Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Getur valdið miklu tjóni
Fréttir 14. nóvember 2017

Getur valdið miklu tjóni

Bændasamtök Íslands hafa brugðist við nýjum dómi EFTA-dómstólsins um innflutning á hráu köti og fleiri landbúnaðarafurðum. Talið er að niðurstaðan geti valdið íslenskum landbúnaði miklu tjóni.

Viðbrögð Bændasamtakanna er hér að neðan:

„EFTA-dómstóllinn kvað upp dóm í dag í máli sem fjallar um frystiskyldu við innflutning á hráu kjöti og að hingað til lands megi ekki flytja inn ógerilsneydda mjólk og mjólkurafurðir sem og ógerilsneydd egg og afurðir úr þeim. Niðurstaða dómsins var á þá leið að dómstóllinn telur Ísland ekki getað bannað innflutning á hráu kjöti og ógerilsneyddum eggjum og hráum eggjavörum en fellst þó á að áfram sé óheimilt að markaðssetja ógerilsneydda mjólk og afurðir úr henni.

Um er að ræða þýðingarmikið hagsmunamál íslensks landbúnaðar en fjölmargir hafa bent á þá áhættu sem felst í auknum innflutningi á hráu kjöti, ógerilsneyddum mjólkurvörum og hráum eggjum. Þrátt fyrir mótrök fjölda aðila úr heilbrigðisgeiranum, bænda og búvísindamanna og fleiri sem vara við óheftum innflutningi þá kemst EFTA-dómstóllinn að annarri niðurstöðu.

Bændasamtök Íslands harma niðurstöðu dómstólsins en þau hafa um árabil barist gegn innflutningi á hráu kjöti, ógerilsneyddum mjólkurvörum og hráum eggjum. Að mati samtakanna mun niðurstaða dómsins að óbreyttu geta valdið íslenskum landbúnaði miklu tjóni og ógnað bæði lýðheilsu og búfjárheilsu. Ísland er ekki aðili að evrópskum tryggingarsjóðum sem bæta tjón ef upp koma alvarlegar sýkingar í landbúnaði og þyrfti ríkisvaldið ásamt bændum að bera slíkar byrðar.

Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, segir dóminn valda vonbrigðum en bændur muni ekki gefast upp. „Við höfum barist í þessum málum um árabil og erum núna að skoða næstu skref í samvinnu við okkar lögfræðinga og ráðgjafa. Hvað sem öðru líður þá munum við áfram verja okkar stöðu sem er einstök. Það hefur komið skýrt fram í umræðu um þessi mál að okkar færustu vísindamenn í sýklafræði og bæði manna- og búfjársjúkdómum hafa varað sterklega við innflutningi á hráu kjöti og öðrum þeim vörum sem geta borið með sér smit. Við eigum hreina og heilbrigða búfjárstofna og erum heppin að því leyti að matvælasýkingar eru fátíðar hérlendis. Það er beinlínis skylda okkar að viðhalda þeirri góðu stöðu,“ segir Sindri.

Sérstaða íslensks landbúnaðar felst meðal annars í því að hér er búfjárheilsa góð og sýklalyfjanotkun í landbúnaði í algjöru lágmarki. Þar sem notkunin er mest er hún mörgum tugum sinnum meiri en hér. Sýklalyfjaónæmi er talið ein helsta lýðheilsuógn mannskyns á næstu áratugum en það hefur aukist hratt samhliða ofnotkun sýklalyfja í nútímalandbúnaði.

Læknar og vísindamenn hafa varað við slæmum afleiðingum

Karl G. Kristinsson, prófessor í sýklafræði við læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknir Sýklafræðideildar Landspítalans, er einn þeirra vísindamanna sem hafa lagt orð í belg og varað við auknum innflutningi á hráu kjöti og öðrum búvörum. Í erindi sínu sem bar heitið „Stafar lýðheilsu Íslendinga hætta af innflutningi á ferskum matvælum“ á fundi í Iðnó í vor sagði Karl að  aukinn innflutningur myndi fjölga sýkingum í mönnum og auka líkurnar á því að nær alónæmar bakteríur nái hér fótfestu.

