Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Glaðst yfir glæsilegum árangri
Á faglegum nótum 28. október 2016

Glaðst yfir glæsilegum árangri

Höfundur: Jón Viðar Jónmundsson
Haustið skartaði sínu fegursta norður á Ströndum 8. október síðastliðinn. Þá blésu Strandamenn í þriðja skipti til héraðssýningar á lambhrútum í sýslunni. Sýningarstaðir voru þeir sömu og áður að Heydalsá hjá Sigríði og Ragnari norðan Bitrugirðingar og sunnan hennar í Bæ 2 hjá Þorgerði og Gunnari. Einstaklega glæsilegar og rúmgóðar fjárhúsbyggingarnar á báðum stöðum bjóða heim glæsilegri sýningaraðstöðu.
 
Ég hef oft nefnt gildi slíkra sýninga sem félagslegrar samkomu til að koma saman til að gleðjast yfir glæsilegum árangri og er fljótsagt að aldrei hefur ástæða til slíks verið meiri en að þessu sinni. Þarna fá bændur um leið kjörið tækifæri til að bera eigin fjárrækt saman við það sem best gerist meðal nágranna á svæðinu og slíkt á öllum að vera lærdómsríkt. Fyrir okkur sem að dómstörfum vinnum er þetta um leið mjög gott til að geta gert beinan samanburð innan kjarnans þar sem gripirnir standa hlið við hlið. Þannig má áfram telja atriði sem gera starf sem þetta að lyftistöng fyrir ræktunarstarfið. 
 
Frábærar gimbrar undan Sigurboga 14-113
 
Lengi hefur verið trú okkar dómara og næstum vissa að dómar okkar eru langt í frá óskeikulir og þannig líklegt að þeir hafi aldrei annað en takmarkað gildi vegna ræktunarstarfsins. Reynslan af þessari takmörkuðu starfsemi á Ströndum er samt næstum farin að segja annað. Haustið 2014, þegar fyrsta sýningin er haldin, skipar toppsætið frábært lamb frá Birni og Böddu á Melum í Árneshreppi. Hrúturinn var alinn og heitir Sigurbogi 14-113.  Haustið 2015 eru seldir þrír synir hans suður í Steingrímsfjörð að jafnmörgum búum. Þegar þetta er skrifað standa þeir hver á sínu búi í haust með bestar sláturniðurstöður á hverju búanna. Þess má til viðbótar geta að gimbrahópurinn undan Sigurboga sem kom til skoðunar í haust norður á Melum er einn sá frábærasti sem ég nokkru sinni hef séð. 
 
Barði átti ótrúlegan fjölda afburðalamba í haust
 
Haustið 2015 skipaði efsta sætið á sýningunni einstakt hrútlamb frá Ernu og Jóni í Broddanesi 1. Hrúturinn var alinn og heitir Barði 15-075. Ákveðið var að fá hann til notkunar í afkvæmarannsókn vegna sæðingastöðvanna á síðasta vetri, sem er fátítt með gripi á þeim aldri. Það reyndist góðu heilli ekki skot í myrkrið. 
 
Barði átti ótrúlegan fjölda afburðalamba í haust og mun þegar á annan tug sona hans vera kominn dreift víða um land sem verðandi kynbótagripir. Þess má geta að Barða fylgdi á sýningunni í fyrra annan ofurlamb frá Broddanesi 1 sem einnig var alið og sá ég þá stallarana daginn fyrir héraðssýninguna og eins og þeir stóðu þá sem einstaklingar varð ég að láta þá skipta sætum. Komu samt báðir vel undan góðu sumri sem segir til um hvaða ofurkindur þarna fóru. Þetta nefni sem ég hér sem gott sýnidæmi um það hve bændur láta oft gervi veturgamalla hrúta villa sér sýn. Það eru sláturlömb sem þið framleiðið og þess vegna eigið þið að horfa til einstaklingsdóms lambsárið og síðan reynslu afkvæma hrútanna eftir það. Sú reynsla afkvæma þessara kappa í haust bendir til að Barði sé miklu öflugri sláturlambafaðir en stallari hans. Mörg fleiri dæmi mætti nefna um góðan árangur glæsigripa á sýningunum 2014 og 2015 en þessi eru það sláandi að þau verða látin nægja.
 
