Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Fullkomnasta nautgripa­sláturhús í heimi – fyrri hluti
Mynd / Morten Fauerby
Fréttir 11. október 2016

Fullkomnasta nautgripa­sláturhús í heimi – fyrri hluti

Höfundur: Snorri Sigurðsson, ráðgjafi hjá SEGES P/S Danmörku
Framleiðendasamvinnufélagið Danish Crown, sem er sérhæft í slátrun og kjötvinnslu, starfrækir í smábænum Holsted á Suður-Jótlandi eitt fullkomnasta nautgripasláturhús í heimi. Sláturhúsið, sem einnig er kjötvinnsla, var tekið í notkun árið 2014 og nær athafnasvæði þess yfir um 18.500 fermetra.
 
Um leið og framleiðsluaðstaðan var tekin í notkun lokaði Danish Crown fimm minni sláturhúsum í hagræðingarskyni enda er slátrunargetan í Holsted afar myndarleg, en þar er hægt að slátra 950 fullorðnum nautgripum á dag, eða nærri helmingi allra slátraðra nautgripa í landinu. 
 
Til þess að setja þessa afkastagetu í samhengi við íslenskar aðstæður þá má geta þess að árið 2015 var slátrað hér á landi 15.957 fullvöxnum nautgripum í átta sláturhúsum, en þetta magn nautgripa rennur í gegn hjá Holsted á rúmlega þremur vikum.
 
3 ár í byggingu
 
Ákvörðun Danish Crown um að sameina fjórar minni sláturlínur í eina var tekin árið 2010 og árið 2011 hófust svo framkvæmdir við hið nýja sláturhús en alls kostaði framkvæmdin 711 danskar milljónir króna, eða um 12 milljarða íslenskra króna. 
 
Þetta er vissulega stór upphæð en framkvæmdin hefur þegar borgað sig að sögn talsmanna félagsins og er þess vænst að í lok þessa árs muni fjárfestingin skila arði til eigenda sinna, þ.e.a.s. hinna dönsku kúabænda. 
 
Alls starfa um 300 manns á staðnum, bæði við slátrun, kjötvinnslu og pökkun, og er þetta því umtalsvert stór vinnustaður. Reyndar það stór að í aðdraganda þess að félagið valdi starfseminni stað átti sér stað allmikil samkeppni á milli þeirra sveitarfélaga sem komu til greina enda munar verulega um vinnustað sem þennan. Fyrir valinu varð bærinn Holsted, sem er lítill bær um það bil mitt á milli Esbjerg og Kolding. 
 
Í Holsted búa rétt rúmlega þrjú þúsund manns og af þeim starfa nú tæplega 200 hjá Danish Crown. Þessi ákvörðun félagsins hefur því haft veruleg áhrif á íbúana í Holsted.
 
Reka enn 3 sláturhús í Danmörku
 
Þó svo að afkastageta sláturhússins í Holsted sé veruleg er hún þó engan veginn næg til þess að sinna hinum danska markaði. Félagið situr allvel á slátrunarmarkaðinum í Danmörku og er með rúmlega 90% af allri slátrun nautgripa. 
 
Alls er félagið með 2 önnur sláturhús í landinu, í Álaborg og Husum, en í þeim tveimur er afkastagetan til samans svipuð og er nú í Holsted. Auk þess er rekin sérvinnsla á ýmsum sérstökum nautgripaafurðum í vinnslustöð félagsins í Søndre Felding og svo er félagið einnig með sláturhús í rekstri í Þýskalandi. 
Samtals sjá dönsku sláturhúsin um að slátra rétt rúmlega 300 þúsund nautgripum árlega og sé hið þýska sláturhús talið með er árleg slátrun rétt tæplega 400 þúsund nautgripir. Alls starfa um 800 manns hjá nautgriparæktardeild félagsins í dag og nemur árleg velta þessa hluta Danish Crown rúmlega 60 milljörðum íslenskra króna.
 
