Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Gul blóm seljast vel fyrir páska
Fréttir 9. apríl 2015

Gul blóm seljast vel fyrir páska

Höfundur: Vilmundur Hansen

Gul blóm hafa lengi verið tengd páskum og flestum þykir sjálfsagt að skreyta heimilið með blómum á þeim árstíma. Fyrir nokkrum árum voru afskornar páskaliljur vinsælastar en í dag er nóg að blómin séu gul til að teljast páskablóm.

Ekki eru til neinar opinberar tölur um sölu á blómum fyrir páska en gróft áætlað eru ræktaðir hátt á þriðja hundrað þúsund afskornir túlípanar og páskaliljur, um 50 þúsund tete a tete páskaliljur og 50 þúsund pottakrísar fyrir þessa páska. Markaðurinn fyrir páskablóm er því talsverður.

Gul blóm vinsæl

Einn söluaðili sagði að Íslendingar væru afskaplega gulir um páskana og að plöntur eins og begóníur, ástareldur og pottakrísi seldust vel fyrir páska svo lengi sem blómin væru gul. Forsytíugreinar seljast einnig vel enda blómin á þeim gul. Vinsældir blárra og hvítra muskarí- og perluliljulauka í pottum hafa færst í vöxt. Afskornir gulir eða gulleitir túlípanar seljast einnig vel og fer sala þeirra vaxandi milli ára. Aðrir kjósa að sækja sér birkigrein til að setja í vatn og láta laufgast um páskana.

Framleiðsla á algengustu páska­blómunum er að mestu innlend en auk hennar eru fluttar inn pottaplöntur og greinar.

Salan mismunandi milli ára

Sigríður Edda Jóhannesdóttir, annar eigandi Ártanga í Grímsnesi, segir að þar séu ræktaðir bæði túlípanar og páskaliljur fyrir páska. „Við framleiðum aðallega túlípana í mörgum litum og seljum afskorna í búntum og litlar páskaliljur í pottum sem kallast tete. Undanfarin ár hefur framleiðslan hjá okkur verið í kringum fimm þúsund búnt af afskornum túlípönum og tíu þúsund pottar af tete.“

Sigríður segir sölu á blómum fyrir páska afskaplega sveiflukennda og fara eftir veðri og hvenær páskarnir eru.

Gulur pottakrísi tekur við af páskaliljum

„Fyrir páska framleiðum við aðallega afskorna túlípana, tete páskaliljur og pottakrísa,“ segir Hreinn Kristófersson hjá Gróðrarstöð Ingibjargar í Hveragerði. „Gul blóm eru alltaf vinsæl um páskana og yfir 80% af túlípönunum sem við framleiðum eru gulir, gulleitir eða hvítir. Við framleiðum líka nokkur hundruð gular begóníur og smáræði af bláum og hvítum muskarí- og perluliljulaukum“

Hreinn segir að fyrir þessa páska framleiði Gróðrarstöð Ingibjargar um 50 þúsund túlípana og milli fimm og sex þúsund tete páskaliljur og krísa í pottum. „Vinsældir krísa hafa verið að aukast vegna þess að hann stendur mun lengur en páskaliljulaukarnir.“

Skylt efni: Páskar | blóm | verslun

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...