Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Frá keppni í slaktaumatölti. Stefan Schenzel og Óskadís í braut. Fjöldi gesta eykst stöðugt og setja Íslendingar svip sinn á svæðið og borgina, enda margir klæddir íslensku fánalitunum og hvetja sitt fólk til dáða.
Frá keppni í slaktaumatölti. Stefan Schenzel og Óskadís í braut. Fjöldi gesta eykst stöðugt og setja Íslendingar svip sinn á svæðið og borgina, enda margir klæddir íslensku fánalitunum og hvetja sitt fólk til dáða.
Mynd / BBL
Fréttir 8. ágúst 2019

Fyrstu gullin komin í hús hjá Íslendingum á HM

Höfundur: Ritstjórn

Íslendingar áttu góðan dag á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Berlín í dag. Fyrstu gullin komu í hús, bæði í íþróttakeppninni og á kynbótabrautinni. Forkeppni í slaktaumatölti fór fram og var firnasterk og skemmtileg. Íslendingar áttu þar tvo fulltrúa í fullorðinsflokki og einn í flokki ungmenna.

Ásmundur Ernir Snorrason og Frægur frá Strandarhöfði voru fyrstir Íslendinga í braut, áttu góða sýningu og uppskáru í einkunn 7,03 sem lengi vel hélt þeim inni í topp tíu, en lokaniðurstaðan varð 11. sæti, semsagt sæti utan úrslita, en hugsanlega kemst hann inn í úrslitin ef einhver forfallast eða afskráir úr úrslitum.

Jakob Svavar Sigurðsson og Júlía frá Hamarsey komu svo sterk inn en þau eru helsta vopn íslenska liðsins í þessari grein. Sýningin gekk vel, þau fengu háar tölur, allt upp í 9,0 fyrir frjálsu ferðina og hæga töltið, en á bilinu 7,5 - 8,5 fyrir tölt við slakan taum, sem vegur tvöfalt. Jakob fékk 8,13 í aðaleinkunn en skömmu síðar skaust hin danska Julie Christiansen upp fyrir hann með 8,23 á Stormi frá Hemlu og svo hinn þýski Stefan Schenzel á Óskadís von Habichtswald með 8,20 þannig að Jakob endaði þriðji að lokinni forkeppni og mætir í úrslit á sunnudag þar sem reikna má með spennandi keppni, enda stutt á milli efstu hesta. Hákon Dan Ólafsson var fulltrúi íslenskra ungmenna í slaktaumatöltinu og stóð sig með prýði á Stirni frá Skriðu, sérstaklega á slaka taumnum, og það skilaði sér í B-úrslita sæti, því 7. með 6,50.

Tvö gull í gæðingaskeiði

Gæðingaskeið er ein mest krefjandi grein hestaíþróttanna, þar fara saman tækni, útfærsla og hraði, en gefnar eru einkunnir fyrir niðurtöku á skeið, skeiðsprettinn sjálfan, tíminn er mældur og svo niðurhæging af skeiði metin. Íslendingar áttu sterka fulltrúa þar en ljóst að við öfluga andstæðinga yrði að etja, ekki síst skeiðmeistarann mikla Magnús Skúlason frá Svíþjóð. Konráð Valur Sveinsson og Losti frá Ekru náðu ekki að sýna sitt besta andlit en Losti lá ekki og sá draumur því úti. Þeir Bergþór Eggertsson á Besta frá Upphafi og Teitur Árnason á Dynfara frá Steinnesi áttu hins vegar þrusu spretti í fyrri umferð og fengu báðir 8,25. Magnús og Valsa áttu í kjölfarið alveg hreint magnaðan sprett í fyrri umferð, fengu m.a. 10 fyrir niðurhægingu og 9,58 í einkunn fyrir sprettinn.

Í gæðingaskeiði eru riðnar tvær umferðir svo þarna var aðeins hálfleikur, bæði Teitur og Bergþór bættu sig í seinni umferðinni á meðan Magnús fór feikna vel af stað, en missti hryssuna upp á stökk á niðurhægingarkaflanum sem þýðir 0 í einkunn fyrir þann þátt, svo segja má að hann hafi farið allan skalann þar. Mikil vonbrigði fyrir Magnús en samanlögð niðurstaða tveggja frábærra spretta skilaði Teiti Árnasyni á toppinn, einkunnin 8,66, þremur kommum hærri en Magnús og heimsmeistartitill í höfn. Bergþór varð svo þriðji með 8,46. Þá var komið að ungmennunum og þar áttu Íslendingar tvo fulltrúa. Glódís Rún Sigurðardóttir og Trausti frá Þóroddsstöðum blönduðu sér ekki í baráttuna þar en Benjamín Sandur Ingólfsson og Messa frá Káragerði skófluðu samkeppninni upp og unnu örugglega með 7,71 í einkunn, langefst.