Nákvæmlega jafnmörg lömb á sýningu og í fyrra
 
Snúum okkur aftur að sýningunni í haust. Á sýningu sunnar girðingar mættu 28 lömb, eða nákvæmlega jafnmörg og á síðasta ári, en norðan girðingar 47, eða aðeins færri en á síðasta ári. Mest var þar að sjálfsögðu saknað að bændur í Árneshreppi mættu ekki með sín úrvalslömb sem samt var mörg þar að finna í haust.
 
Skipulag á þessum sýningum verður alltaf vandamál. Lambafjöldi líkur því sem hefur verið á sýningunum á Ströndum til þessa er ákaflega hæfilegur. Hins vegar væri að sumu leyti keppikefli að fá enn almennari þátttöku í þessum sýningum vegna þess að nánast hver og einn einasti fjárbóndi á Ströndum er virkur í ræktunarstarfinu og eiga sýningagripi til að tefla fram. Það yrði samt aldrei nema með enn meiri takmörkunum á fjölda sýningagripa frá þeim sem hafa verið virkir til þessa sem slík breyting gerist.
 
Hópur dökkra og mislitra hrúta vex sífellt líka að gæðum
 
Lítum næst á skiptingu lambanna á sýningarflokka. Eins og áður yfirgnæfðu kollóttu hrútarnir sem voru samtals 42 og á sýningunni norðan girðingar eru fjöldi þeirra yfirgnæfandi. Hyrndu hrútarnir voru 15 og þar hefur gamli Bæjarhreppurinn yfirhöndina. Að síðustu voru 18 hrútar í hópi dökkra og mislitra og vex hann sífellt bæði að fjölda og gæðum.
 
Dóma á sýningunni önnuðust ásamt mér húnvetnsk eðalmenni, Anna Margrét Jónsdóttur á Sölvabakka og Jón Árni Magnússon í Steinnesi.  
Þá skal lítillega geta topplamb­anna í hverjum sýningaflokki. Lömb um allt land virðast glæsileg í haust. Þess vegna voru þessir sýningahópar þarna einstakir og ég held ég taki ekki of sterkt til orða að hvergi hér á landi hefur áður verið mögulegt að safna saman jafn einstökum lambahópum að gæðum og þarna var gert. 
 
Lamb númer 7 efst mislitu lambanna
 
Í hópi mislitu lambanna skipaði efsta sætið lamb númer 7 frá Miðdalsgröf. Hrútur þessi er svartbíldóttur að lit og kollóttur. Lamb þetta er einstakur glæsigripur, feikilega jafnvaxið og múrað í holdum þó að frábær bak- og lærahold vektu þar mesta athygli. Hrútur þessi er sonur Krapa 13-940, en þess má geta að lömb úr sæðingum voru aðeins örfá á svæðinu norðan girðingar og þau fáu flest undan Krapa. Í móðurætt er hann blanda af heimafé og fé frá Broddanesi 1. Alla gamla stöðvarhrúta frá Miðdalsgröf má finna í móðurlínunni.
 
Í öðru sæti í þessum flokki kom svartflekkóttur, kollóttur hrútur frá Bassastöðum nr. 466. Hrútur þessi var gríðarvænn, ákaflega vel vöðvastæltur og vel gerður. Hann er ekki frekar en aðrir topphrútar þarna neinn tilviljunargripur. Faðir hans 14-109 er fenginn frá Ragnari á Heydalsá undan Voða 13-943 (Þau Bassastaðahjón hafa stundum síðari ár verið of sparsöm á að veita hrútum sínum skírn og er faðirinn því nafnlaus). Móðurfaðir hans er hins vegar Árneshreppshrútur undan Stera 07-855 og hin landsþekkta ræktun á Bassastöðum að öðru leyti að baki.
 
