Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Grasfóðrun jórturdýra og hagabeit talin gæfulegri
Fréttaskýring 6. júní 2017

Grasfóðrun jórturdýra og hagabeit talin gæfulegri

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Fyrir Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) liggur nú beiðni um að veita opinbera viðurkenningu til sölu á ungbarnamjólk sem unnin er úr mjólk kúa sem aldar eru allan ársins hring eingöngu á grasi. 
 
Afurðin er framleidd af Munchkin í Bandaríkjunum og er ein nýjasta afurðin á lífræna markaðnum. Fékk mjólkin m.a. verðlaun fyrir tveim árum sem val mæðranna. Fyrirtækið, sem stofnað var í Los Angeles í Kaliforníu 1991, er með 115 einkaleyfi á vörum fyrir börn og ungmenni. Segir Munchkin nýju ungbarnamjólkina næstbesta kostinn við móðurmjólkina.
 
Búist er við að nýja afurðin verði talsvert dýrari en önnur ungbarnamjólk sem ekki er skilgreind á sama hátt og kosti um 40 dollara flaskan á móti 30 dollurum. Þá spyrja menn sig hvort hún sé þá í raun hollari. Er þá m.a. horft til losaralegra skilyrða í skilgreiningum opinberra stofnana í Bandaríkjunum fyrir grasfóðrun sem útiloki hvorki notkun eiturefna né hormóna- og fúkkalyfja við ræktunina. 
 
Ströng aðildarskilyrði samtaka um grasfóðrun
 
Víða um lönd er farið að leggja aukna áherslu á fjölskyldubúskap, grasfóðrun jórturdýra og lífræna framleiðslu. Hafa bændur séð sér beinan hag af þessu þar sem neytendur séu tilbúnir að greiða hærra verð fyrir matvöru sem þeir telja sig geta treyst. Hér á landi hefur þó miðað hægt, en auknar gæðakröfur frá kaupendum eins og stórverslun Whole Foods í Bandaríkjunum virðast samt vera að ýta við mönnum. 
 
Samtök um grasfóðrun jórturdýra
 
Í Bandaríkjunum eru öflug samtök sem berjast fyrir aukinni fóðrun búfjár með grasi og aukinni hagagöngu. Þar má nefna American Grassfed Association (AGA). Virðist orðræða talsmanna þessara samtaka líka nokkuð í takt við tilfinningar fólks um bætta meðferð dýra. Sama má segja um vaxandi áhuga víða um Evrópu á lífrænum búskap og sjálfbærni sem stangast um leið á við sívaxandi samþjöppun á landbúnaði. Samþjöppun sem talin er leiða til ofnýtingar ræktarlands með óhóflegri áburðar- og eiturefnanotkun. 
 
Boðskapur bandarísku grasfóðrunarsamtakanna American Grassfed Association (AGA). Þarna er lagður á borð „sannleikurinn“ um hver munurinn sé á kjöti af grasfóðruðum nautgripum sem ráfi frjáls um í náttúrunni og hinum sem lokaðir séu inni á fóðurgjafarstöðvum og éti aðallega korn. Niðurstaðan er að kjötið af frjálsu, hamingjusömu og grasétandi nautgripunum sé mýkra, safaríkara, ríkara af Omega 3 fitusýrum, B6 vítamíni og beta karrótín. 
 
AGA-samtökin voru stofnuð 11. júní 2003 af hópi áhugafólks um grasfóðrun dýra. Upphafið var fundur þróunarsamtaka Klettafjallabænda, Rocky Mountain Farmers Union Cooperative Development Center í Denver í Colorado. Í framhaldinu fékkst styrkur frá samtökum um þróun viðskipta í landbúnaði til að stofna samtök framleiðenda, fagmanna og neytenda  um þessi mál. Markmiðið var að búa til heildarsamtök um grasfóðrun sem gæti verið tengiliður ræktenda við opinberar stofnanir, rannsóknaraðila, markaðsfólk og um upplýsingagjöf til almennings. 
 
Í skilgreiningu AGA fyrir grunni samtakanna segir að þau snúist um framleiðslu á kjöti og mjólk af jórturdýrum sem fóðruð eru með grasi. Grunnurinn að starfseminni hafi verið lagður af hópi vísindamanna, dýralækna, bænda og sérfræðinga í búrekstri. Þar er einblínt á fjóra meginþætti sem eru skilyrði fyrir aðild að samtökunum:
 
  • Dýr séu einungis fóðruð á grasi.
  • Dýrum sé beitt í haga og ekki í tengslum við fóðrunarstöðvar.
  • Dýr séu aldrei meðhöndluð með fúkkalyfjum eða vaxtahormónum. 
  • Öll dýr séu ræktuð á bandarískum fjölskyldubúum. 
Þessar skilgreiningar voru samþykktar sem staðall fyrir grasfóðruð dýr í desember 2016. Reglurnar útiloka líka að ræktendur noti erfðabreytt fóður fyrir sín dýr.
 
