Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Grímsstaðir á Fjöllum.
Grímsstaðir á Fjöllum.
Mynd / HKr.
Fréttaskýring 25. janúar 2017

Geta Íslendingar glatað yfirráðum yfir eigin landi og dýrmætum vatnslindum?

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Íslendingar búa við þær ein­stöku aðstæður að vera í landi allsnægtanna hvað varðar aðgengi að vatni til neyslu og orkuframleiðslu. Svo virðist sem lög og reglur eigi að tryggja íslensk yfirráð yfir þessum dýrmætu auðlindum, en kannski er ekki allt sem sýnist.
 
Lög halda bara svo lengi sem þau njóta meirihlutastuðnings á Alþingi. Trúlega er heldur ekkert sem getur komið í veg fyrir erlenda nýtingu á íslensku vatni og jafnvel eignarhald í gegnum íslenskar kennitölur.
Nýlegar fréttir af landhremmingum, þ.e. uppkaupum auðmanna, erlendra og íslenskra, á landi á norðausturhorni landsins hljóta að vekja spurningar um hvort þjóðin sé mögulega að tapa aðgengi að sínum helstu auðlindum í hendur auðmanna. Kaup bresks auðmanns á sex jörðum í Vopnafirði og meirihluta í gríðarstórri jörð Grímsstaða á Fjöllum, eru öll gerð undir því yfirskini að verið sé að tryggja vernd laxastofna. Forsenda þessara jarðakaupa eru því árnar og þar með væntanlega yfirráð yfir vatninu sem er að verða dýrmætasta auðlindin á jörðinni. Víst er að auðkýfingurinn breski er sagður afar vel hugsandi og beri hag Íslendinga fyrir brjósti. Enginn veit þó hvað verður þegar eignin skiptir næst um hendur. 
 
Aðgengi að neysluvatni fer þverrandi
 
„Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur,“ segir máltækið og það kann nú að vera að sannast varðandi vaxandi ásælni auðmanna í landkosti á Íslandi. Þegar litið er til annarra ríkja er augljóst hvert stefnir. Aðgengi að neysluvatni fer þverrandi í heiminum af ýmsum ástæðum. Þar er einkum um tvo þætti að ræða sem ráða mestu um þróunina. Það er stórfelld fólksfjölgun og breytingar á loftslagi. 
 
Réttur Íslendinga á að vera tryggður í lögum
 
Á Íslandi eru lög um verndun vatnasvæða og er landið allt eitt vatnaumdæmi ásamt árósum og strandsjó. Í maí í fyrra sagði Jónas Ketilsson, yfirverkefnisstjóri hjá Orkustofnun, í samtali við Bændablaðið að landeigendur ættu að öllu jöfnu þær auðlindir sem eru innan landareignar. 
 
„Það breytir því þó ekki að hver sem er getur sótt um nýtingarleyfi. Ef nauðsyn ber til þá getur maður sem ekki hefur aðgengi að vatni á eigin landareign farið fram á það við nágranna sinn að komast í vatn hjá honum og greiða fyrir það lágmarks bætur. Réttur almennings er því mjög ríkur til að komast í gott vatn. Að öðru leyti er nýtingarrétturinn hjá landeigandanum, en viðkomandi sveitarfélag hefur þó forgangsrétt á rekstri vatnsveitu og staða þess er því mjög sterk í slíkum málum.“
 
Samkvæmt 1. grein laga um vatnsveitur sveitarfélaga gildir ákvæði um einkarétt sveitarfélaga til að reka vatnsveitur ekki um landsvæði þar sem ekki er talið hagkvæmt að leggja vatnsveitu.
 
Jónas sagði að varðandi mál er snúa að nýtingu vatns til útflutnings þá gildi í raun sömu reglur. Hann telur því varla mögulegt að t.d. erlend vatnsfyrirtæki geti öðlast slík vatnsréttindi hér á landi sem yfirtæki rétt almennings til aðgengis að vatninu líkt og þekkt er í Bandaríkjunum.
 
Til að tryggja meirihlutarétt sveitarfélaga og ríkis við rekstur vatnsveitna er í 4. grein laganna um heimild til ráðstöfunar á einkarétti sveitarfélaga, eftirfarandi ákvæði:
„Sveitarfélag hefur einkarétt á rekstri vatnsveitu og sölu vatns sem hún getur fullnægt innan staðarmarka sveitarfélagsins, sbr. þó ákvæði 3. og 4. mgr. 1. gr. Sveitarstjórn er heimilt að fela stofnun eða félagi, sem að meiri hluta er í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga, skyldur sínar og réttindi samkvæmt þessum lögum.“
Í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins segir í 72. grein að eignarrétturinn sé friðhelgur. Þar segir þó líka að með lögum megi takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi. Sem sagt, það er algerlega undir þingmönnum komið. 
 