Þriðji í röð var hrútur 68 í Guðlaugsvík. Hrútur þessi er svartur og hyrndur. Hann er þrælþungur, með ákaflega jafna og góða gerð og verulega ræktarlegur. Þó að ættgarður hans sé ekki jafn vel þekktur og hinna er það sem fram kemur í ættargrunni traustvekjandi. Faðir hans kemur frá Guðmundi í Skálholtsvík undan Þrótti 08-871 og margir hrútar í Skálholtsvík sem verið hafa undir sjóngleri stöðvanna síðasta áratuginn að baki í föðurætt. Móðurföðurfaðir er síðan Kóngur 04-829.
 
Lamb 16 efst hyrndu hrútanna
 
Hyrndu hrútana var að meirihluta að finna sunnan girðingar og voru margir þeirra því tilkomnir við sæðingar. Efsta sætið í þeim flokki skipaði lamb 16 í Guðlaugsvík. Hrútur þessi er klettþungur og með afbrigðum þéttholda og fögur kind á velli. Hann er tilkominn við sæðingar undan Læk 13-928 og eins og föngulegustu synir hans verða. Móðurfaðir hans er Röðull 08-057 sem var hetjuhrútur hjá Guðmundi í Skálholtsvík undan Bifri 06-994. Beinan móðurlegg er hins vegar ekki mögulegt að rekja.
 
Næstur í röð kom hrútur 133 í Laxárdal. Þetta er mjög þroskamikið lamb, bollangur og vel gerður hrútur með firnasterk bak- og lærahold. Faðir hrútsins er Börkur 13-952 en móðurætt er bæði fjölbreytt og víðfeðm. Móðurlína rakin á föðurhlið er kollótt fé og Snarfari 09-860 móðurföðurfaðir en móðurmóðurfaðir aftur á móti Grábotnasonur 06-833 sem fenginn var austan frá Hafrafellstungu.
Fjölbreyttur grautur. 
 
Þriðja sæti hyrndu hrútanna hreppti síðan nr. 137 frá Smáhömrum. Þetta lamb er holdakökkur og ákaflega vel gert og þrælþungt miðað við stærð, vantar ef til örlítið á bollengd miðað við allra bestu lömbin. Þjöppuð hold eru ekki óvænt vegna þess að faðirinn Hringur 13-053 er Hergilssonur 08-870 sem Guðbrandur hefur notað með ágætum árangri síðustu árin. Á móðurhlið standa stólparnir Borði 08-838 og Sokki 07-835.
 
Besti kollótti hrúturinn var lamb númer 147
 
Kollóttu hrútarnir voru eins og ætíð kóróna sýningarinnar og sá hópur sem þarna var áreiðanlega einstakasti slíkur hópur sem nokkru sinni hefur verið sýndur hérlendis. Eins og áður þá var umtalsverður munur í þessum hópi á gripum norðan og sunnan girðingar. Þetta hefur verið á fyrri sýningum og þó að engir kollóttu hrútanna sunnan girðingar næði í hópa fimm bestu þá fullyrði ég að gæði þeirra þarna voru samt að þessu sinni  að nær öll lömbin stóðu framar þeim sem áður hafa verið þar á sýningum. Því miður virðist kollótta féð frekar á undanhaldi í gamla Bæjarhreppi. Það held ég sé miður. Lömbin sem nú mættu sannfærðu mig um að í þessu fé eru nú ágætar ræktunarframfarir. 
 