Segir AGA að afurðir grasfóðraðra dýra bæti heilsu fólks, innihaldi meira af æskilegum fitusýrum eins og Omega 3 og CLA fitusýrum og séu ríkari af vítamínum og steinefnum. Þá leiði slík ræktun til aukins heilbrigðis dýranna og minni þörf verði á lyfjameðhöndlun.
 
Líka er bent á að grasfóðrun dýra sé æskilegri fyrir umhverfið og búskapur sem stundi slíkt vinni einnig að endurnýjun náttúrugæða og bættri umgengni um jarðveg og lífríkið. Auk þess dragi slíkt úr losun gróðurhúsalofttegunda og sér í lagi kolefnis CO2.
 
Rökin fyrir því að vel stýrð hagabeit stuðli að minni losun gróðurhúsalofttegunda er sú að þar verði ákveðin kolefnisbinding í gróðurþekjunni sem tapist þegar gefið sé korn. Er þá bent á að við kornrækt sé stöðugt verið að umbylta jarðveginum og við það losni mikið af kolefni (CO2) út í andrúmsloftið. Þá losi nautgripir sem að mestu eru  fóðraðir á korni meira af metangasi en gripir sem fóðraðir eru eingöngu á grasi. 
 
Í rökum AGA fyrir ágæti grasfóðrunar segir að fjölskyldu­búskapur í smáum skala skapi fjölda starfa og styrki innviði dreifðra byggða. Slíkur búskapur stuðli líka að sjálfbærni í viðskiptum fyrir komandi kynslóðir.  
 
Reglur AGA lúta eingöngu að ræktun jórturdýra. Þar er um að ræða nautgripi, buffalóa, geitur og sauðfé. Einungis ræktendur sem viðurkenndir eru af AGA fá að nota merki félagsins og aðrar skilgreiningar um grasfóðrun á umbúðir afurða sinna, á markaðsefni og vefsíður. 
 
Ekki virðist vanþörf á að breyta um stefnu að hætti AGA, því að um 97% af öllu nautakjöti í Bandaríkjunum kemur ekki af grasfóðruðum skepnum. 
 
Samkvæmt nýjustu fréttum úr lífræna geiranum í Bandaríkjunum  er 81 kúabú nú að framleiða lífræna mjólk undir merkjum samvinnufélagsins Organic Valley. Segir þar að hrifning Bandaríkjamanna sé mjög mikil yfir vörum úr kúm sem ganga frjálsar um haga og eru lausar við að vera fóðraðar á hormónum og sýklalyfjum. 
 
Ýmsir framleiðendur á markaði reyna þó að misnota gott orðspor lífrænnar ræktunar hjá neytendum og beita margvíslegum blekkingum. Það er ekki ólíkt því sem íslenskir garðyrkjubændur hafa fengið að kynnast og framleiðendur á íslenskum kjötafurðum. Til að sporna við þessu hafa lífrænir ræktendur í Bandaríkjunum verið að taka höndum saman við AGA-samtökin.
 
Losaraleg skilyrði FDA fyrir skilgreindri grasfóðrun
 
Það eru aðallega tvær stofnanir í Bandaríkjunum sem setja reglur og staðla fyrir matvælaiðnaðinn. Það eru FDA og landbúnaðarráðuneyti Bandaríkjanna (USDA). Á árinu 2016 dró USDA til baka stuðning við gæðaskilgreiningu vegna grasfóðraðra dýra. Það þýðir að skilgreiningin grasfóðrað hefur ekki neina sérstaka aðra merkingu en það sem menn kalla náttúrulegt. Þannig að þær kýr sem menn segja að séu fóðraðar á grasi þurfa ekki endilega að hafa verið í úthaga allt árið um kring. 
 
Í frétt um málið á vefsíðu Health Care er vitnað til rannsóknar sem gerð var 2011 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að kjöt af grasfóðruðum nautum var heilsusamlegra með tilliti til þess að það innihélt meira af Omega 3 fitusýrum en kjöt af nautgripum sem aldir voru á korni. Um er að ræða svokallaða hamingjusama nautgripi en kjötið er líka sagt innihalda 60% meira af Linoleic sýru og Omega 6 fitusýrum sem hafa áhrif á fitubúskap, ónæmiskerfi og hjartaheilsu neytenda. 
 