Vatnsskortur ein af helstu orsökum fólksflótta
 
Í Mið-Austurlöndum, sumum Asíuríkjum og í Afríku er staðan víða orðin hrikaleg hvað aðgengi að vatni áhrærir. Evrópubúar hafa á undanförnum árum  horft með skelfingu á vaxandi flóttamannastraum til álfunnar. Oftast er skýringin á þessum straumi flóttamanna sögð vera átök í heimalöndum flóttamannanna. Stríðið í Írak og Sýrlandi er þá gjarnan nefnt samhliða átökum í Líbíu, Sómalíu, Súdan og fleiri ríkjum Afríku. Mun færri nefna þverrandi fæðuöryggi þjóðanna og vatnsskort sem einhverja ástæðu fólksflóttans. Samt er vitað að grunnvatnsstaðan í Írak og fleiri ríkjum sem fólk er nú að flýja er orðin hættulega lág.
 
Vegna vatnsskorts flosna bændur upp og ekki er lengur hægt að brauðfæða íbúana sem leggja því á flótta. Gott dæmi um slíkt er Íran sem helst hefur komist í fréttir vegna ógnarstjórnar klerka og öfgasinnaðra stjórnmálamanna. Minna hefur farið fyrir fréttum af bændum sem eru að flosna upp vegna vatnsskorts, þar sem mjög er gengið á grunnvatnslindir og fyrrum eitt stærsta saltvatnsstöðuvatn heims er að þorna upp. Þetta er þó sú staðreynd sem við blasir og ef þessi þróun heldur áfram í Íran er fyrirsjáanlegur gríðarlegur fólksflótti þaðan í uppsiglingu.  
 
Vegna stöðunnar í heiminum er afar líklegt að aukinn þrýstingur verði á það á komandi árum að opna fyrir erlent fjármagn og eignarhald á landi og vatnsréttindum á Íslandi. Spurningin er þá hvort íslenskir stjórnmálamenn hafi dug til að standa í lappirnar, þegar fjársterkir einstaklingar og forsvarsmenn fyrirtækja banka á dyrnar með tilboð sem erfitt getur verið að hafna.  Þegar peningar eru annars vegar virðist nefnilega oft auðvelt að búa til rök til að umbylta lagaumhverfinu ef því er að skipta. 

Skylt efni: auðlindir | vatnslindir

Jóhannes Hreiðar ráðinn framkvæmdastjóri
Fréttir 8. desember 2022

Jóhannes Hreiðar ráðinn framkvæmdastjóri

Auðhumla hefur ráðið Jóhannes Hreiðar Símonarson framkvæmdastjóra Auðhumlu svf.

Gátu ekki gert grein fyrir rúmlega 81.000 löxum
Fréttir 8. desember 2022

Gátu ekki gert grein fyrir rúmlega 81.000 löxum

Matvælastofnun hefur lagt stjórn­valdssekt á Arnarlax ehf. upp á 120 milljón kró...

Dominique kveður eftir rúm 20 ár í stjórn
Fréttir 7. desember 2022

Dominique kveður eftir rúm 20 ár í stjórn

Talsverðar breytingar urðu á stjórn samtakanna Slow Food Reykjavík á aðalfundi þ...

Fjármunir til frekari þróunar á smáforriti
Fréttir 7. desember 2022

Fjármunir til frekari þróunar á smáforriti

Íslenska nýsköpunarfyrirtækið HorseDay rekur samnefnt smáforrit um flest allt se...

Framleiðsla á krefjandi tímum
Fréttir 6. desember 2022

Framleiðsla á krefjandi tímum

Fyrir skemmstu komu tveir fulltrúar frá landbúnaðartækjaframleiðandanum Kuhn í h...

Samvinna möguleg
Fréttir 6. desember 2022

Samvinna möguleg

Á Matvælaþingi matvælaráðuneytisins í Hörpu 22. nóvember flutti gestafyrirlesari...

Gúrkuútflutningur hefur fest sig í sessi
Fréttir 6. desember 2022

Gúrkuútflutningur hefur fest sig í sessi

Útflutningur á íslenskum gúrkum til Grænlands og Færeyja virðist hafa fest sig í...

Notkun á„lambatöflum“ mjög algeng á Íslandi
Fréttir 5. desember 2022

Notkun á„lambatöflum“ mjög algeng á Íslandi

Þrír starfsmenn Matvælastofnunar vekja athygli á nýjum lögum um dýralyf, í grein...