Besti kollótti hrúturinn var nr. 147 í Broddanesi 1. Ég ætla ekki að lýsa lambinu aðeins segja að ég tel þetta glæsilegast lamb sem ég hef séð að haustlagi hér á landi og eru þau samt orðin allmörg. Að ætterni er þetta lamb ótrúleg stappa af flestu því besta sem birst hefur í sjö áratuga ræktunarstarfi í Árnes- og Kirkjubólshreppi. Lambið er tvævetlutvílembingur og gimbrin sem honum hafði fylgt í sumar var litlu minna gullstykki. Faðirinn er Svali 14-071 og átti 147 þannig ótrúlega mörg glæsileg hálfsystkini í haust, en Svali er í fyrstu ættliði úr Broddanesræktun. Móðurfaðirinn var fenginn frá Stað í Steingrímsfirði en rekur ættir nánast að öllu strax til baka ættir í Broddanes og Heydalsá. Nr. 147 er einstakt ræktunarafrek.
Annar í röð var lamb 237 einnig í Broddanesi 1. Þessi hrútur er frábær að allri gerð, mjög bollangur og þroskamikill og múraður vöðvum. Þessi hrútur rekur talsvert ættir til sömu einstaklinga og hinn. Faðirinn er Kjarkur 12-063 sem er eitt fjölmargra kynbótatrölla sem sótt hafa verið að Melum í Árneshreppi í Broddanes. Móðurlínan margt það sterkasta í Broddanesræktun síðustu ár.
 
Þriðji hrútur í röð var nr. 1 í Miðdalsgröf. Þetta er frábær einstaklingur að allri gerð og sérstaklega er vöðvafylling í afturhluta lambsins, baki, mölum og lærum frábær. Þessi hrútur eins og sá sem efstur stóð meðal mislitra er sonur Krapa 13-940, þannig að fáir hafa í örfáum sæðingalömbum séð jafnríkulegu uppskeru og Reynir þetta árið. Robbi 11-900 er móðurfaðir þessa lambs.    
 
Góður árangur hjá Jóni og Ernu í Broddanesi 1
 
Árangur Jóns og Ernu í Broddanesi 1 á þessum sýningum tvö síðustu ár er meira en ótrúlegur. Lambahóp í líkindum við það sem ég sá þar í haust hef ég aldrei séð áður sérstaklega hvað varðar lærahold. Í Broddanesi hefur verið meira einhliða áhersla á vöðvafyllingu og gerð lamba en hjá öðrum. Árangur hefur orðið í fullu samræmi hvað til var sáð. Ein sérstaða hjarðarinnar í Broddanesi umfram önnur bú á þessu svæði sunnan Árneshrepps er að innblöndun af Árneshreppsfé er þar meiri en á öðrum búum og hún er nær eingöngu bundin hrútakaupum frá Melum. Ekki er vafamál að þaðan koma ýmsir af mestu kostunum að talsverðu marki.
 
Líklega betri árangur á norðanverðum Ströndum en annars staðar
 
Margra áratuga þrotlaust ræktunarstarf hefur skilað mörgum ræktunarbúum á norðanverðum Ströndum meiri árangri en líklega öðrum bændum hér á landi. Eftir því sem árangur verður meiri verður framhaldið einnig vandasamara. Ég held að góðu heilli þurfi menn ekki að óttast áhrif skyldleikaræktar í stofninum. Það sem ég geti helst ráðlagt bændum í þessari stöðu eru ráð gamalla hölda. Halldór Pálsson segir í umfjöllun sinni um fjárrækt Sigurgeirs á Helluvaði á sinni tíð að hann hafi haft eina gullna reglu. Kosta leitaði hann með kaupum á fé en þá með það í huga að ná fram tilteknum skilgreindum kynbótum. Hann lagði áherslu á að prófa gripinn strax. Honum og öllum afkomendum var strax eytt stæðist hann ekki prófið, að öðrum kosti féll gripurinn inn í kynbótastofninn.
 
