Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Garðyrkjustöðin Akur merkti vörur lífrænt vottaðar án þess að hafa vottun
Fréttir 5. júní 2014

Garðyrkjustöðin Akur merkti vörur lífrænt vottaðar án þess að hafa vottun

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Eins og greint var frá í síðasta Bændablaði hefur Garðyrkjustöðin Akur ekki lengur lífræna vottun frá Vottunarstofunni Túni. Bændur þar héldu áfram að nota svokallaðan svepparotmassa sem áburðargjafa en hann hefur verið bannaður í lífrænt vottaðri ræktun. Því var vottunin ekki endurnýjuð hjá Akri um síðastliðin áramót – þegar gildistíminn rann út. Engu að síður hefur Akur, sem var einn stærsti framleiðandi á vottuðu lífrænt ræktuðu grænmeti á Íslandi, áfram notað vottunarmerki Túns á vörum sínum.

Í samtölum Bændablaðsins við Þórð Halldórsson, garðyrkjubónda á Akri, hefur komið fram að á milli Vottunarstofunnar Túns og Akurs sé ágreiningur um gildi samnings þeirra á milli.

Þórður vildi ekki greina nánar frá þeim málum á þessu stigi málsins. Hann hefur þó upplýst að í ljósi afstöðu Túns til starfsumgjarðar lífrænnar ylræktar munu vörur frá Akri ekki lengur merktar vottunarmerki Túns. Á Akri mun þó haldið áfram héðan í frá sem hingað til að rækta með þeim hætti sem gert hefur verið – í lífrænum anda.

Slæm þróun fyrir lífrænt vottaða framleiðslu

Guðrún Arndís Tryggvadóttir er framkvæmdastjóri Náttúran.is, einn stofnenda Samtaka lífrænna neytenda og situr þar í framkvæmdanefnd. Hún harmar hvernig þessi mál hafa þróast og segir þau ekki vera til hagsbóta fyrir lífræna vottun í landinu. „Ég hef lagt gríðarlega vinnu í að vinna lífrænni hugmyndafræði brautargengi og halda gagnagrunn um hverjir hafa vottun á Íslandi og fyrir hvað. Bæði gefið út prentað kort og vefkort á vef mínum Náttúran.is til marga ára. Því tekur mig mjög sárt að einn aðili skuli reyna að sverta starfshætti Vottunarstofunnar Túns með þessum hætti og láta líta út fyrir að Tún sé að skemma fyrir lífrænni vottun með því að vilja hlíta alþjóðlegum viðmiðum.

Akur hefur haldið áfram að selja vörur sínar með vottunarmerki Túns, sem brýtur í bága við allar reglur. Þórður Halldórsson er ekki vottunaraðili yfir sjálfum sér og hann verður að gera sér grein fyrir að sömu reglur gilda fyrir hann og alla aðra. Verst er þetta fyrir orðspor lífrænnar ræktunar. Það er skylda mín að hylma ekki yfir þegar vottunarmerki eru misnotuð, í þeirri von að enginn fjalli um málið – en það er nákvæmlega það sem Þórður hefur gert síðastliðið hálft ár.

Fyrir tveim dögum var ég í Krónunni á Selfossi og sá þá í fyrsta skipti að vottunarmerkið var ekki sýnilegt á vörunum hans en hann hefur nú límt Akur-límmiða yfir vottunarmerkið. Merkið er þó sýnilegt hinum megin á plastinu. Það getur varla verið lögum samkvæmt að afgreiða málið með svo ódýrum hætti þegar upp hefur komist að vottunin sé ekki lengur til staðar og halda svo áfram að selja til verslana – sem eru ekki meðvitaðar um staðreyndir málsins.“

Í vettvangsferðum Bænda­blaðsins í verslanir á undan­förnum dögum kom í ljós að enn mátti sjá vottunarmerki Túns á vörum Akurs, þó í flestum tilvikum sé búið að líma yfir það með merki frá Akri.
Hvetur Guðrún eigendur Akurs til að hefjast handa við nauðsynlegar úrbætur – sem aðrir ræktendur hafi þegar gert – og hefji aftur lífrænt vottaða framleiðslu.

Í upplýsingum frá Vottunar­stofunni Túni, vegna fyrirspurnar um hvernig eftirliti með vottunarmerkinu sé háttað, kemur fram að eftirlit af hálfu Túns á sér stað í úttektum hjá framleiðendum eða með öðrum áreiðanlegum hætti. Berist upplýsingar um merkingar sem ekki samrýmast reglum, er kannað hvort slíkar upplýsingar eigi við rök að styðjast.

Ef framleiðandi verði uppvís að misnotkun á vottunarmerki Túns, er haft samband við viðkomandi og honum bent á, að um óheimila notkun á merkinu sé að ræða. Hingað til mun sú staða ekki hafa komið upp að nauðsynlegt hafi verið að leita til hærra yfirvalds, en í slíkum tilvikum væri Matvælastofnun það yfirvald sem málinu yrði vísað til.

Upplýsingar um framleiðendur ekki birtar opinberlega

Vottunarstofan Tún vildi hins vegar ekki svara því beint hvort athugasemdir hefðu verið gerðar varðandi notkun Akurs á vottunarmerkinu – upplýsingar um frávik frá reglum hjá einstökum framleiðendum væru ekki birtar opinberlega. 

Framleiðsla á náttúrulegum plöntuvarnarefnum
Fréttir 28. september 2023

Framleiðsla á náttúrulegum plöntuvarnarefnum

Algalíf, íslenska líftæknifyrirtækið, stefnir á að hasla sér völl í framleiðslu ...

Innviðauppbygging til 2025
Fréttir 28. september 2023

Innviðauppbygging til 2025

Fara á í 127 verkefni fram til ársins 2025 við uppbyggingu innviða til að mæta á...

Samfélagsleg ábyrgð í forgrunni
Fréttir 28. september 2023

Samfélagsleg ábyrgð í forgrunni

Sjávarútvegsráðstefnan 2023 verður haldin 2.–3. nóvember í Hörpu. Áhersluatriði ...

Heilt sumar eyðilagt hjá geitabóndanum Höllu
Fréttir 27. september 2023

Heilt sumar eyðilagt hjá geitabóndanum Höllu

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins greindum við frá því að Halla Sigríður Steinól...

Vex fiskur um hrygg í rannsóknum, tilraunum og erlendu samstarfi
Fréttir 26. september 2023

Vex fiskur um hrygg í rannsóknum, tilraunum og erlendu samstarfi

Nemendur Landbúnaðarháskóla Íslands vinna fjölbreyttar rannsóknir og tilraunaver...

2.500 tonna kornþurrkstöð borgi sig frekar
Fréttir 26. september 2023

2.500 tonna kornþurrkstöð borgi sig frekar

25 af 33 eyfirskum bændum sem spurðir voru, sögðu að þeir myndu myndu nýta sér k...

Lífræni dagurinn haldinn hátíðlegur í Kaffi Flóru
Fréttir 25. september 2023

Lífræni dagurinn haldinn hátíðlegur í Kaffi Flóru

Lífræni dagurinn var haldinn hátíðlegur víðs vegar um landið laugardaginn 16. se...

Ágúst verður forstöðumaður
Fréttir 25. september 2023

Ágúst verður forstöðumaður

Ágúst Sigurðsson hefur verið skipaður forstöðumaður Lands og skógar, nýrrar stof...