við sér eins og vonir stóðu til. Frá þessu greinir Jyllands-Posten.
Arla telur tvennt helst skýra lítinn áhuga neytenda á jurtamjólk. Annars vegar leiðir aukin verðbólga til þess að neytendur sýni aðhald í innkaupum og því eigi dýr jurtamjólk erfitt uppdráttar. Hins vegar eru neytendur orðnir áhugasamari um heilbrigt mataræði og búnir að gera sér grein fyrir rýrara næringargildi jurtamjólkur í samanburði við kúamjólk. Framleiðsla á jurtamjólk fyrir hótel og veitingahús mun halda áfram.
Fyrirtækið sem Arla stofnaði í kringum framleiðslu á jurtamjólkinni Jörð hefur tapað samtals 158,2 milljónum danskra króna (3,1 milljarður ISK) frá
því það var stofnað árið 2019.