Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Gríðarleg aukning í kjötinnflutningi frá löndum sem nota vaxtarhvetjandi lyf í stórum stíl
Fréttir 12. febrúar 2015

Gríðarleg aukning í kjötinnflutningi frá löndum sem nota vaxtarhvetjandi lyf í stórum stíl

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Á síðustu fimm árum hefur innflutningur á kjöti samkvæmt innflutnings­skýrslum aukist um 277%. Árið 2014 jókst hann um 38% frá fyrra ári. 
 
Langmest aukning varð í innflutningi nautgripakjöts, eða sem nemur 8,5-földun á magni á fimm árum. Svínakjötsinnflutningur hefur aukist um 351% á sama tíma og innflutningur á alifuglakjöti um 155%.
Yfir 64% nautakjöts­innflutnings­ins, um  40% innflutnings á svínakjöti og rúmlega 60% af innfluttu kjúklingakjöti kemur frá Þýskalandi sem notar jafnframt í heild mest allra Evrópuþjóða af lyfjum í landbúnaði samkvæmt tölum Evrópsku lyfjastofnunarinnar (EMA– European Medicine Agency). 
Læknar um allan heim hafa árum saman varað við ofnotkun sýklalyfja sem leiðir til sýklalyfjaónæmis. Það á bæði við um beina notkun einstaklinga og notkun sýklalyfja við dýraeldi og sem vaxtarhvetjandi efnis. 
 
Það sem hefur þó valdið sprengingu í áunnu ónæmi fólks fyrir sýklalyfjum er þó talið vera ofnotkun þeirra sem vaxtarhvata í landbúnaði víða um heim, aðallega við eldi á nautgripum, kjúklingum og svínum. Þrátt fyrir allt regluverkið fara um  70 til 80% af öllum sýklalyfjum til notkunar í landbúnaði.
− Sjá nánar bls. 2 í nýju Bændablaði.