Vilhjálmur Ari Arason heimilislæknir hefur sagt mjög óábyrgt af stjórnvöldum ef þau ætla að taka upp þegjandi tilskipanir frá EFTA-dómstólnum eða Evrópusambandinu sem ganga þvert á þær hagstæðu aðstæður sem eru hér á landi og ganga þannig gegn lýðheilsumarkmiðum.

Margrét Guðnadóttir, veirufræðingur og fyrrverandi prófessor í sýklafræði við Háskóla Íslands, hefur í ræðu og riti sagt það alvarlegt mál ef hér koma upp nýir dýrasjúkdómar eða ólæknandi mannasjúkdómar. „Ég treysti ekki þeim mönnum sem vilja flytja inn hrátt, ófrosið kjöt til að verja okkur fyrir þeim. Kannski af því að ég er orðin svo gömul að ég hef séð of margt,“ sagði Margrét í viðtali við Morgunblaðið í fyrravetur. 

Kemur næst til kasta Alþingis

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) rak málið en íslenska ríkið hélt uppi vörnum. Málsvörn Íslands byggðist aðallega á því að þessar takmarkanir væru heimilar skv. 13. grein EES-samningsins, enda séu fullgild lýðheilsurök og búfjárheilsurök fyrir þeim. ESA taldi greinina ekki eiga við og hefur skipt um skoðun frá því á fyrri stigum málsins. Ríkið gerði kröfu um að málinu yrði vísað frá dómi og ESA greiddi málskostnað. Því var hafnað og íslenska ríkið greiðir málskostnað.

Niðurstaða EFTA dómstólsins breytir ekki íslenskum lögum, en það mun koma til kasta Alþingis að fjalla um hana og gera þær breytingar sem taldar verða nauðsynlegar.“

Tíu ára starfsafmæli
Fréttir 3. febrúar 2023

Tíu ára starfsafmæli

Tíu ár eru síðan Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) var sett á laggirnar. Af ...

Innlend fóðurframleiðsla gæti nýtt jarðhita sem fer til spillis
Fréttir 3. febrúar 2023

Innlend fóðurframleiðsla gæti nýtt jarðhita sem fer til spillis

Fjárfestingafélag Þingeyinga hf. hefur unnið að skýrslu í samstarfi við verkfræð...

Markaðssetning utan hefðbundins sláturtíma
Fréttir 2. febrúar 2023

Markaðssetning utan hefðbundins sláturtíma

Nýlega var Sláturhúsi Vesturlands í Borgarnesi veittur styrkur úr markaðssjóði s...

Úrskurður MAST felldur úr gildi
Fréttir 1. febrúar 2023

Úrskurður MAST felldur úr gildi

Matvælaráðuneytið hefur fellt úr gildi úrskurð Matvælastofnunar sem hafði stöðva...

Enn versnar rekstrarafkoma skuldsettra kúabúa
Fréttir 31. janúar 2023

Enn versnar rekstrarafkoma skuldsettra kúabúa

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) hefur lokið við greiningu á rekstri 154 kú...

Skordýr sem fóður og fæða
Fréttir 31. janúar 2023

Skordýr sem fóður og fæða

Við Landbúnaðarháskóla Íslands er unnið verkefni sem snýr að því að koma upp sko...

Arabískt fyrirtæki fjárfestir í Atmonia
Fréttir 30. janúar 2023

Arabískt fyrirtæki fjárfestir í Atmonia

Efnafyrirtækið Sabic Agri-Nutrients hefur keypt einkarétt á notkun tækni Atmonia...

35 kindur drápust í bruna
Fréttir 30. janúar 2023

35 kindur drápust í bruna

„Aðkoman var óhugnanleg og þetta er mikið áfall,“ segir Guðjón Björnsson, bóndi ...