Glæsilegt Íslandsmót í hestaíþróttum
Íslandsmót fullorðinna og ungmenna var haldið á Brávöllum á Selfossi dagana 25. júní–29. júní. Öll umgjörð mótsins var hin glæsilegasta og skiptust á skin og skúrir sem setti svip sinn á mótið.
Ég held það sé á engan hallað þegar haldið er fram að Ásmundur Ernir Snorrason og Hlökk frá Strandarhöfða hafi verið stjörnupar mótsins en þau stóðu efst eftir forkeppni í fjórgangi, tölti og slaktaumatölti. Mættu þau í tvenn úrslit á sunnudeginum þar sem þau unnu fjórganginn og voru alveg við það að landa titli í töltinu þegar skeifa fór undan og þau þurftu að ljúka keppni. Urðu þau jafnframt Íslandsmeistarar í samanlögðum fjórgangsgreinum en þetta er annað árið í röð sem þau landa þeim titli. Ásmundur Ernir var einnig Íslandsmeistari í samanlögðum fimmgangsgreinum á Aski frá Holtsmúla.
Heimsmet í 250 m skeiði
Heimsmet Konráðs Vals Sveinssonar og Kastor frá Garðshorni á Þelamörk er líka einn af hápunktum mótsins en þeir settu heimsmet í 250 m skeiði með tímanum 21,06 sek. Bættu þeir fjögurra ára gamalt met Daníels Inga Smárasonar og Huldu fran Margretehof um 0,01 sek. Urðu þeir einnig Íslandsmeistarar í 100 m skeiði með tímann 7,40 sek. Hans Þór Hilmarsson og Vorsól frá StóraVatnsskarði unnu 150 m skeið á tímanum 13,93 sek. sem er jafnframt besti tími þeirra í greininni. J
akob Svavar Sigurðsson og Skarpur frá Kýrholti urðu Íslandsmeistarar í tölti en þeir unnu einnig silfur í fjórgangi. Helga Una Björnsdóttir og Ósk frá Stað urðu Íslandsmeistarar í slaktaumatölti og Þorgeir Ólafsson og Aþena frá Sumarliðabæ í fimmgangi. Gæðingaskeiðið unnu þau Árni Björn Pálsson og Álfamær frá Prestsbæ.
Ungmennin stóðu sig með sóma
Í ungmennaflokki skiptust þau, Védís Huld Sigurðardóttir og Jón Ársæll Bergmann á að vinna titlana í hringvallargreinunum. Védís Huld vann tölt og fjórgang á Ísaki frá Þjórsárbakka og Jón vann slaktaumatöltið á Díönu frá Bakkakoti og fimmganginn á Hörpu frá Höskuldsstöðum en hann varð jafnframt Íslandsmeistari í samanlögðum fjórgangsgreinum á Halldóru frá Hólaborg.
Í skeiðinu varð Kristján Árni Birgisson tvöfaldur Íslandsmeistari, annars vegar í gæðingaskeiði á Súlu frá Kanastöðum og í 100 m skeiði á Kröflu frá SyðriRauðalæk. Sara Dís Snorradóttir varð Íslandsmeistari í 250 m skeiði og í 150 m skeiði var það Sigurbjörg Helgadóttir á Hörpurós frá Helgatúni. Þórgunnur Þórarinsdóttir varð Íslandsmeistari í samanlögðum fimmgangsgreinum á Djarfi frá Flatatungu.
Íslandsmót barna og unglinga í hestaíþróttum fer fram dagana 17–20. júlí á Hraunhamarsvellinum á félagssvæði Sörla í Hafnarfirði.