Ég bendi Strandabændum um leið á að spara sér umtalsverðan pening við hrútakaup. Í staðinn eigið þið að nota sæðingar meira en margir hafa gert síðustu árin. Á stöðvunum eiga á hverjum tíma að vera í notkun bestu gripir í stofninum. Þið eigið strax að prófa þá sem þið teljið álitlegasta hverju sinni, hvort þeir færi ykkar ræktun eitthvað nýtt og betra.
 
Skilyrði hvergi betri en á Ströndum
 
Ræktunarstarf í sauðfjárrækt er hvergi öflugra en á Ströndum. Árangurinn þar er líka í samræmi við það. Hvergi á landinu munu heldur skilyrði til fjárbúskapar metið á grunni landnýtingar og sjálfbærni vera betri en þar. Stór hópur bænda á Ströndum hefur líka lengi verið þekktur fyrir hagsýni í búskap. Þrátt fyrir þetta eru mörg ytri öfl sem stjórnvöld stýra mjög andhverf byggð á þessu svæði. Að síðustu gerist það snemma á þessu ári að formenn BÍ og LS gera sauðfjársamning sem er nær rothögg gagnvart þróun sauðfjárræktar á svæðinu. Það hlýtur að vera sárt fyrir bændur að horfa uppá forystumenn sína á þennan hátt nánast stofna til móðuharðinda af mannavöldum þannig að gripið sé til gamals frasa. Kosturinn að þetta eru verk af mannavöldum sem á að mega bjarga sér frá á næstunni sé vilji fyrir hendi.
 
Glæsileg samkoma og sauðfjárbændum til sóma
 
Sýningin á laugardaginn var glæsileg samkoma af hendi sauðfjárbænda á Ströndum og þeim til mikils sóma. Þess skal getið að inn í sýninguna var skotið skrautkeppni barna og glæsilegra lamba þeirra. Dró þetta atriði að sér mikla og verðskuldaða athygli yngstu þátttakenda og raunar allra og er áreiðanlega komið til að vera. Börnin eru einu sinni lykillinn að farsælli framtíð. 

5 myndir:

Hvað hefur áhrif á líðan bænda?
Fréttir 6. desember 2024

Hvað hefur áhrif á líðan bænda?

Valgerður Friðriksdóttir stendur fyrir rafrænni könnun þar sem hún skoðar hefðir...

Lök kornuppskera á landinu
Fréttir 6. desember 2024

Lök kornuppskera á landinu

Samkvæmt bráðabirgðatölum bendir allt til að uppskera af þurru korni sé umtalsve...

Erlend kúakyn myndu skila mun meiri framlegð
Fréttir 5. desember 2024

Erlend kúakyn myndu skila mun meiri framlegð

Ný skýrsla Landbúnaðarháskóla Íslands, þar sem fjögur erlend kúakyn voru borin s...

Skrásetja sögu brautryðjenda
Fréttir 5. desember 2024

Skrásetja sögu brautryðjenda

Sögur brautryðjenda í garðyrkju varpa ljósi á þá miklu þróun sem hefur átt sér s...

Friðheimar kaupa Jarðarberjaland
Fréttir 5. desember 2024

Friðheimar kaupa Jarðarberjaland

Eigendur Friðheima, Knútur Rafn Ármann og Helena Hermundardóttir, munu taka við ...

Áfrýjar dómi
Fréttir 5. desember 2024

Áfrýjar dómi

Undanþágur kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum féllu úr gildi með dómi Héraðsdó...

Fuglaflensa á íslensku búi
Fréttir 5. desember 2024

Fuglaflensa á íslensku búi

Á þriðjudaginn greindist fuglaflensa af gerðinni H5N5 á kalkúnabúi Reykjabúsins ...

Mismunur bændum í óhag
Fréttir 5. desember 2024

Mismunur bændum í óhag

Í dag kostar 306 krónur að framleiða lítra af mjólk samkvæmt nýsamþykktum verðla...