Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Veturgamlir hrútar í Steinadal í Strandasýslu haustið 2004.
Veturgamlir hrútar í Steinadal í Strandasýslu haustið 2004.
Mynd / Jón Jónsson Kirkjubóli í Steingrímsfirði
Á faglegum nótum 22. maí 2015

Furðulitir hjá sauðfé

Höfundur: Jón Viðar Jónmundsson
Eins og lesendur þekkja þá er okkur sauðfjárdómurum ákaflega illa við dökka bletti í feldinum hjá hvítu fé. Þannig sköpuð lömb hljóta alla jafnan harða útreið í dómum hjá okkur sem að slíkum dómum vinnum.
 
Jón Viðar Jónmundsson.
Fyrir nokkru rakst ég á í gömlum tölvupósti hjá mér mynd sem mér hafði á sínum tíma verið send af Jóni Jónssyni á Kirkjubóli í Steingrímsfirði en hún var af veturgömlum hrútum á hans uppeldisbýli, Steinadal. Þegar ég fór að rifja nánar upp það sem ég hafði heyri um gripinn sá ég að ég var með í höndunum efni sem ætti erindi fyrir sjónir allra sauðfjáreigenda um leið og rifjaðir eru upp eldri hlutir.
 
Svikahrappur
 
Segjum fyrst af hrútnum í Steinadal. Hrúturinn á myndinni mun fæddur vorið 2003. Ég eftirlæt lesendum að segja til um litarheiti hjá gripnum. Hrúturinn var settur á um haustið 2003 og notaður nokkuð um veturinn. Um vorið þegar afkvæmi hans fæðast kemur í ljós að hrúturinn er arfhreinn hvítur. Svarti bletturinn sem virðist allstór er aðeins dökkur blettur hjá hvítri, einlitri kind, en sá mesti sem ég veit nokkur dæmi um. (Get ekki sagt hef séð því að Hrapp sá ég aldrei). Vegna eiginleikanna, sem afkvæmin sýndu og ollu vonbrigðum,  var hann felldur haustið 2004 og mun myndin tekin á aftökudegi hans. Vegna þessa mun hrúturinn á sínum hinstu dögum hafa gengið undir nafninu Svikahrappur.
 
Stærsti dökki blettur á hvítri kind
 
Eins og áður segir þá er þetta stærsti dökkur blettur sem ég veit dæmi um hjá hvítri kind hér á landi. Frá fyrri árum man ég eftir nokkrum þekktum afburðahrútum sem voru „prýddir“ slíkum dökkum fegurðarblettum. Aldrei man ég hins vegar eftir að hjá afkvæmum þeirra sæjust nokkur dæmi um að þessir blettir erfðust. Ég held því að í flestum tilfellum að hér sé um að ræða stökkbreytingu í viðkomandi einstaklingi og komi því ekki fram í kynfrumum hans. Áreiðanlega eru einnig til dæmi um erfðir á þannig blettum þó að slík dæmi komi ekki upp í huganum.
 
Það sem enn styður þessa ályktun tel ég að ég man eftir að Stefán Aðalsteinsson gerði nokkrar athuganir með erfðir á þessum hlutum með að setja á hrúta með slík einkenni á fjárbúunum sem þá voru undir hans umsjá. Þetta var því miður ein af mörgum athugunum eða rannsóknum hans sem honum gafst ekki tækifæri til að segja frá. Suma af þessum hrútum man ég að ég sá á Hólum þar sem þeir voru flestir. Stefán sagði mér að hann sæi ekki nokkur dæmi þess að þannig blettir erfðust heldur væri skýringin sú sem áður er rædd. Öðru máli gegnir um smábletti eða dökka dropa á haus og skrokki, þar eru erfðir að baki og spilla þessir eiginleikar oft ull.
 
Helmingur
 
Öðrum mjög sérstöku litarfyrirbæri langar mig að segja frá hér. Hér er um að ræða hrút sem fæddur var árið 2005 á Skúmsstöðum í Landeyjum. Hrútur þessi bar nafnið Helmingur og var notaður á sínu heimabúi til fjölda ára. Nafnið lýsir lit hans vel. Annar helmingurinn var svartur en hinn hvítur og var skiptingin sögð alveg eftir beinum línum á hrygg og á kviði og sömuleiðis í andliti. Sjálfum auðnaðist mér aldrei að skoða hann í návígi, sá hann aðeins einu sinni að vori á beit í nokkurri fjarlægð, þegar ég var í kúaskoðun þar í sveit. Virtist mér að hann væri alveg eins og lýsingin að framan, sem ég hafði áður heyrt frá nokkrum aðilum þar úr sveit og var einnig síðar nákvæmlega staðfest af eigendum hans. Helmingur var þannig ættaður að hann var arfblendinn og erfði sömuleiðis tvílit. Litarmunstur hans sjálfs kom hins vegar aldrei fram hjá tvílitum afkvæmum hans né við framræktun þeirra. Ómögulegt er að segja nákvæmlega hvernig þessi litamósaikk er til komin. Ljóst virðist þó að hún kom ekki fram í kynfrumum gripsins. Frekast virðist þetta sem frumur frá svörtum og hvítum einstaklingi renni saman við fyrstu frumskipti á fósturstigi í einn einstakling. 
 
Því miður fundust ekki myndir af hrútnum hjá eigendum en hann var langlífur og frægur í heimahéraði þannig að mögulega finnst hjá einhverjum góð mynd af honum sem væri blaðinu þá mikill fengur að fá til birtingar. Þorvaldur Kristjánsson hrossaræktarráðunautur segir mér að dæmi muni um líkindi við þetta litamunstur hjá hrossum hér á landi.
 
Hreinflekkótt fé
 
Þriðja atriði sem ég vil nefna eru hvít lömb, sem eru arfhrein flekkótt og einnig arfhrein hlutlaus í A sætinu (erfðauppbygging hjá venjulegu tvílitu lambi). Þessu vakti Magnús Sigurðsson á Gilsbakka fyrst athygli mína á fyrir mörgum áratugum. Hann vildi að þetta væri kallað hreinflekkótt fé. Bágt átti ég með að trúa þessu þá. Það sem síðar gerist. þegar ég fer að vinna að samantekt um íslenska forystuféð, er að þar rekst ég á kindur út af Leifi 02-900 sem sagðar voru hvítar. Út frá ættum þeirra átti ég einnig ákaflega erfitt með að trúa þessu. Lét ég því kanna þessa einstaklinga nánar og reyndust þeir þá alltaf vera með litla en greinilega svarta, eða gráa bletti í augnahvörmum. Þarna var greinilega komið hreinflekkótta fyrirbærið sem Magnús hafði áratugum áður sýnt mér og sagt frá.
 
Þó að flestir gripir falli að þeim erfðalögmálum sem við teljum okkur þekkja í lit og útlitseinkennum þá eru ætíð til einhverjar undantekningar. Ætíð er áhugavert að fá frásagnir af slíkum tilvikum.

3 myndir:

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...