Þá er vísað í úttekt neytenda­samtaka þar sem segir að kjöt af grasfóðruðum nautgripum sé síður líklegt til að innihalda fæðuborna sjúkdóma sem borist geta í neytendur.  
 
Alvarlegar þversagnir
 
Landbúnaðarráðuneyti Banda­ríkjanna hefur reglur um hvaða fæða getur staðið undir því að fá skráningu sem lífræn undir opinberu merki NOP (National Organic Program). Í fréttinni segir að þarna komi í ljós ákveðinn tvískinnungur eða þversagnir vegna þess að fyrir kýr sem skilgreindar eru sem lífrænt ræktaðar sé einungis sett skilyrði um að þær hafi aðgang að opnum haga yfir sumartímann. Þær þurfi síðan aðeins að vera fóðraðar að 30% hluta með grasi eða heyi yfir sumartímann. 
 
Þetta þýðir að það sem skilgreint er sem kjöt af grasfóðruðum gripum (Grass-fed meat) eða mjólk úr grasfóðruðum kúm þurfi einungis að vera af gripum sem hafa aðgang að graslendi til að falla undir skilgreininguna. Ekki er þá horft til þess að graslendið kann að vera uppfullt af skordýraeitri og gróðureyðingarefnum sem bannað er í öllum skilgreiningum um lífrænar afurðir. Þá er sagt að þrátt fyrir grasfóðrunarskilgreininguna kunni þessar kýr að fá hormónagjafir og sýklalyf í fóðri sem heldur er leyft í lífrænni skilgreiningu. 
 
Greinarhöfundur Health Care bendir á að hugmyndafræðilega ætti umrædd ungbarnamjólk bæði að vera skilgreind afurð af grasfóðruðum kúm og lífrænum en hún sé það ekki vegna fyrrnefndra annmarka á skilyrðum sem eru fyrir því að kýr teljist grasfóðraðar.
 
Höfundur veltir því fyrir sér hvernig FDA muni taka á þessu. Þeir beri ábyrgð á að tryggja að vörur sem þeir veiti viðurkenningar á séu öruggar og virki eins og sagt er í lýsingum. Það sé uppskriftin að úttekt og gæðastimpli sem stofnunin setji á vörur áður en þær fá að fara á markað. Nýja mjólkurafurðin eigi að vera úr kúm sem fóðraðar eru 100% allt árið á grasi og séu lausar við hormónagjafir og sýklalyf. 
 
Grasfóðraðar kýr sagðar hamingjusamari 
 
Greinarhöfundur Health Care segir að í nýlegri rannsókn sem birt var í tímaritinu Nature nú í ársbyrjun   2017 sé fullyrt að grasfóðraðar kýr séu hamingjusamari en aðrar. Útiveran eigi vel við þær og að þær séu duglegar við að bjarga sér í öflun fóðurs, ekki síður en kýr sem aldar eru innanhúss. Í greininni segir líka að þrátt fyrir þessar rannsóknir og fullyrðingar þá komi það alls ekki nógu skýrt fram af hverju mjólkurvörur sem framleiddar eru úr mjólk frá grasfóðruðum kúm séu betri en afurðir af kúm sem fóðraðar eru á annan hátt. 
 
Eldri rannsóknir staðfesta yfir­burði mjólkur grasfóðraðra kúa
 
Fréttastofa Reuters fjallaði ásamt fleiri miðlum um svipuð mál í frétt 2010. Þar er fjallað um rannsókn Hannia Campos og samstarfsmanna við Harvard School of Public Health í Boston í Bandaríkjunum. Hún komst að þeirri niðurstöðu að neysla á mjólk frá grasfóðruðum kúm gæti verið heilsusamlegri fyrir hjartastarfsemi manna en ef neytt væri mjólkur frá kúm sem einungis eru fóðraðar með korni í fóðrunarstöðvum (feedlots). Þar er vísað í enn eldri rannsóknir sem sýna  að mjólk frá kúm sem fóðraðar eru á fersku grasi inniheldur fimm sinnum meira af ómettuðum fitusýrum, sem kallaðar eru samtengdar línólsýrur (CLA), en kýr sem fóðraðar eru á unnu fóðri. Rannsóknir á dýrum sýni að CLA geti haft góð áhrif á hjartastarfsemi og hjálpað til við fitulosun. 
 