Góður dagur á kynbótabrautinni

Yfirlitssýning kynbótahrossa fór jafnfram fram í dag og þar var þó nokkuð um hækkanir eftir rýra uppskeru undanfarna daga. Íslendingar áttu efstu hross í fjórum flokkum af sex, Mjallhvít frá Þverholtum stóð efst í flokki fimm vetra hryssna með 8,14 sýnd af Þórði Þorgeirssyni, Eyrún Ýr frá Hásæti stóð efst í flokki sex vetra hryssna með 8,58 en hún hækkaði umtalsvert á yfirliti, sýnd af nöfnu sinni Eyrúnu Ýri Pálsdóttur og í flokki sjö vetra hryssna og eldri var það svo Elja frá Sauðholti 2 sem skaraði fram úr með 8,76, sem var jafnframt hæsti kynbótadómur mótsins. Sýnandi Elju var Árni Björn Pálsson.

Í flokki fimm vetra stóðhesta varð Hamur frá Hólabaki næsthæstur með 8,44, sýndur af Tryggva Björnssyni, en hæst dæmdi hesturinn í þessum flokki var hinn sænski Kolgrímur Grímsson frá Gunvarbyn, sýndur af Daníel Jónssyni með 8,52.

Efstur í sex vetra flokki stóð Spaði frá Barkarstöðum, sýndur af Helgu Unu Björnsdóttur, en hann hlaut í einkunn 8,61 eftir góða frammistöðu á yfirlitinu. Í elsta flokki stóðhesta áttu Íslendingar ekki fulltrúa þar sem Nói frá Stóra-Hofi forfallaðist og hæst dæmdi hesturinn þar var hinn þýski Óðinn von Habichtswald sýndur listavel af Frauke Schenzel, einkunnin 8,70. Frábær uppskera hjá Íslendingum á kynbótabrautinni og góður dagur þar.

Forkeppni í tölti á föstudag

Á morgun föstudag fer fram forkeppni í tölti, grein sem margir hafa beðið spenntir eftir, auk þess B - úrslit í slaktaumatölti og 250m kappreiðaskeið. Fjöldi gesta eykst stöðugt og setja Íslendingar svip sinn á svæðið og borgina, enda margir klæddir íslensku fánalitunum og hvetja sitt fólk til dáða. Framundan er spennandi úrslitahelgi og mikil gleði. Bændablaðið fylgist áfram með, bæði á Facebook og hér á vefnum.

 

Skylt efni: HM í Berlín 2019

Bitbein um áburðarnotkun
Fréttir 26. nóvember 2021

Bitbein um áburðarnotkun

Lífrænir bændur í Danmörku geta nýtt sér húsdýraáburð frá ólífrænum búum í meira...

Nær 36 milljónir íbúa ESB geta ekki kynt heimili sín sómasamlega
Fréttir 26. nóvember 2021

Nær 36 milljónir íbúa ESB geta ekki kynt heimili sín sómasamlega

Í síðasta Bændablaði var greint frá því að samkvæmt könnun sem kynnt var af Euro...

Kolefnissporið kortlagt
Fréttir 26. nóvember 2021

Kolefnissporið kortlagt

Skútustaðahreppur hefur samið við nýsköpunarfyrirtækið Greenfo um að kortleggja ...

Flestir bílaframleiðendur veðja á efnarafala fremur en rafhlöður í þung ökutæki
Fréttir 25. nóvember 2021

Flestir bílaframleiðendur veðja á efnarafala fremur en rafhlöður í þung ökutæki

Vetnisvæðing, sem nú er rekin áfram af mikilli ákefð hjá öllum stærstu iðnríkjum...

Rekstur vindorkugarða sagður brjóta á mannréttindum Sama
Fréttir 25. nóvember 2021

Rekstur vindorkugarða sagður brjóta á mannréttindum Sama

Norðmenn hafa upplifað spreng­ingu í uppsetningu vindorkustöðva á undanförnum ár...

Rúlluplast í plastgrindur í göngu­stígum og bílaplönum slær í gegn
Fréttir 24. nóvember 2021

Rúlluplast í plastgrindur í göngu­stígum og bílaplönum slær í gegn

Fyrirtækið Ver lausnir í Garðabæ hefur verið að vinna að athyglisverðu verkefni ...

Leiðbeiningar um hvernig hámarka megi gæði nautakjöts
Fréttir 24. nóvember 2021

Leiðbeiningar um hvernig hámarka megi gæði nautakjöts

Nýr upplýsingabæklingur hefur verið gefinn út undir merkjum Íslensks gæðanauts. ...

Lindarbrekka í Berufirði komin með sláturleyfi  en ætlar ekki að nýta það í ár
Fréttir 24. nóvember 2021

Lindarbrekka í Berufirði komin með sláturleyfi en ætlar ekki að nýta það í ár

Á tveimur sauðfjárbúum hefur nú í haust verið slátrað samkvæmt nýlegri reglugerð...