Sérstök áhersla á velferð
 
Þegar sláturhúsið og kjötvinnslan í Holsted voru í hönnunarferli var strax í upphafi ákveðið að horfa sérstaklega til tæknivæðingar og velferðar bæði manna og dýra. Sláturhúsið er því allt hið fullkomnasta á þessu sviði og stendur fólk á sjálfvirkum lyftum, öll færsla á föllum og kjöti gerist með sjálfvirkum hætti og nánast hvergi sá staður þar sem lyfta þarf einhverju upp með handafli. 
 
Sláturhúsið er einnig afar hljóðlátt, undirlag mjúkt bæði fyrir fólk og dýr og loftræstingin slík að hvergi er eiginlega hægt að finna það sem kalla mætti hefðbundinn sláturhúsa- og kjötvinnsluilm. Þá var strax í upphafi lögð mikil áhersla á nýtingu og því er t.d. mun minni notkun á vatni í þessu sláturhúsi en gerist og gengur. Eins  er mikil áhersla lögð á vinnuverndina og er t.d. vinnudagurinn að jafnaði ekki lengri en 7,4 vinnustundir og ekki unnið um helgar. Yfirvinna er afar fátíð en gerist þó á álagstímum en að sögn forsvarsmanna félagsins er það afar fátítt að starfsmenn fari yfir 40 vinnustundir á viku.
 
Slátra rúmlega 4.500 gripum á viku
 
Að jafnaði nemur slátrunin um 950 gripum á dag en metið er þó um 1100 gripir á einni dagvakt en þá urðu slátrararnir að vera eina yfirvinnustund í vinnunni, eitthvað sem þeir vilja helst ekki! Í sláturhúsinu er í dag slátrað á einni vakt og er slátrunin samtengd við svokallaða keyrsludeild þannig að enginn nautgripur á að þurfa að bíða of lengi í biðfjósinu. Gripaflutningabílarnir koma því jafnt og þétt frá morgni og fram undir hádegi og er slátrað svo til jafn óðum af bílunum. Svo þetta kerfi gangi vel upp er mikilvægt að góð stjórn sé á hlutunum og sér fullkomið tölvukerfi um það.
 
Lifandi vigtun, þjónusta fyrir bændur
 
Þegar gripirnir koma inn í biðfjósið fara þeir um sérstaka griparennu og geta þrír sláturbílar tæmt á sama tíma. Gripirnir eru leiddir í hóp á sérstaka vigt og er lífþungi þeirra skráður þar ásamt því að eyrnamerkin eru skönnuð. Þess má geta að allir nautgripir í Danmörku eru með rafræn merki í dag. 
 
Þegar þetta er gert er meðal lífþungi reiknaður út fyrir viðkomandi hóp og fær bóndinn þær upplýsingar með sláturupplýsingunum og getur þá nýtt þær upplýsingar í sínum rekstri s.s. við gerð fóðrunaráætlunar og þ.h. Þessar upplýsingar fara einnig inn í miðlægan gagnagrunn dönsku bændasamtakanna hjá SEGES og eru þar nýttar með margs konar hætti.
 
Bæði Halal og hefðbundin aflífun
 
Þegar gripirnir koma úr biðfjósinu ganga þeir að aflífunarklefunum, sem eru tveir, og geta þeir hvergi séð inn í sláturhúsið en það er gert af virðingu fyrir skepnunum og er einnig krafa Halal-slátrunar. Sláturhúsið getur nefnilega slátrað bæði með hefðbundnum hætti og Halal, eftir því hver þörfin er. Stundum er óskað sérstaklega eftir Halal-vottuðu kjöti og er þá slátrað upp í slíka ósk en slíkt kjöt er aldrei selt sem „ekki Halal“. Sé Halal-slátrun framkvæmd mun allt kjöt af viðkomandi grip merkjast með Halal-merki enda eru til trúarhópar kristinna manna sem líta á Halal-vottað kjöt sem óhreint. 
 