Í rannsókn Hannia Campos sem birt var í American Journal of Clinical Nutrition var skoðun gerð á hátt í 4.000 manns. Þar kom í ljós að þeir úr hópnum sem voru með mest CLA í líkamanum voru í allt að 36% minni hættu á hjartasjúkdómum en aðrir í úrtakshópnum. 
 
Hannia Campos segir að mjólk sem er meginuppspretta CLA í Bandaríkjunum komi nær eingöngu frá kúm sem fóðraðar eru í fóðrunarstöðvum.
 
Rannsóknarteymi Hannia Campos skoðaði stöðuna á Kosta Ríka þar sem hagabeit mjólkurkúa er fremur venja en hitt. Þar var skoðaður hópur um 1.800 íbúa Kosta Ríka sem hafði fengið hjartaáfall en lifað það af og annar hópur 1.800 manna sem ekki hafði fengið hjartaáfall. Mælt var hlutfall CLA í fituvef í báðum þessum hópum og áætluð neyslan út frá því. Áhættan á hjartaáfalli var metin allt að 49% meiri hjá þeim sem voru með minna CLA í fituvef. 
 
Röng lýðheilsustefna
 
Michelle McGuire, talsmaður American Journal of Clinical Nutrition og aðstoðarprófessor við State University í Washington, sagði niðurstöður Hannia Campos og félaga athyglisverðar í ljósi viðtekinnar lýðheilsustefnu yfirvalda í áratugi sem kom slæmu orði á fituríka mjólk.
 
Áður hefur verið fjallað um í Bændablaðinu þá röngu lýðheilsustefnu sem byggð var á fölskum niðurstöðum rannsókna í Bandaríkjunum á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar. Lýðheilsustefna íslenskra yfirvalda, sem stór hluti lækna- og vísindasamfélagsins skrifaði upp á, byggði á sömu viðteknu hugmyndunum frá Bandaríkjunum. Þar var allt miðað við að fita væri af hinu slæma, ekki síst mettuð dýrafita. Þetta markaði líka sín spor varðandi áherslur  í dýraeldi til kjötframleiðslu á Íslandi. 
 
Síðari tíma rannsóknir hafa kolvarpað þessum kenningum. Lýðheilsustefnan, sem taldi fituna mesta skaðvald gagnvart heilsu manna, leiddi til enn verri kosta sem var óhófleg sykurneysla. Afleiðingarnar urðu hrikalegar og eiga þjóðir heims enn í harðri baráttu og sjá ekki fyrir endann á við að vinda ofan af því dæmi.    
 
Rannsóknir á mikilvægi CLA sýndu allt annað en að fita væri eins slæm og fullyrt hafði verið. „Nýmjólk er ekki vondi kallinn,“ sagði McGuire í samtali við Reuters. Hann taldi einnig að rannsóknir sýndu að mikilvægi fitusýra, eins og CLA, gætu náð langt út fyrir heilsu hjartans og gætu mögulega líka haft áhrif til góðs á krabbamein og sykursýki. 
 
Kannski ekki fullkomin fæða
– en góð er hún 
 
McGuire fullyrti reyndar í samtalinu að mjólk væri í raun eina náttúrulega fæðan sem hannað væri af náttúrunni til að fæða mannfólkið. Ekki er endilega víst að allir taki undir þetta, í ljósi þess að fólk sem ekki hefur alist upp við mjólkurneyslu líkt og Evrópumenn hafa gert um aldir, þolir slíkt illa. Líkami þess ræður illa við að brjóta niður mjólkursykrurnar í mjólkinni. Þessi „galli“ á mannfólkinu er þekktur víða, ekki síst í Kína þar sem fólk hefur verið að temja sér vestræna lifnaðarhætti í stórum stíl. Þar og víða annars staðar hafa mjólkurbú farið þá leið að framleiða laktósafría mjólk sem er auðmeltanlegri, en sú náttúrulega hreina mjólk sem kemur úr spenum kúnna. Hér á landi var mjólkurstöðin Arna sett á fót í Bolungarvík sérstaklega til að framleiða laktósafríar mjólkurvörur fyrir Íslendinga sem ekki þola hefðbundnar mjólkurvörur.    
 
„Við þurfum að líta á mjólk sem fullkomna fæðu og reyna að fræðast eins mikið um hana og við getum,“ sagði McGuire.  
Passíusálmar sr. Hallgríms
Fréttir 29. mars 2024

Passíusálmar sr. Hallgríms

Passíusálmarnir verða fluttir í Hallgrímskirkju á föstudaginn langa.

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...