Það skiptir því Danish Crown miklu máli að geta rakið hvern kjötbita frá slátrun og út í kjötbakkann. Eini munurinn við slátrunina, þ.e. á Halal og hefðbundinni slátrun, er að í stað þess að nota boltaloftbyssu til þess að svipta gripinn vitund er notuð plötu-loftbyssa til þess. Hugmyndin með muninum er að ef ekki kæmi til blóðgunar þá gæti gripurinn aftur komið til meðvitundar en um slíkt er afar sjaldan að ræða þegar notuð er boltabyssa. Gripurinn er svo blóðgaður með nákvæmlega sama hætti, óháð því hvor aðferðin var notuð til þess að svipta meðvitund. Sá sem sér um blóðgunina í Halal-slátruninni þarf þó að vera sérstaklega trúarlega vottaður til slíks verks en sá aðili sér almennt um alla blóðgun hjá sláturhúsinu svo ekki er verið að skipta um fólk við verkið eftir því hvaða grip eigi að slátra.
 
Nýta „allt“
 
Allt ferlið frá aflífun til kælingar er að heita má hefðbundið í þessu sláturhúsi en athygli vekur hve vel er hugað að nýtni á öllu því sem til fellur. T.d. fóru einungis 8 tonn af sláturúrgangi til eyðingar í þarsíðustu viku en fyrst og fremst var um að ræða mænu og heila eldri kúa sem ekki má nýta vegna reglna um kúariðu. Svo til allt annað af skepnunni er nýtt. Húðirnar eru sútaðar í eigin verksmiðju Danish Crown, lappirnar fara til Þýskalands í sérstaka verksmiðju sem býr til áburð. Hausarnir fara í sérstaka matvælavinnslu í Mið-Austurlöndum, tungurnar fluttar út til Japan, allt magainnihald og hluti innyfla fer til hauggasframleiðslu, fjórmaginn seldur til matargerðar í Asíu og svo mætti lengi telja.
 
Margt af þeirri sérvöru sem verður til á vegum Danish Crown er unnið í sérstakri vinnslustöð félagsins í Søndre Felding en sumt er selt beint til annarra vinnsluaðila. Mikil áhersla er þó lögð á að vinna sem mest í Holsted og verður fjallað um þann hluta starfseminnar í næsta blaði.
 
Snorri Sigurðsson
sns@seges.dk
Ráðgjafi hjá SEGES P/S
Danmörku

7 myndir:

Vaxtalækkun lána
Fréttir 1. mars 2024

Vaxtalækkun lána

Fram kom í frétt Bændablaðsins, 2. nóvember 2023, að stjórn Byggðastofnunar hefð...

Endurvinnslan er mest innanlands
Fréttir 29. febrúar 2024

Endurvinnslan er mest innanlands

Guðlaugur Gylfi Sverrisson, rekstrarstjóri Úrvinnslusjóðs, segir stjórn sjóðsins...

Háskóladagurinn á fjórum stöðum
Fréttir 29. febrúar 2024

Háskóladagurinn á fjórum stöðum

Háskóladagurinn verður haldinn í Reykjavík laugardaginn 2. mars.Þá gefst fólki k...

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða
Fréttir 29. febrúar 2024

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða

Forsætisráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að skoða lagaumgjörð hvalve...

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu
Fréttir 28. febrúar 2024

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu

Vistkjöt var boðið til smökkunar í Kópavoginum um miðjan mánuð, í fyrsta sinn í ...

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“
Fréttir 28. febrúar 2024

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, og Hafberg Þórisson, eigan...

Samræmt söfnunarkerfi
Fréttir 27. febrúar 2024

Samræmt söfnunarkerfi

Vinna á tillögu um útfærslu fyrir samræmt söfnunarkerfi dýraleifa á landsvísu se...

Áhyggjur af myglu, tollum og garðyrkjunámi
Fréttir 27. febrúar 2024

Áhyggjur af myglu, tollum og garðyrkjunámi

Deildarfundur garðyrkjubænda innan Bændasamtaka Íslands var haldinn 12. febrúar ...